Færsluflokkur: Ferðalög
21.6.2007 | 22:09
Bækur, karlar með kúlumaga, tiltektir og glæpónabílar
Á heimleiðinni í gær benti ég Önnu á dæmigerðan glæpónabíl, svona skítugan og sjúskaðan sendiferðabíl en Anna sagði að nú notuðu glæpónarnir pallbíla. Það hafði ég ekki hugmynd um. Við ákváðum að fara göngin í stað þess að elta glæpabílinn inn í Hvalfjörð, líklega skynsamlegt ef þetta hefur verið gamaldags glæpamaður undir stýri.
Vor- og sumarhreingerningar standa yfir hjá mörgum bloggvinum mínum sem hika ekki við að fórna áhugalausari bloggvinum sínum til að búa til pláss fyrir nýrri og dugmeiri. Ég kíkti yfir bloggvinalistann minn og tími ekki að fleygja neinum. Þetta er samansafn bráðmyndarlegra manna og gullfallegra kvenna sem mér finnst bara skreyta síðuna mína.
Settist hátíðlega fyrir framan RÚV kl. 21.10 í þeim tilgangi að horfa á þær aðþrengdu þar sem ég gleymdi þeim síðast. En ... það er bein fótboltalýsing og í þessum skrifuðu orðum eru stelpurnar okkar búnar að skora! Jess, en ég er samt akkúrat ekki í stuði fyrir fótbolta núna. Ætla líka að reyna að muna eftir House, þættinum sem Jenfo vakti áhuga minn á í gegnum bloggið sitt.
Ég er komin með svolítið af girnilegum nýjum bókum á náttborðið, ætla næst að lesa íslenska spennubók sem heitir Þrír dagar í október og er eftir Fritz M. Jörgensson. Búin með nýju teiknimyndabókina hans Hugleiks og veltist um af hlátri. Brandarinn um gay-skemmtiferðaskipið og Færeyjar ... ég gargaði. Húmorinn hans Hugleiks er kannski ekki allra en mér finnst hann æði. Hulli kenndi myndlist í sumarbúðunum hennar Hildu fyrir nokkrum árum og í einum kaffitímanum fræddi hann mig um Vísindakirkjuna þar sem meðlimirnir segja: Tom Cruise minn góður, eða Tom Cruise sé lof, svona eins og Katrín Anna gerir stundum í bloggfærslum og fær mig til að flissa.
Veit einhver hvað auglýsingin um óléttu karlana á að tákna? Mig grunar að þetta sé auglýsingaherferð fyrir Gay Pride sem verður þá helgina, eða kannski fyrir enska boltann sem gæti mögulega hafist þá ... og ég er með Sýn ... gargggg úr gleði! Verð samt að benda á að 12. ágúst, er mun flottari dagsetning á allan hátt!
Fæ tvær þrusugellur í heimsókn eftir vinnu á morgun, frænku mína ástkæra og fyrrverandi svilkonu, líka ástkæra. Þær sendu mér tölvupóst í gærmorgun og vöruðu mig við Tomma bílstjóra, líst ekkert á þetta samband okkar á morgnana. Mig grunar að þær séu afbrýðisamar. Nú er u.þ.b. eitt og hálft ár síðan þær ætluðu að kíkja á himnaríki en þetta "bráðlega" er svo teygjanlegt hugtak. Mikið hlakka ég til að fá þær.
Jæja, Húsið er að hefjast. Megi kvöldið verða dásamlegt hjá ykkur og nóttin ekki síðri!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.6.2007 | 19:08
Annir, Sigþóra og Boldfréttir
Þetta var ansi annasamur dagur, vikan hefur eiginlega verið alveg svakaleg. Ritstjórinn veikur, ég í öðrum verkefnum (kemur bráðum í ljós ... úúúúú) og í ansi mörg horn að líta. Skil ekki hvernig blaðakonur Vikunnar fara að því að klæða sig á morgnana fyrir vængjunum, þessar frábæru hjálparhellur.
Hitti Sigþóru í réttfyrirsex strætó og plataði hana til að setjast hjá mér. Hef ekki séð hana í margar vikur, enda vinnur hún þannig að sumar vikur tekur hún fyrsta strætó á morgnana og aðrar vikur næsta vagn og ég auðvitað verið í fríi. Sagði henni að hún væri komin með göngufélaga upp brekkuna þar sem leið 18 kýs frekar að aka Árbæinn en Stórhöfðann! Við hlökkum ofboðslega til að labba þetta í trylltum veðrum í vetur og nú verð ég bara að festa kaup á góðum útigalla. Þvílíkar hetjudáðir sem við munum drýgja, bjarga fólki á leiðinni, ýta bílum úr sköflum, grafa okkur í fönn og svona.
Nick virðist vera grautfúll út í gang mála, hann er allt í einu fastur við dóttur konunnar sem hann elskar, hina barnshafandi (eftir hann) Bridget! Hann snapar rifrildi við hana og hún er sífellt sakbitin. Bridget, ef þú ert að lesa þetta, hættu með Nick strax ... í framtíðinni á hann hvort eð er eftir að fara að deita geðlækninn geðþekka, hana Taylor inni í framtíðinni, ég njósnaði.
Brooke grætur Nick en ætlar greinilega að fórna sér fyrir hamingju (!) Bridget.
Mér sýnist að Jackie, mamma Nicks, og Eric, pabbi (en ekki blóðfaðir) Ridge, séu farin að draga sig saman. Já, þau eru að kyssast! Kræst, hvað segir Stefanía nú?
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.6.2007 | 08:41
Rómantík í morgunsárið ...
Elskan hann Tommi sat undir stýri í morgun og var með Rás 2 á. "Góða ferð, góða ferð, góða ferð," söng einhver annar en Ingibjörg í BG, við Tommi héldum jafnvel að þetta væri Eyvi. Rómantíkin hélt áfram því næsta lag var Söknuður með Roof Tops og svo hélt ég að ég yrði ekki eldri þegar Zeppelin fóru að syngja ómþýtt Babe I´m gonna leave you ... Fólkið í strætó var farið að vanga aftur í, ég lygndi bara aftur augunum en á rómantískan hátt. Ef ég geng einhvern tíma út þá gerist það í strætisvagni og verður Rás 2 að kenna.
Í millitíðinni, eða skömmu fyrir Zeppelin, gerðist reyndar sá æsispennandi atburður að farþegarnir í Skagastrætó þurftu að skipta um rútu á Kjalarnesinu. Ég klökknaði þegar ég sá endurfundi Tomma og rútunnar sem beið okkar, enda er hann oftast á þeim bíl. Tommi klappaði á mælaborðið, tautaði falleg ástarorð og svei mér ef allir farþegarnir fengu ekki eitthvað í augað ...
Mig grunar að Magga mágkona (systir Tomma) píni Gest Einar til að spila rómantíska tónlist í útvarpinu til að við Tommi verðum skotin hvort í öðru og hún fái loks alvörumágkonu. Held að hún verði að sætta sig við rútu sem mágkonu ... ansi flotta og þægilega rútu sem kann þó ekki að búa til gott kaffi!
Engin Karítas var í brekkunni í Mosó og Tommi ákvað að hún hefði sofið yfir sig, ég giskaði á að skólarnir væru bara búnir, en Karítas er yfirmaður í grunnskóla í 112 Rvík. Tommi sagði að dóttir hennar væri algjör eftirmynd hennar, hann hefði haldið einu sinni þegar hann kom á stoppistöðina í Háholti að Karítas væri þar á hnjánum ... en sá svo að þetta var barnið hennar.
Mikil hátíð ásatrúarmanna verður á morgun, enda sólstöður, og hef ég rökstuddan grun um að mannfórnir verði færðar, að vænum höfðingja verði slátrað eða eitthvað ... ef marka má það sem Tommi hefur gefið í skyn.
18.6.2007 | 22:41
Góður mánudagur
Fyrsti vinnudagurinn eftir sumarfrí gekk frábærlega, gott að vera komin aftur í röð og reglu þótt hitt sé auðvitað notalegt.
Inga sótti mig um hálffimm, dauðþreytt eftir daginn. Henni hafði dottið í hug að steypa eina tröppu við húsið sitt og hélt að það væri ekki mikið mál. Annað kom á daginn. Hún dreif sig í Húsasmiðjuna til að kaupa sement og tilheyrandi. Karlarnir þar gátu ekkert hjálpað henni með aðferðirnar við steypun, enda vanir iðnaðarmönnum sem vita allt.
Inga bjóst eðlilega við að uppskrift að steypu væri aftan á sementspokunum, 300 g sement, 200 g vatn, dass af möl ... eitthvað svoleiðis en svo gott var það ekki. Hún gerði sér þá lítið fyrir og hringdi í framleiðandann, Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi, og fékk að tala við framkvæmdastjórann. Sá skemmti sér vel yfir símtalinu og bjargaði henni um uppskrift verkfræðings nokkurs að góðri steypu, hann fræddi hana líka um þriggja ára háskólanám í steypun en það bíður betri tíma. Inga keypti sér líka slípirokk í dag og er að springa úr stolti. Svo á hún svo margar tegundir af verkfærum að ég kann ekki að nefna þau.
Sá næsti sem talar um konur sem sleppa sér í fatabúðum ætti að hitta hina fögru Ingu sem stundar steypuverslanir af ástríðu. Karlarnir seldu henni reyndar allt of mikið af sementi, ranga möl og hvaðeina en hún gat reddað því.
Gat ekki stillt mig um að biðja hennar, enda stutt í framkvæmdir hjá mér og elsku smiðurinn er búinn að gleyma mér. Held reyndar að hann sé í sumarfríi.
Við sóttum Ernu og héldum á Skagann, náðum í Einarsbúð kl. 17.59, eða rétt fyrir lokun, og keyptum kjúklingabringur á útsölu. (Ég elska Einarsbúð) Inga kenndi okkur að gera mexíkóskan kjúklingarétt og kjúkling fylltan með gráðaosti og skinku. Algjört nammi. Skvísurnar eru farnar í bæinn og ég sit pakksödd með hellings afgang sem dugir í nokkrar máltíðir. Býst við að við gerum þetta að vana, í haust mun ég kenna þeim að búa til góðu súpuna mína með chilipiparnum.
18.6.2007 | 08:45
Jibbí, komin í vinnuna!
Ég gleymdi ekki að fara í vinnuna í morgun, sjúkkitt. Krúttið hann Tommi bílstjóri kom okkur klakklaust í bæinn á fínum tíma, enda lítil umferð og fáar stoppistöðvar á leiðinni. Mikið var notalegt að hlusta á Rás 2, góð lög og fínar útvarpskonur. Það eru aðeins meiri læti á Bylgjunni og viðkvæmt taugakerfi okkar Skagamanna á erfiðara með mikið stuð, viljum frekar dorma (nessum dorma) í þægilegri rútu.
Maður sem vinnur hjá Prentmet hoppaði út á Vesturlandsveginum og ég hafði þrjár sekúndur til að ákveða mig hvort ég færi út með honum. Strætó númer 18 er hættur að stoppa þarna fyrir neðan, heldur fer í Árbæinn fyrst (arggg) svo að ég þarf að fara í Ártún ef ég ætla að ná honum ... EN gönguferðahatarinn moi ákvað að tölta bara uppeftir. Þeir sem þekkja mig vita að þetta er mjög ólíkt mér. Þótt þetta sé frekar há brekka sem liggur þarna uppeftir þá er hún ekki næstum því jafnviðurstyggilega hræðileg og lúmska brekkan í Ártúni (sunnan megin við Ártúnsbrekkuna).
Ég blés ekki úr nös, enda labbaði ég löturhægt. Ástæða: helvítis verkurinn í vinstri fæti, verkurinn sem læknirinn sagði að myndi lagast (fyrir einu og hálfi ári), hann sagði reyndar ekki að þetta væri vírus, eins og algengt er á heilsugæslustöðvum. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og komst ekkert áfram af viti fyrr en ég fattaði að bora með fokkfingrinum þéttingsfast í vinstra lærið framanvert, þá fór þetta eitthvað að ganga. Upp brekkuna komst ég þótt ég liti eflaust út eins og hálfviti. Þetta er svolítið fúlt ... ég flyt á Skagann þar sem dásamlegar gönguleiðir eru um allt og ætla að fara að hreyfa mig meira en mér er of illt í fætinum til að geta gengið ... og myndi eflaust lagast ef ég hreyfði mig meira. Vítahringur dauðans! Mun heimta sjúkraþjálfun, nenni þessu ekki lengur.
Ég mætti langfyrst allra, rúmlega hálf átta, og hef m.a. afrekað að taka til á skrifborðinu mínu, fara í gegnum tölvupóstinn, panta espressóbaunir frá Kaffitári og hlusta á Króa á Rás 2 (Kristin R. Ólafsson) en við unnum saman úti í Vestmannaeyjum í gamla daga þegar þótti fínt að vinna í fiski. Hann man alveg örugglega ekki eftir mér en er sjálfur mjög minnisstæður og skemmtilegur.
Mikki bauð glaðlega góðan dag þegar hann kom loksins og ég kunni ekki við bjóða honum gott kvöld á móti þótt hann kæmi seinna en ég ... Doddi, aftur á móti sagði græðgislega: "Ný klipping?" Mikið er gott að vera komin aftur í vinnuna þar sem ég fæ sanna aðdáun! Held að Skagamenn og samfarþegar mínir í strætó gangi að mér vísri ... að vísu sagði samstrætóstoppistöðvarmaður minn: "Hvar hefur þú verið?" þegar ég birtist á stoppistöðinni kl. 6.43 í morgun. Smá sakn greinilega.
17.6.2007 | 00:37
Tjull, reykingabann og kattahöfnun
Skrýtið, ég fór frá himnaríki um hádegisbil í gær og kom upp úr ellefu í kvöld aftur heim. Samt er eins og ég hafi verið í heila viku í sumarbúðunum, svo mikið hefur verið um að vera. Ég afþakkaði boð um að vera dómari í söng- og hæfileikakeppninni í kvöld og hjálpaði Möggu minni að tjulla grindverkið við framhlið sumarbúðanna. (sjá mynd)
Svo var klukkan allt í einu farin að ganga tíu, við Magga enn á Hellu og síðasti strætó heim frá Mosó eftir rúman klukkutíma. Við kvöddum hvorki kóng né prest, heldur rukum að stað og án þess að leggja okkur eða aðra í lífshættu komumst við í Mosó á réttum tíma. Lítil umferð og engir lestarstjórar á 80 km/klst. Kvöddum með tárum í gegnum gemsann minn. Ég virðist alltaf yfirgefa sumarbúðirnar á ljóshraða. Hafði bara fimm eða tíu mínútur síðast til að koma mér í veg fyrir rútuna vegna kolrangra upplýsinga á Netinu.
Strætóbílstjórinn í kvöld vinnur líka af og til sem dyravörður á vinsælum pöbb í Reykjavík (þar sem m.a. listamenn hanga) og var að vinna í gærkvöldi. Það var sæmilegt að gera, sagði hann, en um síðustu helgi mætti varla hræða. Hann spurði örvæntingarfullur: Hvar er reyklausa liðið sem kvartaði svo mikið yfir reykmettuðum skemmtistöðum? Þessir fáu gestir sem komu um síðustu helgi reyktu allir (úti) ... og innkoman um kvöldið dugði ekki einu sinni fyrir laununum. Þetta reykingabann mun gera svo marga atvinnulausa, sagði hann spámannslega.
Ég var eiginlega viss um að allt væri fullt út úr dyrum af reyklausu, happí liði, þessu rosalega háværa sem hefur tjáð sig svo mikið um gleði sína yfir reyklausum skemmtistöðum. Var þetta bara forsjárhyggja eftir allt saman?
Kisurnar þekktu mig varla þegar ég kom heim, svo langur tími hafði liðið ... en samt var nægilegt vatn og matur hjá þeim. Áhugaleysi þeirra á mér er algjört, þær sofa!
Rifjaði bara upp ást mína á kaffinu góða í himnaríki og horfi nú með öðru á Geisha ... The birds hérna fyrir utan er aðeins meira spennandi. Engir kvenfuglar í hópnum sem líta á það sem heiður að vera þrælar karlfuglanna.
14.6.2007 | 20:45
Breytt áætlun, undarlegt barnaefni og enn undarlegra fullorðinsefni
Ætla í sumarbúðirnar á morgun, í stað þess að fara á laugardaginn og koma til baka sama kvöld. Það er svo mikið að gera, m.a. í skráningunni, að það er vel þegið að fá eins og einn þræl til hjálpar. Ég þarf líka að fara um allt með myndavélina og fá Davíð frænda til að setja afraksturinn á Netið, www.sumarbudir.is. Þið kíkið kannski á snilld mína á föstudagskvöld/laugardag.
Fæ far með Ellýju en hún heldur utan um karaókíkeppnina um helgina og þjálfar krakkana, mun gera það í allt sumar. Ellý hefur komið að sumarbúðunum í mörg ár og ekki bara séð um tónlistina, heldur líka kennt myndlist og íþróttir. Hún er svo fjölhæf, þessi elska. Smáplögg ... Ellý er með myndlistarsýningu á Draugasetrinu á Stokkseyri og stendur sýningin fram eftir sumri.
Rosalega hefur barnaefni í sjónvarpi breyst síðan Rannveig og Krummi voru og hétu og ég horfði á Lobba í Stundinni okkar með erfðaprinsinum. Heyrði eftirfarandi í barnatímanum á Stöð 2 í dag: Ekki segja mér að þú sért í skilorðseftirlitinu. Hvað viltu hitta mig oft? sagði sexí kvenkyns teiknimyndapersóna. Hvernig fórstu að því að útvega tryggingaféð?
Fleira sexí, nú úr boldinu:
Tómas ætlaði að flytja út frá mömmu vegna andstöðu hennar við Gaby, ólöglega en fallega innflytjandann. Taylor er í losti og getur varla hreyft bólgnu varirnar. Hún trúir því ekki að Tómas sé í alvöru hrifinn af Gaby. Í þættinum í gær hefur Taylor örugglega klagað í útlendingastofnun því að þegar ungu hjónin ætla út úr dyrunum mæta þau löggunni. Gaby er handjárnuð, eins og um morðingja sé að ræða. Hvað er Bush að pæla? Orðum geðþekka geðlæknisins er trúað um að þetta sé sýndarhjónaband en í alvöru elska þau Tómas og Gaby hvort annað, eru meira að segja búin að sofa saman. Á síðustu stundu birtist lögfræðingur Gaby og bjargar henni. Þið trúið frekar orðum bitrar tengdamóður en ástfanginna hjóna, segir lögmaðurinn. Kynslóðaskipti eru greinilega í nánd í boldinu. Kellingarnar eru að verða old news.
Brooke elskar Nick (og hann hana) en gerir allt til að tryggja hamingju Bridget dóttur sinnar. Hún er búin að tæla bjargvætt Taylor, gaurinn sem var svo skotinn í Bridget og reyndi svo ákaft að fá hana til að yfirgefa Nick. Einhver skortur á leikurum í Ameríku veldur því líklega að allir sofa hjá öllum og giftast hver öðrum til skiptis. Mér finnst ekki ólíkleg að Brooke giftist þessum gaur.
14.6.2007 | 12:42
Djúppælingar dagsins
Loks gat ég horft á hádegisfréttirnar í sjónvarpinu. Sl. tvo daga hefur ekki komið merki, ekki náðst skilningur á milli loftnetsins míns og draslsins ofan á Sementsverksmiðjunni. Ég er ekki þekkt fyrir samsæriskenningar en hugsa samt ... hverju var verið að leyna mig?
Fínar fréttir í dag. Svo að ég geri nú eins og sumir vinsælir bloggarar og endursegi fréttirnar þá mega ellilífsþegar fara að vinna fljótlega án þess að lífeyririnn skerðist. Já, og bærinn er fullur af sjóliðum, hátt í 700 girnilegum kroppum. Ég fjarri góðu gamni en samt svo sorglega nálægt. Hver vill svo sem sjóliða þegar matreiðslunámskeið býðst?
Þetta er bara svo skrambi gott veiðiveður. Nógu hlýtt til að hægt sé að hneppa frá efstu tölunni á Max-gallanum og setja lambhúshettuna í vasann.
Stór kostur við að eldast er sá að nú flauta ekki bara óbreyttir sjóliðar á mann, heldur líka yfirmenn, jafnvel skipstjórarnir sjálfir. Það var ákveðið sjokk á sínum tíma þegar aðdáunin fór að færast frá skólastrákunum yfir á kennarana og síðar á skólastjórana (þá fáu sem eftir eru karlkyns) en þannig er gangur lífsins.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.6.2007 | 00:42
Myndir, myndbönd, hetjusaga og meiri neimdroppings
Þetta var skemmtileg bæjarferð í dag og kvöld og steikti fiskurinn bragðaðist einstaklega vel hjá Laufeyju og Jóni Steini.
Ókei, hér er loks mynd sem sýnir þvílíka ægifegurð sem klippara tókst að laða fram með því að einbeita sér að hári, augabrúnum og augnhárum. Var hálffeimin við ljósmyndarann og leit undan. Sætur hattur úr ljósakrónu efst ...
Tommi bílstjóri var á seinni vaktinni, ók mér báðar leiðir, og var eiturhress eins og vanalega. Hann sagði mér að hann hefði þurft að keyra Hvalfjörðinn sl. sunnudag í áætlunarferðinni suður og fór aftast í langa röð bíla. Göngin voru lokuð eftir bílveltu sem við rétt misstum af á leiðinni á Skagann skömmu áður. Þetta setti alla áætlun úr skorðum og tókst bara að hafa eina kvöldferð frá Mosó í stað tveggja.
Svo ég haldi nú áfram að droppa frægum nöfnum þá mætti ég sjálfum Emil af Moggablogginu í lúmsku brekkunni sem liggur upp að Ártúni.
Fór upp í vinnu og sótti nýjustu Vikuna, var spennt að sjá hvernig forsíðuviðtalið kæmi út, það sem ég tók í síðustu viku við Ernu, eiganda Rúfusar, fallega hundsins sem lofaði mér eilífri ást og ég honum. Inga vinkona benti mér á Ernu og sagði að hún ætti heilan helling af lífsreynslusögum handa mér, hún hefði lent í ýmsu í lífinu. Fyrir þá sem ekki vita þá eru lífsreynslusögurnar í Vikunni sannar og stendur yfir eilíf leit að krassandi og góðum sögum. (gurri@mi.is)
Erna fékkst í viðtal og vá, þvílík saga sem konan hefur að segja!
Níu ára gömul var hún á gangi eftir Hverfisgötunni og á leið í heimsókn til frænku sinnar. Litli bróðir hennar var með í för, fimm ára. Allt í einu stoppaði bíll hjá þeim og tvær konur frá Barnaverndarnefnd gripu börnin og óku þeim í fóstur út á land. Viku seinna var þeim komið í endanlega vistum á Kumbaravogi. Heimilisvinur þar misnotaði nokkur af börnunum, m.a. bróður hennar, og sjálf var hún á stöðugum flótta undan manninum. Mamma Ernu var mjög blíð og góð en átti við drykkjuvandamál að stríða, ekkert þó sem afsakaði að missa svona frá sér börnin. Þegar mamman fékk sér í glas fór Erna alltaf með litla bróður til vinafólks á efri hæðinni og þau gistu þar. Ernu gekk vel í skólanum og var hamingjusamt barn fram að þessu. Saga hennar er sláandi og ein samstarfskona mín sagðist hafa grátið yfir henni.
Þessi hetja ætlar að koma í heimsókn í himnaríki á morgun, ásamt Ingu, og saman ætlum við að læra af Ingu hvernig á að elda góða kjúklingarétti. Inga er sprenglærð í matreiðslu.
Fékk þetta myndband sent frá góðri vinkonu sem býr í USA. Langar að deila því með ykkur:
http://vids.myspace.com/index.cfm?fuseaction=vids.individual&videoid=2022646177
Annað myndband, eiginlega ansi skondið. Ég man ekki eftir þessum megrunarkúr en hann var vinsæll í kringum 1971:
http://www.youtube.com/watch?v=73CKpn-5uc4
Myndin hér að neðan er af nýlegri megrunarkúr! Hehhehehehe!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.6.2007 | 14:27
Dúndurfréttir og fleira stöff
Eftir fjöldamargar áskoranir undanfarið um að birta ásjónu mína eftir nýjustu fegrunaraðgerðir þá hef ég reynt að mynda mig frá öllum sjónarhornum. Besta myndin náði bara hálfu vinstra auga og svoleiðis mynd birtir maður ekki á virðulegu bloggi. Ég gæti vissulega endurbirt myndina af okkur Tomma í baði síðan um daginn en allir eru orðnir þreyttir á eilífum endursýningum, sbr. sjónvarpsstöðvarnar. Fann samt eina eldgamla mynd þar sem fyrrverandi og erfðaprinsinn fengu að fljóta með.
Mikið rosalega er gaman að vera heima í fríi. Nú er ég að horfa á gamlan þátt með Hemma Gunn í sjónvarpinu. Feðgarnir Pálmi og Siggi ... og Gummi Ben og Pétur hafa verið að sýna snilldartakta. Þeir síðarnefndu léku báðir hlutverk Jesú í rokkleiknum JCSuperstar.
Ég bloggaði einu sinni um Sigga Pálma, nýju plötuna hans sem ég var svo hrifin af. Tók sem dæmi að mér tókst að liggja í baði í gegnum hana alla, ég sem nenni aldrei að hanga lengi í baði þótt ég elski bað. Einhver Stressríður tekur stundum yfir., enda tíminn til að horfa á sjóinn dýrmætur.
Lofsöng plötuna í Vikunni í kjölfarið. Frétti síðar að Siggi hefði orðið ánægður með að ég minnist ekkert á það að hann væri af miklu tónlistarfólki kominn ... bla,bla, eins og flestir aðrir gerðu í dómum sínum. Mér finnst Siggi algjörlega standa fyrir sínu, einn og óstuddur.
Kynntist Gumma Ben í gegnum gamla vinkonu sem var með honum í hljómsveit, algjör eðaldrengur, Olga, konan hans, er bloggvinkona mín ... mont, mont! Pétur kom í viðtal til mín einu sinni á Aðalstöðina með Matta en þá voru Dúndurfréttir að fara að halda tónleika á Gauknum, eiginlega nýbyrjaðir. Ég ætlaði að stríða Matta og Pétri í viðtalinu og spurði þá sakleysislega: Strákar, fáið þið engar kjaftasögur á ykkur, svona hljómsveitagæar? Nei, sögðu þeir og hristu hausinn, við höfum ekki orðið mikið varir við það!Ja, ég heyrði að þið væruð gagnkynhneigðir, alla vega hluti ykkar, er það rétt? spurði ég lævíslega.
Ormarnir föttuðu þetta strax og sögðust sko vera gagnkynhneigðir! Það er miklu auðveldara að blöffa á þennan hátt á enskunni.
Það styttist í bæjarferð. Ætla að taka vagninn kl. 15.41 en skreppa jafnvel fyrst í Skrúðgarðinn og fá mér latte. Var að fatta að þriggja tíma pásan á strætóferðum milli Akraness og Mosfellsbæjar er komin upp í fjóra tíma! Það er frekar langt! Þótt það væri ekki nema ein ferð þarna á milli ... Hlakka til að hitta Laufeyju mína og borða með henni. Svo verður matreiðslunámskeið í himnaríki á morgun. Meira um það síðar.
Úúúúúúú, nú eru Dúndurfréttir að flytja Easy Livin´ með Uriah Heep. Ég elska þessa stráka!
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 45
- Sl. sólarhring: 56
- Sl. viku: 674
- Frá upphafi: 1524989
Annað
- Innlit í dag: 39
- Innlit sl. viku: 575
- Gestir í dag: 34
- IP-tölur í dag: 34
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni