Beðið eftir jólafríinu

Sound of music dagskráÞótt skammdegið fari ekki í mínar fínustu, eins og sumir orða það, finn ég samt fyrir því hversu erfitt er að drífa sig á fætur þar sem hánótt stendur alveg til kl. 10 á morgnana. Við Ásta vorum hálfstjarfar í morgun og nutum þess út í ystu æsar hversu lítil umferð var á leiðinni. Margir greinilega komnir í jólafrí. Hvað er aftur jólafrí? Það sem ég sé í hillingum núna er að skríða milli rúms og leisígörl yfir hátíðarnar með konfekt í annarri, malt og appelsín í hinni, hangikjöt í þriðju og uppstúf í fjórðu og svona og með góða bók í kjöltunni, með kveikt á sjónvarpinu, a.m.k. á meðan Sound of Music rúllar ... annan í jólum kl. 14.  

KalkúnnÍ gær fengum við Birtíngsstarfsmenn góða og veglega jólagjöf frá fyrirtækinu sem átti að opna við heimkomu ... og geyma í ísskáp. Þetta voru þessi líka fíni hamborgarhryggur og úrbeinað hangikjötslæri ásamt nammi og einhverju kjötdæmi í áleggsbréfi og ég man ekki fyrir mitt litla líf hvað það heitir eða hvernig á að snæða það. Salamipylsa leyndist þarna líka. Vildi reyndar að ég hefði njósnað lymskulegar um jólamatargjöfina þar sem daginn áður keypti ég jólamatinn! Arggg! Það kemur reyndar alltaf gamlárskvöld á eftir jólunum og ég veit núna hvað ég verð með í matinn þá!

Í himnaríki verður kalkúnn með öllu tilheyrandi á aðfangadagskvöld ... meira að segja með vinkonu minni ... hehehehe. Hún er frábær kokkur og ætlar að taka að sér eldamennskuna. Hún er þegar búin að gera trönuberjasósuna (-sultuna) og ætlar að búa til ananasfrómas í eftirrétt! Mér verður treyst til að ofnbaka sætu kartöflurnar í klukkutíma og frétti ég í fyrsta skipti í símtali við hana í gærkvöldi að maður syði ekki slíkar kartöflur, þær yrðu svo ógeðslegar. Hmmm ...

Gleðifréttir: Blessað bragðskynið er að koma aftur eftir svartadauðakvefið en það er ekki séns að ég finni lykt! Ég þarf að taka orð erfðaprinsins trúanleg þegar hann segir að kattasandurinn sé hreinn, hann sé nýbúinn að fara í bað, engin skata hafi verið soðin í stigaganginum og slíkt. Svo verða KK-tónleikar á Skrúðgarðinum í kvöld, getur maður farið nefmæltur og bólginn og kvefaður á opinbera atburði? Á ég kannski bara að pakka inn restinni af jólagjöfunum?

Þrifin í gamla dagaÁ laugardaginn kemur ung, pólsk kona og skúrar himnaríki. Ég ætla að rústa hagkerfi sumra þeirra viðurstyggilegu landa minna sem hafa Pólverja í vinnu hjá sér og mun greiða henni helmingi meira en hún setur upp. Ég réði mér húshjálp árið 1987 (íslenska) og borgaði henni 1.000 krónur á tímann. Ég frétti að pólsku (erlendu) konurnar sem drýgja tekjurnar með húsþrifum fái margar 800 krónur á tímann núna 20 árum seinna og það hækkar í mér blóðþrýstinginn. Að fá þessa konu sparar mér blóð, svita og tár eftir svona mikla vinnutörn eins og verið hefur. Hver veit nema erfðaprinsinn láti heillast og ég eignist tengdadóttur í kjölfarið ...

Held að völvublaðið hafi farið í prentsmiðju í gærkvöldi. Það er mjög djúsí og skemmtilegt. Jólablaðið var líka að koma út, Ragnheiður Clausen á forsíðu, þessi dúlla, og hún grínast með karlmannsleysið eins og ég stundum (við grátum í einrúmi) ... og auglýsir eftir karlmanni, hún gerir engar kröfur, hann þarf bara að hafa áhuga á hundum. Hahahahaha ... Minnir að föðurbróðir hennar, Örn Clausen, sé kvæntur náfrænku minni. Ég bíð eftir að komast á virðulegan aldur (12. ágúst 2008) til að fara að pæla meira í ættfræði. Já, Anna, þá verð ég viðræðuhæf. Jæja, farin að vinna, hafið það gott í dag, elskurnar mínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

ja, ég tala af eigin reynslu, pólskar tengdadætur eru fyrirmynd annarra tengdadætra hehehehe

(á reyndar bara 2 erlendar tengdadætur
og þar af önnur pólsk)Farðu svo bara vel með þig eftir þennan flensufja.... 

Guðrún Jóhannesdóttir, 20.12.2007 kl. 12:44

2 identicon

Hvar er hægt að ná sambandi við pólsk hreindýr svona rétt fyrir jól? Mitt hreindýr er frá Úganda og strauk heim til sín í desember svo það er allt á kafi í ryki og skít hjá mér. Gleður mig að heyra að þér sé smám saman að batna. Mjög góð - og bragðgóð - lausn á kvefi er að setja dávænan skammt af koníaki saman við heita mjólk og hunang. Alveg svínvirkar.

Helga Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 12:59

3 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Helga, ættirðu ekki að tékka á íslenskum "hreindýrum"

Guðrún Jóhannesdóttir, 20.12.2007 kl. 13:09

4 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Dótturdóttir mín kemur til mín og skúrar eins og venjulega. Hún er hörkudugleg en ég veit ekki hvað hún segði ef hún kæmist að því að einhverjum þætti þess vegna við hæfi að kalla hana hreindýr.

Nanna Rögnvaldardóttir, 20.12.2007 kl. 13:22

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það tók mig heillangan tíma að fatta orðið HREINDÝR!!! Ja, hérna, ekki held ég að íslenska krúttið mitt sem byrjaði sem húshjálpin mín 87 hefði verið sátt við að vera kölluð hreindýr. Af þeirri dýrðardömu er það helst að frétta að hún er framkvæmadastjóri í dag, gift 2 barna móðir og hámenntuð! Ég er ekkert smámontin að hafa átt þátt í menntun hennar ... eða þannig.  

Guðríður Haraldsdóttir, 20.12.2007 kl. 14:04

6 Smámynd: www.zordis.com

Ég er rándýr en hreindýr er alveg nýtt!

Ég er svo innilega þakklát fyrir konuna sem gerir Fjallið hamingjusamt með þrifum á heimiliinu ... hún fær væna jólagjöf í ár!

Og þú hlýtur að finna skötuilm, trúi ekki öðru

www.zordis.com, 20.12.2007 kl. 21:42

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hanna vill einmitt hafa sína húshjálp (flestir nemarnir eru með húshjálp) með sér heim þegar hún kemur í frí. Það er alveg frábær kona og ég sakna þess oft að búa ekki lengur við þann lúxus sem ég leyfði mér á tímabili, að fá hjálp við að halda þetta flókna heimili mitt. En þegar við höfum lokið smíðavinnu, parkettlögn og fleiru þá hef ég heitið sjálfri mér því að reyna að hafa uppá góðri manneskju af hvaða þjóðerni sem er sem er að fá sér aukakrónur með húshjálp, þannig að það verði beggja hagur ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.12.2007 kl. 21:50

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Íslenska konan er rándýr á meðan sú pólska er hreindýr ?

Er þetta bloggerí þitt Gurrí að leysast upp í einhvern karlremburasisma ?

Steingrímur Helgason, 20.12.2007 kl. 22:10

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég get þá verið alveg laus við að skammast mín fyrir, hvað ég borgaðu pólska jólareddaranum mínum, ég ákvað bara að vera grand og borgaði 2000 á tímann, hún var hverrar krónu virði og mér líður rosavel, hún kyssti mig þegar hún fór svo þá veit ég að hún var ánægð, hef aldrei hitt hana áður. Vona að þú sér á KK

Ásdís Sigurðardóttir, 20.12.2007 kl. 22:22

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sorrí, snöggfýkur í mig yfir uppnefninu á konu sem þrífur.  Missi algjörlega húmorinn.  Myndi ekki slá hendinni á móti duglegri konu til að þrífa fyrir mig, þar sem ég er með ónýta löpp, myndi borga vel.  En þær liggja ekki á lausu þessar konur, enda verður enginn ríkur af heimilisþrifum, hvorki við sem gerum það af skylduinni né heldur þeim hinum sem vinna við það.

Nammi Gurrí hvað það verður gott í matinn hjá þér.

Sömuleiðis hjá mér reyndar.

Smjútsí

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.12.2007 kl. 22:43

11 identicon

Hvurslags letihaugar eruð þið , getiði ekki lagað til á eigin heimili,usss fuss  og svei og G L E Ð I L E G  J Ó L. Að laga til og með músik í botn er bara fínt og gaman.  Jólin og allt aftur.

jensen (IP-tala skráð) 20.12.2007 kl. 22:49

12 Smámynd: Þröstur Unnar

Líst vel á þetta afslöppunarferli með mat í öllum höndum um jólin. Er Leisígörl ekkert farin að lýjast?

Er að hugsa um að panta mér Skötu og hænsni frá Galito.

Hef rúllað á milli heimila hér á Skipaskaga undanfarin ár og hreingert, einnig hreingeri ég föt, allt frá samkvæmiskjólum upp í Pólskar nærbuxur, og stoltur af því.

Í símaskránni 2008 ætla ég að vera titlaður Hreindýr, alveg klárt.

Þröstur Unnar, 20.12.2007 kl. 23:03

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Gurrí, ég ætla barasta að minna þig á að stjörnukíkirinn minn er fókuseraður á Langasand. Hvernig er það með þinn ofursterka kíki? 

Ágúst H Bjarnason, 21.12.2007 kl. 00:02

14 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ert þá frænka þeirra Jóhönnu vigdísar og Jðóhönnu Vigdísar! Hún er semsagt frænka þín fv. hæstaréttardómarinn Guðrún Erlendsdóttir!

Var nú svo sniðugur fyrir nokkrum vikum að vera með þessa mannsnsgetraun og þá var einmitt JVH sú sem leita átti að, en þú varst ílla fjarri góðu gamni Sagaskömmin þín!

Hvernig er svo með soninn fagra, getur hann ekkert gert í matseldinni?

En færð plús fyrir háleit markmið á nýju ári, færð þér "Espolín" í tölvuna og keyrir í ættfræðina á fullu!

Magnús Geir Guðmundsson, 21.12.2007 kl. 00:22

15 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Já Jenný, það fauk aðeins í mig þegar ég las þetta, og þetta með íslenska "hreindýrið" ekki samþykki fyrir uppnefninu, heldur fannst mér að pólskum vegið!

Guðrún Jóhannesdóttir, 21.12.2007 kl. 00:36

16 identicon

Ég biðst auðmjúklega afsökunar ef ég hef móðgað einhvern með því að kalla ræstitækna hreindýr. Þetta hefur verið notað í gríni í minni fjölskyldu í mörg ár. En til að fyrirbyggja allan misskilning þá er mitt "hreindýr" karlkyns og hefur umborið mig og mína ópólitísku rétthugsun í mörg ár.

Helga Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 11:40

17 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Mikið skelfing er ég aftarlega á merinni, ég hélt að Ragnheiður væri að flytja til Akureyrar...  svona er maður nú lélegur í slúðrinu. 

Sigríður Jósefsdóttir, 22.12.2007 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 104
  • Sl. sólarhring: 233
  • Sl. viku: 1420
  • Frá upphafi: 1460319

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 1130
  • Gestir í dag: 93
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fótapláss ekkert
  • Facebookvinátta
  • Fótapláss ekkert

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband