Opin rými andskotans

Opið vinnurýmiAfsakið orðbragðið en að máli málanna: Það þykir víst afar truflandi fyrir einbeitingu og sköpun að vinna í opnu rými og ég er hjartanlega sammála því. Einhverjir hafa góð heyrnartól á eyrunum til að lifa það af, aðrir ná einhvern veginn að loka á umheiminn sem er flottur hæfileiki. 

Talsmenn þess opna virðast m.a. ganga út frá því að við þurfum svo rosalega mikið á öðru fólki að halda að þetta geri okkur bara gott ... Ég varð vör við það eftir að sonur minn dó, þegar mér var sagt að sorgin yrði svo miklu verri eftir útförina, sennilega af því að þá hætti fólk að mestu að koma í heimsókn og ég yrði svo einmana. Þetta var hin mesta firra, það var bæði gott að fá gesti og líka gott að vera ein, þetta var öðruvísi, ekki verra. En þessi setning truflaði mig og sat lengi í mér. 

Við mannfólkið skiptumst víst gróflega í extróverta og intróverta - þá sem blómstra mest og best í félagsskap annarra og svo okkur hin sem erum ekkert endilega þar þótt við séum engir mannhatarar.

 

Ég hef góða reynslu af því að vinna á eigin skrifstofu - fyrir aldamót, og hafði nú yfirleitt opið fram nema þegar ég þurfti frið. Svo um aldamótin, eftir frábært ár í hagnýtri fjölmiðlun í HÍ, fór ég að vinna sem blaðamaður, draumastarfið mitt nánast síðan ég las Beverly Gray-bækurnar hennar mömmu. Rósa Bennett gerði hjúkrunarstarfið líka girnilegt og Ráðskonan á Grund gerði rauðhærða menn ómótstæðilega - svo gagnsemi bóka komist nú að ... Ég fór að vinna á sex manna opinni skrifstofu en þar voru sem betur fer skilrúm sem gáfu frið frá sjónrænu áreiti á meðan maður stóð ekki upp. Vissulega var stundum talað saman, það þarf í þessu starfi, en mér gekk nokkuð vel að einbeita mér við að skrifa greinar, lífsreynslusögur, viðtöl og alls konar. Skrifstofan okkar á Seljaveginum sneri í suðaustur, hún var ansi heit og loftlaus og ekkert skrítið þótt við hefðum haldið að við værum að komast á breytingaskeiðið, flestar þá tíu árum of snemma miðað við meðaltal. Svo fór Hreinn ljósmyndari að kvarta yfir alls kyns einkennum breytingaskeiðs þegar hann kom inn á skrifstofu til okkar og ekki löngu seinna voru skilrúmin fjarlægð til að auka loftgæði. Það varð vissulega snyrtilegra á skrifstofunni og allir sáu alla, en alveg sami hitinn og svitinn ríkjandi, fannst mér, bara einn lítill gluggi og ég syrgði sárt skilrúmin því það varð erfiðara að einbeita sér. Eftir það voru það bara opin rými á næstu vinnustöðum (hjá sama vinnuveitanda), í 110 Rvík og 210 Gbæ. Höfðabakki, Lyngháls og Lyngás - alls staðar galopið, en í Lyngási fékk Vikan sérskrifstofu fyrir okkur sex þar sem sólin skein ekki á okkur allan daginn. Skemmtilegur vinnustaður, frábært samstarfsfólk en ég beið með ansi margt af vinnunni minni þar til ég komst heim í friðinn.

 

Á kvöldin og um helgar þegar ég átti að hvíla mig eða gera eitthvað enn skemmtilegra vann ég, mikið skömmuð af vinum og vandamönnum fyrir að vera ALLTAF AÐ VINNA. Ég kenni opnum vinnurýmum um það í mínu tilfelli. Ég hef aldrei komist upp á lag með heyrnartól og loka mig þannig af, en starfið fólst vissulega í því líka að tala saman og það var auðvitað líka hægt að vinna sitt af hverju sem krafðist ekki mikillar einbeitingar á vinnustaðnum. Ég hef verið einstaklega heppin með samstarfskonur (og Haffa Haff sem sá um tískuna á tímabili) á Vikunni - ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta hefði annars verið. En þetta breytti mér smám saman í sívinnandi og síþreytta vél og þótt það væri gaman í strætó tóku ferðirnar Akranes - Garðabær - Akranes alveg þrjá tíma á dag, og jafnvel rúmlega það. Ég gat lesið síðupróförk í strætó - og stundum fékk ég safaríkar lífsreynslusögur þar þannig að ég vann oft líka á heimleiðinni í strætó. En sjaldnast í 6.20-vagninum frá Akranesi - þá var ég enn sofandi.

 

 

NKLÞetta aukaálag í hátt í tuttugu ár gaf ekki mikið færi á því að hlaupa uppi kærasta og eiginmenn, eins og móðir mín heitin benti mér stundum á (í gríni), henni fannst ég vinna allt of mikið. Ég hefði svo sem getað verið duglegri að djamma og daðra þrátt fyrir þrældóminn en leið kannski of vel heima hjá mér, jafnvel þegar ég var búin að klára heimavinnuna, svo það sé viðurkennt.

 

Vonandi missa háskólakennarar ekki einkaskrifstofurnar sínar, það yrði eitthvað sagt ef þeir tækju vinnuna með sér heim eins og ég gerði, viðtöl við nemendur og slíkt. Læknar eiga víst að að sætta sig við eitthvað álíka bjánalegt á nýja háskólasjúkrahúsinu, ef ég skil það rétt. Þetta getur bara ekki verið gott fyrir fólk í flestum störfum. Ég held að allir tapi þegar upp er staðið, starfsfólk og vinnuveitendur. 

 

Ég er enn að reyna að finna út úr því hvað ég eigi að gera við allan tímann sem mér finnst ég hafa núna - eftir að hafa nánast unnið tvöfalt í tvo áratugi. Samt hef ég reyndar verið nokkuð snögg að taka að mér verkefni sem leysa það ekki-vandamál ... stundum einum of. Ég var svo vön að vera nánast alltaf að vinna og það er erfitt að breyta því. Það var gaman að hekla yfir sjónvarpinu hér í denn en nú nenni ég ekki lengur að horfa á sjónvarp. Núna um helgina byrjaði ég að hlusta á Doggerland-glæpaseríuna. Steingerður almáttugur, frábæri fv. ritstjórinn minn, bloggar reglulega um bækur og æsir upp í mér löngun eftir þeim, ég kaupi þær ýmist eða hlusta í gegnum Storytel. Mæli með skemmtilegu bloggfærslunum hennar hér á blog.is.

 

HúsverkirÉg skrapp í bæinn (Kópavog) á föstudaginn og skreið svo inn úr dyrunum heima á miðnætti í gær, köttum til mikillar gleði en allar mottur hér eru úr lagi gengnar vegna brjálaðra eltingaleikja þeirra eftir að ég var komin í bólin og að reyna að sofna. Alltaf gaman að heimsækja Hildu og kó - meira að segja raða með henni bókhaldinu mínu sem við gerðum með glæsibrag í gær.

Orðið "skreppa" þýðist ansi illa í google translate. Ég hef bæði fengið fyrirspurn um það frá hinni dönsku Kamillu minni um og uppskorið hlátur á námskeiðum í Íslensku I ... því þýðingin (á úkraínsku, dönsku, arabísku og spænsku) tengist bara því að skreppa saman. Ég ætla að skreppa saman út í Einarsbúð, verð fljót. 

Strætóbílstjórinn minn í gærkvöldi frá Mjódd er dásemdin sem benti mér á Trésmiðju Akraness á sínum tíma þegar ég leitaði að iðnaðarmönnum til að gera upp Himnaríki 2020. Það var mikil gæfustrætóferð því Diddi var ekki bara hirðsmiðurinn minn, heldur hringdi þegar þurfti í aðra iðnaðarmenn SEM MÆTTU. Sparaði mér mikinn hausverk. Svo var auðvitað eitthvað um kunningsskap og greiðasemi. Rafvirkinn minn fær t.d. alltaf reglulega þakklætiskassa af krimmum sem hafa safnast upp hjá mér - það er kominn tími á enn einn bókakassann handa honum.  Hann er mikill lestrarhestur og þótt ég dái og dýrki bækur, finnst mér líka ansi gott að fá notið þeirra í gegnum Kindle-lesbrettið (gjöf), Storytel-lesbrettið (afmælisgjöf), símann eða iPadinn - það þarf ekki endilega að eiga allar bækur sem maður les. Það var frelsandi að átta sig á því. 

 

Jæja, helgarþvotturinn (setja í þvottavél, þurrkara, brjóta saman og ganga frá) bíður ekki endalaust ... og mig langar að halda áfram að hlusta á Doggerland á meðan. Það varð svo miklu auðveldara að hlusta á bækur þegar ég uppgötvaði (takk, Hilda) hraðastillingarnar, nú hlusta ég á allt á 1,2x. Fyrsta bókin í Doggerland-flokknum heitir Feilspor - höfundur Maria Adolfsson. Ég sé að það eru komnar þrjár bækur í seríunni inn á Storytel og ein nýkomin í bókabúðir. Held að húsverkin verði ansi mikið og vel unnin á næstu dögum á meðan ég gleypi þær í mig - að hlusta á bók setur eins konar sjálfstýringu af stað hjá mér og það leiðinlegasta, að brjóta saman þvottinn og ganga frá honum - verður leikur einn á meðan dularfull morðmál leysast.

Neðsta myndin á ættir sínar að rekja til Snapchat (gurrih), stundum birti ég FYRIR-mynd til að hvetja mig til dáða (aumingja snappvinir mínir sem vilja kannski bara eitthvað um kettina og sjóinn minn) og svo eftir ótrúlega stuttan tíma kemur EFTIR-myndin og allt orðið voða fínt - þetta var eftir afmælisveislu drengsins. Þetta er sem sagt ekki mont, heldur er snappið gott verkfæri til að drífa hlutina af - og með Storytel gerast hreinlega kraftaverk!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 454
  • Sl. sólarhring: 460
  • Sl. viku: 2170
  • Frá upphafi: 1454750

Annað

  • Innlit í dag: 355
  • Innlit sl. viku: 1789
  • Gestir í dag: 335
  • IP-tölur í dag: 328

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband