Rafmagnsbíll, matarboð, 1986 og sumarfrí ...

RafmagnsbíllVinnudeginum lauk einstaklega skemmtilega í gær. Ritstjórinn minn keyrði mig á rafmagnsbíl niður í bæ og var gaman að sjá viðbrögð fólks við bílnum sem er lítill og krúttlegur. Hundrað kílómetra akstur á honum kostar 78 krónur! Það færðist blíðusvipur yfir aðra vegfarendur við að sjá þennan líka sæta bíl og fögru konurnar inni í honum. Við vorum þó ekki sammála um þennan sem flautaði á okkur á Miklubrautinni, ég held að þetta hafi verið aðdáunarflaut en Elín var viss um að einhver hafi verið að reka á eftir okkur. Hann kemst nú alveg upp í 70 þessi litli sæti dúllubíll en er svo sem ekki sá kraftmesti í brekkum, sé þungu steypubílana fyrir mér taka fram úr í Hvalfjarðargöngunum ... en 78 krónur fyrir 100 kílómetra ... þetta er framtíðin! Til eru bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni, aðrir þyngri og stærri sem komast á 90 km/klst. Elín skutlaði mér á Grettisgötuna til Nönnu Rögnvaldar í mat en það er orðið ansi langt síðan við höfum hist. Maturinn var fáránlega góður, þrírétta gómsæti með önd í aðalrétt. Hekla var stödd hjá ömmu sinni, skemmtileg og klár stelpa sem ég hef þekkt frá fæðingu. Ég hef eiginlega þekkt mömmu Heklu frá fæðingu. Hekla er að vinna að skemmtilegu skólaverkefni um árið 1986, tísku og fleira. Gaman var að rifja það ár upp yfir matnum, enda eitt skemmtilegasta ár lífs míns.
Það hittist svo vel á að brottfarartími okkar erfðaprins hentaði vel Lilju strætóvinkonu sem vinnur á Laugaveginum og alltaf fram á kvöld á föstudögum. Við gátum því gefið 20.45 strætó frá Mosó langt nef þegar við brunuðum þrjú heim á leið.

Karlar eða hvaðNú er bara vika í sumarfrí hjá mér og EM í fótbolta ... já, og krúttlega „stelpuþætti“ á milli leikjanna. Tek það fram að ég hef ekkert á móti sætum, væmnum og dúllulegum þáttum, sem eru líklega vinsælli af kvenþjóðinni, en mér finnst leiðinlegt hvernig þetta er sett fram hjá Stöð 2 og SkjáEinum. Veit til þess að fólk hefur sagt upp áskrift að Stöð 2 vegna þessa. Við stelpur höfum áhuga á miklu fleiri hlutum en tilfinningaríku efni, sem reynt er svo mikið að halda að okkur, við fílum líka alveg stjórnmál, bókmenntir, íþróttir og spennuþætti. Kannski er þetta ekkert stórmál en þetta litla skiptir samt líka máli.

Það skrýtnasta finnst mér þó að ef maður gagnrýnir þetta þá koma miður kurteislegar ásakanir um beiskju, offitu og skort á innihaldsríku lífi, jafnvel karlhatur. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska karlmenn, er eiginlega alveg vitlaus í karlmenn þótt ég sé ekki nógu dugleg að blaka augnhárunum framan í þá í veiðiskyni! Ég hlakka reyndar mikið til að sjá Ally McBeal-þættina aftur, þótt þeir séu flokkaðir sem kvenvænlegir, en ætla samt ekki að láta þá stela mér frá boltanum ef það hittist þannig á (sem ég vona ekki). EM er á fjögurra ára fresti og er algjör veisla. Annars ætla ég að njóta útiveru á svölunum í sumarfríinu (já, líka í rigningu), gera „vor“hreingerningu í himnaríki og lesa einhver ósköp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

ég krullast á tánum þegar auglýsing um stelpuþætti kemur. Fæst af þeim er eitthvað sem ég horfi á. Ég horfi hinsvegar á fótbolta og handbolta, sakamálaþætti og ýmislegt annað sem ekki fellur undir mjúkar línur.

Ragnheiður , 1.6.2008 kl. 13:07

2 Smámynd: Tiger

   og knús í himnaríki. Mér finnst þessir blessuðu rafmagnsbílar eitthvað svo "ótraustsverðir" og sennilega myndi ég aldrei kaupa mér slíkan bíl - nema ef þeir væru stærri og traustari byggðir. En hef svo sem ekkert kynnt mér þá sérstaklega svo þeir gætu alveg verið öruggir og góðir þess vegna.

Persónulega horfi ég aldrei á fótbolta eða formúlu, eiginlega aldrei á "stelpuþætti" heldur - en ég horfi mikið á teiknimyndir og æfintýramyndir með tæknibrellum og göldrum, elska þannig myndir.

Knús á þig kæra Gurrí.

Tiger, 1.6.2008 kl. 14:36

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég elska líka ævintýramyndir og sumar teiknimyndir eru algjörlega brilljant.  Knús til þín líka, Tigercopper.

Krullast á tánum, hehhehehehe, góð! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.6.2008 kl. 14:41

4 Smámynd: Gunna-Polly

við erum sanmtaka í þessu það er vika í frí hjá mér og fótboltagláp mikið var ég glöð þegar ég uppgötvaði að sumarfríið mit dekkar EM í fótbolta :)

Gunna-Polly, 1.6.2008 kl. 14:45

5 identicon

Tek undir það, sá athugasemdirnar sem þú fékst við þessa færslu um þessa þætti hérna á dögunum. Væagast sagt undarlegar.

Það er eins og sumir karlmenn séu skíthræddir við femínista. Líta á femínisma sem árás á sig og karlmennsku sína.

Grátbroslegt og hreinlega hlægilegt, finnst mér. :)

Kveðja 

E.E (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 15:09

6 Smámynd: Vera Knútsdóttir

GÖVÖÐ ekki minna mig á að EM sé að byrja! Það er allt að verða alveg brjálað hérna úti vegna þessa! Ég vona bara að ég lendi ekki í að hitta fótboltabullur, ég bý nebbla rétt hjá aðal metró línunni sem fer á aðdáendasvæðið og svo á leikvanginn Kannski maður geri sér upp þykjustunni áhuga á þessu öllu saman til að geta verið með í stemningunni!

Flottur rafmagnsbíllinn! Ég myndi fá mér svona lítinn krúttbíl (rafmagns sko) ef ég fengi mér einhvern tímann bíl..

Knús úr sólinni og óbærilega hitanum í Vín  

Vera Knútsdóttir, 1.6.2008 kl. 15:11

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Já það má ekki blogga um að manni mislíki steríótýpu auglýsingin um stelpukvöldin. Þá fáum við á baukinn.

1986 var ár hinna ógeslegu herðapúða og permanentskrulla.

Þú ert öfundsverð af að vera boðin í mat til flottasta kokks á Íslandi.

Hehemm, loveu

Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2008 kl. 15:12

8 Smámynd: Jóhanna Sigrún Jónsdóttir

*Hvað er málið með að  fótbolti flokkast sem karlaefni.... ég er þessu gjörsamlega, algjörlega og hvílíkt ósammála. Ef það er eitthvað sem ætti að flokkast sem stelpuþættir þá er það fótbolti... ég meina allir þessu sætu strákar á stuttbuxum og ekki skemmir fyrir vöxturinn, það er ekki fitugramm til staðar og ekkert skvap. Svo hlaupa þeir stanslaust í 90 min án þess að blása úr nös og getið þið bent mér á einn ófríðan leikmann???? hann er bara ekki til. Með réttu ættu vinkonurnar og heilu saumaklúbbarnir að hittast reglulega og horfa saman á leik, svo ég tali nú ekki um að fara á EM eða á leik í enska boltanum. Ég er í minnihluta hóp á mínu heimilli sem kona en er líklega spenntust fyrir því þegar góður leikur í TV. (þó karlpeningurinn hér á heimilinu sé mikið fyrir fótboltann) En svona í alvöru talað: fyrir utan útlit leikmannana á vellinum þá hef ég einstaklega gaman af leiknum sjálfum og hef reynda meiri áhuga á honum heldur en útlitinu. Það sem ég er að reyna að segja í stuttu máli: Fótboltinn er snilld.

Ég held að umræðan um að fótboltinn sé fyrir karla en sápuóperur fyrir konur sé að verða úrelt .....  er það ekki?? smá pæling !!

Hafðu það sem best í sumarfríinu þínu og horfðu á sem flesta leiki. Áfram EM.

Jóhanna Sigrún Jónsdóttir, 1.6.2008 kl. 15:50

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm Gurrí, þú ert svo sannarlega meir gefin fyrir sæta og krúttlega rafmagnsbíla til dæmis og stráka af öllum særðum og gerðum, en sæta og krúttlega sjónvarpsþætti fyrir stelpur sérstaklega!

Ert skörp og skynsöm stelpa, ella hefðir þú aldrei sagt að þú heldir að þú elskaðir mig og skammaðist þín ekkert fyrir það haha!

En Gurrí, EM á fjögra ára fresti jú, KARLAFLOKKI, en gleymdu því ekki að ef happadísirnar verða hliðhollar verður EM AFTUR að ári og þá kannski miklu meira spennandi, EM í KVENNaFLOKKI MEÐ ÞÁTTÖKU ÍSLANDS!

Magnús Geir Guðmundsson, 1.6.2008 kl. 16:13

10 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Það má ekki gleyma því að konur spila líka fótbolta, og Íslenska kvennalandsliðið er afar kröftugt og gott lið og nýtur mikillar virðingar erlendis.  -  En það er eins og það megi ekki vitnast hversu góðar þær eru. - Horfið þið líka á leikina þeirra á EM? 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 1.6.2008 kl. 16:16

11 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég ætla rétt að vona að EM í fótbolta kvenna fái jafngóða athygli hér á landi, hvað þá með stelpurnar okkar innanborðs. Góðar ábendingar. Kvennafótbolti er mjög skemmtilegur en ég viðurkenni að ég hef séð allt of fáa leiki, enda fer ég aldrei á völlinn, sé leiki bara í sjónvarpinu.

Ég held utan um sérstaka dagskrársíðu í Vikunni og finn margt t.d. á midi.is. Þar er eingöngu sagt frá leikjum karlaliða í Landsbankadeildinni. Þarf að fara að leita að kvennafótboltanum á Netinu og hvetja lesendur Vikunnar til að fara á leikina í sumar.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.6.2008 kl. 16:21

12 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ástæðan fyrir því að þú sérð ekki leikjaskrána hjá stelpunum á midi.is, er hygg ég einfaldlega sú, að það er ekki selt inn á hjá þeimnema í einvherjum undantekningartilfellum kannski, þetta er eilífðarbarátta að koma upp og viðhalda áhuga og aðsókn að kvennaboltanum!

Og eins og þú mannst ugglaust Gurrí og fleiri gera líka, þá þurfti sjálft kvennalandsliðið helst að hátta sig fyrir framan myndavélar til að draga fólk á völlin eða gera eitthvað annað í auglýsingaskyni.

út af fyrir sig skemmtilegar auglýsingar margar, en allir sæmilega vel þenkjandi sjá samt hvað það er hallæristlegt svo ekki sé nú meira sagt, að stelpurnar þurfi að fara til dæmis úr öllu nema nærflíkum til að auglýsa leikina og draga lýðinn á völlinn!

Magnús Geir Guðmundsson, 1.6.2008 kl. 16:42

13 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég fór á www.ksi.is og er nú búin að finna alla leiki þeirra sem verða á dagskrá í sumar. Mun nú auglýsa leiki þeirra framvegis, allt ykkur Lilju Guðrúnu að þakka að ég dreif mig í að leita.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.6.2008 kl. 16:49

14 Smámynd: Jóhanna Sigrún Jónsdóttir

þetta ættu allir að hafa í favorit hjá sér

Íslandsmót - Landsbankadeild karla : meistaraflokkur

http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=16788

Íslandsmót. 1 deild karla

http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=16790

Mjög hagnýtar upplýsingar

Leikurinn hreint frábær hjá okkar mönnum á móti Svíum í handboltanum. Til Hamingju Ísland.

Jóhanna Sigrún Jónsdóttir, 1.6.2008 kl. 18:10

15 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innlitskvitt og takk fyrir góðar kveðjur. 

Ásdís Sigurðardóttir, 1.6.2008 kl. 19:04

16 Smámynd: Jóhanna Hafliðadóttir

... og svo eru þeir hérna http://www.textavarp.is/332/ ... sumsé á síðu 332 í Textavarpinu.  Gæti ekki verið einfaldara

Jóhanna Hafliðadóttir, 1.6.2008 kl. 20:33

17 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Flott að heyra að þú ætlir að auglýsa leikina þeirra, ekki veitir af. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 1.6.2008 kl. 21:08

18 identicon

Kæra Gurrí.

Bíllinn fer alveg upp í 85km/klst.  Þið bara gleymduð að skipta yfir í kraftgírinn.

Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 09:30

19 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hehhehe, já, Bragi, við komumst að því daginn eftir, arggggg

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 14.6.2008 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 218
  • Sl. viku: 641
  • Frá upphafi: 1505932

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband