Einn ís með sálfræðimeðferð, takk

InnkaupakarfaMögulega tók ég of sterkt til orða í síðasta bloggi varðandi elstu og yngstu systkini og meinta illmennsku þeirra. Í raun verð ég að undanskilja svo marga frá þessu að kenningin gengur ekki lengur upp. Það er samt freistandi að stofna költ í kringum þetta eða skrifa bók ... þú ert svona ef þú ert elsta barn móður þinnar en miðbarn í föðurætt ... o.s.frv.

 

Ég fór nefnilega alveg úr jafnvægi skömmu áður en ég bloggaði, við hrekk Hildu systur þar sem við vorum í Krónunni í gær og hún laumaði pakka af smokkum í innkaupakörfuna mína (rosalega þroskað en skárra en rúsínur og Bragakaffi). Skagamenn horfðu hissa ofan í körfu mína en með vott af aðdáun, sýndist mér. Ég skilaði pakkanum en auðvitað hefði verið sniðugt að fá aðdáunaraugnaráð frá kassastelpunni og kaupa fjandans pakkann. Fjör hjá öldruðum? hefði hún kannski hugsað, allt yfir þrítugt eldgamalt í hennar augum, ef hún er eins og ég var. 

 

10 barna móðirFékk frábæra heimsókn í dag frá gamalli vinkonu. Spjallið barst um víðan völl og í ljós kom að mæður okkar voru ekki bara fínar konur, heldur líka ansi hreint dramatískar þegar kom að bíómyndum. Ég var eitthvað að tala um bíómyndir sem mig langar ekki til að sjá aftur, nefndi Titanic (fyrirsjáanleg) sem dæmi. Hún sýndi mér mikinn skilning, horfði á hana eitt sinn með móður sinni sem talaði allan tímann: „Hugsa sér allt þetta fólk sem er að skemmta sér og veit ekki að það á eftir að sigla á ísjaka ... nánast allt þetta prúðbúna fallega fólk lendir í sjónum, margt á eftir að deyja, og hljómsveitin heldur bara áfram að spila ...“ og svo framvegis. Þetta var ekki auðveld reynsla fyrir krakka sem mun aldrei horfa á þessu ræmu aftur, enga endurgerð af henni. Nema ég myndi horfa EF endinum verður breytt, allir lifa af nema kannski útlitsgallað fólk, eins og í Jurassic Park (þybbinn maður, drengur með gleraugu) en gallinn við þetta sannsögulega sem ég nenni ekki að horfa á er að það er svo erfitt að víkja frá endinum. Ég held samt að ég hafi náð að toppa vinkonu mína - MAMMA, EKKI LESA LENGRA - með lýsingu á því þegar mamma var að segja mér frá sorglegustu mynd allra tíma, um tíu barna dauðvona móður og þurfti að finna góð heimili handa öllum tíu börnum sínum og ótta hennar við að enginn myndi vilja ættleiða fatlaða barnið hennar ... og líka lýsingu á ekkanum sem mamma ætlaði aldrei að losna við eftir að hafa séð hana í fyrsta sinn. Að horfa á mömmu berjast við tárin á meðan hún talaði um myndina minnti mig á sjálfa mig segja frá lokaatriðinu í Empire of the Sun. Ég klökknaði í mörg ár þegar ég sagði fólki frá flotta stráknum, loksins búinn að finna foreldra sína eftir að hafa orðið innlyksa í stríði (WW2) í Japan, og lokaði þjáðum augunum þegar hann var loks orðinn öruggur ...

 

Covid-ópiðVið vinkonurnar sátum ískaldar með hjarta úr steini og skemmtum okkur yfir eigin lýsingum. Kannski er nútímafólk orðið svo harðbrjósta af allri þessari upplifun sem er dúndrað yfir mann, á netinu, í lífinu og ég hef ekki tölu á sjónvarpsrásunum (HVAR ER SAMT FINE LIVING-STÖÐIN?) sem ég hef aðgang að, Disney, Netflix, Prime Video, Stöð 2, S.Símans Premium ... og ég horfi samt eiginlega bara á fréttir og veður. Jú, og ég kláraði Lincoln Lawyer í gærkvöldi (nótt), flottir þættir á Netflix.

 

Sótti málverkin mín í dag og eitthvað hefur minnið verið að stríða mér, þær eru miklu stærri en mig minnti, svo ég gæti þurft að flytja. Ég keypti samt eina mynd í viðbót, Covid-Ópið (sjá mynd af henni) og leyfði svo stráksa að velja sér eina. Þá er að finna einhvern til að skutla mér niður í Ramma og myndir og skella almenningum ramma utan um. Alveg spurning um millivegg í stofuna ... sennilega semja við drenginn um að leigja af honum veggpláss. Veggir hans eru svo sorglega vannýttir.

 

ÍssölusálfræðingarVið fengum okkur ís í Frystihúsinu, fer að verða daglegt brauð, og þar afgreiddu okkur tvær stúlkur sem báðar eru að læra sálfræði úti í Flórída. Hálfnaðar með námið og virtust svo frábærar að næst þegar ég fæ mér sykurlausan ís í vöffluformi fæ ég kannski góð ráð hjá þeim varðandi ástamál (ef sumarið verður fengsælt) og annað sniðugt. Ó, ég hélt að þið værum 15 ára,“ sagði stráksi en ég þarf aðeins að kenna honum betur hvaða aldurshóp kvenna er sniðugt að gera tíu árum yngri í kurteisisskyni.

Svitlanka og Rostik (veit ekki hvernig nafn hans er skrifað) af neðri hæðum Himnaríkis voru með í för og komu svo líka með í Galito þegar ísinn var farinn að sjatna ögn.

Á Galito var fullt út úr dyrum eins og vanalega og líka fullt af fólki sem ég þekki, einn uppáhaldsfréttamaðurinn minn og rithöfundur, Ævar Örn, var þarna, einnig dóttir hans sem ég hef þó aldrei hitt, töffarinn Þórhildur Sunna, ein af uppáhaldsþingkonum mínum, ásamt manni og sérlega sætu barni. Þarna var líka elsku Írena hennar Höllu vinkonu með hluta af fjölskyldunni, sýndist mér, og þegar við vorum að fara komu Einar, Erna og Einar úr Einarsbúð.

Stráksi fékk sér pítsu, vinkonan og Svitlana steikarsamloku (með salati, ekki frönskum, sem gerir þennan rétt svo miklu, miklu betri) og við Rostik (7 ára) fengum okkur sushi. Það varð hálfgert matarslys við borðið þegar ég tók óvart með fyrsta sushi-bitanum allt wasabi-ið sem átti að duga með allri sushi-rúllunni, þarf að æfa mig betur með prjónana ... Þingeyska kvenmennið í mér tók yfir í þjáningu minni svo enginn við borðið tók eftir neinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 270
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 1812
  • Frá upphafi: 1460745

Annað

  • Innlit í dag: 247
  • Innlit sl. viku: 1471
  • Gestir í dag: 237
  • IP-tölur í dag: 234

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband