Logandi netheimar og stórhættulegt þykkni ...

KennslanKettirnir hafa sýnt nýja rúminu í Himnaríki hina mestu elsku og aðdáun. Sofa þar dagana langa og það þarf sennilega að beita lagni og lymsku til að komast sjálf í ból í kvöld. Kattanammi er kjörið sem mótlymska. Rúmteppið mitt ýtir frá sér hárum og ég tek það til hliðar á kvöldin, tek það ekki af rúminu, því ég vil að kettirnir liggi ofan á því, til hliðar við mig, ekki á rúmfötunum mínum. Þeir hafa tekið þessu af stóískri kattmennsku og virðast skilja þetta.

 

Netheimar hafa logað í dag þar sem lögmaður manns sem er virkilega í nöp við trans fólk skellir inn bombu sem ótrúlega margir láta sér líka við án þess endilega að vita hver er skjólstæðingur hennar, eða hvort þetta er heilagur sannleikur.

Kannski ekkert skrítið að fólk stökkvi á vagninn, málið er sett þannig fram að verið sé að ráðast á saklaus börn með kynfræðslu án þess að þau hafi aldur eða vit til að skilja þetta. Samtökin 78 hafa aldrei séð um kynfræðslu í skólum og munu ekki gera það, svo þetta eru rangfærslur. Skólar hafa fengið fræðsluefni frá samtökunum, hafa pantað þessa fræðslu til að kenna börnum að við séum ekki öll eins. Fræðsla er besta leiðin til að eyða fordómum. Börnin fá að vita að fólk sé alls konar og ekkert til að skammast sín fyrir. Skömm sem hefur verið ríkjandi í þessu er líklegri til að ýta undir vanlíðan en opin fræðsla, allt of mörg hinsegin ungmenni hafa svipt sig lífi í gegnum tíðina.

Eftir því sem ég heyri meira frá "þessum manni", þeim mun hættulegri finnst mér málflutningur hans vera. Það er varla að ég tími að eyða dýrmætu bloggplássi í hann en ég gat ekki setið á mér. En að nenna að eyða tíma sínum og orku í að hata vissan hóp og gera allt til að fá aðra til þess líka. Oj bara.

Meðfylgjandi mynd hér að ofan er skjáskot af grein um þessa fræðslu sem virðist sannarlega ekki vera jafnhættuleg börnum og þessi maður og lögmaður hans hrópa um á torgum Internetsins. 

 

NóaþykkniJæja, yfir í eitthvað ögn léttara ... ekki mig þó, því ef það er eitthvað sem á eftir að hafa slæm áhrif á fataskápinn minn og þörf fyrir stækkun fatanúmera er ... Engjaþykkni með Nóakroppi. Hverjum datt í hug að búa til eitthvað sem er svona hættulega gott? Það eru tvær dollur af þessu til inni í ísskáp Himnaríkis og ég sagði stráksa í kvöld að hann ætti þær báðar svo ég freistaðist ekki. Það er ekki nokkur leið að ræna neinu frá honum. Það yrði seint fyrirgefið.

Ég kynntist þessu í ferðinni um helgina, eiginlega mér að kenna að við keyptum því ég spurði systur mína þar sem við vorum staddar í Bónus í Hveragerði:

-Hefurðu smakkað þetta?

-Nei, sagði hún, eigum við kaupa?

Ahh, þetta er henni að kenna, ekki mér. Nú þarf ég að hringja í Einarsbúð á morgun og um leið og ég panta nauðsynjar að biðja þau að segja alltaf við mig að þetta nóaþykkni andskotans sé því miður uppselt og verði það eftirleiðis. Þau gera allt fyrir mig í Einarsbúð.

Ég viðurkenni (ófús) að ég er ekki orðin sannur áhrifavaldur. Ekki enn alla vega, það hefði verið kúl að geta skrifað með pínuoggulitlu letri neðst að þetta hér að ofan um engjaþykknið, væri kostuð auglýsing ... og ég gæti montað mig af því að ég fengi fullt af þessu sent heim. En svo er nú aldeilis ekki. Samt veit ég af áhrifum mínum, til dæmis að allir bloggvinir mínir munu kippa svona með sér heim til að prófa, trúa því ekki að þetta sé svona hroðalega gott, og verða svo háðir því. Þá gætum við nú aldeilis stofnað hóp. Kröftugan og "breiðan" hagsmunahóp um víðari dyraop, stærri og sterkari lyftur, almennilega rúlluskauta með hjálpardekkjum og annað slíkt sem gæti farið að vanta fyrr en síðar.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 40
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 1265
  • Frá upphafi: 1460089

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 1004
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • DollyParton
  • Jason-Statham
  • 12. ágúst sko

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband