Hefðardúllur og hálfkveðnar vísur

Harry og MeghanÉg veit eiginlega ekki hvað mér finnst um „viðtalið“ sem var sýnt í gærkvöldi.

Alveg er ég viss um að Sigrún Ósk (okkar Skagamanna og Stöðvar 2) hefði fengið mun meira upp úr hjónunum en Oprah, Sigrún hefði ekki leyft þeim að komast upp með hálfkveðnar vísur. Það var t.d. minnst á, snemma í viðtalinu, að starfsmenn í höllinni hefðu hætt störfum þar vegna framkomu Meghan við þá en af hverju var hún ekki spurð nánar út í það? Hætti fólkið í fússi og strunsaði út eða sýndi það Meghan dónaskap svo hún lét reka það? Bara eitt dæmi.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum fólks á netinu. Sumir segjast orðnir TEAM HARRY & MEGHAN. Einn vill svo meina að Meghan sé narsissisti (sjálfsdýrkandi?), hafi viljandi einangrað Harry frá fjölskyldunni og fleira og fleira. Bæði karlar og konur hafa sterkar skoðanir á þessu ... ég hálfskammast mín fyrir að hafa ekki meiri áhuga - en ég er þó að skrifa bloggpistil um viðtalið!

Konungsfjölskyldan þykir alls ekki jafnsnobbuð og starfsfólk hennar, hefur maður heyrt. Á au pair-árinu mínu í London (1976, hitabylgjusumarið mikla) heyrði ég að til marks um snobbið talaði eldhússtúlkan þar ekki við hvern sem væri (orðrétt) ... Það er ekki auðvelt að fá vinnu í höllinni en það er eftirsótt. Launin eru lág, skammarlega lág - svo mikill heiður að fá að vinna þarna að það þarf ekki að borga þér almennilega. Svo færðu búðing í jólagjöf (English Pudding). Út af þessum búðingi sem ég held að sé stútfullur af hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum myndi ég ekki vilja vinna í Buckingham-höll.

Barnfóstra barna Katrínar og Vilhjálms er með mikla menntun og m.a. þjálfuð í að bregðast við ef reynt verður að ræna börnunum ... ekta 007-barnapía og sennilega með ágæt laun. Já, ég skrifaði eitt sinn grein í Vikuna um hvernig væri að vinna fyrir konungsfjölskylduna. Og hef skrifað fleiri greinar um hana - kjaftasagan til dæmis um að Harry sé ekki sonur Karls - en með „mikilli rannsóknarvinnu“ fann ég út að drengurinn líkist meintum ástmanni Díönu mun minna en Söru, móðursystur sinni, auk þess segir Borghildur vinkona að viðhaldið hafi komið til sögunnar tveimur árum eftir fæðingu Harrys ...

Graena stofanÞað hefur verið auðvelt fyrir starfsfólkið að gera Meghan lífið leitt, ef því fannst hún ekki nógu fín fyrir fjölskylduna. Það voru vissulega árásir og lygar um hana í fjölmiðlum sem hefði mátt leiðrétta en var ekki gert. Það þarf örugglega mikinn styrk til að þola að giftast inn í þessa fjölskyldu. Enda tók Katrín tilhlaup, hætti nokkrum sinnum með Vilhjálmi áður en hún lagði í að giftast honum. Hún vissi hvað beið hennar.  

Og húmorinn er víst ekki mjög fínlegur hjá fjölskyldunni (t.d. Karli og Kamillu - munið þið upptökurnar í kringum skilnað Karls og Díönu?) svo ef Meghan bjóst við silkimjúkum hefðardúllum hefur hún eflaust orðið fyrir vonbrigðum. Og þetta um húðlit barns þeirra, það var virkilega ruddalegt. Filippus, afi Harrys, þótti óheppinn í orðavali - ég á litla bók með smekklausum ummælum hans t.d. úr opinberum heimsóknum með drottningu. Held að Karl sé ögn fágaðri. En ég get samt ekki ímyndað mér hver sagði þetta við Harry sem hefði sennilega ekki átt að tala um það við konu sína á meðan hún var ólétt og ofurviðkvæm.

EN ... ef þetta er allt runnið undan rifjum Meghan notar hún réttu orðin, eins og rasisma, til að fá samúð og ekki skemma tárin - og ef hún segir satt hefur þetta verið mikil martröð.

Lagt a bordHáaðallinn í Bretlandi, fínasta, fínasta fólkið, er víst bæði hissa og hneykslað á þeirri alþýðlegu siðvenju drottningar og Filippusar að snæða morgunverðinn upp úr plastdollum, inni í herbergi drottningar. Synd, þegar maður á silfurborðbúnað fyrir hvert tækifæri, gulldiska og straujaðar munnþurrkur.

Ég myndi aldrei gera þetta, frekar nota fína borðbúnaðinn á hverjum degi, við hverja máltíð ... enda dreymdi mig í æsku um að verða prinsessa. Er Andrés ekki á lausu? Djók.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki er nú menningin mikil að graðga í sig Kotasæluna beint upp úr plastdollunum. cool

Þorsteinn Briem, 9.3.2021 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 216
  • Sl. sólarhring: 288
  • Sl. viku: 1758
  • Frá upphafi: 1460691

Annað

  • Innlit í dag: 198
  • Innlit sl. viku: 1422
  • Gestir í dag: 191
  • IP-tölur í dag: 191

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband