Sígildar bernskubókmenntir og sjokkerandi útreikningur

Kaffi í annarri, bók í hinni ... snilld!Gestir í Miklagarði er ein af uppáhaldsbókunum mínum og það til 40 ára eða svo. Var bara barn þegar bókasafn mömmu varð góður kostur, stundum eini kosturinn. Bókasafn Akraness var nefnilega bara opið fimm daga vikunnar og aðeins mátti taka tvær bækur á dag. Það nægði engan veginn bókaorminum. Milli skólaverkefna og útileikja kynntist ég m.a. Beverly Grey og Rósu Bennett sem ég lít enn á sem góðar bernskuvinkonur. Ráðskonan á Grund var margoft lesin og önnur bók í sama bókaflokki er einmitt Gestir í Miklagarði. Ég kláraði að lesa hana í morgunbaðinu áðan. Hún segir frá ríkisbubba (leyndarráði) sem ákveður að taka þátt í verðlaunasamkeppni sem hans eigin verksmiðja stendur fyrir. Tveir bestu þátttakendurnir fá að launum dvöl í glæsilega gistihúsinu Miklagarði. Allt verður vitlaust á heimili leyndarráðsins þegar kemur í ljós að hann hefur hlotið önnur verðlaun og ætlar að taka við þeim. Hann kaupir notuð, sjúskuð föt og fer í dulargervi fátæks manns til gistihússins. Hildur, dóttir hans, stelst til að hringja í Miklagarð og varar við komu hans, segir að hann sé milljónamæringur, hálfgert barn í sér, safni frímerkjum, elski síamskettlinga, þurfi heita múrsteina í rúmið, nudd, koníak og fleira og fleira. Skelfilegur misskilningur verður og ungi maðurinn sem hlaut fyrstu verðlaun fær konunglegar móttökur og er settur í flotta svítu með kettlingum, múrsteinum og koníaki á meðan sá ríki fær pínulítið, ískalt risherbergi og ódulinn fjandskap, enda fátækur ... heldur fólk. Alltaf gaman að lesa gömlu bækurnar. Hef keypt margar af þessum bókum  eins og mamma átti fyrir sjálfa mig hjá fornbókasölum í gegnum tíðina.

Íslendingar eru u.þ.b. 311.396 talsins og það styttist sífellt hraðar í að við verðum stórþjóð á borði en ekki bara í orði. Karlarnir eru 158.866 og konurnar 152.530.

Þetta þýðir á mannamáli að 1,1041539369304399134596472825018 karl sé á hverja íslenska konu en bara 0,96011733158762730854934347185678 kona á hvern karl. Ég ætla rétt að vona að karlar fari að verða betri við okkur og læri jafnvel að meta okkur stelpurnar að verðleikum þar sem við erum samkvæmt þessu í útrýmingarhættu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Ég man náttúrlega best eftir uppáhaldsmat Toblers leyndarráðs, sem var nautakjöt og englatítur, en það var náttúrlega Hagendorf sem fékk þær kræsingar þegar hótelstaffið ætlaði að gera vel við milljónamæringinn. Heil kynslóð Íslendinga velti því fyrir sér hvað englatítur væru; ég komst að því fyrir tilviljun fyrir ekki svo mörgum árum.

Þetta voru Gulu skáldsögurnar frá Draupnisútgáfunni, sem var eitt af undirforlögum Iðunnar. Þyrnivegur hamingjunnar, Brækur biskupsins, Kaupakona í hlíð, Ungfrú Ástrós, Ást barónsins (með jómfrú von Bugge, Soop og Bodelund, Nattvogel baróni og þeim öllum ... þú hlýtur að hafa lesið hana líka).

Nanna Rögnvaldardóttir, 8.9.2007 kl. 13:43

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mamma átti bara þessar tvær úr Gulu skáldsögunum en ég las örugglega hinar, þekki nöfnin vel, mögulega á ég einhvers staðar Ást barónsins og þarf að rifja hana upp. Hvað eru aftur englatítur, þú sagðir mér það en ég er búin að steingleyma því. Tobler leyndarráð hélt líka upp á bæjarabjúgu ... Ísold þjónustustúlku til mikillar furðu, henni fannst að svona ríkur maður ætti að gera betur við sig í mat! Dýrðarbókmenntir. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.9.2007 kl. 14:29

3 Smámynd: Rebbý

.... konur í útrýmingarhættu .... snilldin ein, eins gott að nýta sér þetta

Rebbý, 8.9.2007 kl. 14:53

4 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Englatítugátan var upplýst í kommentum við þessa færslu hér:

 http://nannar.blogspot.com/2003/03/kjtbollutilvitnunin-sem-g-nefndi.html

Nanna Rögnvaldardóttir, 8.9.2007 kl. 16:46

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Aha, makkarónur! Takkkkk!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.9.2007 kl. 16:57

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég ætlaði að drepast úr forvitni út af englatítunum.  Krúttlegt orð á ekki svo spennandi mat.  Ég á afmælisdag minn ráðskonunni á Grund að þakka.  Mamma hló svo mikið þegar hún las hana að hún endaði á fæðingardeildinni og ég kom í heiminn.  Það var á þeim merkisdegi 20. janúar 1952.  Elska ráðskonuna og get enn hlegið.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.9.2007 kl. 17:42

7 Smámynd: Oddný Sigurbergsdóttir

Hahaha, þessi tölfræði þarna í lokin og þessi athugasemd sem hnýtt var í strákana er algjör snilld. Ég sit og flissa eins og fífl í vinnunni. En ég má það... ég er í útrýmingarhættu!

Oddný Sigurbergsdóttir, 10.9.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 212
  • Sl. viku: 646
  • Frá upphafi: 1505937

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 520
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband