Uppdeit af boldi og tvær samviskuspurningar

Kaffið fyrstMamma var svo sæt að færa mér kaffi heima hjá Hildu í gærkvöldi. Eitthvað fannst mér bragðið skrýtið en liturinn var þó réttur. Ástæðunni laust ofan í huga minn, ég horfði rannsakandi á hana og spurði: „Settir þú mjólkina á undan kaffinu?“ „Já,“ svaraði mamma og var ekki einu sinni skömmustuleg á svipinn. Hún gerir þetta alltaf þegar hún fær sér kaffi og ég get ekki skilið það. Þetta gjörbreytir bragðinu til hins verra. Ég spyr bloggvini mína nær og fjær, til sjávar og sveita: Hvort er betra, að hella kaffinu fyrst í bollann eða mjólkinni? Ekki hika við að svara sannleikanum samkvæmt en ef þú ert með sama smekk og mamma þætti mér athyglisvert að fá rökstuðning fyrir því ...

Felicia, systir Ridge, Thorne og fleiriÞeir sem þykjast ekki hafa áhuga á boldinu ættu ekki að lesa lengra því að hér kemur upp-stefnumót af nýjustu atburðum hjá Forresterunum og fylgifiskum þeirra.
Eric spilar lymskulega á Stefaníu, fyrrverandi eiginkonu sína, og þykist vera hættur að þola Brooke, mjög nýlega fyrrverandi eiginkonu sína. Sú aðferð mun skila honum fyrirtækinu aftur, vill hann meina.  Hann trúir Brooke fyrir þessu og segist gabba Taylor og Ridge á sama hátt til að Stefanía láti örugglega sannfærast, hún sé alltaf svo veik fyrir honum.
Brooke dreymir kynæsandi dagdrauma um Nick, sem hún elskar, en ætlar að fórna hamingju sinni fyrir hamingju dóttur sinnar sem á von á kvenkyns stúlkubarni með Nick, eins og allir vita. Margt hefur gerst síðustu dagana, eiginlega er allt að verða vitlaust í boldinu.

Felicia, dóttir Erics og Stefaníu, hefur stungið upp kollinum og heldur til í strandhúsinu en þangað hleypir hún engum. Þar felur hún nefnilega ungbarn sem hún á með engum öðrum en NICK!!! Eins og allir vita er skortur á leikurum í Hollywood þannig að Nick var látinn deita Feliciu einhvers staðar á milli sambanda hans við Bridget og móður hennar. Þetta fór alveg fram hjá mér.
Felicia og Bridget eru sko hálfsystur ... sumir fara ekkert út fyrir fjölskylduna í leit að einhverju til að sofa hjá ... eða réttara sagt; snjallt að samnýta gaurinn ef hann er svona æðislegur.
Fatahönnun er í genunum á Forresterunum og er Felicia víst algjört séní á því sviði, móðir hennar biður hana um að koma og vinna hjá sér. Felicia er með krabbamein en fjölskylda hennar heldur ranglega að hún hafi læknast. Stefanía komst að þessu með barnið fyrir algjöra tilviljun, enda er konan sú yfirleitt með nefið niðri í öllu, blessunin. Tjaldið féll þegar hún hvatti Feliciu til að segja Bridget leyndarmálið! Hvað gerist í næstu viku? Úúúúúúú ...

Ég veit hvað er framundan. Gúgglaði mynd um daginn og lenti á síðu þar sem ég sá hvernig næstu vikurnar þróast hjá þessum hjartkæru heimilisvinum himnaríkis. Hefur einhver áhuga á því að fara svolítið fram í tímann og ég skelli næstu atburðum hér inn? Þá er engin hætta á að nokkur verði að hanga yfir sjónvarpinu í stað þess að undirbúa jólin. Það tekur sinn tíma að þrífa, baka, skreyta og lesa jólabækurnar. Er ekki bara gott að sleppa við boldið til áramóta?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það er tvennt athugavert við að setja mjólkina fyrst (með fullri virðingu fyrir mömmu þinni): Kaffið verður verra, og þeir sem nota mjólk út í kaffið til að kæla það þurfa að nota miklu meira af mjólk ef hún er sett í á undan. Sem sagt, ekki gott.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.9.2007 kl. 16:31

2 identicon

Enn og aftur sé ég að við Anna hljótum að vera tvíburar  safði einmitt mínar hugsanir......

Magga (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 16:48

3 identicon

Jú endilega skelltu þessu hér inn! Ég bíð spennt.

Hrefna S. Reynisdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 16:49

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Veit ekki (kaffið), skil ekki (boldið sko) en hlakka til jólanna

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.9.2007 kl. 17:44

5 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Drekk ekki kaffi,en á þessa fínu vél sem býr til gott kaffi er mér sagt,en hvort kaffið eigi að fara fyrst í bollann,þá held ég að svo sé.Þegar ég hellti á venjulega könnu þá þurfti´ég hjálp frá sérfróðum,því ég bjó til svo vont kaffi þegar ég stýrði kaffimagninu,að það var ódrekkandi,næstum eins og kaffið hjá Bretum.

María Anna P Kristjánsdóttir, 8.9.2007 kl. 17:59

6 Smámynd: Þröstur Unnar

Það er náttúrulega algjör skandall, að setja mjólkina fyrst í bollann. Kaffið fyrst svo mjólk þangað til það kemur réttur litur á kaffið, sem á að sjálfsögðu að vera drukkið úr eins litlum og þunnum bolla og kostur er.

Boldið hmmm................

Þröstur Unnar, 8.9.2007 kl. 18:15

7 identicon

Geri þetta stundum, þ.e. að setja mjólkina á undan,og er ekki frá því að það sé betra bragð af kaffinu.  Þekki fólk sem gerir þetta án undantekninga og ef þetta er ekki rétt gert þá er því hellt og fengið sér aftur.  Það er bragðmunur, vissulega, en þetta skiptir mig þó ekki mjög miklu, get drukkið það hvort heldur.  Boldið, who care?  Kveðja frá Sarajevo, þar sér maður ekki BB og ekki viss um að ég sjái mikinn mun eftir árs fjarveru, þegar að því kemur.

Guðm. Fylkis (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 19:30

8 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Meiraboldmeirabold...plísplís...sparar mér mikinn tíma og helling af peningum að lesa þetta hjá þér..

Brynja Hjaltadóttir, 8.9.2007 kl. 20:11

9 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Drekk svart... en ég notaði einu sinni mjólk og að sjálfsögðu fór hún síðust í bollann! Ég hef áhyggjur af mömmu þinni Gurrí.... svona gerir maður ekki :)

Heiða B. Heiðars, 8.9.2007 kl. 20:12

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Kaffið fyrst svo mjólkina, mér hefur bara aldrei dottið í hug að gera það öðruvísi.  Boldið, sko ég horfi stundum en svindla svo og kíki fram í tímann, er hrútur og þoli ekki svona langdregin augnaráð.  Þetta að samnýta flotta gaura, skondið hjá þér, en það má nú alveg fá nýtt blóð í hópinn, þetta fer að verða skildleikaræktun og þá fer nú fólk að ljókka og heimskast. Góða helgi í himnaríki og kveðjur á kisurnar.

Ásdís Sigurðardóttir, 8.9.2007 kl. 20:13

11 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

tjah..... Ég set alltaf mjólkina síðast. Hef aldrei prófað hitt. Geri það kannski, bara svona til að kanna hvort það sé virkilega annað bragð.

Hrönn Sigurðardóttir, 8.9.2007 kl. 20:37

12 Smámynd: krossgata

Nú er ég alveg hætt að skilja, boldið sko.  Ef Felicia er dóttir Erics og Stefaníu er hún þá ekki systir Nicks?  Var hann ekki sonur annars hvors þeirra?  Eru Brooke og Eric skilin?!

Varðandi mjólk á undan eða eftir kaffinu.... Það er auðvitð hneyksli að menga kaffið með mjólk yfir höfuð.  Mjólk á ekki að koma nálægt kaffi, helst ekki í sama herbergi einu sinni.

krossgata, 8.9.2007 kl. 20:44

13 identicon

Sleppi mjólkinni í kaffið, en vil minn daglega skammt af boldinu takk.

Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 21:29

14 Smámynd: Fjóla Æ.

Fyrst kaffi svo wiskí og síðan rjómi. Draumórar. Fyrst kaffi og síðan mjólkin.

Komdu með meira Bold. Get varla beðið eftir að vita hvað gerist næst. Það er ekkert smá í gangi og mér finnst þessi fjölskylduflækja mjög auðskilin.

Fjóla Æ., 8.9.2007 kl. 22:03

15 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sko, Krossgata, Eric er sonur Jackie og Massimo (sem er blóðfaðir Ridge þótt Eric hafi haldið í 50 ár að hann ætti hann). Já, ég kem bara með stóran boldþátt fljótlega og skelli svo inn einhverju jafnóðum fyrir Ingu, ekki málið!

Helga Vala, ég myndi þá fyrst fara að horfa á boldið með ánægju, ekki skyldurækni ef þú færir að skrifa það!

Vissi að mamma væri ekki í lagi í sambandi við kaffimál ... henni finnst kaffið og mjólkin blandast betur og hraðar með því að gera þetta öfugt. Held að hjúkkunæturvaktir hafi mögulega skemmt bragðskyn hennar í gamla daga ... en þá drukku hjúkkur og sjómenn sams konar kaffi!

Guðríður Haraldsdóttir, 8.9.2007 kl. 22:24

16 identicon

Ég drekk bara mjög sterkt nýuppáhellt svart kaffi. Sjokkur af köldu vatni gerir það algjört æði - ca. 20 ml. ískalt vatn útí og það er hægt að þamba það án þess að brenna sig.

Krissilía (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 23:27

17 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Þetta er algjört smekksatriði en skiptir raunar ekki máli nema kaffið sé sjóðheitt.

Ef þú ert með bolla af sjóðheitu kaffi og hellir smávegis af kaldri mjólk út í það snögghitnar hún; ef hitinn er yfir 82°C flóast mjólkin í kaffinu (ensímin fara að brotna niður) og þá kemur þetta bragð sem sumir vilja og aðrir ekki. Ef kaffið er ekki þeim mun heitara eða ef mikil mjólk er notuð hitnar mjólkin ekki nægilega til að flóast.

Ef heitu kaffi er hellt út í kalda mjólk verður blöndunin öðruvísi, mjólkin snögghitnar ekki eins, hitastigið fer aldrei jafnhátt og ólíklegt að mjólkin byrji að flóast.

Persónulega er ég ekki mikið fyrir þennan flóaða karamellukeim svo að ef kaffið er mjög heitt set ég yfirleitt mjólkina fyrst – og í almennilegu tei er það eiginlega nauðsynlegt (ef maður notar mjólk á annað borð).

Nanna Rögnvaldardóttir, 9.9.2007 kl. 00:35

18 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mjög athyglisvert og takk fyrir þetta. Það kemur reyndar ekki sjóð-, sjóðheitt kaffi úr vélinni minni ... en ég fann mun á kaffinu þarna hjá Hildu, fannst koma aukabragð af því en mögulega hefur mamma ekki alveg hitt á rétta litinn þótt mér sýndist það í fljótu bragði. Heit mjólk í kaffi er fín, eins og í latte, en ég bið alltaf um að hún fari ekki yfir 150°F, þá verður kaffið of heitt ... heyrði líka einhvers staðar að það verði efnabreyting á henni ef hún er hituð meira. 

Guðríður Haraldsdóttir, 9.9.2007 kl. 12:30

19 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Mjólk er sætust á bragðið í kringum 65°C (eða 150°F ef þú vilt endilega nota Fahrenheit, ekki veit ég af hverju) og þá byrja líka ensímbreytingarnar í henni en þær hafa þó ekki veruleg áhrif fyrr en við töluvert hærri hita (82°C).

Nanna Rögnvaldardóttir, 9.9.2007 kl. 15:33

20 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Aha, sæki sem sagt í sæta bragðið! Ástæðan fyrir Fareinheitinu er sú að flestir hitamælar á kaffihúsum er ekki með Celsíus-hitastigið, ég lærði því á þetta með F-inu. 65 gráður, ókei, þá man ég það því að kaffihúsið á Skaganum er með Celsíus-mæli!

Guðríður Haraldsdóttir, 9.9.2007 kl. 18:19

21 identicon

sæl´skan

Ég tek við Bolding, sama í hvaða formi þú sendir það út. Frásagnir þínar eru mun skemmtilegri en nokkur þáttur sem ég hef séð af þessari sápu.

Hætti að nota sykur og mjólk í kaffi í verkfallinu ´84 (Var það ekki ´84 annars ?) og er því ekki dómbær á fyrirbærið en verð þó að segja að það að setja mjólk út í kaffið hljómar eins og að setja Pepsí út á seríósið

kv kikka 

kikka (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 299
  • Sl. sólarhring: 455
  • Sl. viku: 2092
  • Frá upphafi: 1461075

Annað

  • Innlit í dag: 262
  • Innlit sl. viku: 1719
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 257

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17
  • Dýrheimar kaffihús

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband