Skyndileg frægð vinkonu og heilmiklar brjóstapælingar!

Heimir vill verða stórÉg á svo fyndna vinkonu (46). Hún var að hlusta á Bylgjuna í gærmorgun og heyrði að Heimir játaði á sig að eiga 48 ára afmæli þennan sama dag. Vinkona mín hrukkaði gáfulegt ennið, tók reikningsstokkinn fram, dró 1961 frá 2008 og fékk út aðra tölu en Heimir! Hún hringdi strax í Bylgjuna, alveg í sjokki, og komst óvænt inn í beina útsendingu.

„Ég þarf að leiðrétta þig, þú ert ekki 48 ára!“ sagði hún.

„Nú, hvað áttu við?“

„Ertu ekki fæddur árið 1961?“

„Jú, það er ég.“

„Hvernig getur þú þá fengið út að þú sért 48 ára?“

Útvarpsgengið bilaðist víst úr hlátri og Heimir varð alveg steinhissa, hann hélt í alvöru og líka konan hans, að hann væri 48 ára. Þarna græddi hann alveg heilt ár í viðbót. Gulli Helga, útvarps- og sjónvarpsstjarna, hélt að þetta væri úthugsað grín. Onei, þetta var hún vinkona mín, gömul skólasystir og jafnaldra Heimis.

Meira um aldur ... Kona í verslun (35) sagði við mig (49) í gær að ég gæti sko alveg verið tíu árum yngri, ótrúlegt að ég væri að verða fimmtug ... ég held að hún hafi viljað selja mér peysuna með öllum ráðum, þessi elska. Það tókst, ekki þó eingöngu vegna fallegu orðanna, heldur peysunnar sem Hrund ofurblaðamaður hrósaði síðan í hástert í morgun og staðfesti þar með sjúklega góðan fatasmekk minn. Það er ekki séns að nokkur segi við mig núna: „Nei, Gurrí, maður fer ekki á kínaskóm á árshátíð!“ eins og gerðist á DV-árunum í kringum 1984.

Jóna ...Árshátíðarfötin mín 2008Ég var reyndar ósátt við ákveðna skyrtu í búðinni af því að hálsmálið glenntist svo í sundur (svona seventís-dæmi, stór viðbjóðskragi) og ekki hægt að hneppa upp í háls. Konan hélt að ég væri svona siðsöm og benti mér á fallegan háls minn og bringu (eins og ég vissi það ekki sjálf) og ég gæti alveg gengið í flegnu (djísus). Ég sagði henni að mér fyndist flíkin bara fallegri hneppt upp í háls. Sem minnir mig á ... Gömul vinkona kunningjakonu minnar sagði einu sinni við mig að ástæðan fyrir því að ég gengi ekki út væri sú að ég væri alltaf með hneppt upp í háls eða í rúllukragapeysu og slíkt. Sjálf gengur hún alltaf í mjög flegnu og er kölluð „Jóna“ með brjóstin, þegar hún heyrir ekki til. Brjóstin á henni eru orðin virkilega veðurbarin, enda hefur þeim verið flaggað sleitulaust í um 25 ár í öllum veðrum. Þessi Jóna (dulnefni) hefur kannski eitthvað til síns máls. Hún hefur gengið út margsinnis ... en ég hugga mig við að ég hafi sparað mér einhverjar ástarsorgir og jafnvel komið í veg fyrir kynni af mönnum með brjósta-blæti.

Jæja, páskarnir á næsta leiti. Mikið hlakka ég til á föstudaginn langa, að borða eitthvað vont með hnetum og rúsínum, lesa ævisögu afdalabónda um ævintýri hans við að komast á kirkjukórsæfingar í næstu sókn, hlusta á jólaplötu með Mariah Carey og berja mig með svipu. Eitthvað verður að gera fyrst ekki má spila bingó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Je minn Gurrí. Held það sé engi9n hætta á að þú drepsit ur leiðindum um páskana með þennan haus sem þú ert með á ösxlunum. Roslaega hlýtur að vera skemmtilegt að vera þú...allavega miðað við hvernig þú getur séð allt þetta brjálæðislega fyndna út úr einföldum daglegum atburðum.

Páskaknús

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 11:27

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Og er ekki fyndið hvað ég skrifa vitlaust þegar ég er ekkert að hugsa..bara skrifa??? Sjá dæmi fyrir ofan

..ég er sannfærð um að ég er með skrifblindu.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 11:28

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú gleymdir mikilvægu atriði.  Hvað er "Jóna" gömul?

Gott að vera með útitekin brjóst.  Ætli maður lifi ekki lengur?

Farin í sund.

Jenný Anna Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 11:54

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Gleðilega páskahátíð Gurrý mín!

Edda Agnarsdóttir, 19.3.2008 kl. 11:57

5 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Æi, ég er oftast með flegið niður undir nafla og það gagnast ekkert, ég hef ekkert gengið út sem heitið getur síðan einhverntíma snemma á síðasta fjórðungi síðustu aldar.

En með aldurinn, þá lenti ég einmitt í þessu einu sinni, ég var eiginlega aldrei 41 árs en var aftur á móti 42 ára tvö ár í röð og enginn fattaði neitt. Ég var svosem ekkert að reikna, hélt bara að ég vissi hvað ég væri gömul ...

Man reyndar eftir konu fyrir norðan sem skildi ekkert í því af hverju hún fékk ekki ellistyrkinn sinn á réttum tíma en þegar farið var að athuga málið kom í ljós að hún var ekkert orðin 67 ára, var bara 65 - engin reikningsskekkja, kirkjubækurnar höfðu bara brunnið og hún alin upp hjá vandalausum og aldurinn hafði verið mistalinn frá því að hún var barn eða unglingur. En þetta var nú fyrir tíma tölvu- og kennitöluvæðingar.

Nanna Rögnvaldardóttir, 19.3.2008 kl. 12:07

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þú ert flott  Chick Egg 2 Painted Head  

Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2008 kl. 12:28

7 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Jóna (48).

Páskaknús á móti, dúllurnar mínar.  

Guðríður Haraldsdóttir, 19.3.2008 kl. 12:41

8 identicon

Ja, konur í verzlunum geta verið óttalegir smjaðurskjallarar, sérstaklega ef koma þarf út einhverju seventísdrasli. Láttu mig þekkja það, hm.  

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 13:23

9 Smámynd: Brynja skordal

þú ert yndi með þínar færslurGleðilegt páskaknús

Brynja skordal, 19.3.2008 kl. 13:53

10 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mér fannst þetta hryllilega fyndið en skil Heimir vel. Þetta eru akkúrat mistök sem ég gæti gert. Sonur minn er til dæmis alltaf ári eldri en hann raunverulega er í mínum huga og ég þarf að reikna út hvað systur mínar eru gamlar sé ég spurð.

Steingerður Steinarsdóttir, 19.3.2008 kl. 14:17

11 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ha ha óborganlega fyndin færsla hjá þér.....ég reyndi að telja börnunum mínum trú um að ég væri 37....fannst það í alvörunni, er hins vegar 42 ára.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 19.3.2008 kl. 15:14

12 Smámynd: Þröstur Unnar

Vildi sjá Maríu Karrey berja þig með svipu e-eitthvað. * Ne djók.

Habbðu það gott yfir páskana granna góð.

Þröstur Unnar, 19.3.2008 kl. 15:50

13 identicon

Menn með brjósta-blæti...

það er að vísu yfirgnæfandi meirihluta gagnkynhneigðra karlmanna

Kolbeinn (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 16:08

14 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ó ...

Guðríður Haraldsdóttir, 19.3.2008 kl. 16:28

15 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

óborganleg færlsa hjá Himnaríkisfrúnni, enn einu sinni

Vona að föstudagurinn langi verði mjög langur svo þú komist yfir allt þetta meinlæti þitt

Guðrún Jóhannesdóttir, 19.3.2008 kl. 17:46

16 Smámynd: Rebbý

gleðilega páskana - vona að föstudagurinn langi verði ekki of langur hjá þér

Rebbý, 19.3.2008 kl. 17:54

17 identicon

Sæl Gurrý og takk fyrir frábæra færslu. Langaði að segja þér smásögu  Fyrir skömmu vann og á bókasafni og þar sem  ég er sérlegur aðdáandi hlýrabola með blúndu  (á svoleiðis í bunkum í öllum regnbogans litum) þá gerði ég fremur óvísindalega tilraun. Gerði í því að vera í hlýrabol og einhverju fleiru utanyfir og get svo svarið það að það var alltaf löng röð við mitt afgreiðsluborð oft röð út að dyrum (karlmenn mest) en hinar bókavörðurnar voru meira og minna verkefnalausar. Lenti meir að segja á hörkuséns hraðgift konan (nota st. 36D) Held því fram að karlkyns gestum hafi fjölgað mikið á meðan þssari tilraun stóð. Eftir að daður eins gestsins var farið að líkjast boði á stefnumót tók ég upp á því að leggja hlýrabolunum tímabundið og fara í eitthvað skjólmeira. Þá fækkaði karlkyns gestum safnsins. Ég er enn harðgift mínum manni og elska hlýraboli en nota þá í hófi við núverandi störf.  Gleðilega páska

Jóhanna (ókunnug) (IP-tala skráð) 19.3.2008 kl. 18:58

18 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mæ godd, sonur minn er tengdur í tölvunni minni, komment númer 20 er frá mér!!!

Guðríður Haraldsdóttir, 19.3.2008 kl. 19:32

19 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég skil hann Heimi afar vel; ég man aldrei hvað ég er gömul og verð yfirleitt að reikna það út á blaði. Dálítið hallærislegt að draga upp blokkina þegar maður er spurður hvað maður sé gamall. Þó slíkum spurningum fari óðum fækkandi, skil ekki af hverju. Góða páska, elsku Gurrí!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 19.3.2008 kl. 22:17

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið er ég fegin að lesa hér um allt þetta fólk sem man ekki hvað það er gamalt án þess að beita reikningskúnstum. Það er alltaf góð tilfinning að finnast maður ekki einn í heiminum með sinn rugling.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 291
  • Sl. sólarhring: 464
  • Sl. viku: 2697
  • Frá upphafi: 1458362

Annað

  • Innlit í dag: 233
  • Innlit sl. viku: 2240
  • Gestir í dag: 227
  • IP-tölur í dag: 222

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Siegfriedungjoy
  • Ótrúleg kvittun
  • Sjöundi maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband