Færsluflokkur: Bækur

Leyndarmál síðustu viku opinberað!

Hver man ekki eftir sögunniÉg fyrirleit mágkonu mína“? úr lífreynslusögudálki Vikunnar? Ein vinkona mín sagði mér þá sögu og ég breytti bara nöfnunum. Þessi vinkona mín mátti horfa upp á tilvonandi mágkonu sína kyssa ókunnan mann sama kvöldið og hún var kynnt fyrst fyrir tengdafjölskyldunni. Endirinn kemur reyndar skemmtilega á óvart ... Einn ávöxturinn út úr því sem gerðist í sögunni í raunveruleikanum er þekktur, rithöfundur og allt! Þori ekki að segja meira ...

Það kemur oft fyrir að ég þarf að verja lífsreynslusögurnar og sannfæra fólk um sannleiksgildi þeirra. Margir halda nefnilega að þetta séu þýddar eða frumsamdar sögur úr dönsku eða norsku blöðunum.Ég gerði lítið annað á meðan. Hver nennir að lesa sögur um t.d. Norðmenn?

shakespearePA_449x600Well, jæja, get loksins opinberað það sem ég var að gera í síðustu viku og var svona mikið leyndó.

Ég varð meira að segja að senda Jennýju okkar allra tölvupóst um málið til að hún dæi ekki úr forvitni.

Frá og með deginum í dag (eða á morgun eða hinn) má ég kalla mig rithöfund, skáld eða jafnvel hirðskáld. Sjúr, alla vega tók ég saman 50 "gamlar" og vel valdar lífsreynslusögur úr Vikunni sem nú koma út í kilju upp á 250 síður. Elskan hún Steingerður almáttugur skrifaði 18 þeirra á sínum tíma og ég hinar. Mágkonusagan er auðvitað með í bókinni.

 Ég vona innilega að þetta slái í gegn svo að ég verði frægur rithöfundur/skáld/hirðskáld þá þori ég kannski að fara að skrifa í alvörunni og senda frá mér bók sem Amy Engilberts spákona sagði tvisvar með löngu millibili að ég myndi skrifa. Kannski átti hún bara við Nafnabók Vikunnar (2005) í fyrra skiptið og Lífsreynslusögubók Vikunnar í það seinna.  

Bækur, karlar með kúlumaga, tiltektir og glæpónabílar

GlæpónabíllÁ heimleiðinni í gær benti ég Önnu á dæmigerðan glæpónabíl, svona skítugan og sjúskaðan sendiferðabíl en Anna sagði að nú notuðu glæpónarnir pallbíla. Það hafði ég ekki hugmynd um. Við ákváðum að fara göngin í stað þess að elta glæpabílinn inn í Hvalfjörð, líklega skynsamlegt ef þetta hefur verið gamaldags glæpamaður undir stýri.

Vor- og sumarhreingerningar standa yfir hjá mörgum bloggvinum mínum sem hika ekki við að fórna áhugalausari bloggvinum sínum til að búa til pláss fyrir nýrri og dugmeiri. Ég kíkti yfir bloggvinalistann minn og tími ekki að fleygja neinum. Þetta er samansafn bráðmyndarlegra manna og gullfallegra kvenna sem mér finnst bara skreyta síðuna mína.

desperateSettist hátíðlega fyrir framan RÚV kl. 21.10 í þeim tilgangi að horfa á þær aðþrengdu þar sem ég gleymdi þeim síðast. En ... það er bein fótboltalýsing og í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar okkar búnar að skora! Jess, en ég er samt akkúrat ekki í stuði fyrir fótbolta núna. Ætla líka að reyna að muna eftir House, þættinum sem Jenfo vakti áhuga minn á í gegnum bloggið sitt.

Sellebritts í VísindakirkjunniÉg er komin með svolítið af girnilegum nýjum bókum á náttborðið, ætla næst að lesa íslenska spennubók sem heitir Þrír dagar í október og er eftir Fritz M. Jörgensson. Búin með nýju teiknimyndabókina hans Hugleiks og veltist um af hlátri. Brandarinn um gay-skemmtiferðaskipið og Færeyjar ... ég gargaði. Húmorinn hans Hugleiks er kannski ekki allra en mér finnst hann æði. Hulli kenndi myndlist í sumarbúðunum hennar Hildu fyrir nokkrum árum og í einum kaffitímanum fræddi hann mig um Vísindakirkjuna þar sem meðlimirnir segja: „Tom Cruise minn góður, eða Tom Cruise sé lof,“ svona eins og Katrín Anna gerir stundum í bloggfærslum og fær mig til að flissa.

 

Óléttur maðurVeit einhver hvað auglýsingin um óléttu karlana á að tákna? Mig grunar að þetta sé auglýsingaherferð fyrir Gay Pride sem verður þá helgina, eða kannski fyrir enska boltann sem gæti mögulega hafist þá ... og ég er með Sýn ... gargggg úr gleði! Verð samt að benda á að 12. ágúst, er mun flottari dagsetning á allan hátt!

Fæ tvær þrusugellur í heimsókn eftir vinnu á morgun, frænku mína ástkæra og fyrrverandi svilkonu, líka ástkæra. Þær sendu mér tölvupóst í gærmorgun og vöruðu mig við Tomma bílstjóra, líst ekkert á þetta samband okkar á morgnana. Mig grunar að þær séu afbrýðisamar. Nú er u.þ.b. eitt og hálft ár síðan þær ætluðu að kíkja á himnaríki en þetta "bráðlega" er svo teygjanlegt hugtak. Mikið hlakka ég til að fá þær.

Jæja, Húsið er að hefjast. Megi kvöldið verða dásamlegt hjá ykkur og nóttin ekki síðri!


Karlar úr bókaheiminum kysstir og nýjar tvíburamyndir

Tvíburar rokka!Morgunþátturinn var ekki alveg undir hælnum á Möggu mágkonu í morgun eins og í gær. Eina rjómatíska lagið á Rás 2 var: "Komdu aftur  til  mín Dísa - komdu til mín Kenwood Chef!" Get alla vega ekki heyrt betur en maðurinn í laginu líki Dísu við hrærivél og því er ekkert skrýtið að konan hafi farið. Ég myndi ekki hanga lengi með manni sem kallaði mig AEG eða Bloomberg!

Ég vann lengi frameftir í fyrrakvöld og svaf því ekki nema í fjóra eða fimm tíma um nóttina. Það hafði afleiðingar. Ég dottaði við tölvuna eftir að ég kom heim um sjöleytið í gærkvöldi og skreið í bólið um hálftíu. Það var notalegt. Var of andlaus til að blogga og ákvað að ná góðum svefni, enda erfiður dagur fram undan í dag. Nú myndi ein kunningjakona mín segja að við værum orðnar svo gamlar að við yrðum að fá okkar svefn og engar refjar. Aftur á móti ef ég hefði vaknað hress eftir fimm tíma svefn tvo daga í röð hefði hún líka útskýrt það með ellinni, að við værum orðnar svo gamlar að við þyrftum ekki jafnmikinn svefn og þegar við vorum ungar. Ef hún fær í verk þá er það elliverkur... þessi kona er ekki orðin fimmtug! Þarf að fara að segja henni frá Madonnu, jafnöldru okkar! Það eru alla vega 40 ár í að hrumleikinn taki yfir hjá mér og þá ... þá fyrst er möguleiki á því að ég þori t.d. að prófa LSD. Þá er ég líka loksins orðin nógu gömul og stór til þess!

Ísak og ÚlfurDró vélstýruna með mér í matreiðslubókarkynningu Skjaldborgar eftir vinnu í gær. Út var að koma bók með kjúklingaréttum, ansi hreint girnileg og glæsileg bók. Búið var að elda flesta réttina úr bókinni og við fengum að smakka. Þetta var frábært. Við Anna hlömmuðum okkur hjá Skerjafjarðarskáldinu, höfundi Afa ullarsokks, og teiknaranum. Svo náði ég að kyssa helling af körlum úr bókaheiminum og meira að segja sjálfan Davíð Þór sem kom þarna þegar við Anna vorum að fara! Anna var söm við sig, mátti ekki heyra minnst á að keyra mig fyrir strætó, heldur var sko farið alla leið á Skagann. Samt hefði ég náð 18.30 strætó í Mosó ... Anna þurfti að fara að vinna kl. 20 þannig að þetta var bara keyrsla.

Færslan er skreytt með nýjum myndum af tvíburunum sætu sem stækka og dafna með hverjum deginum. Það er ekki að sjá á þessum myndum að drengirnir hafi fæðst með skarð í vör og gómi. Aðgerðin á þeim hefur tekist mjög vel. Mikið elska ég þessa stráka!


Heppni á heppni ofan

Slökun eftir erfiðan dagSigurjóna og Sigga í bakstrinumEinhverra hluta vegna vantreysti ég upplýsingunum sem ég fékk á Netinu um rútuferðir. Eins gott að ég hringdi á BSÍ rétt fyrir þrjú. „Ha, nei, það fer engin rúta frá Hellu kl. 15.55. Hún er að skríða inn á Hvolsvöll núna og verður á Hellu eftir tíu mínútur hámark! Þar sem metnaður minn liggur í að ferðast létt áttaði ég mig á því að næði þessarri rútu auðveldlega. Ellen frænka var svo góð að keyra mig þennan örstutta spöl. Í sjoppunni spurði ég hvort þetta væri ekki alveg öruggt. „Nei,“ sagði strákurinn. „Rútan í bæinn var hér klukkan tvö og kemur næst klukkan fimm.“ Sem betur fer bætti hann því við að hann væri bara sumarstarfsmaður ... því þetta var kolrangt hjá honum. Tók bara sénsinn og hinkraði á bílaplaninu. Vissi að mín beið súkkulaðikaka í sumarbúðunum og gott kaffi ef illa færi. Líka far með Ellen frænku í bæinn en miklu síðar. Svo kom þessi líka fína rúta og tók mig upp í. Mæli rosalega mikið með því að vefurinn www.bsi.is verði uppfærður.

Eina óheppni dagsins var þegar ég tölti yfir göngubrú á Miklubraut nokkru síðar og sá leið 15 í Mosó fara framhjá. Kom mér bara vel fyrir í 29 mínútur í biðskýlinu og tók upp nýju spennubókina mína eftir Dean Koontz. Slapp algjörlega við geitunga, enda eru þeir víst allir í Kópavogi.

Hilda og Makki, unnusti hennarKubbur og Tommi á svölunumSnæddi kvöldverð á KFC, svakalega hugguleg plasthnífapörin þar og Zinger-salatið bragðaðist vel. Lauk við bókina þar ... hef ekki lesið hana áður á ensku, hélt að ég ætti allar eftir hann Dean minn.

Gleði númer helling í dag var að Tommi var á vaktinni á Skagastrætó og kom mér heilli heim, beint í sólskinið og beint í restina á Formúlunni á RÚV plús. Verst að ég missti af veltunni hans Kúbika. Minn maður sigraði, jess. Svo er það bara Jack Bauer. Hleypti kisunum út á svalir við heimkomu en þorði ekki að skilja þær eftir þar eftirlitslausar, er hrædd um að þær kíki upp á þak og renni niður ... alla leið. Bíð enn eftir að svalahliðunum verði lokað. Ekki þori ég heldur að hleypa börnum innan 18 ára út á þær.

Já, nú er ég búin að komast að því hvað hefur gengið á hérna fyrir neðan himnaríki undanfarna daga. Grænn sendiferðabíll stendur á planinu. Á eftir rauðu og gulu kemur nefnilega grænt. Já, það er leikur í kvöld og við vorum bara að tryggja okkur sigur á KR með ýmsum ráðum. M.a. líklega undirgöngum. Látið ykkur ekki bregða þótt hendur komi upp úr vellinum og grípi í KR-ingana. Við Skagamenn erum að taka þessa keppni, erum t.d. með helmingi fleiri stig en andstæðingurinn. Jamm.     


Heillandi Hella og sættir við makkakvikindið

Haldið þið ekki að nafni eldri kattar míns, hann Tómas strætóbílstjóri (einnig þekktur sem brosmildi bílstjórinn) hafi setið undir stýri í strætó í morgun? Hef ekki séð þessa elsku í fleiri vikur!!! Það er kominn einhver tími síðan hann byrjaði aftur en mín hefur verið í sumarfríi.
Ég settist í fremsta sæti og spjallaði hann án þess á nokkurn hátt að trufla einbeitingu hans við aksturinn. Hélt yndisþokkanum í algjöru lágmarki með að ropa hátt annað slagið og slá um mig með groddalegum frösum. "Alltaf í boltanum, Tommi?" "Hvað segja bændur?" "Svona er lífið ..."

Tommi er ásatrúarmaður, golfari og veiðiáhugamaður svo fátt eitt sé talið. Hann langar mest til að verða Akranesgoðinn. Mér leist vel á hugmyndir hans um mannfórnir. Frekar algengt var til forna að fórna flottu fólki, jafnvel konungum ef þurfti. Okkur datt í hug ýmsir bæjarstjórar sem gætu verið girnilegar fórnir en ég nefni engin nöfn. Ég sagði Tomma að ástkær systir hans kommentaði stundum hjá mér á blogginu, þessi sem er fornleifafræðingur og kallar sig Möggu mágkonu (mína). Sagði Tomma auðvitað ekki frá mágkonudjókinu, annars gæti hann litið á það sem daður og viðreynslu og slíkt gera ekki fínar dömur.
"... fornleifafræðingar með rassgatið upp úr moldinni og gleðjast yfir einhverju drasli ..." drundi í Tomma þegar hann ræddi um systur sína!
Svo sagði hann eitthvað annað á leiðinni svo hryllilega fyndið en ég bara man það ekki! Arggggg!

Við Ellen hittumst í The Kringl á gjörsamlega hárréttum tíma, hvorug þurfti að bíða eftir hinni ... og þustum svo út á þjóðveginn með kaffi í annarri, alla vega ég. Ellen gleypti í sig Da Vinci-kaffið sitt með karamellusýrópi og var búin með það áður en við komumst út í bíl. Jæks, ég smakkaði aðeins á því og varð ekki hrifin, enda hefur sætt kaffi ekki verið á vinsældalistanum síðan ég var 17 ára.

Hér á Hellu er skólahúsið hægt og rólega að breytast í algjört ævintýraland, nú eru allir að púla við að koma þessu upp. Mér var skellt fyrir framan tölvuna og látin senda foreldrum undirbúningslista fyrir tímabil 2 en þar kemur m.a. fram hvað best er að taka með sér í sumarbúðirnar. Nú ætla ég að reyna að gera skrifstofuna æðislega!

Í Pennanum í Kringlunni sá ég að út er komin á íslensku ný bók eftir Dean Koontz!!! Ég hélt ég ætti allar eftir hann, bæði á ensku og íslensku en kannaðist ekki við lýsinguna þegar ég las aftan á bókina. Keypti hana að sjálfsögðu Hugsa að ég fari mjög snemma í háttinn í kvöld. Jessssss!!! Elska hryllingsspennudularfullar bækur.

P.s. Við Makkahelvítið erum búin að gera með okkur vopnahlé. Ég tala ekkert um hvað PC er betri tölva og Makkinn étur mig ekki.


Hugleiðingar um hárgreiðslufólk og annað gott fólk

LúxuslífNú hefst vika hins mikla dekurs. Það er margt hægt að gera en ég er frekar andlaus, finnst ég dekra við mig á hverjum degi. Ef þið hafið einhverjar vænar hugmyndir sem innihalda ekki vélsleðaferð á jökli, gönguferðir í fárviðri eða sundferð og heitan pott þá væri vel þegið að fá eitthvað í kommentahornið.

Þetta hefst svo sem ekki nógu vel. Eini lausi tíminn í klippingu strax er klukkan níu í fyrramálið, arggg. Ég ætla að láta mig hafa það í von um smá höfuðnudd ... ummmm. Sumir kalla klippingu dekur, ég lít reyndar meira á það sem skyldu. Fór síðast hjá elskunni honum Skildi Eyfjörð núna fyrir síðustu jól en þá var hárið komið á það stig að vera bara flott ef ég hafði sofnað með það blautt ...

Í hárgreiðsluEinu sinni var ég með indæla hárgreiðslukonu ... nema hún talaði mikið um að ég ætti að gera meira fyrir sjálfa mig, elska mig meira og slíkt. Ég skildi aldrei almennilega hvað hún átti við, við þekktumst sama og ekkert. Kannski hefur henni þótt þetta bera vott um umhyggju fyrir kúnnunum ... en svakalega var þetta þreytandi. „Mundu svo að fara vel með þig, þú átt það skilið!“ voru iðulega kveðjuorð hennar. Fallega sagt en samt fannst mér þetta óvirðing og á endanum skipti ég um klippara. Svona misskilningur á hamingjustigi kúnnans er samt bara fyndinn. Kannski hefur þessi elska lesið yfir sig af sjálfsræktarbókum. Mér finnst líka óþægilegt þegar hálfókunnugt fólk gerir sér dælt við mig á þennan hátt, eins og það viti allt um líf mitt og reyni sitt til að stjórna því. Ef hún hefði bara vitað um allar trylltu hamingjustundirnar sem ég átti yfir nýjum spennubókum, ilmandi kaffi og í þægilegum sófa. Um samverustundir með góðu vinunum og margt fleira.

Ég er yfirleitt alltaf í góðu skapi en það er eins og sumir eigi erfitt með að trúa því. Einu sinni hitti ég gamlan vin á djamminu og hann spurði hvernig mér liði. „Bara ljómandi vel,“ svaraði ég. Þá fór hann að skamma mig fyrir að vera svo yfirborðskennd, ég segði alltaf bara allt gott. Ég var voða sár því að mér datt ekki í hug að fara að barma mér við hann yfir blankheitum, ástarsorg eða einhverju slíku sem ég var eflaust þjáð af, ekki svona á djamminu og ekki við hann, við vorum engir trúnaðarvinir. Nógu margir glíma við alvörusorgir og áhyggjur og því finnst mér engin ástæða til að væla yfir smámunum við kunningja.

Anna mínAnna, guðdómleg vinkona til rúmlega 20 ára, á afmæli í dag.

Til hamingju, elsku krútt. Einnig Árni Magnússon, fv. félagsmálaráðherra, en við unnum saman á Stjörnunni í gamla daga og var hann hinn vænsti maður þótt hann hataði lagið To know him is to love him!

Þið frábæru manneskjur, til hamingju með afmælið!


27 af stöðinni!

TaxiEr að lesa svo voða skemmtilega bók. Þetta er íslenska spennusagan Farþeginn eftir Árna Þórarins. og Pál Kristin. Veit ekki hvers vegna bókin lenti svona neðarlega í bunkanum mínum ... undirmeðvitundin gæti hafa komið henni fyrir þar því að ég hélt að hún gerðist öll um borð í leigubíl. Sá ekki alveg fyrir mér heila sakamálasögu í svo litlum bíl, annað með strætó eða rútu ... Þetta er sannarlega ekki árás hjá mér á leigubílstjóra, þeir eru með mest spennandi mönnum þessa lands ef út í það er farið. Er ekki t.d. fyrrverandi ástkær eiginmaður minn leigubílstjóri? Jú, hefði nú haldið það.

Í fyrsti kafla bókarinnar fer leigubílstjórinn í afar sérstakt útkall, það er allt og sumt. Þetta er hefðbundin spennusaga sem rígheldur og ég er mjög spennt að klára hana nú á eftir.

Hér á Skaga hefur verið moldrok í dag, frétti ég, mikið fannst mér gott að vita að ég hafði ekki sofið af mér hálfan sólskinsdag. Nú er þetta gula farið að glenna sig og orðið erfitt að sitja við tölvuna. Hægri handleggurinn er illilega brenndur, eða væri það ef ekki skildi okkur að glerrúða og peysa.


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 195
  • Sl. sólarhring: 244
  • Sl. viku: 858
  • Frá upphafi: 1516208

Annað

  • Innlit í dag: 170
  • Innlit sl. viku: 711
  • Gestir í dag: 165
  • IP-tölur í dag: 162

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband