Myndafundur, fyrsti kossinn og snjólétta Akranes

Akrafjallið grátt og smartGránaði í fjöll í gær, eins og stundum áður á þessum árstíma? Já, ekki mikið en það finnst vel fyrir kuldanum og spurning um að leggja sumar-alltofhlýja-jakkanum og taka fram dúnúlpuna. Esjan var þó miklu grárri því snjór virðist forðast Akranes (sjúkk). Þekki ungan mann sem bjó á Akranesi og fékk ógurlega flottan sleða í jólagjöf þegar hann var kannski níu eða tíu ára. Það festi ekki snjó á Skaganum næstu árin og þegar það loks gerðist langaði hann ekki í sleðaferð, enda orðinn unglingur og hafði miklu meiri áhuga á stelpum en sleðum, vill móðir hans meina. Ég hef reyndar einu sinni á mínum 17 árum hér, frá 2006, upplifað meiri snjó á Skaganum en í höfuðborginni. Einu sinni. Kannski var bara meira mokað í Reykjavík en ég held samt ekki. Myndina tók ég út um eldhúsglugga Himnaríkis og yfir Nýju blokkina, eða næstelstu blokkina á Skaganum. Þar bjó ég um tíma með foreldrum mínum og þar fékk ég alla heimsins barnasjúkdóma áður en bólusetningar voru fundnar upp við þeim. Rauða hunda, skarlatssótt, mislinga, og allt hvert á eftir öðru fyrir, um og eftir jólin. Þarna kynntist ég Boggu vinkonu minni og vináttan hefur haldist óslitin síðan, eða alveg í rúm 30 ár ...

 

Hræðilega bókin sem ég skrifaði um í síðasta bloggi og eiginlega lofaði Steingerði að hætta að lesa, lífið of stutt, sagði hún, fyrir leiðinlegar bækur (ég segi, fyrir vont kaffi) tekur tæpa 15 klukkutíma í lestri (á eðlilegum hraða) og það var ekki fyrr en eftir tæpa tólf tíma sem þau kysstust í fyrsta sinn. Stráksi kom heim um eittleytið í dag, ég að setja í uppþvottavél og hlusta, og þá skall á koss sem fékk hann til að flissa í dyrunum. „Almáttugur,“ argaði ég og slökkti á sögunni. Það fannst honum mjög fyndið. Kannski er hann til í að hlusta á sögur núna, fyrst það eru kossar þar. Hann hefur aðgang að Hljóðbókasafninu og ætti auðvitað að hlusta á skemmtilegar bækur þar. Ég las inn bækurnar um Lúlla mjólkurpóst, orðljótan og strangan karl sem alla strákana í bænum langaði samt að vinna fyrir með skólanum. Svo hrikalega fyndnar að ég skellti nokkrum sinnum upp úr, tæknimanninum til lítillar gleði. Ég fékk fyrir nokkrum árum að hlusta á örlítinn part af upplestri mínum (síðan á síðustu öld, mögulega níunda áratugnum) og ég hljóma eins og tilgerðarleg fegurðardrottning að tala um frið á jörðu. Með fullri virðingu fyrir öllum dásamlegum fegurðardrottningum. Að sjálfsögðu er ég að tala um útlenskar, annað hvort væri það nú. Bendi stráksa á Lúlla mjókurpóst. Og fyrst ég á bara þrjá tíma eftir ætla ég að klára kvikindið - hún getur ekki versnað úr þessu. Bækur sem svona gott er að sofna við eru vandfundnar. 

 

Hlaupvídd sex á AkranesiÍ látunum í kringum fegrun skópalls Himnaríkis þurfti ég að finna nýjan stað fyrir albúmin og að sjálfsögðu datt ég ofan í þau, alltaf gaman að skoða gamlar myndir. Ég var frekar dugleg að taka myndir á Kodak Instamatik, eða hvað sem það hét ... með flasskubbi og allt. Árið 1978 var leikritið Hlaupvídd sex sett á svið á Akranesi og hér er mynd af fögrum leikkonunum sem tóku þátt, allar spariklæddar nema ég lengst til vinstri, enda þær í ástandinu ... Ég var Áslaug, á móti hernum og sönn talskona þjóðlegra gilda. Ótrúlega gaman að taka þátt í þessu, og í Línu Langsokk næsta ár á eftir þar sem Helga Braga steig sín fyrstu spor á leiklistarbrautinni, sem Lína. Kannski gerði Guðfinna það líka, þarna í Hlaupvídd sex árinu áður, en hún er við hliðina á mér á myndinni og leikur m.a. í nýlegri og bráðskemmtilegri Icelandair-auglýsingu.

 

HagnýtÉg fann myndirnar úr skólaferðalagi hagnýtrar fjölmiðlunar 1998-1999 til New York og Washington DC og rifjaði upp góðar stundir þar. Ævintýrin ... þegar spákonan í Brooklyn reyndi að kúga mig til að senda sér andvirði um 200 þúsund króna fyrir kristalla sem ég átti að hugleiða yfir og senda henni til baka, og hún síðan að láta nornir syngja yfir svo líf mitt yrði gott. Það sem hefur verið reynt að frelsa mig yfir í alls konar, það gerir aulasvipurinn og svo stendur auðvitað AUÐBLEKKT á enninu á mér, ranglega. Ég er nú samt alveg rosalega tortryggin og jarðbundin.

 

Jú, bekkurinn úr hagnýtri heimsótti Jón Baldvin og Bryndísi í sendiherrabústaðinn í Washington. Við fengum fínar móttökur, snittur og hvítvín, en þrátt fyrir að þetta hafi verið gaman, skilaði það voðalega litlu nema góðglöðum skvísum og nokkrum ljósmyndum í albúm á Akranesi. Myndi ég nenna að vera sendiherra og þurfa í sífellu að standa í svona tilgangslausum móttökum? Nei, nema jú, kannski í Englandi, en hætta fljótlega eftir heimsóknina í Buckinghamhöll. Já, svona getur maður verið tækifærissinnaður.

 

Mynd: Þarna sitjum við saman eftir móttöku JB og Bryndísar og komnar á einhvern voða fínan veitingastað þar sem ég borðaði ostrur í fyrsta sinn og hvítvín, jæks, hvað það var ... ekkert sérstakt. Skelfiskur, nema humar og rækjur, finnst mér ekki góður og ég er meiri rauðvíns- en hvítvínskona, eiginlega bara helst kaffikona. Minnir að kaffið westra hafi ekki verið sérlega gott, aðeins örfá ár síðan Starbucks kom til New York sem var 22. apríl 1994 og ekki enn á hverju götuhorni, og ári áður, eða í mars 1993, til Washington DC. Þetta DC ... Það var ekki fyrr en ég heimsótti Elfu vinkonu fyrst að ég skildi hvers vegna allir sögðu DC (District of Columbia) fyrir aftan heiti borgarinnar. Jú, af því að borgin Washington (DC) er svo sannarlega ekki í ríkinu Washington, þar er Seattle og þar er Conway þar sem Elfa býr, og höfuðborgin tilheyrir engu ríki.

Á myndunum má þekkja tvær RÚV-konur úr mínum bekk, en önnur þeirra bjó nokkuð fyrr í sama húsi og ég (á Hringbraut) um hríð (í þrjá mánuði) og opnaði fyrir syni mínum þegar hann lokaði sig úti, lét hann lofa sér í leiðinni að hætta að spila Cyprus Hill á hæsta, og kenndi mér að búa til bestu grænmetissúpu í heimi! Inniheldur m.a. chili (með fræjunum) og hálfan lítra af rjóma sem gerir  hana sterkmjúka, mjúksterka? Frábær þessi bekkur og þessar Siggur - þetta ár í hagnýtri var eitt það skemmtilegasta í lífi mínu. Eftir það sogaðist ég inn í tímaritabransann; annríki, álag, vikulegt deddlæn, frábært samstarfsfólk, skemmtilegir viðmælendur ... og hviss, bang, árin liðu hratt og nú er bráðum aldarfjórðungur liðinn frá því þessar myndir voru teknar! Svo er ég farin að skrifa oggulítið fyrir Lifðu núna, vefrit fyrir fimmtíu plús. Fjölbreytt og skemmtilegt.          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 150
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 1692
  • Frá upphafi: 1460625

Annað

  • Innlit í dag: 139
  • Innlit sl. viku: 1363
  • Gestir í dag: 137
  • IP-tölur í dag: 137

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband