Aldeilis ósléttar kaffifarir eftir vinnu í gær ...

LatteVið Ásta vorum komnar í Hálsaskóg kl. 7.05 í morgun og með þessu áframhaldi verðum við mættar í vinnuna í kringum miðnætti þegar desembermánuður gengur í garð. 

Við stöllur ætluðum að gera vel við okkur um fjögurleytið í gær, frekar þreyttar eftir annasaman dag, og komum við í bakaríi á leiðinni heim á Skagann. Þar fæst gott kaffi frá Te og kaffi. Undanfarin skipti höfum við verið afar óheppnar með kaffið þarna og starfsmaður (aldrei sá sami reyndar) sett allt of mikla mjólk út í þannig að ekkert kaffibragð finnst.

Ásta, sem er í raun algjör "gribba" fer alltaf í kerfi þegar ég bið ljúflega og kurteislega um kaffið eins og ég vil fá það, eða latte án cappuccino-froðu, heitt en ekki sjóðheitt og sokkabuxnabrúnt út í ljóst, á litinn. Hún ætti að prófa að standa í Starbucks-biðröð og hlusta á sérþarfirnar þar. Ég er ekkert miðað við óskirnar þar.

Fyrr má nú vera ...Rosalega indæl kona, svona 60 plús, afgreiddi mig og var svo sæt og ljúf. Ég byrjaði á því að segja henni kaffifarir okkar Ástu ekki nógu sléttar undanfarið og bað hana lengstra orða um að hafa mjólkina hvorki of heita né mikla. Ég kunni ekki við að gera sama og síðast, þegar kaffið varð gott, og fá að fylgjast með henni setja mjólkina út í. Ég starði vantrúuð á hana þegar hún FYLLTI annað málið af mjólk og spurði svo hvort ég vildi líka að hún fyllti það seinna álíka mikið.  „Nei, ég vildi einmitt EKKI svona mikla mjólk,“ stamaði ég gráti nær og náði að segja henni til með rétt mjólkurmagn í seinna málið. Þessi góða kona bjó til annan latte í stað þess ónýta.

Ég skokkaði út í bíl með latte í báðum og hafði keypt tvær súkkulaðismákökur með kaffinu til að gleðja okkur í tætlur. Tveir tvöfaldir latte og tvær smákökur kostuðu 1.050 krónur, mér fannst það nokkuð mikið. Úti í bíl smökkuðum við síðan á kaffinu ... og SKAÐBRENNDUM okkur í munninum.

Við Ásta skaðbrenndarÍ Kollafirðinum opnaði ég bílgluggann og reyndi að láta volgan vindinn kæla kaffið, það var enn rafsuðuheitt og ódrekkandi. „Þýðir ekkert,“ sagði Ásta spámannslega. „Þú verður að taka lokið af ef þú vilt að það kólni.“ Hún var enn smámælt eftir tungubrunann og ég var líka að drepast. Ég þorði ekki að taka lokið af, ekki á ferð í bíl, slíkt er ávísun á stórkaffislys. Það var ekki fyrr en við vorum nýkomnar út úr göngunum að við gátum dreypt á kaffinu. Magn mjólkur reyndist mátulegt en allt of mikil hitun á henni hafði eyðilagt hana, orsakað efnabreytingar þannig að bragðið var ekki gott. Fyrir mitt leyti langar mig ekki framar í þetta bakarí ... a.m.k. ekki til að fá mér kaffi.

Ég var smakkdómari nokkrum sinnum í kaffibarþjónakeppnum hérna í denn og ef keppendur hituðu t.d. mjólkina í cappuccino-ið of mikið þá þýddi það refsingu, 30 svipuhögg minnir mig. Ef fólk vill kaffið sitt rafsuðuheitt, eins og t.d. Hilda systir og Gísli Rúnar leikari, þá ætti það að þurfa að biðja sérstakleg um það. Í amerísku réttarkerfi gæti ég krafist hárra bóta fyrir andlegt álag og tunguskemmdir. Það yrði bara hlegið að okkur í Héraðsdómi Vesturlands. Veit einhver hvað tekur langan tíma fyrir brennda tungu að jafna sig? Spyr fyrir okkur Ástu báðar.

Vona að dagurinn ykkar verði góður og allt það kaffi/te/kakó sem þið drekkið verði mátulega heitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Ég kannast við svona kaffivandamál. Of heitt...of kalt..of mikil mjólk...of lítil mjólk...arg.

Hlakka til að fara til London og níðast á Starbucks og staffinu þar

Brynja Hjaltadóttir, 27.8.2008 kl. 09:55

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég verð að segja það einu sinni enn að ég er í kasti.  Þú gengur frá mér addna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2008 kl. 09:55

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 27.8.2008 kl. 10:49

4 Smámynd: Ragnheiður

Tungan er svona einn og hálfan dag að batna en mikið ferlega er vont að brenna sig á tungunni! Ég er snillingur að brenna mig á svona kaffi, það þarf varla að vera heitt til þess. Og ég þoli ekki að hafa lok á svona málum, no way.

Farðu varlega í ferðalögum og kaffidrykkju í dag

Ragnheiður , 27.8.2008 kl. 11:25

5 Smámynd: Þröstur Unnar

Seg það sama, ligg hér afvelta úr hrossahlátri og get ekki unnið.

Vinn bara á morgun í staðin.

Þröstur Unnar, 27.8.2008 kl. 12:57

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

.....finn samt til með ykkur. Skaðbrenndar tungur eru ekkert gamanmál.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.8.2008 kl. 13:11

7 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

oj, það er svo vont að brenna sig á tungunni! Samúð!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 27.8.2008 kl. 13:33

8 identicon

Má ég benda þér á (að benda kaffihúsinu á): www.smartlidsystems.com

Leysir svona vandamál!

Bjarki Viðar (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 06:35

9 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Takk, Bjarki Viðar, algjör snilld!  Skrýtið samt að nota ekki hitamæli á svona fínu kaffihúsi/bakaríi, meira að segja litla ég á hitamæli til að nota í latte-gerð.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.8.2008 kl. 07:26

10 Smámynd: Laufey B Waage

Skil þig vel. Liturinn á sojalatteinu mínu á alltaf að vera eins og handleggirnir mínir á góðu sumri. Og það undarlega er, að mér finnst kaffi úr götumáli næstum alltaf of heitt (enda vil ég bara drekka úr postulíni). Ætli það sé eliment í götumálinu. Lengi lifi kaffisérviskan.

Laufey B Waage, 28.8.2008 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 80
  • Sl. sólarhring: 267
  • Sl. viku: 772
  • Frá upphafi: 1505779

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 626
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband