Varla-covid, betra kaffi og vinsælar bakarísbækur

KaffivélinUndanfarnar vikur hef ég velt fyrir mér, svona annað slagið alla vega, hvernig í ósköpunum ég hafi nælt mér í covid sem hafði aðeins haft áhrif á bragðskyn mitt og skert það eingöngu þegar kom að kaffi. Þar sem bara örfáir komu í afmælið mitt í ár, dugði baunavélin vel en ég fékk vægt sjokk þegar ég sá einn gestanna snúa takka sem hafði ekkert með fá-sér-kaffi að gera - en var sennilega ekki upp á punt. Ég hafði ekki fengið leiðbeiningar á íslensku með vélinni 2017, bara á úrdú, hollensku og serbókróatísku, eins og komu með þvottavélinni, þurrkaranum, bakaraofninum, helluborðinu og ísskápnum fyrir tveimur árum. Við þetta atvik var eins og góð greind mín sneri til baka og sameinaðist þokkanum, því ég dreif mig á YouTube nokkru síðar og horfði á myndband af því hvernig vélin mín á að fúnkera. Þrátt fyrir sérdeilis flott heilabú nær enskukunnáttan aðeins að kurteislegu spjalli við enskumælandi (ekki um t.d. kjarneðliskafbáta), áhorfi á myndir og þætti, með enskum texta helst, og lestri á Stephen King-bókum. En ég fiktaði samt aðeins í kaffivélinni, sneri takka hjá baununum og öðrum framan á og uppskar svo miklu, miklu betra kaffi að héðan í frá leyfist engum að snerta vélina, hvað þá horfa á hana. Það má ekki vanmeta hugarorku þegar kemur að kaffivélum. Dásamlegt að hafa endurheimt „bragðskynið“. Skyldi vera hægt að fá meira kaffi og minna vatn? Sem sagt alvöruespressó. Vélin var ágætlega stillt þegar ég fékk hana, hef ekki hugmynd um hver gæti hafa fiktað í stillingunni og gert kaffið enn daufara, kannski sá hinn sami og setti tóma uppþvottavélina mína í gang (á langt prógramm) á afmælinu í fyrra - með rassinum á sér! Það var reyndar mjög fyndið en þegar kemur að kaffi má ekkert út af bregða ...

 

bookshelf-1Ágúst hefur verið mánuður sumarorlofs, eins og oft áður, en verkefnin fóru ekki að hrúgast inn fyrr en núna fyrir nokkrum dögum. Ég notaði fríið til að lesa og lesa og lesa og mikið var það geggjað. Mest sumaryndis-léttmetislestur sem er auðvitað algjör nauðsyn með Tolstoy, Kjarval, Tchaíkovskí og svona. Hér eru einhverjar, ekki í réttri lestrarröð, ekki kannski allar lesnar í ágúst og ég gleymi eflaust einhverjum. Útgefendur, endilega skellið fleiri rafbókum á Storytel.

 

Ríki óttans - Louise Penny og Hilary Rodham Clinton: Kom skemmtilega á óvart, fínasta afþreying. Nú veit maður nákvæmlega hvað gerist á bak við tjöldin í Hvíta húsinu þegar ógn steðjar að ... ;)

Nornadrengurinn - Lone Theils, flott spennusaga

Inngangur að efnafræði - Bonnie Garmus - í einu orði sagt, æðisleg!

Hin óhæfu - Hjorth og Rosenfeldt ... þessi fékk mig til að efast um öryggi mitt sem bloggara þar sem áhrifavaldar á borð við mig voru myrtir (í bókinni) ef þeir náðu ekki prófi (um lágmarkskunnáttu) sem morðinginn lagði fyrir þá - í þeirri von að uppræta fákunnáttu, yfirborðsmennsku og heimsku sem gert var of hátt undir höfði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, að hans mati ... sem róaði mig auðvitað helling. Ég hef reyndar verið sökuð um yfirborðsmennsku en það var að kvöldi til á Austurvelli, seint á níunda áratugnum, þegar ég var að fara á Borgina eftir velheppnað partí og hafði ekki tíma til að opna hjarta mitt og tala um áhyggjur og blankheit þegar ég var úti að skemmta mér - við gamlan vin sem leit á „Allt ágætt, en þú?“ sem alvarlega yfirborðsmennsku þegar hann spurði hvað ég segði gott. Auðvitað hefði ég átt að skæla í fanginu á honum og segja honum hversu lífsbaráttan var stundum erfið, eða það sem hann vildi heyra á djamminu ... 

500 mílur frá mér til þín - Jenny Colgan, ágæt afþreying.

Gjöf hjúskaparmiðlarans - Lynda Cohen Loigman, ferlega skemmtileg, eiginlega dásamleg, nánast of krúttleg í lokin.

Ég var auðvitað búin að lesa hina frábæru Óvissu eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson, og bók 2 um FBI-manninn John sem fer í felur, vitnavernd, en fyrri bókin Að leikslokum, endaði óbærilega spennandi. Hin systirin heitir framhaldið. Og svo tvær bækur í nýjum flokki um dularfullan brunasérfræðing. 

 

Á Storytel núna:

Beachfront Bakery: A Killer Cupcake, var byrjuð á henni þegar vinnan hóf innreið sína, hún er lesin uppi í rúmi af gleði á Storytel-lesbrettinu sem ég fékk í afmælisgjöf. En hvað er þetta annars með bakarí og metsölubækur? 

Brennandi ást í Bernhöfts

Ástir í Álfheimabakaríi

Kallabakarí tilfinninganna eða

Ástapungar í Kallabakaríi

... ef einhvern vantar hugmyndir (og peninga).

 

Afmælisgjafir í bókaformi 2022:

The Unhoneymooners - Christina Lauren (greinilega ástarsaga, virkar skemmtileg)

Naomi´s Room - Jonathan Aygliffe ... (spennusaga) The Spine Chilling classic, segir um hana ... 

Rembember me this way - Sabine Durrant (Spennusaga, án efa, The dead have no secrets. They only have lies ... úúú)

Þessar tvær síðustu voru innpakkaðar og merktar sem spennusögur en kaupandinn hafði ekki hugmynd um hvað hann (frænka mín) keypti í sniðugu bókabúðinni í London.

Ég var nóttin - Einar Örn Gunnarsson - er á náttborðinu, ég er aðeins byrjuð á henni og hlakka brjálæðislega til að klára, Einar er frábær penni.

 

Stundum alveg spurning um að hætta að vinna og leggjast í ómennsku og bækur. Ég á heilu bunkana af ólesinni snilld inni í skáp. Það var hræðilegt að lenda í því um daginn að byrja á bók á Storytel, reyndar mjög girnilegri, og finnast hún í upphafi örlítið kunnugleg, hrista það af sér og svo átta sig á í miðjum fyrsta kafla að ég hafði lesið hana - og Storytel alltaf: Ætlarðu ekki að klára hana?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Morð í bakaríum eru daglegt brauð, enda sífellt verið að hengja bakara fyrir smið. cool

Þorsteinn Briem, 26.8.2022 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 21
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 645
  • Frá upphafi: 1506044

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 530
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband