Bílstjórar í biðröð, brjóstsykurslykt og stormur í vændum ...

Gvendur HafnfirðingurFerðin í morgun var ljómandi fín þrátt fyrir blikkandi rautt ljós og hávært aðvörunarhljóð úr mælaborði strætó. Líklegt að aðvörunarkerfið hafi bilað því vagninn malaði eins og köttur og skilaði okkur rúmlega heilum á húfi í bæinn. Tommi er lasinn og Gvendur Hafnfirðingur kom alla leið frá heimabæ sínum í morgun til að leggja af stað frá Skrúðgarðinum 6.41 og skutla okkur í bæinn. Svona erum við nú æðislegir farþegarnir á Skaganum að bílstjórar alls staðar af á landinu bíða í röðum. Hélt að svona hörkunaglar og víkingar eins og Tommi, sem leggja sér magála, súrt slátur, hrútspunga og ísbirni viljandi til munns, veiktust aldrei. Hann hefur kannski farið í matarboð í gær og fengið pasta.

Vont veðurVeðrið var æðislegt á leiðinni ... en þá á nú eftir að breytast þegar líður á daginn, búið er að spá stormi, takk fyrir. Kannski kemur Sigþóra með okkur Ingu upp á Skaga seinnipartinn, reyndar detta við það möguleikarnir á því að grípa sér sætan björgunarsveitarmann til eignar niður í 33.33 prósent, ja, ef ekki niður í 10 prósent, Sigþóra er svo sæt og mikil dúlla. Við Inga erum vitanlega MJÖG sætar líka en líklega engar dúllur. Dæmi: Til að gleðja Ingu þá er best að gefa henni borasett eða vélsög. Hún þekkir alla í BYKO og Húsasmiðjunni með nafni og hikaði t.d. ekki við að hringja í framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar til að fá góða uppskrift að steypu. Það stóð nefnilega ekki aftan á sementspokanum: 2 msk sement, 1 dl vatn, 1 msk sandur. Kannski er Sigþóra engin dúlla og sýnir bara á sér sparihliðina í strætó. Ja, það kemur í ljós í dag.

Verulega blaut rigningÉg ákvað að stríða Sigþóru á leiðinni og spurði hana sakleysislega hvernig hundslappadrífusagan hennar hljómaði. Systir hennar kom með þessa hugmynd í kommentakerfinu á dögunum. Sigþóra sagðist hafa ætlað að útskýra það fyrir manneskju sem ekki vissi hvað hundslappadrífa væri: "Það er svona blaut rigning," og systur hennar hafa strítt henni á þessu síðan.

Brjóstsykurslyktin var að drepa okkur á leiðinni upp kúlurass-(súkkulaði-)brekkuna og Sigþóra sagði að það hefði verið verra um daginn, en þá var verið að búa til lakkrís! Mér finnst líklegt að við mætum einhvern morguninn í Nóa Síríus ... með lambhúshettur á höfði, betlipoka og biðjandi augnaráð.

Algjör synd að Árbæingar hafi fengið að stela leið 18 sem áður gekk upp súkkulaðibrekkuna, það kostar okkur Sigþóru ekki bara mæði, heldur þurfum við líka að standast mismunandi freistingar á hverjum degi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Alveg skil ég Sigþóru. Þegar maður veit ekki almennilega hvernig maður á að lýsa hlutunum -- eða er kannski pínku um annað hugsa um leið.

Ég átti einu sinni að útskýra hvernig tiltekin frænka mín væri skyld mér. Ég er nú ekki sterkur í ættfræðinni, en með umhugsun náði ég þessu: „Sko, amma mín var systir ömmusystur hennar.“

Það tók mig langan tíma að skilja af hverju viðstaddir ætluðu að rifna úr hlátri yfir þessum einföldu vísindum.

Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 09:11

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Úps, Guðmundur. Ég hef bara sönglað, "Ég vil súkkulaði,"upp þessa brekku ... og ekkert súkkulaði kemur.

Að hverju hlógu ættingjarnir SigHr? Mér finnst þetta mjög lógískt hjá þér. Er svo sem líka lítill ættfræðingur í mér.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 22.10.2007 kl. 09:30

3 Smámynd: krossgata

Almáttugur minn, það sem er á konur lagt í kúlurassabrekkum.  Ég get alveg upplýst það hér og nú að ef ég þyrfti upp svona brekku með loftið lakkrís blandið þá myndi ég enda áður en þú gætir sagt "sæl" grátandi í örvæntingarfullri beiðni á dyrum sælgætisverksmiðjunnar um nýmallaðan lakkrís.  Í stuttu máli:  ég stenst ekki lakkrís.

krossgata, 22.10.2007 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 636
  • Frá upphafi: 1505989

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 513
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband