Bestu eiginmennirnir og mögulegt ríkisleyndarmál

BonanzaNýlega rak ég augun í kosningu um besta eiginmanninn í sjónvarpsþáttum (erlendum) og þótt enginn hafi nennt að reikna saman atkvæði hvers fyrir sig sá ég ansi oft nefndan pabbann í Húsinu á sléttunni. Hann Karl Ingalls - sem vill svo skemmtilega til að lék líka litla bróðurinn í Bonanza-þáttunum, var hann ekki kallaður Litli Joe? Pabbinn Ben, bræðurnir Adam og Hoss (ég þurfti að gúgla) ... og engar kjéddlíngar að flækjast fyrir. Það var allt svo gott í gamla daga ...

 

 

Man meira að segja eftir laginu úr þáttunum því Kanasjónvarpið var heima hjá mér þegar ég var lítil og ég horfði á allt sem hægt var; kafbátaþættina, kafaraþættina, Felix the cat og ýmislegt fleira. Verst að þurfa að sofa, hræðilegt að þurfa að mæta í skólann! Þetta lagði sennilega drögin að meintri sjónvarpssýki minni seinna meir sem hættuaðreykja-lyfið sem ég tók í fyrra vann bug á svo ég hef ekki einu sinni nennt að horfa á annan þáttinn af Ófærð sem ég missti af á sunnudaginn, þótt ég dýrki Ófærð. Næ því vonandi áður en sá þriðji fer í loftið. En gotterísgjafelsið fer fram á milli klukkan fimm og sjö, skilst mér, sem er svo góður tími. Spennandi dagskrá fyrir börnin hefst svo klukkan sjö, skilst mér. Þannig að ég missi ekki af þriðja þættinum nema viljandi og þá til að geta horft á tvo á sama kvöldi kannski. Auðvitað ættu allir þættirnir að vera aðgengilegir, svona fyrir þá sem nenna ekki að bíða.

 

Aðrir bestu eiginmenn sem oftast voru nefndir:

- Gomez Addams úr Addams-fjölskyldunni

- Booth úr Bones-þáttunum

- Blue Blood-pabbinn þarna sem Tom Selleck leikur

- Bobby í Dallas

- Jamie úr Outlander (hef ekki séð þá þætti)

- Tim úr Handlögnum heimilisföður

- Chandler úr Friends

 

InkedÍ Heilsubælinu_LIMig langar að fá að nefna þriðja eiginmann minn sem lék kannski ekki beint í sjónvarpsþáttum en samt, það sást þó í hann í Heilsubælinu, vinsælustu sjónvarpsþáttaröð landsins, þar til Ófærð kom, held ég, hann var aukaleikari þar eins og ég (Mynd: Hann situr aftast, sést ekki í hann en hann var þarna). Og hvað heitir sá sem leikur manninn hennar Ilmar löggu í Ófærð, er hann ekki hættur að reykja hass og farinn að elda eins og engill? Hann á heima á þessum lista. Samt með fyrirvara, hef ekki séð alla þáttaröðina. Hann gæti verið handtekinn fyrir morð - það er engu að treysta í íslenskum þáttum.

 

Ég ætlaði að myndarskapast á eftir og elda lasagna ofan í okkur drenginn en hann langaði meira í kjúklingarétt (nr. 10) frá Flamingo. Sá réttur er ekkert eðlilega góður og saðsamur. Auðvitað lætur maður allt eftir dreng sem fær svona frábærar hugmyndir - og losnar við að drasla til í eldhúsinu. Hakkið getur bara dúllað sér í frysti þar til það breytist í lasagna - eða spakk&hagettí. Mig langar fáránlega mikið til að baka Góða tertu, þessa sem ég gaf uppskrift að í bloggi gærdagsins, og birti mynd því til sönnunar, enda montinn Þingeyingur.

 

- - -  VARÚÐ - EKKI LESA LENGRA - - - 

Það má hætta að lesa hér, ég móðgast ekki neitt - enda bara endurtekning síðan í gær, það er eiginlega bara afmælisbarnið* Þórólfur sem má ekki hætta að lesa. (*Ég er ekki eltihrellir, heyrði bara í útvarpinu að þú ættir afmæli).

Ég verð að hrósa covid.is fyrir að birta ótrúlega mikið magn af tölulegum upplýsingum um covid. Við fáum að vita bókstaflega ALLT um veiruna nema tölurnar sem sýna fjölda smita í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Hver tók þá ákvörðun og hvers vegna, að liggja á upplýsingum sem eru hvort eð er teknar saman á hverjum degi og flokkast varla undir ríkisleyndarmál? Löggan má ekki lengur birta þær og á að benda á covid.is, þar sem þær er ekki að finna! Mikið væri gott að fá svar við þessu og enn betra að fá tölurnar daglega til að geta fylgst með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðjón Pedersen, Borgarleikhússtjóri á árunum 2000-2008, hefur leikið Bárð, eiginmann Hinriku í Ófærð. cool

Þorsteinn Briem, 28.10.2021 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 47
  • Sl. sólarhring: 326
  • Sl. viku: 1840
  • Frá upphafi: 1460823

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 1503
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17
  • Dýrheimar kaffihús

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband