Bollukaffi í bænum, magnaðir samkvæmisleikir og allt þar á milli

Bollukaffi, helmingur séstBollukaffi var haldið með pomp og prakt í Kópavoginum í dag og það var stranglega bannað að telja bollurnar ofan í mannskapinn. Þær voru sérlega vel heppnaðar. Systir mín notaði uppskriftina frá mommur.is og lét ekki undan þeirri freistingu að opna ofninn of snemma, enda urðu bollurnar mjög fallegar. Ekki bara helmingurinn, eins og hjá mér eftir að neðri platan féll (bollurnar á neðri plötunni). Það var sjálfsafgreiðsla hjá Hildu ... við settum sultu, rjóma og glassúr, eða karamellubúðing, súkkulaðirjóma úr sprautu (fæst víst í sumum Krónubúðum í bænum), Nutella (ekki ég), alls konar glassúr og læti. Stráksi var himinsæll og hesthúsaði margar, margar.

 

Mynd: Skjáskot úr snapchat, mér láðist að taka mynd! Vildi sýna sérlega velheppnaðar bollurnar. Hægra megin á borðinu var glassúrúrvalið með meiru en sést ekki ... sorrí.

 

SamkvæmisleikurÞað reyndust vera svefnlyf (sykur?) í bollunum og hluti heimilisfólks lét sig leka ofan í sófa og stóla hist og her og að minnsta kosti ein manneskja náði að sofna í um fimm mínútur, ekki ég. Það var aftur á móti rosalega erfitt að halda sér vakandi á leiðinni heim í strætó. Sami ljúfi úkraínski bílstjórinn keyrði báðar leiðir og fórst það vel úr hendi.

Mér varð hugsað til Halldórs fjanda sem sendir mér yfirleitt um þetta leyti árs: „Til hamingju með daginn þinn.“ Hugsa að hann eigi við sprengidaginn, vér bomburnar höfum svolítið eignað okkur þann dag.

 

Í bollusvefndrunganum var gaman að skruna niður Facebook, sjá hversu margir væri í bollukaffi en rakst skyndilega á samkvæmisleik, nokkuð skemmtilegan. Hann tengist aðlinum, hefðardúllum, eins og Borghildur myndi orða það, og er því ögrandi og spennandi fyrir konu með blátt blóð í æðum. Já, hvað myndi ég heita ef ég væri lafði, eða lady ... þetta var eiginlega á ensku svo ég notaði það mál, nema ég veit hreinlega ekki hvað rjómabolla er á ensku, kannski cream puff. Fremst er Lord eða Lady, eftir því hvers kyns maður er. Síðan nafn gæludýrs síns. Ég kaus Krumma einhverra hluta vegna, hefði getað verið Mosi eða Keli líka. Fyrir aftan nafnið var það síðasta sem ég borðaði (rjómabolla) og síðan OF og síðast nafnið á búðinni sem ég verslaði síðast í. Lady Krummi rjómabolla of Verslun Einars Ólafssonar ... væri tilkomumikið en ég nota bara Einarsbúð af hógværð minni. Reyndar er Krummi Cream Puff líka flott. Ein af ótal mörgum systrum mínum hafði líka kommentað, greinilega verslað í Iceland og drukkið búst. Svona getur maður nú fylgst með ættingjum sínum án þess að þeir viti. Njósnamyndavélar hvað!

 

Fyrstu fjögur orðin ...Svo var annar mjög skemmtilegur og áhugaverður leikur í gangi líka - svona orðaleit. Fyrstu fjögur orðin sem maður finnur lýsa því hvernig árið 2024 verður - möntrur ársins sem sagt. Ég vissi auðvitað fyrir hvernig árið yrði, spurði véfréttina góðu. Ég verð mjög rík, eignast bæði mann og tvíbura, jafnvel sportbát líka, ef ég man það rétt. Engu að síður gat ég ekki stillt mig um að finna þessi fjögur orð sem gekk ótrúlega hratt og vel fyrir sig:

 

1. WCCEYVOP

2. AMFAH

3. LIMLYB

4. ZORWKIJOS

Ég hef svo allt árið til að finna út úr því hvað þau þýða en það efsta gæti verið rússneskuskotið (CCP-legt), en árið verður enn meira spennandi en ég átti von á.

 

Skálmöld og kórinnÁ morgun kl. 9 stundvíslega hefst íslenskunámskeið fyrir útlendinga og ég hlakka svo til. Það er svo gaman að kenna fólki alls staðar að úr heiminum, síðast voru þjóðernin átta eða níu (Þýskaland og Kína komu ný og fersk inn). Fólkið er upp til hópa mjög áhugasamt, eins og það viti að tungumálið er lykillinn að svo miklu betra og auðveldara lífi. Ég segi þeim eins og satt er að íslenska sé hreint ekkert erfið, miðað við mörg önnur mál, ég þarf sjálf ekki annað en að hugsa til Frakklands til að finnast einhver ómöguleiki (ég er að breytast í Bjarna Ben) í því að læra frönskuna þótt hún sé svona svakalega falleg. Þýsku hef ég sungið í gegnum tíðina í kórum lífs míns (vantar bara Skálmaldarkórinn á ferilskrána) og hún virkar alls ekki erfið á mig. Myndin f. ofan er skjáskot af tónleikum Skálmaldar og Sinfó fyrir mörgum árum. Flotti kórinn er efst á myndinni og eins og sést er sannarlega pláss fyrir eins og eina vana kerlingu nú í nóvember.  

 

LeiðbeinandiEf ég væri ekki nýkomin úr bænum og þyrfti að fara snemma að sofa myndi ég baka bollur og fara með til að gefa nemendum í frímínútunum. Bolludagur er æði, allt of langt síðan jólin voru og allt of langt til páska, en ég hef kannski gert aðeins mikið úr honum við suma erlenda vini mína og ... nemendur. En í alvöru talað, þetta lífgar upp á veturinn. Verð svo með Eldum rétt á þriðjudaginn, ekki saltkjöt og baunir, kann ekki að búa það til, og tek ekki þátt í öskudegi lengur svo bolludagur er aðal þótt ég efist um að ég fái mér bollur á morgun, eftir bakstur sjálf um síðustu helgi, bollur frá úkraínska krúttinu niðri og svo ómælt magn af bollum í dag. Allt vatnsdeigs ... held að gerbollurnar séu vart fáanlegar lengur, þær voru aðalbollurnar í æsku minni. Mögulega ekki búið að finna upp vatnsdeigsbollur þá. Já, ég man nú tímana tvenna, börnin mín. MYND: Ég er leiðbeinandi, ekki kennari, og að öllu öðru leyti er myndin röng, fannst hún bara fyndin. 

 

Facebook: Mér tókst að stilla mig um að kommenta í dag ... ekki einu sinni á lygasögur og rangfærslur. Ég reyndi að horfa blíðlega á bullið, skruna fram hjá og halda áfram að vera glöð. Fólk ætti samt að vita að það er t.d. ýmislegt gert fyrir heimilislausa, það fer einn og hálfur milljarður í málaflokkinn á ári og þrjú gistiskýli í Reykjavík en Reykjavíkurborg stendur ein undir þessum kostnaði, hefur mér sýnst. Ég gagnrýni borgina helst fyrir að vera ekki duglegri við að leiðrétta bullið sem fólk deilir án þess að vita nokkuð um málið.

Svo veit ég um kirkjudeild í Kópavogi (skrifaði grein um hana í Vikuna eit sinn) sem prjónar á fullu allt árið eitthvað hlýtt á útigangsfólk. Ég hef gefið hlýjar flíkur í ekki auglýstar safnanir (hjúkkunemi hér á Skaganum). Sumir vilja ekki láta bjarga sér, það er samt reynt og gengur misjafnlega.

Nú er reynt að halda því fram að ekkert sé gert, allt fari í hælisleitendur ... sem eru að stórum hluta Úkraínufólk, harðduglegt og allt meira og minna í vinnu!      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 39
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 2480
  • Frá upphafi: 1458547

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 2048
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fallegustu menn í heimi
  • hvernig íslend sjá Evrópu
  • Siegfriedungjoy

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband