Jibbí, komin í vinnuna!

AkranesstrætóÉg gleymdi ekki að fara í vinnuna í morgun, sjúkkitt. Krúttið hann Tommi bílstjóri kom okkur klakklaust í bæinn á fínum tíma, enda lítil umferð og fáar stoppistöðvar á leiðinni. Mikið var notalegt að hlusta á Rás 2, góð lög og fínar útvarpskonur. Það eru aðeins meiri læti á Bylgjunni og viðkvæmt taugakerfi okkar Skagamanna á erfiðara með mikið stuð, viljum frekar dorma (nessum dorma) í þægilegri rútu.

Maður sem vinnur hjá Prentmet hoppaði út á Vesturlandsveginum og ég hafði þrjár sekúndur til að ákveða mig hvort ég færi út með honum. Strætó númer 18 er hættur að stoppa þarna fyrir neðan, heldur fer í Árbæinn fyrst (arggg) svo að ég þarf  að fara í Ártún ef ég ætla að ná honum ... EN  gönguferðahatarinn moi ákvað að tölta bara uppeftir. Þeir sem þekkja mig vita að þetta er mjög ólíkt mér. Þótt þetta sé frekar há brekka sem liggur þarna uppeftir þá er hún ekki næstum því jafnviðurstyggilega hræðileg og lúmska brekkan í Ártúni (sunnan megin við Ártúnsbrekkuna).

Vinnustaðurinn minnÉg blés ekki úr nös, enda labbaði ég löturhægt. Ástæða: helvítis verkurinn í vinstri fæti, verkurinn sem læknirinn sagði að myndi lagast (fyrir einu og hálfi ári), hann sagði reyndar ekki að þetta væri vírus, eins og algengt er á heilsugæslustöðvum. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og komst ekkert áfram af viti fyrr en ég  fattaði að bora með fokkfingrinum þéttingsfast í vinstra lærið framanvert, þá fór þetta eitthvað að ganga. Upp brekkuna komst ég þótt ég liti eflaust út eins og hálfviti. Þetta er svolítið fúlt ... ég flyt á Skagann þar sem dásamlegar gönguleiðir eru um allt og ætla að fara að hreyfa mig meira en mér er of illt í fætinum til að geta gengið ... og myndi eflaust lagast ef ég hreyfði mig meira. Vítahringur dauðans! Mun heimta sjúkraþjálfun, nenni þessu ekki lengur.

Ég mætti langfyrst allra, rúmlega hálf átta, og hef m.a. afrekað að taka til á skrifborðinu mínu, fara í gegnum tölvupóstinn, panta espressóbaunir frá Kaffitári og hlusta á Króa á Rás 2 (Kristin R. Ólafsson) en við unnum saman úti í Vestmannaeyjum í gamla daga þegar þótti fínt að vinna í fiski. Hann man alveg örugglega ekki eftir mér en er sjálfur mjög minnisstæður og skemmtilegur.

Mikki bauð glaðlega góðan dag þegar hann kom loksins og ég kunni ekki við bjóða honum gott kvöld á móti þótt hann kæmi seinna en ég ... Doddi, aftur á móti sagði græðgislega: "Ný klipping?" Mikið er gott að vera komin aftur í vinnuna þar sem ég fæ sanna aðdáun! Held að Skagamenn og samfarþegar mínir í strætó gangi að mér vísri ... að vísu sagði samstrætóstoppistöðvarmaður minn: "Hvar hefur þú verið?" þegar ég birtist á stoppistöðinni kl. 6.43 í morgun. Smá sakn greinilega.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mikið andskoti geturðu verið skemmtileg kona, þrátt fyrir að vera skagakona og að þú sért vöknuð fyrir allar aldir.  Velkomin í mannabyggðir.  Takk fyrir ævintýrapistilinn.  Smjúts *Sakn*

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.6.2007 kl. 09:01

2 Smámynd: Ester Júlía

Tékkaðu á nálastungum.. Örn í laugarneshverfinu er kraftaverkamaður!!    Annars góðan og blessaðan daginn

Ester Júlía, 18.6.2007 kl. 09:02

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég set stórt spurningamerki við fólk sem er mætt í vinnuna hálf-8! Sjálf er ég á sér-díl í minni vinnu... ef ég er mætt inn á baðherbergið mitt fyrir 9 til að gera mig klára er ég sama sem mætt í vinnuna

Heiða B. Heiðars, 18.6.2007 kl. 10:05

4 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Það er slæmt að finna svona til í fætinum. Eigðu góðan dag.

Kristín Katla Árnadóttir, 18.6.2007 kl. 11:05

5 identicon

Mætt hálf átta!!!  - ÞAÐ gæti stafað af vírus - láttu athuga þig  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 12:40

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þetta er nú vaninn, krúttin mín. Mér finnst hetjudáð að vakna kl. 6 virka daga, vinna frá 7.30-15.30 eða lengur og breytast svo í algjöra B-manneskju um helgar. Ég þori að viðurkenna núna að ég vaknaði yfirleitt ekki fyrr en á hádegi í fríinu mínu, nema ég væri að sumarbúðast eða eitthvað ... Þetta er vírus ... e.k. syndrom.  Svo er ég búin að panta tíma hjá lækni, mæti 10 í fyrramálið. Þvílík þolinmæði að vera illt í fætinum í eitt og hálft ár ... er þetta leti?

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 18.6.2007 kl. 15:13

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Kristinn R. er skemmtilegur en þú ert náttúrlega hundleiðinleg. Auðvitað man maðurinn ekki eftir þér

Jóna Á. Gísladóttir, 18.6.2007 kl. 18:13

8 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Velkomin til vinnu

Sjálf á ég tvær vikur eftir enn og finn meira og meira fyrir mætti letinnar með hverjum deginum sem líður

Hrönn Sigurðardóttir, 18.6.2007 kl. 18:25

9 identicon

Damn it ... er annar Doddi í lífinu þínu? Og fær að sjá þig reglulega in person ... ? Hann er heppinn.

Engu að síður - kærar kveðjur og knús að norðan!

         - Hinn eini sanni Doddi
 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 19:39

10 Smámynd: Ólafur fannberg

kvitt og knús

Ólafur fannberg, 18.6.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 209
  • Sl. viku: 641
  • Frá upphafi: 1505932

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband