Færsluflokkur: Ferðalög

Yrði innlyksa á Skaganum

StrætóSá vítahringur er að skapast að með minnkandi þjónustu Strætó bs hætta sífellt fleiri að nota þennan samgöngumáta sem ætti að vera svo góður. Færri farþegar og enn minnkandi þjónusta o.s.frv.

Sem betur fer er leiðin mín mjög vinsæl, eða Akranes-Mosfellsbær, annars yrði ég að kaupa mér bíl eða verða ella innlyksa á Skaganum. Tek það fram að þrátt fyrir ögn skerta þjónustu í nýjasta leiðakerfinu er ég afar ánægð með Skagastrætó. Vildi bara óska þess að þetta þriggja tíma hlé um miðjan dag yrði slegið af. Ætla í mat til vinkonu í kvöld og erindast aðeins í bænum. Það var of snemmt að taka vagninn 11.41 og því þarf ég að bíða til 15.41 eftir næsta sem er frekar seint. 

Það er alveg ömurlegt að bæði starfsmenn og aðstandendur geti ekki lengur tekið strætó á Vífilsstaði. Hverjum datt þetta í hug? Vafalaust einhverjum sem ekur um á einkabíl.

Hvernig væri að fá mig sem ráðgjafa til Strætó? Ég hef notað þennan samgöngumáta síðan snemma á níunda áratug síðustu aldar og geri aðrir betur. Þegar ég hafði loks efni á bíl var ég orðin vön strætó og fannst það bara henta mér ágætlega.

Ég skora á Strætó bs að lagfæra þessi mistök og setja Vífilsstaði inn í leiðakerfið aftur. Halló! Þetta eru almenningssamgöngur og ættu því að vera þannig að almenningur komist leiðar sinnar með góðu móti.  


mbl.is Geta ekki lengur heimsótt aldraða aðstandendur sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagamenn í stuði og kvikmynd kvöldsins

Hvaða orð er það aftur þar sem þrjú S koma fyrir í röð? Ahhh, alveg rétt, rassskelling, einmitt það sem við erum að gera við KR-inga núna. Markatalan var 3-0 síðast þegar ég kíkti.

Er farin að halda að Jenný hafi jafnvel rétt fyrir sér með Tomma (ekki köttinn). Alla vega eftir að ég sá þessa kvikmynd í bið minni eftir 24:

http://www.grapheine.com/bombaytv/index.php?module=see&lang=uk&code=b347f33d789dda2368f8367c20d656c6

Tommi bílstjóriOg þó. Ég var að muna eftir svolitlu:
„Ég sá Ástu vinkonu þína hálfnakta á Akratorgi í dag,“ sagði Tommi áðan. „Ef ég hefði ekki verið búinn að taka beygjuna hefði ég keyrt út af,“ bætti hann við og hló.

Grunnhyggnir þessir karlar. Ég mun halda áfram að kaupa upp gallana og rúllukragapeysurnar hjá 66°N í bið minni eftir manni sem kann að meta manneskjuna mig, ekki bara ægifagran barminn eða sexí leggina. 


Heppni á heppni ofan

Slökun eftir erfiðan dagSigurjóna og Sigga í bakstrinumEinhverra hluta vegna vantreysti ég upplýsingunum sem ég fékk á Netinu um rútuferðir. Eins gott að ég hringdi á BSÍ rétt fyrir þrjú. „Ha, nei, það fer engin rúta frá Hellu kl. 15.55. Hún er að skríða inn á Hvolsvöll núna og verður á Hellu eftir tíu mínútur hámark! Þar sem metnaður minn liggur í að ferðast létt áttaði ég mig á því að næði þessarri rútu auðveldlega. Ellen frænka var svo góð að keyra mig þennan örstutta spöl. Í sjoppunni spurði ég hvort þetta væri ekki alveg öruggt. „Nei,“ sagði strákurinn. „Rútan í bæinn var hér klukkan tvö og kemur næst klukkan fimm.“ Sem betur fer bætti hann því við að hann væri bara sumarstarfsmaður ... því þetta var kolrangt hjá honum. Tók bara sénsinn og hinkraði á bílaplaninu. Vissi að mín beið súkkulaðikaka í sumarbúðunum og gott kaffi ef illa færi. Líka far með Ellen frænku í bæinn en miklu síðar. Svo kom þessi líka fína rúta og tók mig upp í. Mæli rosalega mikið með því að vefurinn www.bsi.is verði uppfærður.

Eina óheppni dagsins var þegar ég tölti yfir göngubrú á Miklubraut nokkru síðar og sá leið 15 í Mosó fara framhjá. Kom mér bara vel fyrir í 29 mínútur í biðskýlinu og tók upp nýju spennubókina mína eftir Dean Koontz. Slapp algjörlega við geitunga, enda eru þeir víst allir í Kópavogi.

Hilda og Makki, unnusti hennarKubbur og Tommi á svölunumSnæddi kvöldverð á KFC, svakalega hugguleg plasthnífapörin þar og Zinger-salatið bragðaðist vel. Lauk við bókina þar ... hef ekki lesið hana áður á ensku, hélt að ég ætti allar eftir hann Dean minn.

Gleði númer helling í dag var að Tommi var á vaktinni á Skagastrætó og kom mér heilli heim, beint í sólskinið og beint í restina á Formúlunni á RÚV plús. Verst að ég missti af veltunni hans Kúbika. Minn maður sigraði, jess. Svo er það bara Jack Bauer. Hleypti kisunum út á svalir við heimkomu en þorði ekki að skilja þær eftir þar eftirlitslausar, er hrædd um að þær kíki upp á þak og renni niður ... alla leið. Bíð enn eftir að svalahliðunum verði lokað. Ekki þori ég heldur að hleypa börnum innan 18 ára út á þær.

Já, nú er ég búin að komast að því hvað hefur gengið á hérna fyrir neðan himnaríki undanfarna daga. Grænn sendiferðabíll stendur á planinu. Á eftir rauðu og gulu kemur nefnilega grænt. Já, það er leikur í kvöld og við vorum bara að tryggja okkur sigur á KR með ýmsum ráðum. M.a. líklega undirgöngum. Látið ykkur ekki bregða þótt hendur komi upp úr vellinum og grípi í KR-ingana. Við Skagamenn erum að taka þessa keppni, erum t.d. með helmingi fleiri stig en andstæðingurinn. Jamm.     


Syfjublogg úr Rangárþingi ... zzzzzZZZZZZZ

Ó, hvað það er búið að vera gaman. Um tíu manns hafa verið að skrúfa saman kojur, baka súkkulaðikökur í tonnatali, sandkökur og annað gúmmulaði sem verður fryst og síðan þítt og notað fram eftir sumri og fleira og fleira. Við Hilda höfum mest verið í verðlaunatiltektinni en börnin munu fá verðlaun fyrir margt hérna. M.a. ruslatínslu í kringum húsið næstsíðasta daginn, sigur í karaókíkeppninni (sem Ellý sjálf heldur utan um), kassabílarallíið, snyrtilegt herbergi og margt fleira.
Sigurjóna matráðskona (frá Sandgerði en samt ágæt) gaf okkur guðdómlegt lasagna í kvöld ... slurp. Það er hægt að venjast því að vera í fæði hérna í sumarbúðunum ...

Læknanemarnir okkar í Ungverjalandi hringdu í matartímanum og grétu það að vera ekki að vinna í sumarbúðunum í sumar, eins og oft áður. Þær byrjuðu í þrifum og eldhúsi þegar þær voru unglingar og kunna allt utan að í sumarbúðunum. Vonandi velja þær að vinna hér á sumrin eftir útskrift heldur en fyrir einhver skítalaun á sjúkrahúsi. Alltaf gott að geta látið alvörulækni hugsa um börnin ef þau fá ælupest eða nefkvef.

Sama má segja um Davíð frænda og Ágúst, þeir voru bara krakkar þegar starfsemin hófst en eru orðnir ungir menn núna. Davíð heldur sig líklega við kvikmyndagerðina, klippa bíómyndir barnanna og slíkt ... og kannski verður Ágúst áfram í eldhúsinu hjá Sigurjónu, hann er skrambi góður með uppþvottaburstann.

Þegar fyrsti hópurinn mætir á miðvikudaginn verður þetta orðið geggjaðislega flott. Þarf að muna að taka myndir á morgun. Nú bara S O F A ... zzzzz en lesa pínku fyrst.

Eini gallinn við heimsóknir mínar í sumarbúðirnar á sumrin er sá að ég fæ alltaf sama matinn þegar ég kem í heimsókn á laugardögum, eða pylsur! Svo er ég farin fyrir kvöldmat á sunnudeginum þegar eitthvað stórkostlegt er ... arggg. Þetta er við mikla gleði barnanna en fýlusvip minn. Hilda ætlar að biðja Sigurjónu að geyma kjúkling frá föstudagskvöldinu handa mér ...

Jæja, ég er eiginlega dauð úr syfju ... Dean Koontz bíður líka eftir mér inni í herbergi, lokkandi og girnilegur.


Heillandi Hella og sættir við makkakvikindið

Haldið þið ekki að nafni eldri kattar míns, hann Tómas strætóbílstjóri (einnig þekktur sem brosmildi bílstjórinn) hafi setið undir stýri í strætó í morgun? Hef ekki séð þessa elsku í fleiri vikur!!! Það er kominn einhver tími síðan hann byrjaði aftur en mín hefur verið í sumarfríi.
Ég settist í fremsta sæti og spjallaði hann án þess á nokkurn hátt að trufla einbeitingu hans við aksturinn. Hélt yndisþokkanum í algjöru lágmarki með að ropa hátt annað slagið og slá um mig með groddalegum frösum. "Alltaf í boltanum, Tommi?" "Hvað segja bændur?" "Svona er lífið ..."

Tommi er ásatrúarmaður, golfari og veiðiáhugamaður svo fátt eitt sé talið. Hann langar mest til að verða Akranesgoðinn. Mér leist vel á hugmyndir hans um mannfórnir. Frekar algengt var til forna að fórna flottu fólki, jafnvel konungum ef þurfti. Okkur datt í hug ýmsir bæjarstjórar sem gætu verið girnilegar fórnir en ég nefni engin nöfn. Ég sagði Tomma að ástkær systir hans kommentaði stundum hjá mér á blogginu, þessi sem er fornleifafræðingur og kallar sig Möggu mágkonu (mína). Sagði Tomma auðvitað ekki frá mágkonudjókinu, annars gæti hann litið á það sem daður og viðreynslu og slíkt gera ekki fínar dömur.
"... fornleifafræðingar með rassgatið upp úr moldinni og gleðjast yfir einhverju drasli ..." drundi í Tomma þegar hann ræddi um systur sína!
Svo sagði hann eitthvað annað á leiðinni svo hryllilega fyndið en ég bara man það ekki! Arggggg!

Við Ellen hittumst í The Kringl á gjörsamlega hárréttum tíma, hvorug þurfti að bíða eftir hinni ... og þustum svo út á þjóðveginn með kaffi í annarri, alla vega ég. Ellen gleypti í sig Da Vinci-kaffið sitt með karamellusýrópi og var búin með það áður en við komumst út í bíl. Jæks, ég smakkaði aðeins á því og varð ekki hrifin, enda hefur sætt kaffi ekki verið á vinsældalistanum síðan ég var 17 ára.

Hér á Hellu er skólahúsið hægt og rólega að breytast í algjört ævintýraland, nú eru allir að púla við að koma þessu upp. Mér var skellt fyrir framan tölvuna og látin senda foreldrum undirbúningslista fyrir tímabil 2 en þar kemur m.a. fram hvað best er að taka með sér í sumarbúðirnar. Nú ætla ég að reyna að gera skrifstofuna æðislega!

Í Pennanum í Kringlunni sá ég að út er komin á íslensku ný bók eftir Dean Koontz!!! Ég hélt ég ætti allar eftir hann, bæði á ensku og íslensku en kannaðist ekki við lýsinguna þegar ég las aftan á bókina. Keypti hana að sjálfsögðu Hugsa að ég fari mjög snemma í háttinn í kvöld. Jessssss!!! Elska hryllingsspennudularfullar bækur.

P.s. Við Makkahelvítið erum búin að gera með okkur vopnahlé. Ég tala ekkert um hvað PC er betri tölva og Makkinn étur mig ekki.


Ekki enn milljarðer og morgunspan á Hellu

Ekki mætti fleðulegi maðurinn með hreiminn, brilljantínið og peningatöskuna í heimsókn til að gera mig að milljarðer og fleira notalegt ... og ég sem fer út á land í fyrramálið og gisti eina nótt. Ekkert rómantískt er á ferðinni þar, bara aðstoð við að setja upp eins og eitt stykki sumarbúðir! Jibbí! Skráning hefur gengið ágætlega en það er samt ekki orðið alveg fullt. Það gæti þó ræst úr því, enda margir búnir að skrá börnin sín síðustu daga.

Talaði við eina vinkonu mína í dag sem var svo viss um að það væri orðið fullt í Ævintýralandi, eins og venjulega, að hún ákvað bara að sleppa sumarbúðum fyrir dæturnar í ár. Hún snarhætti við og ætlar að skrá þær í júlí. 
Hilda gat ekki ýmissa hluta vegna auglýst fyrr en svo seint og hinir aðilarnir græddu á því. Eins og ég bloggaði um nýlega þá er frekar slæmt að 2/3 hluti sumarbúða á Íslandi fái háa styrki og geti í skjóli þeirra skekkt samkeppnisstöðuna. Svona starfsemi á að geta staðið undir sér en veikist vissulega þegar sumum er gert svona miklu auðveldara fyrir. 

Rauðklæddir menn á rauðum bíl ..Ellen frænka fer austur undir hádegi sem passar einmitt svo vel. Stefnumót í Kringlunni. Þori því ekki að vaka lengi þrátt fyrir stórkostlegar bíómyndir á sjónvarpsstöðvunum (grín) og stilli klukkið á níu. Það er heilum þremur klukkutímum seinna en en vanalegur fótaferðatími flesta virka daga ársins. Best að nota Pollýönnu á þetta þótt ég hafi ómögulega nennt að horfa á myndina um hana á RÚV í kvöld. Gægðist frekar aðeins á Flightplan, hef bara séð hana einu sinni áður.

Dagurinn hefur verið þreytandi, enda ekkert áhlaupaverk að fylgjast með þeim óbjóði sem gengur hér á.
Hvað segja bloggvinir um myndina sem ég náði fyrr í dag? Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda. Getur verið að slökkviliðsmennirnir hafi verið að kæla einhverja starfsemi sem mögulega fer fram neðanjarðar, þarna undir bílastæði íþróttavallarins? Takið eftir öllum rauðu bílunum á planinu!

P.s. Ég steingleymdi að horfa á boldið ... klikka ekki á því í næstu viku. Promisss!


Hálfgert letilíf og heilmiklar tölvuspælingar

Málað í fríinuVoða letilíf er þetta í sumarfríinu. Sumir í mínum sporum væru búnir að mála baðið, taka skápana, helluleggja garðinn, ganga upp á Akrafjall, bera á sig brúnkukrem, koma upp kryddjurtagarði, læra að elda nýstárlegan mat, skrifa eina smásögu og kynna sér nýjustu strauma í tísku og tónlist.

Sat reyndar við tölvuna í gær fram á nótt og skrifaði langt viðtal ... sumarfríið lengist bara í hina áttina í staðinn. Mjög djúsí, eiginlega stórmerkilegt viðtal við algjöra hetju sem lenti í skelfilegum hlutum í æsku. Kemur í Vikunni á fimmtudaginn í næstu viku.  
Annars er mjög spennandi viðtal í nýjustu Vikunni við Ungfrú Ísland um það sem gerðist á bak við tjöldin í keppninni. Ekki var það allt fallegt.

Veit einhver tölvuvitur bloggvinur hvað er í gangi þegar tölvan fer í hægagang, næstum frýs og allar aðgerðir taka fáránlega langan tíma? Ég hef hingað til getað endurræst hana og þá verður hún hraðari. Ætli sé vírus í gangi? Kann ágætlega á word, tölvupóstinn og bloggið og það hefur nægt mér. Dánlóda aldrei neinu nema þá myndum úr google til að myndskreyta færslur, kann ekki einu sinni að stela músik og myndum ef ég hefði áhuga á því.


Sætaferðir á Skagann

Vá, hvað þetta var annasöm borgarferð, ég er enn sveitt, móð og másandi í huganum.
Sat fund niðri í miðbæ rétt fyrir hádegi. Stefnan var sú að ná strætó heim kl. 12.45. Hilda var að verða bensínlaus, ég þurfti að koma augnablik við í vinnunni og hún í banka á Hlemmi þar sem hún lenti á sumarstarfsmanni, arggg. Hún tók bensín, ég þaut augnablik inn á vinnustaðinn minn og á fljúgandi ferð, samt eiginlega á löglegum hraða, brunuðum við af stað upp í Mosó þegar sjö mínútur voru í brottför og næsti vagn eftir heila þrjá klukkutíma. Bílstjórarnir okkar þurfa alltaf siesta, sko!

Rauði kagginnNú sé ég ekki eftir að hafa hlaðið símann minn vel og vandlega í gær því að ég var með stjórnstöð Strætó bs á línunni hálfa leiðina.
„Ert þú konan á svarta subaru-bílnum?“ spurði konan á skiptiborðinu.
„Nei, ég er á rauðri ... uuuu, Hilda, hvað heitir þessi bíll? ... Toyotu!“
„Heyrðu, hér er önnur kona að biðja leið 27 að bíða, hún er alveg að verða komin!“

Ég skrökvaði því náttúrlega að ég ætti bara stutt eftir en þá vorum við nýkomnar framhjá Húsasmiðjunni. Þetta ER stutt miðað við t.d. leiðina til Akureyrar.

Þegar ég hljóp upp í strætó var konan á svarta Subarunum nýkomin. Hinir farþegarnir voru sallarólegir. Skemmtilega konan frá Kjalarnesinu sat í vagninum og fór að grínast með okkur seinu kellurnar ... það myndaðist svona sætaferðastemmning á leiðinni. Hef sjaldan verið fljótari upp á Skaga, enda mikið spjallað og hlegið á leiðinni. 

Á útleið sagði ég bílstjóranum að ég yrði honum ævarandi þakklát og vissi ekki hvernig ég gæti launað honum þessar fjórar mínútur. Ekki gat ég sofið hjá honum á staðnum, það tengist samt alls ekki náttúruleysi, miklu frekar siðsemi á almannafæri. Ég hef líka margoft sagt að maður bindi ekki trúss sitt við strætóbílstjóra, þeir eiga kærustur á hverri stoppistöð.


Skyldan og önnur bæjarferð

Bæjarferð kl. 9.41. Mikil tilhlökkun en nýja hárið er allt úti um allt. Nú var öskrað þegar litið var í spegilinn. Ætti að vera að laga mig til en önnur skylda kallar.

Er að horfa á boldið núna með morgunkaffinu. Eric, tengdapabbi og fyrrum eiginmaður Brooke, er að segja Jackie, mömmu Nicks og fyrrum stjúpmóður Ridge, frá ást Nicks og Brooke. Nick er annars staðar að reyna að segja Bridget frá því að hann ætli því miður að vera með mömmu hennar þótt hann verði þá bæði faðir og stjúpafi barnsins sem hún ber undir belti. Sjáum hvað „Þú myndir aldrei svíkja mig svona, mamma!“ gerir! Nú fer Bridget upp og leggur sig. Hvað gerir hið ástfangna par nú? Nick er harðákveðinn í að segja Bridget frá þessu en Brooke hikar og vill að Nick verði með dóttur sinni, gleðst yfir óléttunni. „Jafnvel þótt við tvö elskum hvort annað?“ spyr Nick. „Já, þú getur það!“ segir Brooke fórnfús.

Gervihjónaband Tómasar litla og Gabyar er enn gervi þótt þau séu ástfangin hvort af öðru og þau þyrftu eiginlega að sýna ást sína til að Gaby verði ekki vísað úr landi. Taylor, mamma Tómasar og geðþekkur geðlæknir, harðbannar allt ástarkjaftæði, unga parinu til mikils ama.  


Fínasta bæjarferð

Klipping 5/6 2007Klippingin gekk vonum framar. Ég varð svolítið óttaslegin þegar hárgrisslukonan setti djúpan disk á kollinn á mér og mundaði garðklippurnar en ekkert var að óttast, hún kunni sitt fag.

Við eigum litunarstefnumót næsta mánudag. Ef ég er ómótstæðilega núna þá veit ég ekki hvað gerist eftir mánudaginn ... það leið yfir nokkra menn í Reykjavík í dag!

Strætó kom stundvíslega og við brunuðum í Mosó. Biðin eftir leið 15 var ekki mjög löng en samferðakona mín tjáði mér í biðskýlinu að Skagastrætó hefði lagt af stað á nýja tímanum, 15.45, í gær með hálftóman vagn. Svo kom leið 15 úr bænum með helling af fólki en greip í tómt. Skagabílstjórinn gerði sér lítið fyrir og sneri við, enda ekki kominn langt. Þetta á allt eftir að venjast.

Óvissuferð yngri borgara í ÁrbænumÉg veit núna að nýja tímaáætlunin var búin til utan mig og virðuleika minn. Nú er manndrápsbrekkan úr sögunni, enda engin leið 18 í Stórhöfða sem ég þarf að hlaupa til að ná. Ég get gengið settlega út úr vagninum við Ártún, tölt niður milljóntröppurnar, undir brúna og enn hægar upp lúmsku brekkuna. Dásamleg tilfinning.

Leið 18 kom nokkrum mínútum síðar og óvissuferð hófst þegar vagninn beygði til hægri áleiðis að Árbæ í stað þess að fara niður Höfðabakkann eins og hann hefur hingað til gert. Ég hélt ró minni, enda ekki á hraðferð. Með í för var hópur krúttlegra yngri borgara sem lagði undir sig aftari helming vagnsins. Strætó beygði svo niður í Hálsana og sjúkkitt, ég komst í vinnuna. Átti ekki merkilegt erindi þangað en ákvað að fá mér lærisneiðar að borða í mötuneytinu, hef ekki smakkað þær í mörg ár. Smá vonbrigði, soldið seigar.

Rúfus Aðalerindið til Reykjavíkur var að heimsækja konu í Grafarholtinu og konan sú á hreint dásamlegan hund sem heitir Rúfus. Við Rúfus hétum hvort öðru ævarandi ást. Konan skutlaði mér svo í Mosó þar sem alltumfaðmandi strætóbílstjórinn sá um að koma mér heim.

Nú þarf ég að hringja í Einarsbúð, kattamaturinn er búinn og kettirnir fáránlega fleðulegir við mig. Svangir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 48
  • Sl. viku: 634
  • Frá upphafi: 1524995

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 540
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband