Kveðjustund og ... ekkert gullúr

Eldgos og kötturEinarsbúðarpöntun Himnaríkis var nokkuð myndarleg í dag og miðaðist við innihátíðina fram undan. Mig langar að baka súkkulaðiköku og vígja líka samlokugrillið en er nokkuð hugmyndasnauð þegar kemur að samlokum, brauð er afar sjaldan etið hér. Keypti nú samt tómata, lauk og ost sem getur varla klikkað. Man alla vega eftir ostabrauði úr æsku minni með þeim hráefnum.

 

Nýja bókin hennar Auðar Haralds hefur beðið nokkuð lengi á náttborðinu - mest vegna anna hér á bæ og svo leyndist kannski löngun til að treina sér hana en í gærkvöldi þegar ég var komin upp í rúm var hún opnuð eftir að búið var að kíkja á líf Snapchat- og Istagram-vinanna sem eru svo skemmtilegir. Hvað er drottinn að drolla? heitir bókin og segir frá tímaflakki skrifstofukonu sem hverfur til tíma svartadauða. Fannst þetta ekki endilega ofboðslega girnileg lýsing ... en Hvunndagshetjan, Læknamafían, Baneitrað samband á Njálsgötunni og svo auðvitað Ung, há, feig og ljóshærð þar sem setninguna ógleymanlegu var að finna: „... og pilsið (vondu hertogaynjunnar) var sneitt niður og gefið fátækum sem ábreiður.“ (Ábyggilega ekki orðrétt).

 

Langisandur og eldgosBókin var SVO skemmtileg og spennandi að ég tímdi ekki að fara að sofa fyrr en hún var búin sem hefði án þess tryggt algjöran ferskleika við vakn í morgun. Ég hefði sennilega lagt á mig vöku í alla nótt ef bókin hefði verið lengri. Hún endaði líka svo dásamlega sem mér finnst alltaf mikill kostur. Ég horfi til dæmis ekki á sannsögulegar myndir af því að þær enda margar illa. Titanic? Jamm. 

 

Það er vissulega ekki gott að sitja draugsyfjuð og fúl við vinnu sína daginn eftir hámlestur fram á nótt, og mega ekki fá kaffi (út af mjólkinni) fyrr en kl. 12 á hádegi. Sem gerir ótrúlega girnilegt að sofa ætíð til hádegis - sem ég gæti svo sem alveg hugsað mér en innræting umhverfisins, barnabóka með boðskap, málshátta og stöðugs áróðurs síðustu áratugi leyfir mér það samt ekki. En rúmir tveir kaffilausir klukkutímar á morgnana eru í fína lagi, kenna mér bara sjálfstjórn í gegnum þjáningar. Vara ykkur samt við því að hafa samband við mig símleiðis eða í eigin persónu  ... bara til öryggis því ég er almennt ekki geðill á morgnana.

 

Myndirnar sem prýða þetta blogg sýna stemninguna sem ríkti í lok júlí 2021 þegar litið var í suðurátt frá Himnaríki. Ef ég hefði selt íbúðina á þessum tíma hefði ég rukkað aukalega um fimm milljónir fyrir að sjá eldgos út um gluggana. Eða milljón dollara - því þetta er ekkert annað en milljón dollara útsýni ... eins og Kaninn orðar það. Í smáa letrinu hefði ég svo gætt þess að hafa klausu um að ég beri þó ekki ábyrgð á því að gosið haldi áfram. Efri myndin er tekin í svefn- og vinnuherberginu mínu og sú neðri frá minni glugganum í stofunni ... sem gæti verið þriðja svefnherbergið ef ég hefði ekki látið rífa vegginn á milli þess og stofunnar.

 

Í dag er svo síðasti vinnudagur minn hjá Birtíngi sem hét Fróði þegar ég hóf störf þar árið 2000. Ég hef kynnst fjölda dásamlegs fólks sem hefur unnið með mér eða ég kynnst með því að taka viðtal við það. Árum saman sá ég um lífsreynslusögurnar og þær voru sannarlega ekki fengnar á vinnutíma, heldur mjög oft í strætó á leiðinni heim á Akranes. Ein frábær strætóvinkona mín átti margar góðar sögur sem hún leyfði að birta. Hún prófaði eitt sinn Einkamal.is og fór á nokkur stefnumót - það eftirminnilegasta var við mann sem bauð henni í bíltúr eitt kvöldið, sótti hana heim og ók af stað - og talaði næstu tvo eða þrjá tímana um Jesú. Stoppaði ekki einu sinni í ísbúð eða sjoppulúgu til að kaupa eitthvað að drekka, honum lá svo mikið á hjarta og hún komst aldrei að. Henni fannst heldur dramatískt að fleygja sér út úr bílnum á ferð en íhugaði það samt. Þegar hann loks skilaði henni heim sagði hann glaðlega: „Þetta var gaman, eigum við ekki að hittast aftur?“ Hún horfði á hann og hristi höfuðið: „Nei, bara alls ekki.“ Svo fann hún manninn sinn skömmu seinna - hann leyndist í blokkinni þar sem hún bjó, í íbúðinni við hliðina.

 

Það er auðvitað skrítið að fá hvorki kveðjuhóf né gullúr - en þetta voru svo sem bara 22 ár. Maður úti í Eyjum fékk nýlega sitt hóf eftir að hafa unnið á sama stað í 52 ár! Sem fær mig til að hugsa líf mitt svolítið upp á nýtt og fyllast eftirsjá. Af hverju var ég bara í sex mánuði þar árið 1973? Ég hefði náð hálfri öld hjá Ísfélaginu í febrúar á næsta ári og fengið mitt kveðjupartí! Sama má segja um Shady Owens, Guðmund Andra Thorsson og Króa, líka Bubba Morthens (Vinnslustöðinni samt). 

Í næstu viku verð ég sem sagt ekki pikkföst við tölvuna frá kl. þetta til þetta. Ég mun sitja þar þegar mér þóknast og vinna önnur verkefni óbundin af föstum tíma. Ég frestaði einmitt því að fara í klipp og lit fram í næstu viku til að vera ekki stressuð að vera búin áður en ég átti að byrja að vinna, get þess vegna hangsað í Dótarí, Dominos, Bónus, apótekinu og ljósastofunni ef mér sýnist. Það eru í raun bara lætin og umferðarflækjurnar sem fylgja alltaf útlitsbreytingum mínum sem ég þarf að búa mig undir. Löggan hefur margsinnis stungið upp á því að ég verði með hauspoka til að minnka gláp og flaut en ég er enn að hugsa málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Til hamingju með starfslokin og allan frítimann! ....en ohhhhhh!!! Ætlarðu að segja mér í alvöru að Titanic sé sannsöguleg?!?

Hrönn Sigurðardóttir, 29.7.2022 kl. 19:01

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Takk, elsku Hrönn - en starfslok mín einskorðast bara við eina af vinnunum mínum. Á mögulega sex ár eftir á vinnumarkaði, verð 64 í ágúst.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 29.7.2022 kl. 19:13

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Æj fyrirgefðu. Vitaskuld! Vona að ég hafi ekki átt sök á neinum af þeim símtölum sem fylgdu í kjölfarið. En talandi um bækur.... Ertu búin að lesa Stefán Mána? Horfnar?

Hrönn Sigurðardóttir, 1.8.2022 kl. 01:10

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 1.8.2022 kl. 19:20

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ekkert mál, mín kæra ... Eins furðulega og það hljómar nú, og ég aðdáandi, hef ég ekki enn gefið mér tíma til að lesa nýjustu eftir Stefán Mána.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.8.2022 kl. 23:25

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ég sé þarna auðan dálk með mynd af mér. Þarna hefur tæknin eitthvað verið að stríða mér.....

En ég lá yfir Stefáni Mána. Kláraði hana á tveimur dögum. Hún náði mér algjörlega. Mæli með :)

Hrönn Sigurðardóttir, 2.8.2022 kl. 15:05

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Takk kærlega fyrir ábendinguna, mun lesa hana við fyrsta tækifæri. :)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 2.8.2022 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 636
  • Frá upphafi: 1505989

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 513
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband