Heilaþvottur í íslenskukennslu ... múahahaha

hópurinnSíðasti kennsludagur var í dag eftir að hafa varið fjórum vikum með dásamlegum einstaklingum sem mér tókst að heilaþvo - sagði þeim að íslenska væri nú frekar auðveld miðað við svo mörg tungumál. Þau tóku miklum framförum í kjölfarið.

 

Dásamlegur hópur sem samanstóð af fólki frá Úkraínu, Sýrlandi, Súdan og Venesúela (ekki alveg allir á myndinni). Húmoristar og gæðablóð upp til hópa. Mikið vildi ég að yfirvöld stigju stundum niður á plan til okkar hinna og sæju hvers konar dýrgripi við fáum hingað til lands - oft með algjörum naumindum ... ef þau eru til dæmis ekki í réttum lit er meiri hætta á höfnun, virðist vera. Þau eru næstum öll að byrja í vinnu á næstunni svo ég gat með naumindum haldið þeim út námskeiðið ... Það fjölgar alltaf þeim sem mögulega kaupa sér bíl og aumka sig yfir gamla "kennarann" og skutla henni heim í hálku næsta vetur. Jess. 

 

Þetta var óhefðbundinn dagur á námskeiðinu, smávegis upprifjun fyrir kaffi, þau voru með allt á hreinu, auðvitað, og svo leyfði ég þeim að horfa á fyrsta þáttinn af Brot (1/8 - á RÚV.is, kannski halda þau áfram heima. Ég var auðvitað búin að steingleyma djúsí kynlífssenu í upphafi fyrsta þáttarins. Stunurnar heyrðust þó illa fyrir „Úps, ææ, afsakið, afsakið, afsakið, sko, gulur bíll!“ í mér sem var viljandi til að draga úr dónaskapnum en blóðug og hrottaleg morð tóku sem betur fer við eftir smástund, sjúkk.

 

jesssssÞau skildu glettilega mikið (íslenskur texta á) og þeim fannst ofboðslega sætar konur í löggunni (a.m.k. í íslenskum lögguþáttum). Ég sýndi þeim líka hluta af einum þætti af Landanum en þegar kom að kynfræðslu í grunnskóla í Vestur-Húnavatnssýslu, slökkti tepran ég og ætlaði að setja Ófærð á en fékk bara upp veðurfréttir við leit ... sá síðan Brot og minnti að þeir hefðu verið spennandi en ... kannski hefði kynlífsfræðslan verið skárri ... Þegar var svo sem bara skyndihugdetta hjá mér að sýna þeim íslenskt sjónvarpsefni. Þau fengu að hlusta á Kaleo, Bubba, Bríeti og fleiri (jú, pínku Skálmöld en líklega bara andlegur úkraínskur tvíburabróðir minn í tónlist kunni að meta það).

 

 

Ég gat frætt þau á því að allar konur á Íslandi væru mjög fallegar, ekki bara íslenskar leikkonur í glæpaþáttum. Ég benti á mig því til sönnunar og allir kinkuðu kolli samþykkjandi. Já, meirihluti nemenda hjá mér var karlkyns að þessu sinni. Í fyrstu kveið ég fyrir því - eftir allan geggjaða kvennafansinn í fyrra og í þeirri skemmtilegu stemningu sem ríkti hjá okkur stelpunum. En svo rifjaðist upp fyrir mér að ég kann virkilega vel við karlmenn svo ég tók gleði mína aftur.

Í kaffipásunni í dag skildi ég ekkert hvað hafði orðið um Úkraínukarlana mína þrjá, ég sem hafði keypt íslenskt sælgæti (hraunbita og tilbúið mix: bland í poka) og Hver-dásemdirnar á þriðju hæð í gamla Landsbankahúsinu voru búnar að hella upp á. Birtust svo ekki gaurarnir og það með blómvönd handa leiðbeinandanum. Það gladdi mig mjög mikið og ... „Mjög, mjög til eftirbreytni,“ möluðu kettirnir í Himnaríki sem glöddust yfir litríku kattagrasinu ... sem endaði niðri á palli í bili eftir ítrekaðar árásir þeirra á vöndinn.

Hér ofar er mynd með flestum á námskeiðinu og allir samþykktu að mætti birtast opinberlega. Einn Úkraínugaurinn er með algjörlega sama tónlistasmekk og ég, spurning hreinlega um að ættleiða hann. Við gátum talað um rapp og rokk á íslensku ... líka ögn eldra rokk - Metallica og Scorpions og þar sem hann var mættur svo snemma gátum við hlustað á Still loving you þar til klukkan sló níu. Mikið á ég eftir að sakna þeirra allra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 191
  • Sl. sólarhring: 374
  • Sl. viku: 2518
  • Frá upphafi: 1457788

Annað

  • Innlit í dag: 179
  • Innlit sl. viku: 2104
  • Gestir í dag: 176
  • IP-tölur í dag: 176

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband