Rommkúlur, strætóstress ... og bold

Á leið í strætóMikið er gott að vera komin í páskafrí. Inga vinkona skutlaði mér í Mosó og höfðum við örfáar mínútur fram að brottför leiðar 27 á Skagann. Sem betur fer var ekki þung umferð á leiðinni og náðum við því á mettíma á staðinn, auðvitað á löglegum hraða. Inga bjóst við að þurfa að elta strætó og ná honum jafnvel á Kjalarnesi en eins og svo oft áður þá þurfti 27 að bíða eftir leið 15 sem er oft sein á þessum tíma. Þegar við Inga nálguðumst Háholtið sáum við að strætó var nýlagður af stað frá stoppistöðinni. Við héldum ró okkar þótt ýmsir í okkar sporum hefðu farið yfirum af stressi. Inga var nokkrum sentimetrum á undan strætó inn í hringtorgið rétt við KFC, jók hraðann og fleygði mér svo út á ferð við strætóskýlið í Lopabrekkunni, brekkunni góðu þar sem Karítas tók alltaf vagninn áður en hún flutti norður. Elsku Heimir stoppaði svo fyrir mér þegar hann sá fagurskapaðan þumalfingur minn á lofti.

RommkúlurVið erfðaprins fórum í Einarsbúð og keyptum flottan mat fyrir morgundaginn, nautasteik, Einarsbúðarsalat og margt fleira. Svo var það bara hjartans Skrúðgarðurinn í smástund ... ég mæli með cappuccino-tertunni þar. Hún er mjög gómsæt og rosalega holl. Kaffið vekur, hressir og kætir. Súkkulaði er meinhollt á allan hátt og rjómi kemur í veg fyrir beinþynningu.
Góður næstum því endir á annasömum degi. Nú verður bara lesið og horft á sjónvarpið, frí og útsofelsi á morgun!!!

Annað, skilaboð til erfðaprinsins sem situr inni í stofu: Aldrei, aldrei færa mér fulla dollu af rommkúlum! Þetta átti að vera fyrir gesti!

Felicia og DanteÞað má ekki líta af boldinu þá skipta persónurnar um hjásvæfur, svíkja, kyssast og svona ... og enn er brúðkaup í uppsiglingu. Brooke er saklaus, aldrei þessu vant, en það er þó stutt í að hún giftist Nick. Held að handritshöfundar séu með skipurit þar sem segir að það verði að halda brúðkaup á minnst átta vikna fresti eða oftar eftir aðstæðum. Bara passa að fólk sé ekki of blóðskylt! Bridget hryggbraut Dante á dögunum, sá eftir því en oft seint því aumingja karlinn lenti í því að biðja strax Feliciu, barnsmóðurTaylor, Ridge, Nick og Brooke sinnar, eða þannig. Hún játaðist honum, fór strax að undirbúa brúðkaupið, flýtti því og lét fljúga inn tengdó frá Ítalíu. Það heyrðist mikið mamma mia í þessum þætti. Dante fékk langþráða ástarjátningu frá Bridget og ákvað að segja Feliciu upp en það var staðalímyndin af ítölsku fjölskyldunni kominni á staðinn, tyggjandi pasta og drekkandi ólífuolíu sem kom í veg fyrir það.
Ridge reynir stanslaust við Brooke, mömmu Bridgetar, og Nick, unnusti hennar og fyrrum eiginmaður Bridgetar, er að verða brjálaður á því. Sýndist Jackie (mamma Nicks) vera tiltölulega óspæld út í Stefán, pabba Brooke (Bobby í Dallas), fyrir að hafa sofið hjá Taylor (fyrri konu Ridge) til að plata út úr henni hlutabréfin (2%) og koma þannig Forresturunum á kné.  

Die_hardJæja, nú er Die Hard byrjuð á Stöð 2 Bíó, best að horfa á hana í 15. skiptið. Bruce er kúl, meira að segja þegar hann fer að kjökra í lokin, sárfættur og með mörg, mörg dráp (bara á vondum körlum) á samviskunni. Hann hefur haldið þeim sið í hinum Die Hard- myndunum, svona í blálokin þegar konan er komin og vorkennir honum. Annars horfi ég auðvitað bara á myndina þess að hluti níundu sinfóníu Beethovens heyrist í henni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Jibbí kæ jei moðer fokker  (skrifað eftir framburði)  Bunny Face  Easter Bunny  Chick

Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2008 kl. 23:01

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Einarsbúðarsalat?????

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 23:15

3 identicon

Sama hér - horfi bara á Die Hard vegna 9. sinfóníunnar :)

Páskakveðjur

Svanur Már Snorrason (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 11:05

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér finnst nú þægilegra að setja bara þá níundu á fóninn...    En hvernig endar þetta í Boldinu... ef það endar nokkurn tíma...?

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.3.2008 kl. 11:29

5 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jamm, Jenný, niðurskorið (fljótlegt) salat, venjulegt grænmetissalat en samt svo gott ...

Helga og Lára Hanna, þið vitið að ég horfi bara á boldið af því að það er svo vel þýtt! Eins og við Svanur með níundu ...

Ásdís, ég fór að hlæja í myndinni þegar þessi setning kom, takk fyrir það.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.3.2008 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 676
  • Frá upphafi: 1505967

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 545
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband