Schubert í skúrnum og samsærisnuddarinn

Stefnumót á GalitoÞetta átti að verða villtur les- og fótboltadagur, kláraði tvo leiki og tvær þykkar ástarsögur, bækurnar frá föstudagskvöldi reyndar. Fékk nú samt góða heimsókn vinkonu í dag og fór á stefnumót á Galito í kvöld. (Ef einhver sá mig þar og heldur að ég hafi verið með kvenmanni var sú blekking gerð með speglum!) 

Ástardoðrantar eru svo dásamlegir á sumrin (og veturna, haustin og vorin, bara í sófanum með teppi yfir sér (9°C og opinn suðurgluggi í sunnanátt) - ég held ég hafi nú eftir síðustu tvær bækur, sæst við höfund kaupalkabókanna sem ég þoldi ekki, mér fannst konur talaðar niður þar, þær væru frekar vitlausar og kaupóðar og þyrftu skynsaman karl svo þær hættu að spara helling með því að kaupa fimm rándýra trefla og borga bara fjóra, og allt klætt í voða „fyndinn“ búning. Kannski geta íslenskar konur illa samsamað sig sumum týpum í svona bókum. Sama ömurðartilfinning greip mig þegar ég las bókina Móðir í hjáverkum, sem var óður til hinnar heimavinnandi, einnu sönnu góðu móður á bak við eldavélina ... enda missti sú sem var að glenna sig á vinnumarkaði karlinn sinn, eðlilega, hver vill metnaðarfulla konu og þurfa svo kannski að passa stundum? Jæks. Hinn doðranturinn sem ég las um helgina var ein enn dásemdar bókabílsbókin. Svo er það trylltur krimmi sem ég geymdi mér þar til síðast, hann lofar góðu þótt ég þoli ekki orðið "lappir" á fólki í stað orðsins fætur - kemur ekki fram hver þýðir.

Ekki enn komið SMS frá bóló hér á Akranesi, en vonandi kemur það á morgun og ég fái seinni bóluskammt í vikunni. Ég spurði vísindamenntaðan kunningja minn af hverju sumir fullyrtu að bóluefni hefðu áhrif á DNA í fólki. Hann sagði að með því að nota mRNA væri ekki möguleiki á því, það kóðaði bara fyrir próteininu sem myndaði broddana eða nabbana utan á veirunni. Það eyðist hratt og þess vegna þarf að bólusetja aftur. En aftur á móti ef við sýkjumst af covid fáum við „full blown“ RNA, eins og hann orðaði það, og það getur skilið eftir sig spor í erfðaefni okkar, við erum víst öll með allt að 5-7% spor eftir veirusýkingar. Sem sagt, allt betra en að fá covid. (Ég þurfti að skrifa þetta niður til að hafa þetta örugglega rétt.)

Vinur minn (maður vinkonu minnar) illa haldinn af vöðvabólgu, ætlaði að veita sér almennilegt nudd hjá nuddkonu í Reykjavík sem samstarfskona hans benti honum á. Nuddkonan notar alls kyns olíur og ilmtegundir sem eiga að hafa góð áhrif og hjálpa til við slökun og slíkt, og svaka góð, samkvæmt samstarfskonu. Nema, hann átti tíma hjá henni í næstu viku - og fékk svo boð um að mæta í seinni Astra-Zenica á nánast sama tíma. Hann sendi henni SMS og sagði henni frá því og bað um annan tíma hjá henni. Konan svaraði: „Ég mæli með því að þú komir í andlega styrkingu til mín í stað þess að fara í þessa tilraunabólusetningu.“ Hann varð alveg fokreiður, þetta eru ekki tilraunalyf, en ákvað að svara ekki, bara sleppa þessu 12 eða 14 þúsund króna lúxusnuddi og finna sjúkranuddara, eins og ég stakk upp á. 

SchubertÉg fór með vinkonu minni í antíkskúrinn hjá Kristbjörgu í dag og keypti bæði uglu með klukku - og sjálfan Schubert, og honum til heiðurs hlusta ég nú á Ófullgerðu sinfóníuna á Spotify. Hefði nú viljað styttu af Mozart eða Bach ... en Schubert var flottastur af þeim (styttum) sem til voru. Þar var Wagner, þekki verk hans lítið, við reyndum svo mikið að rifja upp þetta frægasta hans, Hafmeyjan? neeeee ... tók marga klukkutíma og síðan heilt stefnumót á Galito að rifja það upp ... ahhh, Valkyrja Wagners, auðvitað! Tekur fólk ekki með sér nesti og álpoka, áttavita og svefnpoka þegar það fer á Valkyrjuna? Verð að játa plebbaskap minn að hafa aldrei séð/heyrt þessa metnaðarfyllstu óperu ever ...

Þarf að melta stefnumótið á Galito ögn betur áður en ég gef skýrslu. Það var a.m.k. afar áhugavert. Miðað við hvað ég er ofboðslega tækniheft hefur mér tekist að koma í veg fyrir að t.d. veðurfræðingurinn og þessi nýi geti mögulega séð bloggsíðuna mína (mamma Vilmundar veit ekki af blogginu). Það kemur bara 404Error-eitthvað þegar þeir reyna.

Þegar þeir voru bólusettir - og reyndar allir ógiftir karlar 55-65 ára - hafði ég farið fram á að örflaga þeirra yrði með sérstöku fráfælandi himnaríkisbloggsjáelsi og get stjórnað þessu með símanum mínum (og fjarstýringunni að viftunni) hvað þeir (og allir karlar á þessum aldri) sjá af mínum skrifum - og sitt af hverju fleira. Gott að vera vel tengd. 

- - - - - - -

- - - - - - - 

Myndir:

Efri ljósmyndin er frá stefnumótinu. Ef hún prentast vel má sjá afar myndarlegan mann sitja á móti mér, með þorskinn sinn, ég fékk mér lax.

 

Neðri ljósmyndin er af Schubert við hlið gamla kertastjakans eftir Guðmund frá Miðdal. Vinstra megin á veggnum er grafíkmynd eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson og sýnir m.a. Beethoven, sú efri er eftir son minn, þá átta ára, hann hafði heilmikla myndlistarhæfileika. Myndin til hægri er eftir Megas. (Ég vann svo lengi sem blaðamaður að mér finnst að það eigi að hafa myndatexta - er of tækniheft til að setja textann við sjálfar myndirnar á réttan hátt.)   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.2.): 24
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 905
  • Frá upphafi: 1518366

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 779
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Alvörugaldrar
  • Móðgandi sturtusápa
  • Nýja heimilið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband