Nýir refsitollar bankanna og auðveld ákvörðun

SýningVökudagar hafnir á Akranesi og við Inga og stráksi kíktum aðeins á sýningar á milli kl. 18 og 20 í gær. Í dag dró ég svo nemendur mína fyrr út en vanalega og við fórum á samsýningu 32 listamanna héðan af Skaganum, alveg rosalega flott og skemmtileg sýning á Kirkjubraut, í Grjótinu ... þar sem áður var kaffihús og í gamla daga bókasafn og löggustöð. Svo dró ég hópinn í Nínu tískuverslun og var áður búin að kenna þeim: Nei, takk, ég er bara að skoða. Eða: Já, ég er að leita að jakka ... má ég máta? Klukkan sló skólalok þegar við vorum enn niðri, þarna í útsölumarkaðnum og ég sá ekki betur en þær ætluðu einhverjar að gera góð kaup. Eitthvað svipað gerðist í annarri verslun nýlega svo líklega erum við frekar eftirsóknarverðir gestir í búðum bæjarins.

Mynd: Stráksi nýtur menningar á Vökudögum.

 

Svona dagurÍ gær þurfti ég að borga reikning sem var vesen með, mér sagt að ég yrði að fara í bankann með hann, hann var ekki á mínu nafni en ég borgaði hann samt með mínu korti.

Sko, þannig vill til að ég gerðist viðskiptavinur Búnaðarbankans við Hlemm árið 1982 eftir að ég flutti í íbúð á Hlemmi (Lau 132) og fór að vinna hjá DV við Hlemm (Þverholti). Þar hef ég verið síðan. Ætlaði að skipta um banka þegar Arion, eins og hann heitir núna, lokaði útibúi sínu hér á Akranesi fyrir mörgum árum og benti á Mosfellsbæ en lokaði því útibúi líka seinna og benti á netbankann eða eitthvað ...

Mynd: Svona dagur í gær.

 

Annar bankinn sem eftir varð á Akranesi við brotthvarf bankans míns er með lokað í hádeginu svo ég fór í hinn ... og þar kom í ljós að það kostaði 1.200 kr. að fá að borga reikninginn með korti frá öðrum banka (óvinabanka). Kannski eru þetta nýjar reglur hjá öllum bönkunum, einhvern veginn verða þessar elskur að borga eigendum sínum almennilegan arð. Hvað kemur aftur á eftir milljarði? Skrilljón?

 

 

Svo er sennilega úti draumur minn um að verða forrík eldri kerling (ég á eftir að finna út úr því hvernig) sem geymir milljónir í bankahólfi, svo ef/þegar naumlega verður skammtað af eftirlaunum verði samt hægt að standa í skilum með reikninga og kaupa eitthvað annað í matinn en haframjöl með því að skreppa í bankahólfið. Ég frétti í gær að hætta ætti með bankahólfaþjónustu (af ótta við seðlasöfnun þeirra eldri) og tala um þjónustuna sem barn síns tíma, allir hættir hvort eð er að nota peninga! Hvað með annað sem öruggt er að geyma í bankahólfi, eins og demantana mína, Fabergé-eggið mitt, afmælisskartgripina, jóladýrgripina?

Til að sleppa við innbrot glæpóna í ellinni verður vonandi hægt að fá límmiða á glugga og hurðir; Engar milljónir hér - varúð, grimmur eldri borgari.

„Guðríður, hvað ætlar þú að taka út mikið fé?“

„Ég var að hugsa um 30 þúsund.“

„Hvað ætlar þú að gera við svo mikla peninga?“

Ja, eitthvað fer í vasapening fyrir drenginn næstu vikur, svo ef ég skrepp á markað um helgina, stundum fljótlegast að geta borgað með peningum í strætó. Ég lofa því að borga ekki neinum í svörtu með þeim.“

„Hmmm. Þú færð að taka út 20 þúsund.“

„Æ, í guðanna bænum, þetta eru mí-“

„Allt í lagi, 25 þúsund en ekki krónu meira. Þú tókst út 15 þúsund í ágúst, sé ég í tölvukerfi bankans, svo þetta er að verða gott á ársgrundvelli. Ertu nokkuð með felustað undir dýnunni? Hvernig eiga yfirvöld að geta skattlagt sömu peningana þína aftur og aftur ef þú liggur á þeim heima?“

 

Við RagnarÉg hef tekið þá ákvörðun að banna alfarið myndatökur af mér að viðlögðu einhverju rosalega hræðilegu. Undanfarið hef ég séð myndir sem sýna mig alls ekki í réttu ljósi, ég virðist á einhvern undarlegan hátt bosmameiri, aldraðri og nánast krumpaðri á þeim en ég er í alvörunni, og ljósmyndararnir sýna engan lit til að klippa þær til eða reyna að laga lélegheitin, ég þurfti t.d. að gera það sjálf við meðfylgjandi mynd.

 

Þarna um daginn þegar ég fór á skemmtilegu bókarkynninguna hjá Ragnari og Katrínu og stráksi baðaði sig, munið, í aðdáun flottra kvenkynsráðherra, var tekin af mér þessi mynd með öðrum rithöfundinum, manni sem reyndar steig sín fyrstu frægðarspor í barnaþætti hjá mér á Rás 2, þá tíu ára gamall, ekkert rosalega mörg ár síðan. Eftir smávegis breytingar (að sjálfsögðu ekki fótósjopp) get ég sætt mig við myndina svona.  

 

 

Vissulega gæti ég þurft meik og augnskugga, kannski varalit, ég geri mér fyllilega grein fyrir því, það er vitað mál að það þarf að þjást til að vera fallegur, og ég hef ekki þjáðst alveg rosalega lengi. Þetta náttúru-, hippa- og covid-útlit klæðir vissulega ekki alla og kannski er ég bara of mikil gella fyrir það. En heimurinn þarf að búa sig undir ljósmyndaforðun mína um einhverja hríð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 46
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 527
  • Frá upphafi: 1526864

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 445
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband