Færsluflokkur: Lífstíll

Mannasiðir, Mosósjokk og Harry Potter

Marc-Chagall-The-Bride-15351Þetta var nú meiri strætódrossían sem við ferðuðumst með í morgun. Fullkomin rúta með sjónvarpi og alles. Reyndar slökkt á imbanum en Bylgjan var á hæsta, mér til ógleði, þoli illa útvarp á hæsta á morgnana og líkist Hildu systur sífellt meir í sambandi við það. Ég hlammaði mér niður hjá smiðnum.  Þessa dagana er hún í verkefni í Grafarvogi og var svo heppin í grenjandi rigningunni að samstarfsmaður hennar bauðst til að sækja hana í Mosó. Annars hefði hún þurft að skipta um vagn í Ártúni og labba langa vegalengd. Smásjokk þegar við nálguðumst Mosó, ég gat ekki losað mig úr öryggisbeltinu og allt leit út fyrir að smiðurinn þyrfti að hringja sig veika í dag. Svo á síðustu stundu prófaði ég að athuga hvort beltinu væri kannski smellt vinstra megin við mig og þannig reyndist það vera. Sjúkkittt! Annars hefðum við smiðsa þurft að rúnta hring eftir hring - Akranes-Mosó-Akranes-Mosó í allan dag eða þar til einhver með hníf hefði komið og skorið mig úr beltinu. Hugsa ég.

 

ChagallLaBaieVið Sigþóra fengum far upp súkkulaðibrekkuna með elsku Ingu og þegar Sigþóra var komin heilu í vinnuna fórum við Inga í Kaffitár. Svona af því að það er föstudagur þá var keyptur latte og heitt krossant með súkkulaði. Allgjör snilldarbyrjun á degi. Ég vaknaði reyndar hress og næstum því bein í baki, enda svaf ég í leisígörl í næstum allt gærkvöld með hitapoka við bakið. Þetta hlýtur að virka á endanum.

Elskan hann Harry Potter kemur út á íslensku í dag. Það fór aldrei svo að ég lyki við bókina á ensku og er það í fyrsta sinn. Ætla að kenna uuuuu .... erfðaprinsinum um þetta. Er reyndar helmingi fljótari að lesa á íslensku þannig að elsku Jenný mín fær endinn sendan á meili fljótlega. Er að verða búin með Þráin og er bara ansi hrifin. Hann kann þá list að láta persónurnar heita nöfnum sem festast í minni, Víkingur og svona ... það þreytir mann stundum að lesa spennusögur með svo mörgum Jónum, Gunnum, Möggum og Siggum að allt er komið í hrærigraut. Þá er um að gera að hafa persónurnar færri, eins og t.d. Arnaldur gerir. Las bókina hennar Unnar Arngríms í gær en í henni eru leiðbeiningar í mannlegum samskiptum og fleira. Þótt bókin sé kannski gamaldags á margan hátt (ekki galli) þá eru mannasiðir auðvitað sígildir. Ég er greinilega vel uppalin af móður minni og kennurum í Barnaskóla Akraness því að það var ekki margt sem kom mér á óvart en samt svona sitt af hverju sem gott var að vita um kokkteilboð og svona sem ég hef aldrei haldið, það er annað hvort fermingarveisla þegar ég á afmæli eða ekkert. Held að fólk vilji miklu frekar brauðtertur en brennivín!

Myndskreytingar: Marc Chagall - Förðun: Make Up School - Fatnaður: Nína - Gáfur: Úr Skagafirði - Húmor: Þingeyjarsýsla - Útlit: Genaþjónustan hf. - Innræti: Bloggsamfélagið sf - Innræti æskunnar: Skapgóðir Skagamenn gpl.


Mergjaðir morgundraumar

Mikið er gott að vera komin í vinnuna þótt skökk sé (útlitslega). Sem betur fer þurfti ég ekki að taka strætó og labba síðan upp Súkkulaðibrekkuna, heldur sat í bíl með Ástu og hafði hita við bakið alla leið. Er líka undir áhrifum íbúfens, næstsíðustu pillunnar, kannski í landinu. Tók svo með mér hitakrem og ef ég lykta undarlega í vinnunni þá segi ég bara samstarfsfólki að þetta sé nýtt, rosalega fínt og dýrt ilmvatn, vér Icelanders föllum alltaf fyrir öllu sem er nógu dýrt.

Draumur prinsessuÞarf heldur betur að vera dugleg í dag til að vinna upp gærdaginn. Mikið er ég fegin að vinna ekki í t.d. kókosbolluverksmiðju þótt ég hafi hálfpartinn haft það með í framtíðardraumunum þegar ég ætlaði a.m.k. að verða sjoppukona, flugfreyja, leikkona, söngkona, dansmær eða ljósmóðir. Hef aldrei unnið í sjoppi en hef verið leikkona (m.a. Skagaleikflokkurinn og sem bláa öxlin í Heilsubælinu) og söngkona (í Kór Langholtskirkju, Mótettukórnum, Fílharmoníu). Dansmær get ég ekki kallast, þótt mér hafi þótt þrælgaman í Dansskóla Sigvalda í æsku og kann enn upphafið að dansi við lagið Black Night með Deep Purple, mjög, mjög hallærislegur dans en fyrir 50.000 kall skal ég dansa þetta upphafsatriði hvar sem er og hvenær sem er ... Ljósmóðurdraumurinn rættist heldur ekki, hef samt aldrei skilið hvaðan hann kom. Ekki las ég bókaflokk um neina Lilju ljósmóður sem tók á móti börnum á milli þess sem hún leysti dularfull sakamál. Svolgraði aftur á móti í mig bækurnar hennar mömmu um Beverly Grey fréttaritara og bloggvinir mínir vita hvernig það endaði. Mamma gleypti í sig Rósu Bennett hjúkrunarkonu og fór í Hjúkrunarskólann í kjölfarið. Skrýtið að maður endaði ekki sem prinsessa eða barónessa miðað við Barböru Cartland-lesturinn frá 10 ára aldri. Stundum þegar vekjaraklukkan hringir kl. 6.15 og úti gnauðar kaldur vindur, hviðurnar á Kjalarnesi eru 29 m/sek og soðinn lax í matinn í mötuneytinu þá óska ég þess pínulítið að ég væri prinsessa.


Engin leið að hætta ...

BaklækningarEin íbúfen og hitapoki með sjóðheitu vatni við bakið í leisígörl klikkar ekki, tala nú ekki um þegar góð bók fylgir með. Bókin um Bíbí miðil eftir Vigdísi Grímsdóttur. Mikið er það  góð bók! Ætlaði rétt að kíkja í hana því að Ávítarastríðið, Himnaríki og helvíti og spennubókin eftir Þráin Bertelsson biðu rosaspenntar en ég gat ekki hætt og er búin með hana! Ég tímdi ekki einu sinni að fara snemma að sofa.

Bakið er orðið mun betra, kannski dulræn áhrif frá bókinni ...! Þetta er mikil örlagasaga, óhemjuvel skrifuð sem kemur ekki á óvart þar sem Vigdís á í hlut. En nú er ég farin að sofa!


Mötuneytiskjötbúðingskartöflumúsarsósurauðbeður

GrænmetiKjötbúðingur, kartöflumús og brún sósa, majóneshrásalat og rauðbeður, í æsku var svona eitthvað algjör draumamáltíð en ekki lengur. Gleymi því stundum að sæmilega metnaðarfullur salatbar er á staðnum.

Sigþóra sá að ég hafði reynt að hringja í morgun og lét heyra í sér nokkru síðar. Jú, hún var með á hreinu hvað gerðist í morgun. Strætó missti afl á milli Mosó og Reykjavíkur (fyrsta ferð dagsins fer alla leið í Ártún). Hún fór út á stoppistöðinni okkar og sá sér til hrellingar að strætó var orðinn afllaus og stóð kyrr á stoppistöðinni. Hasar í vinnunniSvo fór að rjúka úr honum og þetta var enginn smáreykur. Hin samviskusama Sigþóra dreif sig í vinnuna, enda mæting kl. 7.30, og einhverjir aðrir verða að segja okkur hvernig allir farþegarnir komust á áfangastað. Líklega hefur aukabíllinn tekið hring og hirt upp fólkið.

Slinkur kom á mig í morgun (tengist hvorki kynlífi né drykkju) smáhasar í gangi, og það þurfti ekki meira til, nú geng ég kengbogin, alveg að drepast í bakinu. Mikið er dásamlegt að það verður sjúkraþjálfun á morgun! Sjúkkitt, gott að ég fæ far með Ástu heim, það er ekki sniðugt að taka strætó með hálfgert þursabit. Hitapoki og íbúfen hjálpar eitthvað.


Af kvikmyndasmekk og letihelgi ...

Sandra og KeanuErfðaprinsinn heimtaði að horfa á The Lake House í gærkvöldi, hefur eflaust haldið að þar ríkti Speed-stemmning þar sem sömu leikararnir fara með hlutverkin en eftir korter var hann farinn að slefa af leiðindum. Þá var móðirin orðin föst, þessi litli kvenlegi þráður í henni vildi endilega vita hvort þau næðu saman í réttum tíma þótt auðvitað mætti reikna með því í krúttlegri ástarmynd. Keanu Reeves er nú soldið sætur og hann sýnir talsvert fleiri svipbrigði í bíómyndum en Lassie, annað en Jean Claude Van Damme, eins og Árni Þórarinsson lýsti svo dásamlega hérna í denn í kvikmyndagagnrýni um þann síðarnefnda.

VinnanÞetta hefur nú verið meiri letihelgin. Reyndar verður handklæðavakt í kvöld og nótt við svaladyrnar í vonda veðrinu sem er á leiðinni þannig að þá verður svolítið stuð. Kjötsúpa a la Mía systir verður síðan snædd um kvöldmatarleytið og er það víst engin venjuleg kjötsúpa að sögn Hildu systur sem ætlar líka að mæta. Best að drífa sig í bað, setja í þvottavél og svona. Reynsla mín er sú að sunnudagar líða með örskotshraða og ný vinnuvika er allt í einu hafin. Stundum finnst mér reyndar bara vera mánudagar og föstudagar í lífi mínu.


Leyniþjónustan, sumarbolur og heittelskuð eyrnaskjól

Á Hlemmi í morgunEkkert Ástu - BDSMS í morgun, heldur blákaldur strætisvagn. Kiddi sat undir stýri. Hann steingleymdi að seinni bíllinn á aldrei að fara á Kjalarnesið, heldur bara aukabíllinn, og rúllaði samt eftir hverfinu án þess að nokkur kæmi inn eða færi út en maður fer reyndar alltaf lengri leiðina með svona frábæra farþega! Útvarpsstöðin Bylgjan var á og sem betur fer ekki nógu hátt stillt til að hægt væri að hlusta á eitthvað skelfilegt en undanfarin skipti sem hún hefur verið á og nógu hátt stillt til að heyra, hefur verið talað um lýs í rúmi og hýsla í drykkjarvatni. Get auðveldlega lifað án slíkrar vitneskju, veit að lúðrar Almannavarna blása ef eitthvað stórhættulegt gerist, hitt er bara hræðsluáróður sem á að fá mig til að kaupa ákveðna tegund tannkrems. Sem betur fer var talstöðin í botni, Ástu reyndar til mikils ama, og það mátti heyra: „Leið 19 á Hlemmi, viltu bíða eftir númer 6 í Ártúni,“með ýmsum tilbrigðum. Þetta varð MIKLU léttbærara ef maður tók leyniþjónustuna á þetta: „Hættustig 19, hættustig 19, á Hlemmi, hér pissa 6 menn algjörlega óleyfilega, mjög líklega Árbæingar.“ Já, þetta var léttbærara!

Gula gellanSkil varla hvernig við Sigþóra komumst upp Súkkulaðibrekkuna fyrir kulda en hún var í kuldaúlpu, ég var kúl í þunnri, síðri regnkápu en allar úlpur bæjarins (í búðunum) ná ekki einu sinni niður á rass og ef ég kaupi mér vetrarúlpu þá vil ég að hún nái minnst niður á mið læri, það er ekki nóg að vera bara hlýtt niður að mitti. Sem betur fer fann ég grænt og hallærislegt, eldgamalt eyrnaskjól ofan í tösku þegar ég leitaði að leðurvettlingunum frá Möggu. Hverníg mér gat dottið í hug að fara í gulan, stutterma sumarbol undir peysuna í morgun mun ég ekki geta skilið og í þokkabót gleymdi ég að setja grænu, glitrandi hálsfestina frá Áslaugu um hálsinn á mér. Þetta hlýtur að vita á góðan dag!


Nótt hinna þúsund ... handklæða

Rigning innandyraStórt baðhandklæði er komið í gluggann í bókaherberginu. Erfðaprinsinn sat við tölvuna og tók ekki eftir því að það dældist rigning inn um litla, opnanlega gluggann sem var lokaður. Nokkrir millirúmsentimetralítrar, eða svona 12.549 dropar, höfðu lekið alla leið niður á gólf. Það hefur ekki gerst áður. Setti eldhúsrúllubréf til að þétta gluggann, hefði líklega þurft steypuhræru. Lúmska rigningin hefði eflaust fundið sér leið í gegnum hana líka. Dagblöð og stórt handklæði eru líka við svaladyrnar. Hvað er eiginlega hægt að gera? Ég er búin að fá menn þrisvar eða fjórum sinnum til að þétta og spartla og borga fyrir það, samt lekur. Ef maður fengi þrumur og eldingar með þessu vatnsveðri yrði ég miklu sáttari.

Erfðaprinsinn er kominn upp í rúm með Arnald, rosa spenntur, og svei mér ef ég fer ekki að drífa mig upp í líka ... með Mary. Ansi spennuþrungið kvöld fram undan í himnaríki, hnegg, hnegg!


Langur Laugavegur

BúðirMikið var gaman að horfa á Wallender í gærkvöldi ... eða hefði verið ef augnlokin hefðu ekki reglulega farið í verkfall og augun heimtað hvíld ... (aðeins að hvíla augun) Það slökknaði alveg á mér í gær, ég fékk mér ekki einu sinni latte, of mikið átak, og þurfti síðan gífurlega mikinn viljastyrk til að standa upp úr leisígörl til að fara í rúmið.

Við Inga fengum þá hugmynd að kíkja í búðir á eftir (hugmynd Ingu), Langur laugardagur og svona ... og fá okkur kannski síðbúinn hádegismat í Taco Bell (hugmynd mín). Mig vantar ósköp fátt, helst gott og hlýtt og stórt teppi til að vefja um þann sem situr í Leisígörl, oftast mig, og svo yfir þann sem liggur í sófanum, oftast erfðaprinsinn. Yfirleitt eru þessi teppi bara í barnastærð, bleik með kögri, er ekki að leita að svoleiðis. Líklega finn ég þetta bara IKEA eða The Rúmfatalagers. Inga hefur hrósað Taco Bell og loks fæ ég að prófa. Finnst mexíkóskur matur mjög góður. Í góðum félagsskap verður þetta eflaust ekki óbærilegt, eins og ég hata búðaráp. 

Hrafnaþing stendur yfir á planinu fyrir neðan og þegar ég ætlaði að smella mynd af þeim kom hundur gangandi með mann í eftirdragi svo að krummarnir færðu sig. Svo skellur stormur á um hádegisbil, alltaf jafnmikið fjör ... þetta verður góður dagur.


Hneyksli í matsalnum

LitirÍ matsalnum í dag var hægt að velja um „sakleysisleg“ og frekar girnileg silungsflök, sem flestir féllu fyrir, og chili-bollur með chili-sósu. Meðfæddar gáfur mínar leiddu mig beint að chili-bollunum og ég sá ekki eftir því.

Ekki var nóg að fólkið við borðið mitt gargaði reglulega: „Bein, oj bara!“ og fleygði matnum og fékk sér chili-bollur í staðinn, heldur þurfti ég sárasaklaus að afplána að maðurinn í fjólubláu peysunni sem sat við næsta borð sneri á móti öðrum manni sem var í RAUÐUM bol.  ...  og maður setur ekki rautt og fjólublátt saman.

Tískuvitund minni og litaskynsemi var stórlega misboðið. 


Mergjaður dagur ...

Ekki barði ég Ástu í morgun eins og ætlunin var vegna rangra (litaðra) upplýsinga hennar um Britneyju og Kevin í gær. Hún sagðist samt ætla að halda með Britneyju þar sem stelpugreyið væri bara firrt eftir alla frægðina og ásókinina ... sem er nú fallega hugsað. Nú veit hún hið sanna í málinu. Æ, mikið eru heimsmálin flókin. Best að brjóta ekki litla heilann minn frekar um slíkt ...

Falleg mynd á fimmtudegiÞetta verður kolvitlaus dagur og þá er ég ekki bara að tala um storminn sem skellur á suðvestan- og vestanlands eftir hádegi í dag, heldur verður klikkað að gera í vinnunni. Ég hefði getað klárað sitt af hverju heima í gær en þreytan yfirbugaði ... arggg! Svo byrjaði ég að lesa bók frá Skjaldborg, Hvítur dauði, held ég að hún heiti, byrjar virkilega vel ... nammmmm. Svo kemur Arnaldur út í dag og Kolla segir að þetta sé fínasta bók. Þau eru svo dásamleg saman, hún og Páll Baldvin í Kiljunni hans Egils, þau eru oft innilega ósammála og það er enn skemmtilegra.

Gulla prófarkalesari heldur enn í þá veiku von að það finnist eitthvað gott í mér og sendi mér „sætan og krúttlegan“ póst (örugglega keðjubréf ... ) sem tengist lokum októbermánaðar (bleika slaufan?). Ég hef greinilega ekki tekið kast nálægt prófarkalesurunum varðandi sætan póst ... og hvað litlir hvolpar, kettlingar og ungbörn fara tryllingslega í taugarnar á mér í svona tilgangi ... Ég er ekki einu sinni búin að kíkja á bréfið og samt búin að eyða nokkrum mínútum í að nöldra ... hahahah

Eigið geggjaðan, klístraðan, niðursoðinn og mergjaðan dag, kæru venner, nær og fjær til sjávar og sveita ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 50
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 745
  • Frá upphafi: 1524943

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 637
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband