Ein á palli ... fyrir og eftir

Afmælisveisla InguDugnaðurinn við að gera næsta pall ögn bærilegri var allnokkur í gær og enn meiri í dag þrátt fyrir afmælisveislu í næstu götu. Tvær af dásamlegustu manneskjum í heimi mínum eiga báðar afmæli í dag, önnur bauð í vöfflur (sem var nú aldeilis meira en það) og það var Inga. Hin (Steingerður) býr í Kópavogi en er samt æðisleg.

 

Margt var rætt í afmæli Ingu, eins og alltaf þegar gáfað og fallegt fólk kemur saman. Nánast um allt nema stjórnmál, veikindi, trúmál og var ekki eitthvað eitt enn sem er bannað í veislum? Jú, fjármál veislugesta, skilst að það sé líka bannað, svona ef mann langar að verða boðið aftur. Talið barst að tilvonandi mögulegri hótelbyggingu á þyrlupalli Himnaríkis. Mér heyrðist á öllum að sá staður hugnist þeim ekki svo mjög, frekar staðurinn þarna í grennd við sements-sílóin, smábátahöfnina og þar. Verulega flott sjávarútsýni þar, en þá þyrfti ég að ganga alla Faxabrautina eftir latte-bolla sem yrði eini gallinn við þá staðsetningu. Æ, þetta fer eins og það fer, ekkert vit í að fárast yfir einhverju sem verður kannski allt öðruvísi en sögur segja. Ein spurði hvort væri þörf á hóteli hér, við hreinlega vissum það ekki, en sennilega, með alla þessa útlendinga sem koma til Íslands. Við vorum nokk sammála um að staða fatlaðra barna við það að verða 18 ára geti orðið rosalega flókin og nokkrar dæmisögur fengu að fjúka. Þetta voru alvarlegri málefnin, auðvitað ræddum við helling um bækur, eins og alltaf er gert í góðum boðum. Held að við getum ekki beðið eftir jólabókaflóðinu. Hver getur það?

 

Fyrir og eftirPallurinn niðri er sannarlega ekki búinn, ég er að máta, það þarf, og þigg alveg tillögur smekklegra vina og vandamanna. Hann var mjög ljótur en hefur skánað til muna. Blómin þrjú sem voru þarna niðri eru í gjörgæslu í eldhúsinu. Sennilega get ég bjargað yngri jólakaktusinum en ég held að liljan og stóri kaktusinn (bráðum fimmtugur) séu búin að missa lífsviljann. Gerviblóm eru málið, Mánagullið ofan á hillunni er ekki ekta. Svo er gott að hafa stól þarna niðri, ólíklegasta fólk þiggur með þökkum að fá að tylla sér við þá athöfn að klæða sig í skó. Vetrarskór krefjast þess yfirleitt en líka hægt að setjast í stigann.

 

Kósíhornið

Þetta vandræðadæmi þarna hægra megin við kringlótta borðið eru nokkrar marmaraflísar upp á rönd (frá endurbótunum 2020, ef brotnar á baðinu) en ég fór með þær niður á pall (fékk aðstoð) þegar ég fann engan stað fyrir þær í Himnaríki, þær eru svo ofboðslega þungar og myndu skemma og brjóta skápbotninn á fataskápnum. Ég var búin að vefja hvítri gardínu utan um þær en sé á myndinni að á hliðinni sem sést þarf að gera það betur. Smiðirnir mínir ætluðu að taka flísarnar og geyma fyrir mig í trésmiðjunni en það gleymdist alltaf og ég ætla ekki að ónáða þessar greiðviknu elskur. Hillan hvíta úr kósíhorninu er betri þarna vinstra megin og ég fékk þá hugmynd að geyma í efstu hillunni bækur sem gestir mínir geta valið úr og mega eiga. Krimmarnir fara þó til hirðrafvirkjans. Ég þarf aðeins að grisja þar, sá ég áðan, og taka eina eða tvær með mér upp aftur. Svo er spurning um stærra kringlótta borðið, skákborðið sem er komið upp, hvort ég leyfi því að gossa, það skjöktir og er orðið ansi sjúskað enda eldgamalt ... er til í allt nema of mikið af húsgögnum og munum, ég nýt þess svo innilega að hafa minna dót og drasl í kringum mig eins og hefur verið eftir 2020.

Það er frekar mikil rúst í himnaríki núna, allt skúrað og sjænað fyrripartinn í gær - svo fékk ég hugmyndina. Samt ábyggilega betra en að vera að breyta og taka til í leiðinni. Þið hafið tillögurétt og málfrelsi í stóra pallsmáli Himnaríkis (Inga hélt að ég væri að vesenast með einhvern útipall, þekkir hún mig ekki betur?)

Vantar ekki blóm (gervi) í gluggann sjálfan? þótt ég trúi ekki þannig séð á Feng Shui er ég sammála ýmsu þar, eins og því að passa upp á flæðið, láta ekki þrengja að sér. Ef ég hefði sett stólinn við hlið borðsins, með bakið upp við vegginn hægra megin hefði hann orðið hindrun fyrir neðstu tröppuna, auðvitað prófaði ég það fyrst en það kom ekki vel út. Það hefði verið sniðugt til að fela betur flísarnar. Ég mun máta, jafnvel prófa annan stól, kannski koll. Þetta er ferlega gaman.

 

Myndin átakanlega, þessi neðsta, var tekin inn í kósíhornið í gær, þegar ég var að byrja lætin. Fyrir miðri mynd er semsagt hillan sem er komin niður á pall, guli innkaupapokinn var farinn að fyllast af bókum sem tóku síðan bara hálfa hilluna niðri. Já, og ég finn eitthvað þarna í staðinn, kannski stóran kistil sem er inni hjá stráksa. Kommer í ljós.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 27
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 1569
  • Frá upphafi: 1460502

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1250
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband