Með kænsku, lagni, kurteisi, yndisþokka ...

GosstöðvarnarEinhvers staðar las ég að það að dreyma eldgos væri fyrir rifrildi og slíkum hundleiðinlegheitum - en í nótt var farið að gjósa aftur á Reykjanesskaga, á tveimur stöðum, og ansi háir strókarnir sáust mjög vel frá Himnaríki. Mögulega rétt ráðning: Mig grunar einna helst að Þórólfur sé brjálaður út í mig fyrir að skammast og dramakastast bæði á Facebook og blogginu yfir þöggunartilburðum varðandi covid-tölur á Akranesi.

 

Um daginn var ég svo í voða fínu húsi í draumi, tónlistarhúsi (ekki Hörpu) og miklir ranghalar þar, ég leitaði ákaft að fötunum mínum sem voru uppi. Hafði vafið einhverju utan um mig svo mér varð ekki kalt. Mögulega rétt ráðning: Ég verð mér til skammar, ekki alvarlega fyrst ég var ekki nakin í draumnum, missi mig yfir hertum aðgerðum á meðan upplýsingaflæði er skert. Garga á Þórólf þótt ég sé pínkuskotin í honum.

 

HrekkjavakanMér tókst með kænsku, lagni, gáfum, kurteisi, yndisþokka og skynsemi að komast að því, ekki nákvæmlega samt, að það eru frekar mörg smit á Akranesi núna, aðallega meðal barna sem er ekki gott en samt gott að vita. Nú gat ég pantað einnota hanska í Einarsbúð í dag og ég á grímur, og mun sitja niðri í anddyri á sunnudaginn í kafarabúningi, marineruð í spritti og gefa sælgætið sem ég fjárfesti í. Vona heitt og innilega að það klárist ... og vona enn heitar að það klárist ekki. 

 

Tölurnar sem Vesturlandslöggan birti stjórnuðu því svolítið hvort ég færi varlega, miðlungs-varlega eða extra-varlega. Ég var ekki ein um það. Þær hjálpuðu mér við að lifa sem eðlilegustu lífi. Tölur um fjölda veikra á sjúkrahúsum (sem eiga að verða tölurnar sem miðað verður við) segja mér ekki rassgat neitt. Birtið þessar kaupstaðatölur aftur, t.d. inni á covid.is, annars sé ég mér ekki annað fært en að tala við Björn Inga!

 

Matreiðslubækurnar hennar mömmu lentu hjá mér þegar hún flutti í fyrra, líka þessi sem er bókhaldsbók upprunalega en mamma notaði til að skrifa uppáhaldskökuuppskriftir í, fagurgræn að lit eins og matreiðslubókin sem hún notaði mikið. Ég fletti henni aðeins áðan, upp á grín, og sá að ég hafði skrifað mínar uppáhaldskökuuppskriftir fyrir aftan hennar fyrir um fjörutíu árum. Tertan Góð terta sem ég leitaði mikið að árum saman var þarna, auðvitað. Nú er ég búin að finna hana, sem er fínt, kannski eftirmatur um jólin? Sjálf er ég talsvert minna fyrir sætar kökur en áður sem er tryllingslega gott upp á útlínurnar. Hún var upphaflega í kökubæklingi á áttunda áratug síðustu aldar og ég hef lent í mörgum rifrildum út af nafni hennar. Það trúði mér enginn að nokkur terta gæti heitið Góð terta. Nú, áratugum seinna, hlæ ég hæðnislega en er ögn beisk. Best væri að finna kökubæklinginn og troða honum í andlitið á þeim sem hlógu mest. Minnir að í sama bæklingi hafi verið jarðarberjatertan ... kókosbotn með súkkulaðibitum, jarðarberjarjómi á milli, þessi vinsæla ... og góða.

- - - - - - - 

Góð tertaGóð terta

(hún er nú betri en það)

Efri botn

3 eggjahvítur

180 g púðursykur

Þeytið saman hvítur og sykur. Bakið í neðstu grind við 120°C eða minna. (Þarna gleymdi ég að skrifa tímann, ein klst. eða lengur?)

 

Neðri botn

3 eggjarauður

1 egg

80 g sykur

2 msk. hveiti

1 tsk. lyftiduft

Þeytið egg og sykur og blandið síðan hveiti og lyftidufti saman við. (Giska á bakstur við 180°C í smurðu formi, fullbökuð þegar prjónn kemur hreinn út eftir pot)

 

Krem

100 g súkkulaði

2 eggjarauður

100 g flórsykur

75 g smjör

Þeytið smjör, flórsykur og eggjarauður, blandið síðan gufubræddu, ögn kældu súkkulaði saman við. (kremið er frekar stíft, minnir mig)

 

1 peli rjómi, þeyttur (spurning hvort þetta eigi ekki frekar að vera 1/2 lítri?)

 

Brúðarterta trumpsSamsetning: Smyrjið neðri botninn með kreminu og setjið helminginn af rjómanum ofan á kremið. Þá kemur efri botninn (marensinn) og efst restin af rjómanum.

ATH. Ég myndi baka marensinn á smjörpappír, innan hrings sem búið er að strika, gera hringinn eftir forminu sem neðri botninn er bakaður í til að þeir verði jafnstórir.

 

Mynd: Trump-terta.

 

Í bókinni eru: Mömmukökur, hálfmánar, mósaíkkökur, kókosmakkarónur, góðar piparkökur, finnskt kaffibrauð, múrsteinar (?), laufabrauð, kleinur, pönnubrauð, kókoskransar, sírópsbrauð, glasaterta (hvítir tertubotnar), Nammi, nammi, gott, gott (peruterta), Draumaterta og besta, besta skúffukaka heims með m.a. negul, kanil og engifer ... Mun hiklaust bæta við uppskriftum í hana; bananabrauð, skonsur, kornflexmarens og annað sem ég nenni ekki að gúgla í hvert skipti. Matreiðslubækur og kökubækur eru svo mikil snilld því maður fær hugmyndir við að fletta þeim. Gúgl er ágætt en fyrst þarftu að fá hugmyndina, svo gúgla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 95
  • Sl. sólarhring: 522
  • Sl. viku: 2543
  • Frá upphafi: 1457412

Annað

  • Innlit í dag: 80
  • Innlit sl. viku: 2115
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 77

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Elsku Tommi
  • Elsku Tommi
  • Mamma hjúkka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband