Vesen og aftur vesen í himnaríki

Tölur dagsinsVið stráksi sváfum nánast af okkur tvo daga. Slappelsi og pínku kvef. Sæmilega hress á kvöldin og gátum borðað. Hann sá um eldamennskuna á mánudagskvöldið, gerði gómsætar og hressandi Costco-núðlur. Ég í gær, frosið hakk og útrunnið pakka-Gryte sem ég fann af tilviljun inni í skáp, vissi ekki að væri til, og bragðaðist samt alveg ágætlega, ég fékk hávært hrós frá drengnum fyrir verulega snjalla eldamennsku. Ég beið eftir að lyktar- og bragðskyn hyrfi, ekki svo spennt auðvitað en vonaði það nánast í tengslum við vissan kattasand sem þurfti að skipta um ... og í morgun vöknuðum við bæði svo afskaplega eldhress að annað eins hefur vart sést í Himnaríki síðan fyrir helgi.

 

Ég drakk minn fyrsta kaffibolla í morgun eftir að hafa ekki haft lyst á kaffi mánudag og þriðjudag og hann bragðaðist sæmilega, er ekki frá því að smávegis geymslubragðs hafi gætt, enda baunirnar of lengi í kvörninni, hefðu verið löngu búnar undir eðlilegum kringumstæðum. Ég var rétt nýbúin að gera kaffið þegar síminn hringdi ... það var ég sem pantaði það örlagaríka og ögn kvíðvænlega símtal. 

 

InkedSýnatakan í dag_LIGurrí: Já, sæl, sennilega er algjör óþarfi að hafa samband en ég veiktist á sunnudagskvöld með höfuðverk og var mjög slöpp, svaf nánast í tvo daga, en er orðin góð núna, þetta er örugglega sama flensan og ég fékk í fyrra, sirka viku áður en covid kom til Íslands. Þorði ekki annað en að hringja samt og fá ráð, t.d. hvort stráksi megi fara í skólann á morgun. 

Heilsugæslan: Þið þurfið að fara í covid-próf! Ég skal skrá ykkur.

(Kannski vissi hjúkrunarfræðingurinn af klaufaskap mínum við að panta af netinu (jólagjafir, covid-test og slíkt) en ég held að hún sé bara svona almennileg.)

 

Við fórum í prófið kl. 13 í dag. Frábæra vinkona mín sem útskrifaðist úr covid-veikindum í gær skutlaði okkur. Sem betur fer, vissulega stutt að fara undir venjulegum kringumstæðum en langt ef maður hefur verið svona slappur. Við sátum aftur í með gluggana opna, vorum með grímu og hanska ... og leyfi hjúkkunnar til að fá skutl. (Fékk líka leyfi til að taka myndina en teiknaði samt smávegis á hana). Það var nokkur biðröð (við vorum aftast) en þetta gekk hratt fyrir sig og tveir mjúkhentir menn tóku sýnin - í kvöld fáum við svo að vita. Ég er búin að veðja við sjálfa mig upp á milljón trilljónir að þetta sé ekki covid. Svo það er eins gott.

 

Ekki nóg með hálfgert covid-vesen, heldur blasir við ótrúlegur dagur núna áttunda september þegar rafmagn verður tekið af Himnaríki í tíu klukkutíma, eða kl. 9-19. Sennilega til að kenna okkur í hverfinu mínu að taka rafmagni ekki sem sjálfsögðum hlut. Bara tilkynningin vakti með mér ótta. Ég veit ekki hvernig ég get lifað þetta af. Í fyrsta lagi þarf að hafa skál af vatni fyrir kettina því vatnsbrunnurinn þeirra virkar ekki án rafmagns. Ég þarf að vakna fyrir allar aldir og hella upp á tvo kaffibolla FYRIR klukkan níu (í sumarfríi en þess virði að vakna) og geyma annan í kannski klukkutíma. Ég er yfirleitt, afsakið, ALLTAF með svo gott kaffi að það er mjög vel drykkjarhæft þótt kalt sé ...

 

Bananabrauð og súkkulaðitertaSvo þarf að passa að hafa allt fullhlaðið; síma, iPad og lesbrettið ... gott ef ég fæ mér ekki bara áttavita, vatnsflöskur, álpoka og landakort til öryggis. Eins gott að drengurinn verður í skólanum og fer í mat annars staðar þennan dag en hann þarf samt að afplána heilan klukkutíma í rafmagnsleysi eftir að hann kemur heim. Ég get ekki einu sinni pantað úr Einarsbúð mér til dægrastyttingar því dyrabjallan er háð rafmagni EINS OG ALLT!

Já, og það þarf að passa að opna ísskápinn sem allra minnst til að hleypa kuldanum ekki út ... ég ætti að skrifa minnismiða.

 

Kannski fer ég bara að heiman, skrepp í Grjótið undir hádegi (nýja matsölustaðinn við Kirkjubraut) og fæ mér hádegismat og gott kaffi á eftir, þar er metnaður bæði þegar kemur að góðum mat og góðu kaffi ... spennt að vita hvað verður á könnunni þann dag. Ég gæti svo tekið nokkra hringi með innanbæjarstrætó þar til mér verður hent út. Ef mér fyndist ekki svona viðbjóðslega leiðinlegt að ganga, gæti ég- nei, aldrei.

 

DótaríEinarsbúð kom með vistir áðan, ekki alla leið upp þó, varúð fram að SMS-inu sem inniheldur örlög okkar í Himnaríki (drama, drama). Ég gleymdi að panta bökunarpappír! Fann illilega fyrir því þegar ég bakaði á sunnudaginn (sjá myndarskaparmynd hér ofar) áður en veikindin hófust ... maður smyr mót og setur LÍKA bökunarpappír í botninn til að kakan losni, ég var búin að steingleyma því, átti smávegis af bökunarpappír svo þetta var næstum ófyrirgefanlegt af mér.

Restin af BC-súkkulaðiköku og bananabrauði er enn í ísskápnum, sennilega í fínu lagi í dag/kvöld en verður mávaveisla eftir það, held ég. 

 

Hér á Akranesi var nýlega opnuð verslunin Dótarí, í sama húsi og Classic hárstofa (hæ, Anna Júlía og hinar), Dominos (hnuss*), Apótek Vesturlands (hæ, allir), ljósastofan hans Vignis (hæ, Vignir) og Bónus (hæ, allir).

*Hnussið fær Dominos fyrir að neita að taka við símgreiðslu í rúmt ár og reyna að neyða gamlar konur til að panta og borga í gegnum netið á meðan ekki er séns að finna út úr því hvernig hvítlauksolía er pöntuð með pítsunni - ég hringi ekki OG panta og borga á netinu svo Dominos má bara hoppa upp í óliðlegheitin í sér!

 

Mikið á Dótarí eftir að slá í gegn. Hlakka til að fara þangað, sé að þarna er til alls konar bökunardót líka, mig vantar einmitt bollakökuform og fleira (Elli neitar t.d. að koma í heimsókn nema fá Rice Krispís-kökur). Sé á Facebook að Skagamenn eru alsælir og að þetta hafi verið akkúrat búðin sem vantaði. Bíð nú samt spennt og nokkuð óþolinmóð eftir KFC (fyrir drenginn) og Rúmfatalagernum (eða Ikea). Vér Skagamenn erum að verða átta þúsund talsins! Kannski fer ég í Dótarí á rafmagnslausa daginn eftir viku. Held að ég haldist ekki við heima kúrandi volandi í kulda, trekki og rafmagnsleysi - nema SMS-ið í kvöld verði þannig orðað að ég verði ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 60
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 1602
  • Frá upphafi: 1460535

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 1282
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband