Hollasta Evróvisjónsnakkið, heitar umræður um hádegismat og Vikuauglýsingar á youtube.com

Jóhannes tæknimaður settist við borðið hjá mér í hádeginu og ég beið spennt eftir viðbrögðum hans þegar hann fékk sér fyrsta bitann af bakaða reykta fiskinum í hvítu sósunni. Þar sem við vorum fyrstu gestirnir í matsalnum vildi ég getað varað aðra við ef liði yfir Jóhannes. Jóhannes brosti, þessi elska, og sagði þetta vera í fínu lagi. Þá mundi ég eftir því að hann er úr sveit og niðri í kjallara heima hjá honum hefur örugglega verið tunna með súrmat sem börnin stálust í ...

Matarminningar mínar, öllu heldur martraðir, tengjast einmitt reyktum fiski, súru slátri, köldum hafragraut með skán, hræringi, heitum vanillugraut með skán og saft, grásleppu, rauðmaga, hrognum, lifur, jólaköku, nætursöltuðum fiski, saltfiski, hamsatólg og slíku.

Börn, sem alin voru upp á sjöunda áratugnum, hafa skipst í tvo flokka, þau sem eru enn á lífi eftir þetta og vöndust þessum mat þangað til hann þótti góður (Tommi í BYKO) og hin sem naumlega lifðu þetta af og fá hjartslátt við það eitt að minnst sé á matinn (allir hinir).

Þegar Bryndís kom að borðinu og settist við hlið mér gaut ég augunum að diskinum hennar og sá reyktan fisk. Kræst, þetta var spennandi Bryndís er fædd á áttunda áratugnum, ( soðin ýsa-kynslóðin en hakk og spagettí á hraðri leið inn) fölnaði eftir fyrsta bitann og spurði hræðslulega hvað þetta væri. Beisk og gömul í matarhettunni gat ég nú sagt henni að þetta væri „reykt ýsa, heillin.“ Ég sat og hakkaði í mig hollusturéttinn á meðan ég gerði þessa mannfélagsfræðitilraun í huganum. Hollusturétturinn var svo góður. Innbakað spínat og svo fullt af góðu salati með. Elín bættist í hópinn með spínatið og varð skrýtin á svip þegar hún smakkaði. „Hvaða kanilbragð er þetta?“ sagði hún hneyksluð, eins og manneskja sem kann ekki gott að éta. Ég var búin að borða tvo svona spínatkodda með bestu lyst en Elín var ekki hrifin. Hún sagði að mötuneytið hefði örugglega villst á sæta smjögdeiginu og því ósæta. Þar sem mér finnst allt sætt æði (sætar kökur, sætir strákar ...) fannst mér sætt bragð ekkert skemma grænmetisréttinn ... ´

Á markaðinn er að koma nýr Toppur og við Vikukonur fengum sendan einn kassa. Ég tek með mér flösku heim og kæli vel áður en ég smakka yfir Evróvisjón í kvöld. Samstarfsstelpurnar, sem ætla í Evró-partí í kvöld á vegum vinnunnar eru stórhrifnar af þessum drykk, tveimur tegundum: (með eplum og með ferskjum). Hrund sagði þetta hollasta Evróvisjónsnakk sem hún hefði heyrt um þannig að ég verð líklegast eina manneskjan með viti í vinnunni í fyrramálið.

Svo voru að koma sjónvarpsauglýsingar fyrir Vikuna. Ilmur snillingur er í aðalhlutverki og ferst það vel úr hendi, eins og annað. Þessar auglýsingar gera út á að við séum alvörublað með alvöruviðmælendur og með alvörulesendur. Vörum við eftirlíkingum ... heheheheh Ég var stressuð en svo sá ég Ilmi og óttinn hvarf. Fólk hér innanhúss er mjög hrifið. Fyrri auglýsingin var sýnd á SkjáEinum í gærkvöldi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea

Ég les næstum því alltaf bloggið þitt en aldrei Vikuna. Og-------------- ég bara botna ekkert í þessum auglýsingum! Hvaða eftirlíkingar? Hvar er þetta "alvöru fólk" og hvernig er það öðruvísi en ég?

Andrea, 22.5.2008 kl. 14:52

2 identicon

Frábærar auglýsingar, greinilegt að þið eruð með húmorinn í lagi

Ibba (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 15:20

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Heheheh, kannski hef ég eitthvað misskilið. Er með mjög góða hugmynd að auglýsingum, fyndnum og skiljanlegum. Kannski verða þær notaðar næst. :)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 22.5.2008 kl. 15:20

4 Smámynd: Þröstur Unnar

Góð auglýsing Kvennablaðsins Vikunnar.

Matur er aukaatriði.

Þröstur Unnar, 22.5.2008 kl. 16:39

5 identicon

Hæ Gurrí - og takk fyrir frábært blogg!

ég er sammála þér með Ilmi, hún er dásamlega. Getur alltaf komið með nýja karaktera og breytt sér í allra kvikinda líki. Mér finnst auglýsingarnar stórskemmtilegar. minna mig pínu á Stelpurnar þar sem Ilmur var alltaf mitt uppáhald. Frábært hjá Vikunni að fá hana til liðs við sig. Ég skil þetta þannig að Ilmur sé eftirlíkingin í auglýsingunni, alltaf að reyna eitthvað, eða þykjast, sem hún er ekki. góða Evróvisjón skemmtun:)

sigga (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 16:48

6 identicon

Vikan er fínt blað en auglýsingarnar finnst mér bara hallærislegar. Hefur ekkert með Ilmi að gera, hún er ein af okkar bestu leikkonum. Skil bara ekki konseptið. Sorrí

Eva Helga (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 17:14

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Flott að fá álit, auglýsingar eru svo misjafnar og það sem höfðar til sumra á ekki séns hjá öðrum. Mér finnst t.d. Prentmetsauglýsingin gjörsamlega brilljant með Jóni Gnarr að ljósrita en mamma hefur ekki séð meiri hrylling á ævinni ... eða þannig.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 22.5.2008 kl. 18:09

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Reyktur fiskur er sælgæti, sem & allt þetta annað sem þú upptaldir, gikkurinn þinn, nema nátturlega hræríngshörmúngin.

Steingrímur Helgason, 22.5.2008 kl. 18:55

9 identicon

Ég er hrifin af blogginu þínu og Vikan er í miklu uppáhaldi hjá mér, ég er stoltur áskrifandi. Veit ekki með þessar auglýsingar maður þarf líklega að sjá þær nokkrum sinnum til að fatta þær, nema þar sem hún er í hjólastólnum, ég sprakk út hlátri.

Vona að þetta gangi vel hjá ykkur.

agnes (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 19:38

10 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gurrí. Sammála Zteingrími. ég hefði verið sagður gikkur ef ég hefði ekki étið þetta á Skaganum í denn. Nú er þetta allt saman sælgæti

Haraldur Bjarnason, 22.5.2008 kl. 19:49

11 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Reykt ýsa er eitt það alversta sem ég get hugsað mér, sammála með æskumartraðirnar. Má ekki einu sinni vera reyktur lax neins staðar þar sem það hitnar nokkurn hlut, pastarétti, bökur, ekkert. Laxinn fínn þegar hann er kaldur, en heitur reyktur fiskur...

*hrollur*

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 22.5.2008 kl. 20:28

12 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heyri í þér smápíkuskríkina nuna, hálf mínúta frá því Ísland komst áfram!

Magnús Geir Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 20:58

13 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Til hamingju Ísland, Silvía vann, ók það vann einhver.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.5.2008 kl. 21:26

14 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Cool auglýsingar! Gott að vita Vikuna í góðum höndum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.5.2008 kl. 21:32

15 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Úff reyktur fiskur.... fæ gæsahúð

En nýji toppurinn er æði þessi með ferskjunum og aloa vera búin með eina flösku og er orðin húkkt

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 22.5.2008 kl. 22:04

16 Smámynd: Ragnheiður

Enn einusinni búin að týna emailinu þínu Gurrí mín, þarf aðeins að "heyra" í þér. Mitt er ragghh@simnet.is

Ragnheiður , 22.5.2008 kl. 22:12

17 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mikið held ég að dúllurokkarinn og heildsalinn Jens vinur okkar verði glaður þegar hann les athugasendina hennar Ásu Hildar!

Spurning hvort þú fáir ekki eitthvað frá honum fyrst ókeypis auglýsingar eru farnar að birtast hérna í kerfinu hjá þér!?

Magnús Geir Guðmundsson, 22.5.2008 kl. 23:02

18 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Allt sannkallaðir fagmenn sem vinna þessar auglýsingar, fyrir Vikuna.  En afhverju notast er við þetta gamla og mikið notað "slagorð" - varist eftirlíkingar -, skil ég ekki.  - Ég hlýt að einblína of mikið á þetta gamla slagorð. - því ég finn ekki "meininguna" eða "skilaboðin". - Og ég mér þykir það dálítið súrt, því mig langar svo til að geta sagt,  flott hjá ykkur stelpur!

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 22.5.2008 kl. 23:29

19 identicon

haha, góðar auglýsingarnar

Hulda (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 10:18

20 Smámynd: Laufey B Waage

Ilmur alltaf góð.

Hlakka til að smakka nýja Toppinn.

Skil þig og matarmartraðirnar. Ég hef aldrei þótt matvönd, en hef aldrei skilið fólk sem getur borðað skemmdan (kæstan, súrsaðan, o.s.frv.) mat, eftir að ísskápurinn og frystikistan voru fundin upp. Reyktur matur er líka algjör óþarfi, þó hangikjöt og reyktur lax á brauð sé gott svona stöku sinnum spari. Ferskur matur, sem minnst unninn, það eru mínar ær og kýr (eða þorskur og ýsa).  

Laufey B Waage, 23.5.2008 kl. 14:41

21 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábærar auglýsingar!

Steingerður Steinarsdóttir, 23.5.2008 kl. 14:45

22 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég er ein af þeim sem rétt lifðu þetta hræðilega matartímabil af. Pabbi var Vestfirðingur og það var ekki bara skata á Þorláksmessu hjá okkur, ó nei, heldur allt árið. Mér verður enn flökurt og verð græn í framan þegar ég hugsa um signa grásleppu. Mesti viðbjóður EVER.

Helga Magnúsdóttir, 23.5.2008 kl. 15:32

23 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Þó svo að ég sé búsett erlendis, þá myndi ég ekki geta sett ofan í mig eiginlega neitt af þessum traditional Þorramat, gat það ekki þá, og sem betur fer þarf það ekki núna... En, ef mér væri boðið heim frítt, þá myndi ég alveg láta mig hafa það að borða eitt stykki disk fullan af þessum mat, svo lengi sem að ég mætti hoppa niður á SS pylsuvagninn og kaupa mér tvær með steiktum

Ég er kannski eitthvað svo útúr þar sem ég hef búið erlendis lengi, en mér fannst þessar auglýsingar skotfyndnar og bráðskemmtilegar, er kannski ekki að einblýna á eitthvað eitt eins og margir heima, myndi eflaust hafa fleiri spurningar ef ég væri enn heima, en ég veit ekki einu sinni hver Ilmur er...ekki skjóta mig!!!!!

Kæra Gurrí mín, þú ert alltaf jafn frábær, sendi þér póst í næstu viku, þarf aðeins að spyrjast fyrir um soldið... Kossar og knús, og passaðu þig á Toppnum (haha)

Bertha Sigmundsdóttir, 23.5.2008 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 25
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 1506012

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 533
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband