Óvænt stefnumót við mjólkurkælinn og Formúlujátning

tiramisuOkkur erfðaprins langaði í eitthvað gott til að maula með Evróvisjón í gær og skruppum í Krónuna. Við sleiktum út um þegar við sáum óverðmerkt Tiramisú í kælinum og skelltum í körfuna. Skiluðum því síðan ... það kostaði yfir 1.000 kall. Keyptum einn snakkpoka á 189 krónur en útlenska tegundin kostaði næstum 400 kall. Þó að ég hafi verið á kafi í verðpælingum fylgdist ég samt vel með umhverfinu og sá mann koma gangandi framhjá ostakælinum og áleiðis að mjókinni þar sem ég stóð. Eitthvað fannst mér ég kannast við hann og spurði hvort hann héti kannski Þröstur bloggvinur, www.motta.blog.is. Hann svaraði ekki strax svo ég stakk upp á fleiri fuglsnöfnum. Már? Valur? Magnús, Sigurður? Gottsveinn? Guðmundur? „Nei, ég heiti Þröstur!“ sagði hann illskulega. Ég kynnti mig og brosti breiðu himnaríkisbrosi sem ég hef æft margoft ef ég skyldi nú lenda í spennandi uppákomum. Ekki hafði brosið nokkur áhrif á Þröst sem sagði reiðilega: „Ég veit ekki betur en að ætluðum að hittast fyrst í Einarsbúð?“ Þetta var hárrétt hjá honum, við áttum stefnumót í Einarsbúð inni í framtíðinni, en það var ekki bara hægt sisona að afkynna sig og láta sem ekkert hefði gerst. Maður hittir ekki bloggvini sína í mannheimum á hverjum degi.

Fjör hjá öldruðumUmhverfi skiptir síðan öllu máli og ég get ekki verið fegnari yfir að hafa ekki hitt Þröst hjá t.d. klósetthreinsiefnunum eða dömubindunum. Ef þetta hefði gerst í apótekinu og ég að kaupa gyllinæðarkrem, pilluna, lúsasjampó eða pensílín ... kræst, það hefði verið skelfilegt. Nei, mjólkurkælirinn var ágætisrammi fyrir þessi fyrstu bloggvinakynni. „Á ekkert að klípa mig í rassinn?“ spurði hann svo. Kannski var hann að gantast, kannski ekki. Áður en ég gat svarað, hvað þá gert nokkuð, kom erfðaprinsinn hlaupandi og eyðilagði þessa fallegu stund. „Hvaða maður er þetta? Hvað hef ég ekki sagt þér um ókunnuga menn?“ Hann nánast skellti mér í innkaupakörfuna og hljóp með mig að kassanum. Jamm, svona voru nú fyrstu kynni okkar Þrastar bloggvinar.

Nú er Evróvisjón eitthvað svo gærdags og komið að Formúlunni. Mér finnst keppnin í Mónakó alltaf leiðinlegust. Það hefur þó verið óvenjumikið fútt í henni núna þar sem rignir ... en vanalega er ekki séns að fara fram úr hinum bílunum ... þannig að án rigningar, óhappa eða tafa á viðgerðasvæðinu rúllar þetta bara hring eftir hring eins og mislitur þvottur í þvottavél.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Heppin ertu að eiga erfðaprinsinn að, einhver verður að hafa vit fyrir konum sem eru veikar á svellinu. Hver veit nema maðurinn sé stórhættulegur? Þrestir geta örugglega leynt á sér! 

Verður framhald á spennusögunni? Hvar ætli þið hittist næst? Verður þá klipið... og hvar? Bíð spennt eftir næsta kafla. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.5.2008 kl. 13:27

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Já,fékk kallgarmurinn ekki einu sinni koss eða faðmlag?

Hvað sögðu svo augu hans, flökktu þau mikið og grandskoðuðu konunnar ytra atgervi vandlega?

Eða voru þau full af umhyggju, ást og von?

Og eins gott að hann hitti þig ekki hjá dömubindunum já? Vér drögum af því þá djúpvitru ályktun, að þér notið slíkt ennþá.

Bráðnauðsynlegt að vita það!

En hvar kemur Lára Hanna svona sterkt inn í myndina og hví vissi hún meir en bloggheimur allur fyrirfram? VAr hún kannski þögla vitnið sem leyndist bakvið ostafjallið í kælinum, en lætur sem hún viti ekkert?

Hvað veit maður núorðið í þessum flókna og vísjárverða heimi!?

Magnús Geir Guðmundsson, 25.5.2008 kl. 14:28

3 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Frábær færsla hjá þér Gurrí mín  Það er sko eins gott að erfðarprinsinn var þarna til að passa upp á þig,annars er sko ekki að vita hvernig þetta hefði endað hí,hí  Ég hef nú ekki pælt í hvaða staðsetningar væru æskilegar fyrir svona hitting,en ætla þó að gera það núna,það væri sko ekki gaman að hitta bloggvin t.d í apótekinu við kaup á gyllinæðakremi eða jafnvel sveppakremi  Ég fæ bara í magann við tilhugsuna að hitta einhvern við svoleiðis vandræðalegar aðstæður úff  Nú er ekkert annað að gera en að vera búin að skima mjög vel í kringum sig fyrir kaup á vandræðalegum vörum

Katrín Ósk Adamsdóttir, 25.5.2008 kl. 14:44

4 Smámynd: Tiger

  Hahaha ... svo mikið satt að óheppilegar aðstæður geta verið skelfilegar, þannig séð. Mikið hefði nú verið gaman að vera fluga í kæli og fá að sjá tilfæringarnar þegar prinsinn nam himnaríkismær á brott frá kælistefnumótinu .. þú heppin að eiga slíkan björgunarmann að.

Skemmtileg færsla hjá þér Gurrí, like always. Eigið góðan dag í himnaríki!

Tiger, 25.5.2008 kl. 14:55

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.5.2008 kl. 15:20

6 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Eins gott að Erfðaprinsinn sé vakandi yfir háttum móður sinnar. Þú ættir að heimsækja Bolla bróður minn til Sjanghæ, hann fer alltaf á Formúluna þar.

Helga Magnúsdóttir, 25.5.2008 kl. 16:34

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Er mottan svona svakalega ókurteis???

Já, nú er Júró gærdax, svo satt ...  

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 25.5.2008 kl. 17:42

8 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Var að velta einu fyrir mér....  Ég þekki nú ekki marga bloggara og er þ.a.l. aðeins með einn bloggvin.  Get ég skráð hvern sem ég vil sem bloggvin minn.  Hvort sem ég þekki hann, kannast e.t.v. við viðkomandi, eða er bara er spennt fyrir því sem viðkomandi skrifar á bloggið sitt.  Ef ég myndi t.d. skrá þig sem bloggvin minn, gætir þú þá farið fram á að ég myndi afskrá þig af listanum mínum, ef þér líkaði ekki það sem ég væri að blogga.

Sumir bloggarar virðast eiga svo óendanlega mikið af bloggvinum???  Ég er nú nánast alveg græn á þessu sviði og nánast vinalaus í bloggheimum.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 25.5.2008 kl. 19:02

9 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég er búin að biðja þín, Sigrún, þú þarft bara að samþykkja mig ef þú vilt mig

Held að þú getir beðið hvern sem er um bloggvináttu og ég held að fæstir hafni slíku boði. Ef ég finn bloggsíðu sem ég tími ekki að týna aftur bið ég viðkomandi um að vera memm og svo fæ ég beiðnir líka. Þú þarft að vera inni á viðkomandi síðu, fara efst þar sem stendur bloggvinir og sleppa músinni á "Bæta við sem bloggvini" (eitthvað svoleiðis), þá fær viðkomandi sendingu um það og þarf að fara inn á stjórnborð sitt til að samþykkja þig.

Mottan er frábær, kannski misminnir mig eitthvað af þessum atburðum ... enda rúmur sólarhringur síðan við hittumst.

Magnús, Lára Hanna er fluga á vegg!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.5.2008 kl. 19:18

10 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Þá bið ég þín bara líka

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 25.5.2008 kl. 19:25

11 Smámynd: Þröstur Unnar

Já þú ert fljót að gleyma. Manstu kannski ekki heldur þegar þú hrópaðir, svo allt fólkið við mjólkurkælinn hrökk í kút: " Vá ertu svona myndarlegur"?

Mig grunaði þetta alltaf með Láru Hönnu.

Þröstur Unnar, 25.5.2008 kl. 19:57

12 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

„Á, ekki svona grimmdarlegur,“ var það víst sem ég sagði þegar þú skammaðist út í mig fyrir að vera ekki í Einarsbúð (sem er lokuð á laugardögum). Myndarlegur, hnuss, eins og ég sé eitthvað að kíkja eftir því! ... sonurinn var með í för, manstu!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.5.2008 kl. 20:20

13 identicon

Innlit og kvittun fra New York, kvedjur Tanta

Tanta Svana (IP-tala skráð) 25.5.2008 kl. 21:57

14 Smámynd: Brynja skordal

já Gurrý maður hittir þröstin á ólíklegustu stöðum í bænum man eftir einni krá hér í bæ "hóst" þá einmitt spurði ég hann hvort hann héti ekki þröstur bloggari en han var ósköp ljúfur en kannski ekki sama hvað maður hittir hann mjólkurkælir sko gæti verið viðkvæmt

Brynja skordal, 25.5.2008 kl. 22:28

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ef ég væri fluga á vegg - að minnsta kosti hér heima hjá mér - væri ég steindauð! Hér hefur eiturbrúsi einn voðalegur (Bani) verið á lofti í tvo daga og í valnum liggja fimm eða sex röndóttar hlussur sem hafa laumað sér inn um gluggana. Verulega ógeðslegar og hávaðinn í þeim á við hvaða einkaþotu.

En ég á kristalskúlu... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.5.2008 kl. 23:35

16 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

hahaha, þetta er skemmtilegt,vona að þið Þröstur hittist bara að lokum í kirkjunni á Skaganum, hver veit nema að þar mundu hlutirnir í ALVÖRU gerast og það með eða án ungherrans E.!

En hvað heyri ég?

Vaskasta skjaldmey vorrar íslensku Móður náttúru bregst öndverð gegn sumum hennar minnstu börnum og eyðir þeim með mengandi eitri!?

Ég er eiginlega alveg orðlaus núna!

Magnús Geir Guðmundsson, 25.5.2008 kl. 23:49

17 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Takk takk fyrir æðislegan pistill knús knús og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 26.5.2008 kl. 00:18

18 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég er ekki alveg að skilja þetta Þrastarmál, skil ekki fuglamál. Hins vegar (þrátt fyrir formúluvanrækslu það sem af er ári) þá er Monakó-kappaksturinn svona með tilfinningalegu ívafi hjá mér, Ari hefur nefnilega keyrt þessar götur og gaf þessa fínu leiðarlýsingu fyrir þá sem á eftir fylgdu: Svo þegar þið komið að nýlögðu malbiki eigið þið að beygja til hægri (eða vinstri). Mér dettur þetta alltaf í hug þegar ég sé Mónakókappaksturinn, sem ég sá reyndar bara í fréttunum núna. Hamilton líka minn maður eftir að Coultard hætti að blanda sér í toppbaráttuna. Og svo er mislitur þvottur í þvottavél kannski bara skemmtilegur eftir allt, betra en einlitur alla vega.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.5.2008 kl. 00:43

19 Smámynd: www.zordis.com

Er Þröstur "playing hard to get" ....  Rómantíkin fín!

www.zordis.com, 26.5.2008 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 137
  • Sl. sólarhring: 315
  • Sl. viku: 829
  • Frá upphafi: 1505836

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 675
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 103

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband