Færsluflokkur: Lífstíll

Opinberun II. hluti

Hingað til hefur fólk ranglega haldið að það sem hér er ritað sé heilagur sannleikur. Þar sem senn er ár liðið síðan ég ýtti þessari bloggsíðu úr vör finn ég mig knúna áður en lengra verður haldið að segja sannleikann og ekkert nema sannleikann. Jólin eru líka á næsta leiti og á aðventunni verður maður eitthvað svo meyr og samviskubitið ólgar sem aldrei fyrr.
Sumt hefur að vísu verið nálægt sannleikanum en ég ætla þó ekki að reyna að afsaka mig með því.

Kubbur kvikindiJú, jú, ég heiti Gurrí og allt það ... og vinn í krembrauðsverksmiðju hér á Akranesi. Góða fólkið á Vikunni féll frá málsókn ef ég opinberaði sannleikann.

 Ég á ketti en þeir eru ekki þessi krútt sem ég hef haldið fram, heldur sóðaleg, lúmsk og grimm kvikindi sem stökkva froðufellandi á tærnar á mér ef ég gleymi að fara í inniskóna. Ég notaði númer 39 af skóm hér áður fyrr ... er nú 35.

Ég bý í íbúð ... en hún heitir hreinsunareldur, ekki himnaríki, og er á miðhæð ... í hjólhýsi. Hún er pínkuoggulítil og snýr að porti þar sem öskutunnurnar eru geymdar.

Tengdasonur minn á góðri stundÉg á vissulega barn. Dóttir mín, sem ég hef ranglega nefnt erfðaprinsinn á blogginu, er stöðumælavörður hér á Skaganum. Hún á indælan kærasta sem er hér eins og grár köttur þótt það sé eiginlega hvergi pláss fyrir hann. 

Ætla ekki að viðurkenna meira núna. Þetta er eiginlega meira en nóg. Fyrir bloggafmælið stóra (í janúar 2008) verður þó allt komið upp á yfirborðið. Líka hneykslismálin!


Grænmetisrétturinn góði

Sætar kartöflurHér kemur loksins uppskriftin, eins og ég man hana frá Áslaugu vinkonu. Held samt að það megi nota alls kyns grænmeti, einu sinni setti ég einn chili-pipar með fræjum og öllu með og það var líka voða gott.  

1 stór sæt kartafla (eða 2-3 minni)
2 laukar
½ sellerírót
2 stórir pipar-belgir(fást 2 saman í pakka í Einarsbúð)
1 stk. fennel
3 hvítlauksrif (eða fleiri)

Fremst til hægriSkerið allt niður í frekar litla bita og setjið í ofnfast mót. Kryddið með timian, Muldon-salti og svörtum pipar eftir smekk. Hellið vænu dassi af góðri ólífuolíu yfir.

Setjið inn í 220 °C heitan ofn, hrærið í þessu af og til og hellið ólífuolíu ofan á eftir því sem tilfinningin segir til, ég bætti einni gusu við, enda sparaði ég ekki olíuna í upphafi. Þetta þarf um 40-50 mínútur í ofninum. Það er allt í lagi, eiginlega bara betra, ef það er örlítið brennt ofan á, betra að hafa hitann hærri en lægri.

Þetta dugði fyrir fimm manns, held ég, það kláraðist hver arða! Smakkaðist afar vel með kjötinu og ferska salatinu.

Gjössovel, Jenný mín, Siggi og fleiri!!!  


Brúðkaupsklukkur klingja ...

Taylor, Ridge og BrookeBrúðkaupsþátturinn boldið var sjokkerandi í dag og ég bið viðkvæma um að lesa ekki lengra. Enn eitt brúðkaupið í uppsiglingu og ég vissi ekki einu sinni af því ... að þessu sinni Brooke og Ridge, jamm, honum tókst að tala hana til. Fjórða eða fimmta skiptið þeirra. Nýlega giftist hún reyndar pabba Ridge, eins og allir vita, en sleit því nokkru síðar.

Á meðan heima hjá Bridget og Nick: „Ég veit að þú elskar mömmu meira en mig og varst bara með mér vegna barnsins/barnanna,“ segir Bridget við Nick. (Þarna er átt við barnið sem þau misstu við fæðingu og Dominic litla sem Nick reyndist ekkert eiga í). Nú er ekkert barn/börn sem heldur okkur saman og ég veiti þér frelsi til að næla í mömmu. En flýttu þér áður en hún giftist Ridge (sem er reyndar bróðir Bridget, ekki blóðskyldur þó).“

Brooke og NickÞegar Ridge og Brooke höfðu farið með brúðkaupsheit sín, tárvot og verulega krúttleg þar sem þau lofuðu hvort öðru eilífri ást, var kirkjuhurðin rifin upp og inn þusti Nick. „Hættið!“ argaði hann. Hljóp til Brooke, tók hana og vippaði yfir öxlina á sér og hélt á henni upp tröppurnar. Ridge hefði náð honum ef móðir hans, Stefanía, hefði ekki brosandi haldið honum. Hún þolir ekki Brooke, sem hefur gifst Eric, manni hennar, tvisvar, Thorne, syni hennar, einu sinni, og Ridge, syni hennar, fjórum eða fimm sinnum, jafnvel oftar. Nú, Nick læsti og þegar Brooke skammaði hann fyrir að hafa rænt sér úr eigin brúðkaupi þaggaði hann niður í henni með ástríðufullum kossi. Brooke gerði sig ekki líklega til að opna fyrir Ridge sem stóð hinum megin við dyrnar, barði á þær og kallaði.   

Tvöfalt brúðkaup Þegar völvan hafði lokið máli sínu í dag (sjá Vikuna 52. tbl. 2007 milli jóla og nýárs) sagði hún: „Þú ert að fara að ganga út!“ Ég hélt eðlilega að hún ætti við að ég væri í þann veginn að ganga út af heimili hennar og fannst varla þurfa spádómsgáfu til að vita það, en hún meinti það ekki ... Fylltist ofsóknaræði við heimkomu í himnaríki og hef þegar pantað öryggismyndavél við dyrasímann og öryggisskírlífisbelti (karlmenn geta verið svo freistandi), að auki fleygði ég óöryggisbaðbombunum mínum. Nó mor ilmandi kvöldböð frá og með 2008. Þetta ætti að duga til að fæla menn frá. Bað erfðaprinsinn um að sleppa böðun líka til að honum liði betur í breyttu andrúmslofti. Flott að fá þessa viðvörun. Svo á viðkomandi að vera sæmilega efnaður líka! Ekkert þó á við Björgólf. Varð svo brugðið við þetta að ég gleymdi að spyrja hvort hann væri ljóshærður, dökkhærður, sköllóttur eða rauðhærður, Skagamaður eða ekki, eldri eða yngri ... Hún gaf í skyn að ég vissi hver hann væri. Þetta skyldi þó ekki vera George Clooney? Efast þó um að hann líti við rúmlega fertugum súperskvísum ...


Sætustu sjarmatröllin

Úlfur og Ísak sjarmatröllÞað styttist í að sjarmatröllin í ættinni verði ársgamlir eða tæpar þrjár vikur. Af því tilefni stal ég nýlegri mynd af heimasíðunni þeirra. Veit að þetta er frænkumont en það rennur nú þingeyskt blóð í æðunum ... með þessu skagfirska, eyfirska og sunnlenska.

Stefni á algjöran letidag í dag, horfa á vídjó á milli þvottavéla, eitthvað slíkt. Tókst með herkjum að sofa til hádegis. Mikill vinnukafli fram undan, gott að vera vel úthvíld. Annars sagðist erfðaprinsinn ætla að viðra mig, hann er ekki bara stærri og frekari heldur gekk hann í Heimspekiskólann þegar hann var lítill. Lærði að rífa kjaft á kurteislegan hátt og rökstyðja mál sitt. Jamm, vona að dagurinn ykkar verði góður.  


Morgunstress og vinkonuhvarf ...

Vaknað í GaltalindinniRétt fyrir klukkan átta í morgun hrökk Stressríður upp þar sem hún lá í sófanum í Galtalindinni í Kópavogi, í huggulegri íbúð systur sinnar. Hún hafði dottið út af í brúnum leðursófa með fjólublátt teppi yfir sér þar sem Law and order-fólkið í sjónvarpinu fann eflaust vondan glæpamann til að senda í rafmagnsstólinn. Blessunarlega svaf hún það af sér. Hún sendi Ingibjörgu, vinkonu sinni, símaskilaboð og ákveðið var að hittast í Kaffitári við Bankastræti um kl. 9.30.

Hviðurnar á Kjalarnesi voru enn það sterkar að enginn strætó gekk en Inga tók ekki eftir þeim á leiðinni, enda ekki á háum strætisvagni sem tekur á sig vind eins og hann fái borgað fyrir það.
Stressríður skaust eitt augnablik inn í himnaríki, greip nokkra geisladiska með og fullvissaði sig um að handritið sem hún prentaði út í Kópavoginum kvöldið áður væri á sínum stað.

Við Óli PalliÍ Skrúðgarðinum ríkti ljúft andrúmsloft að vanda og stressið rjátlaðist eitthvað af Stressu sem fór að búa til lagalista fyrir sig og Óla Palla tæknimann. Heimir strætóbílstjóri hékk við tölvuna til að athuga hvort það yrði fært í bæinn, það var ekki fyrr en 11.41 sem hann þorði að fara, alveg á áætlun ... en slapp við ferð/ferðir sem átti að vera fyrr um morguninn.

Útvarpsþátturinn gekk vel, þetta var bara einn og hálfur tími og leið hratt. Eftir útsendinguna beið Ásta með súkkulaðitertusneið og pælingar fyrir krakkaball Páls Óskars sem hefst kl. 17. Okkur rétt tókst að redda börnum til að taka með okkur. Ekkert bólaði á Ingu en hún var ákaflega syfjuð þegar kvaðst var fyrir utan Skrúðgarðinn kl. 10.46. Inga er enn týnd. Hún á inni matarboð í himnaríki í kvöld, eins gott að hún vakni, hvar sem hún er stödd í heiminum. Þessi elska.


Pasta bloddí pasta

Pasta bloddí pastaBæði venjulegi maturinn og grænmetisrétturinn voru löðrandi í pasta. Í gamla daga var pasta ljómandi gott og óheyrilega gaman að búa til mismunandi rétti úr því. Stundum urðu þeir of sterkir, ef ég missti mig t.d. í chili-inu, ekki kannski mjög ítalskt ... svo fékk ég nóg af þessu hveitidrasli einn daginn.

Þegar ég var lítil var spagettí soðið jafnlengi og kartöflur og bragðaðist dásamlega með hakki og tómatsósu eða bara tómatsósu. Kokkteilsósan var svo fundin upp á unglingsárum mínum, ég er af þessari frægu 78-kynslóð sem var að komast upp á sitt besta þegar hamborgarar og franskar ruddu sér til rúms á landinu. Arfur 68-kynslóðarinnar er líklega tónlistin og afslappelsið (jafnvel hassið) en þessi 78 skilur tekkið og kokkteilsósuna eftir sig. Man eftir einni jólamáltíð heima á Rauðalæk, fullorðna fólkið fékk rjúpur og við unglingarnir kjúklinga  ... og rjómalagaða kokkteilsósu með. Þetta VAR spennandi nýjung á þessum tíma og þótti mjög flott. Kjúklingar voru líka ansi dýrir á þessum tíma. Jamm.

Þetta var matarvonbrigðablogg dagsins.

P.s. Veit hver hringdi í morgun. Það var ekkert æsispennandi, eiginlega bara næstum því rangt númer!


Rauður sófi með fortíð

Rauði sófinnMikið þekki ég gott fólk. Ásta var ekki fyrr búin að skutla mér „heim“ að dyrum í vinnunni þegar Inga kom og við héldum í Lyfju í Lágmúla til að kaupa dóp! Íbúfen er farið að fást aftur og ekki nóg með það heldur sagði frábæra afgreiðslukonan þar að gott væri að taka Paratabs með við svona þrálátum bakverk. Tvær þannig og ein íbúfen væri killer. Ég er soddan hænuhaus á lyf og brennivín að ég þorfði bara að taka eina og eina áðan. Ef ég sofna samt er til staðar hjá Mannlífi í næsta bási eldrauður, sexí leðursófi sem ég gæti fleygt mér í, hann er reyndar alræmdur í fyrirtækinu ... vissar myndatökur hafa farið fram í honum fyrir B&B og ég er ekki að tala um Bæjarins besta!

Eintóm hamingjaÞeir sem urðu voða hræddir við að lesa síðustu færslu ... ég var bara að grínast. Þessi áhrif koma yfirleitt aldrei fyrr en tunglið er orðið fullt, í þessu tilfelli 24. nóvember.

Jæja, mæli svo um og legg á að dagurinn ykkar verði sjúklega skemmtilegur, fullur af óvæntum ævintýrum, hamingju, gjafakortum á nuddtíma og stórum happdrættisvinningum.


Undarleg hegðun í himnaríki

Fullt tunglTunglið, næstum fullt og svo óstjórnlega töfrandi, hefur skinið á mig í kvöld þar sem ég hef setið við skrifborðið og unnið. Mér var litið niður á hendur mínar áðan og sá að neglurnar hafa lengst mikið á nokkrum tímum. Ungverska baðbomban í gærkvöldi hefur líklega haft þessi áhrif en ég hef nagað neglurnar með góðum árangri í 40 ár. Bomban virðist reyndar líka hafa aukið hárvöxt minn og þarf ég líklega að raka fótleggina í kvöld, í fyrsta skipti á ævinni, jafnvel handleggina líka og handarbökin fyrst ég er byrjuð. Eyrun á mér hafa stækkað smá, nema það sé ímyndun, en heyrnin hefur örugglega aukist. Ég heyri greinilega í bílum sem koma upp úr Hvalfjarðargöngunum, reyndar bara þeim eru komnir á nagladekk.

 

Ó, tungliðÞetta er ekki það eina óvenjulega á þessu heimili í kvöld. Kettirnir hafa ekkert sést í nokkra klukkutíma en ég heyri samt niðurbælt hvæs í þeim innan úr einum fataskápum. Erfðaprinsinn er þó enn furðulegri í hegðun. Hann stendur við eldavélina, segist vera að gera gæðatilraun á kaffi og er með nokkrar teskeiðar ofan í heitum potti (hræðilegt brunalykt). Mér varð ekki um sel þegar hann spurði mig titrandi röddu hvort þær væru ekki örugglega úr silfri. Ég ætlaði að segja honum að þetta væri bara plett en þá fann ég að ég gat varla talað, er líklega komin með bráðatannholdsbólgu eða eitthvað, finnst tennurnar eitthvað svo stórar. Mig langar mest til að góla, bakið er að drepa mig ... en veit samt ekki hvort ég þori í heitt bombubað í kvöld ef það hefur svona aukaverkanir.


Af stól-hermdarverkum og þykkri þoku hinna glamrandi hlekkja

ÚúúúúúúThe FogHeyrir þú glamrið í hlekkjunum,“ spurði ég Ástu þegar við ókum inn í þykka þokuna í Reykjavík í morgun. Svipbrigði mín sýndu óbærilega spennu, verst að Ásta var með augun á umferðinni „Ha, hvað meinar þú?“ sagði Ásta. Í ljós kom að ég hafði kastað perlum fyrir svín, eins og stundum áður. Ásta sá nefnilega aldrei myndina The Fog, um framliðna sjóræningja sem birtust í þokunni og murkuðu lífið úr þeim bæjarbúum sem höfðu ekki vit á því að fela sig. Það glamraði alltaf heimilislega í hlekkjum og vopnum sem þeir báru, minnir mig. Það voru hvorki draugar né forynjur í þykku þokunni kl. 7.35 í morgun, ekki einu sinni Sigþóra á leið upp Súkkulaðibrekkuna, enda var hún auðvitað löngu komin í vinnuna.

Stóllinn minn á kvöldinEr búin að komast að því hvers vegna stóllinn minn í vinnunni er oft í klessu þegar ég mæti á morgnana ... Símasölumaður andskotans skellir honum nefnilega í fáránlega stöðu á kvöldin, stólbakið hallandi aftur á bak og hæðin ... maður sest næstum á gólfið, hann er svo lágur.

Ég vil hafa stólinn minn í hæstu mögulegri stöðu til að gnæfa yfir dauðlegt samstarfsfólkið. Þannig glamrar líka mun minna í hlekkjunum.


Matur, spurningakeppni og brúðkaup aldarinnar ...

Samstarfsfólkið í matsalnumVikulega spurningakeppnin fór fram í matsalnum í hádeginu við borðið okkar, annan föstudaginn í röð. Doddi spurði okkur spurninga upp úr helgarblaði DV og náði ég að svara þremur af tíu, hinir gátu bara eina til tvær. (múahahahaha) Vona að þetta viti á gott. Vissi hvað nýja bókin hennar Gerðar Kristnýjar heitir, nafn prests innflytjenda á Íslandi og eitthvað eitt enn. Hinir vissu þetta kannski en ég var fljótust að svara, sjúkkkkk! Vona að Útsvar (sem nálgast hratt) verði með álíka spurningar, þá rúllum vér Skagamenn þessu auðveldlega upp.

LambalæriGrænmetislasagna og lambalæri í matinn í dag. Brúðkaup aldarinnar með mat frá London hvað! Annars verð ég að segja að ég er dauðfegin að mér var ekki boðið í brúðkaup Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Hvað hefði verið hægt að gefa þeim í brúðargjöf?

Læt mér alveg nægja að hafa komist í brúðkaup aldarinnar á síðustu öld!!! Þar tókst mér að gleðja Thor Vilhjálmsson með því að spyrja hann klukkan hvað hann hefði fæðst þann 12. ágúst, til að tékka hvort okkar væri eldra. Honum var plantað við borð hjá okkur vinkonunum og var voða skemmtilegur borðherra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 31
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 726
  • Frá upphafi: 1524924

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 620
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband