Stórgrýti úr gróðurhúsi og sjokkerandi játning

11.6 2022Bláfáninn er ekki enn kominn upp við Langasand. Enginn bæjarstjóri og engin leikskólabörn sem gleðja hjarta mitt við athöfn sem hefur farið árlega fram í júní um nokkra hríð, og ekkert sem sýnir mér blátt á bláu hvaða vindátt er ríkjandi. Getur verið að ströndin, þakin grjóti, teljist ekki nógu hrein til að fá þessa viðurkenningu? Og hvað veldur öllu þessu grjóti, of smátt grjót í varnargarðinum? Eftir brim eða var sett of smátt? Sandurinn var svo miklu fínni í fyrra og bara alltaf. Þetta er eitthvað alveg nýtt. Aukaverkanir af bólusetningum? Sönnun þess að jörðin sé flöt? Geimverur í grjótkasti yfir nóttina?

 

Efri myndina tók ég núna áðan, eða skömmu fyrir miðnætti. Grjótið sést mjög vel (smellið á myndina) og svívirðilegt fánaleysið ... Samt, bláfáni er veittur fyrir hreina strönd, ómengaða. Þetta er grjót, ekki mengun. Kannski fer athöfnin fram í næstu viku, pósturinn eitthvað lengi á leiðinni með fánann. Vonandi fær fáninn þá að standa ögn lengur en rétt yfir blásumarið. Bæði er gott að sjá vindáttina þegar elsku haustlægðirnar fara að gleðja og svo er bara flott að hafa þennan fána, þetta stolt okkar eigenda landhelginnar út af Himnaríki.

 

Fór í bæinn (Rvík) í gær (föstudag) í stórafmæli vinkonu, mikið og gott spjall við skemmtilegustu konur landsins og heldur betur hlegið. Djammið stóð það lengi (til 23 og síðasta ferð frá Mjódd er kl. 23 og við vorum langt frá Mjódd) að ég gisti hjá Hildu systur og náði að nýta tækifærið til að kíkja á mömmu í dag, laugardag. Að vanda færðum við henni cappuccino og sérbakað vínarbrauð - eftir að hafa sjálfar fengið okkur einhverja hollustu hjá Kaffitári uppi á Höfða áður en við lögðum í hann til mömmu. Vaktstjórinn þar bjó til fullkominn latte handa okkur og grænmetisbakan var æði. Við vorum hálfdasaðar eftir búðarferð. Ég nefnilega gafst upp og keypti lítinn, ódýran örbylgjuofn, hefur oft vantað hann, ekki til að poppa, frekar hita mat. Svo var keypt dýrindis vifta líka, aldrei of mikið af góðum viftum í þessum hitapolli sem Ísland er á sumrin. Allt yfir 12 gráður er óbærilegt, að mínu mati, já, ég hef lækkað úr 15 niður í 12 eftir síðustu sólskinsdaga.

 

Þegar við fórum í Elkó, þurfti Hilda að sækja eitthvað sem hún hafði pantað og fyrir framan okkur í röðinni var gamall karl (á okkar aldri) sem röflaði og nöldraði út í eitt, ungi afgreiðslumaðurinn sýndi mikla yfirvegun og var svo kurteis og ljúfur þrátt fyrir ósanngirni í karlinum. Þegar við vorum komnar út í bíl og á leið í Mjódd sagði Hilda: „Það er svolítið mikið til af svona nöldrandi körlum þarna úti.“ Ég kinkaði kolli og játaði fyrir henni að kvartanir mínar hér á blogginu yfir karlmannsleysi væru bara í nösunum á mér. „Það er ekkert annað en einhver gjörsamlega fullkominn sem fær mig til að hvika frá piparjúnku- og kattakerlingalífi mínu. Hann þarf að vera sambland af ... Mr. Darcy og ... Silla kokki,“ sagði ég dreymin. „Fróður, vel upplýstur, dýravinur (elskar t.d. ketti, hunda og fugla), femínisti, ekki rasisti, með húmor, vel lesi-“

„Já, já, einmitt, hlauptu út, fljót, strætó fer eftir þrjár mínútur,“ hrópaði litla systir og ég þaut svo hratt út að ég gleymdi örbylgjuofninum og viftunni í stressinu. Hún keyrði hratt í burtu og þá fyrst mundi ég eftir því að klukkan í bílnum hennar er næstum tíu mínútum of fljót. Eitthvað skrítið í gangi. Mr. Darcy er sögupersóna og Silli ekki til heldur, hann er bara nafn á matarvagni, held ég, svo þetta var ekki afbrýðisemi. Kannski hefur systur mína bara vantað nýjan örbylgjuofn og viftu og treystir á gleymsku mína.   

 

Við létum ekki kaffistaðar numið eftir góða heimsókn til mömmu, heldur fórum í Garðabæ, í Te og kaffi, eiginlega bara til að skipta með okkur tiramísú sem hafði frést alla leið upp á Akranes að væri algjör dásemd. Það passaði og kaffið var líka sérlega gott (muna að biðja um tvöfaldan latte, annars fær maður sjálfkrafa bara einfaldan) og þjónustan sjúklega góð, eins og á Höfðanum. Held að kaffibarþjónar séu ráðnir eftir dásamlegheitum.

Sumar 2019

Neðri myndin var tekin 2019 þegar wc-in voru fjarlægð, græni kofinn tekinn fyrst laugin Guðlaug og nágrenni tók við þeirri þjónustu sem færðist þar með langt til vinstri og úr augsýn Himnaríkis. Sandurinn fullkominn, eins og alltaf, alveg þangað til núna í ár. 

 

Ég spurði drenginn sl. þriðjudag: „Hvort viltu vera töff í sumarbúðunum eða taka með þér föt sem þyrfti að slíta meira áður en þau hætta alveg að passa á þig?“

„Töff,“ var harðákveðið svarið og bara töff föt voru tekin með í sumarbúðirnar á miðvikudaginn. Mér skilst að englakrúttin sem vinna þar leggi metnað í að börnin fari með allt hreint heim, þannig var það í fyrra, en ég var lengi að fyrirgefa þeim að gráa, einlita sokkaparið var tveir gráir en mjög ólíkir sokkar! Get ímyndað mér að foreldri eða forráðamanneskja einhvers annars barns hafi látið nákvæmlega eins par, einn sokk frá eigin barni (númer 46), einn sokk frá fóstursyni mínum (nr. 41), ergja sig ósegjanlega mikið ... annar talsvert hærri upp á kálfann og vissulega ljósgrár en ekki eins ljósgrár. Mig minnir að þetta sokkapar hafi endað í Rauðakrosspoka og vonandi hjá einhverjum sem tekur ekki eftir svona, það er til fjöldi manns sem kippir sér ekki upp við sokkarugling sem fokkar upp í hausnum á öllu almennilegu og eðlilegu fólki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 250
  • Sl. sólarhring: 308
  • Sl. viku: 1792
  • Frá upphafi: 1460725

Annað

  • Innlit í dag: 228
  • Innlit sl. viku: 1452
  • Gestir í dag: 219
  • IP-tölur í dag: 219

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband