Dyrabjöllufrelsun og misjafn húmor ...

Fölsun ...Dyrabjallan hringdi um ellefuleytið. Gat verið að nýja rúmið væri að koma, fjórum klukkutímum of snemma? Var þetta kannski litli krúttmolinn í næsta húsi sem ætlaði að koma í heimsókn á meðan litli bróðir kæmi sér í heiminn? Var hann ekki í leikskólanum? Dyrasíminn er ekki sá allra besti en mér tókst að heyra hluta af því sem ljúfmælt kona sagði: „Sæl og ble- ... ég heit- ... mig langar að ... mjög mikilvæ- setningu úr Biblí-.“

Búsett í Himnaríki og allt sagði ég samt kurteislega: „Nei, því miður.“ Vona að henni hafi ekki heyrst ég segja: „Svei, fýkur fiður.“ Hún var kurteis og verðskuldaði kurteisi á móti, ekki síst fyrst hún kom ekki snemma í morgun. Þá hefði nú fokið fiður. Það mætti alveg fara að endurnýja dyrasímann, eða kannski frekar dyrabjöllukristniboð ... Hélt að netið væri aðalverkfærið, en það var kannski í covid. Kannski var þetta eina tækifæri mitt til að hafna ekki í neðra - og ég sem þoli ekki hita. Síðastliðinn ágústmánuður og reyndar júlí líka hafa þó vanið mig ögn við.

 

Samsetta myndin: Efra plötuumslagið er ófalsað, hitt ekki. Svona er nú gott að lesa bloggið mitt, afhjúpun lyga og falsana, sannleikurinn í hávegum.

 

Bókin um LindumorðiðBókin krassandi úr síðasta bloggi, þessi sem fékk hræðilegu dómana ... ég fór að hlusta á hana fyrir alvöru í gærkvöldi, og aðeins við tiltekt í morgun, og hef skellt nokkrum sinnum upp úr. Þetta er ekki háðsádeila en ritstíllinn er virkilega skemmtilegur, svona ísmeygilegur, og jú, það er gert grín að ýmsu, fólki, kerfinu í Svíþjóð og bara svo mörgu á meðan morð á ungri lögreglukonu er rannsakað. Aðallögginn er svo mikil risaeðla að ég elska hann. Jú, hann hugsar mikið um hjásofelsi og er svo mikil karlremba að það er fyndið, ekki hræðilegt. Ég er ekki komin langt (rúmir 3 tímar) og er mjög hrifin. Eina sem ég get kvartað yfir er að ég get ekki hlustað mig í svefn, að þurfa að flissa og hlæja annað slagið vekur fremur en svæfir. Bókin heitir LINDA - eða Lindumorðið og er eftir Leif Gw Persson. Jakob S. Jónsson þýddi og gerði það vel. Konan á Storytel sem kvartaði yfir klukkutímanum hræðilega sem hún eyddi í bókina og fær aldrei aftur, ætti að gefa henni séns og fjölga stjörnunum. Reyndar gerði umsögn hennar mig enn spenntari en ... hún gæti samt fælt einhverja frá sem er algjör synd. Við höfum svo sem misjafnan smekk og kannski er konan ekki hrifin af þessum stíl. Grínið sem laumað er víða inn, eyðileggur ekki glæpasöguna sjálfa, ef ég get orðað það svo, heldur skemmtir manni bara.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.10.): 72
  • Sl. sólarhring: 72
  • Sl. viku: 1416
  • Frá upphafi: 1502465

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1160
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Skálmöld og vinir mínir
  • Frír matur fyrir 80 plús
  • Frú Gurrí, ég velti fyrir mér ...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband