Með lögguna í vasanum ...

FormúlanÞessi sunnudagur breyttist svolítið, eiginlega bara heilmikið. Það átti að fara í netbolinn og njóta  Formúlunnar með stæl. Á meðan ég sat og horfði á vísana á klukkunni færast löturhægt í áttina að Formúlu hringdi síminn. Glaðbeitt kvenmannsrödd. „Hæ, þetta er Hilda (systir). Við mamma (mamma) ætlum að kíkja í heimsókn á eftir, hvernig líst þér á það?“ Margar vikur frá síðasta hittelsi ... Ég horfði á símtólið og sjónvarpið til skiptis. Nú voru góð ráð dýr. Mér datt djöfullegt snilldarráð í hug á sekúndubroti og með geigvænlegri lymsku tókst mér að fresta komu þeirra. Ég sagði Hildu að Formúlan yrði á dagskrá kl. 4 (þá byrjaði sjálf keppnin) en AUÐVITAÐ yrðu þær samt að koma. Í lok setningarinnar kjökraði ég lágt. „Ég kem bara eftir fimm,“ sagði Hilda hlýlega en hrím myndaðist samt á símtólinu. Það gæti hafa verið ímyndun hjá mér. Svo hringdi ég í lögguna.

LögganÞeim mæðgum seinkaði nokkuð, eins og ég bjóst við, (múahahahaha) og mættu ekki fyrr en kappakstursmennirnir voru búnir að burra og byrjaðir að djúsa og grobba sig. Ég styrkti nefnilega lögreglukórinn á Akranesi um nokkra fimmtíukalla og lét bæði taka þær fyrir hraðakstur (91,5 km/klst) og loka göngunum í svona 43 mínútur til öryggis.

Úrslitin voru bara fín. Þegar minn maður (Hamilton) hafði klúðrað þessu (snemma í keppninni) varð svo mikið spennufall í himnaríki að ég hefði reyndar alveg þegið heimsókn til að dreifa huganum.

Það hringdu fleiri sem voru að pæla í að koma í heimsókn. Ég sagði frá Formúlu, lögregluríki og fyrirhugaðri innrás ættingja. Líklega eru allir svo hræddir við mömmu, kannski enn frekar Hildu, að enginn þorði að koma.

Einmana um helgar (not)Það var ekki fyrr en þrjár mínútur yfir níu í kvöld sem ég áttaði mig á þessu samsæri. Vinir mínir og ættingjar er andstyggilega þenkjandi, þessar elskur. Þeir lesa bloggið mitt og finna þannig út hvenær ég ætla að horfa á eitthvað verulega krassandi í sjónvarpinu. Síðan hringir liðið til að prófa mig. Elska ég vini mína og ættingja ... eða er ég orðin sjónvarpsfíkill? Hvað um allar þær löngu helgar sem ég hef setið emjandi að springa úr einmanaleika (aldrei) og enginn kemur?  Vá, hvað ég ætla ekki að gera neitt um næstu helgi.

Það var ekki nóg með að mæðgurnar heiðruðu himnaríki með komu sinni ... Hilda hljóp óvænt niður í bíl þegar heimsókninni virtist vera lokið, skildi mömmu eftir, kom svo upp með fullt af mat sem hún eldaði handa okkur. Svakalega gómsætan taílenskan kjúklingarétt.

Þetta var frábær dagur! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn og aftur er þetta spurning um sögnina að elska - þ.e.a.s., áður en hún týnir merkingu sinni.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 00:40

2 Smámynd: Agný

Sumir elska það að hata einhvern...aðrirhata það að elska einhvern... Minn dagur var superb..og í lok dagsins var ég loks komin  í hóp "Diva"...

Agný, 22.10.2007 kl. 03:36

3 Smámynd: Ragnheiður

aha ! Þá man ég það þegar ég geri innrás í himnaríki, skoða sjónvarpsdagskrána fyrst hehehe

Ragnheiður , 22.10.2007 kl. 06:52

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hurru, Glúmur, má ekki tala um að elska ástvini sína? Ég minntist hvergi á sjónvarp eða ryksuguróbót í tengslum við að elska, heldur fólk, þarna nöldurskjóðan yðar!

Ég lét taka þær rétt skömmu áður en við komum á Skagann. Þær voru svo samstarfsfúsar við líkamsleitina að löggan næstum gleymdi sér!

Agný díva ... æði.

Sko Ragga, Formúlan er búin og þar með er dottið niður gláp á sjónvarp um helgar, nema á sunnudagskvöldum!  

Guðríður Haraldsdóttir, 22.10.2007 kl. 07:49

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þett er bömmerinn við að blogga.  Fólk veit of mikið um mann en það má auðvitað ljúga á blogginu, kona gæti sagst vera á leiðinni út eða eitthvað, en það hefur þann mínus í för með sér að þá er ekki hægt að blogga skemmtilega, þ.e. ef maður er aldrei heima í prinsippinu, þá gerist auðvitað ekkert heima.  Sjitt skilur þú hvað ég meina? Held að ég botni ekkert í því.

Megi góðir vættir fylgja yður þennan mánudag og gefa yður góðar vinnustundir.

Smjúts frá mér

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.10.2007 kl. 08:10

6 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Knús á móti, elskan. Ég botna algjörlega í þessu hjá þér!

Guðríður Haraldsdóttir, 22.10.2007 kl. 08:46

7 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

hmmm og svo var verið að skoða Rosberg, Kubica og Heidfeld fyrir að hafa brotið eldsneytisreglur, þannig að þar til í nótt einhvern tímann gat verið að Hamilton yrði meistari eftir allt saman. Staðan núna er sú að stewards úrskurðuðu að úrslitin stæðu óbreytt, þrátt fyrir brot, en McLaren liðið er búið að kæra úrslitin.

Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að Hamilton sé mitt uppáhald get ég vel unnað Kimi titilsins, hann er svo oft búinn að vera nálægt honum. Yrði ekki smá fúlt ef hann næði að vera meistari í dagpart...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.10.2007 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 228
  • Sl. sólarhring: 256
  • Sl. viku: 1772
  • Frá upphafi: 1453931

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 1473
  • Gestir í dag: 172
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband