Ódýrasti kvöldmatur lífs míns, "ósvífni" leiðar 15 og jólagjafapælingar ...

VekjaraklukkaVaknaði við að erfðaprinsinn gargaði úr suðausturhluta himnaríkis: „Viltu slökkva á vekjaraklukkunniiiiii!“ Takk, erfðaprins. Klukkan var við eyrað á mér og hafði hamast í fimm mínútur án árangurs. Var óumræðilega þakklát sjálfri mér fyrir að hafa tekið til fatnað í gærkvöldi. Tók meira að segja fram gammósíurnar (úr Ellingsen) sem ég keypti Frostaveturinn mikla 2007-2008 og héldu í mér lífinu þá. Þetta voru stórkostlegar aðgerðir hjá mér en ... ég gleymdi heima trefli 2, eða fjólubláa ofurhlýja sjalinu sem Hilda gaf mér í jólagjöf eitt árið, og var samt búin að taka hann til. Það hefði gert gæfumuninn.

Sumir kunna að klæða sigÞegar við brunuðum að Háholtinu í Mosó horfðum við á leið 15 strunsa áfram, beint fyrir framan nefið/húddið á okkur og bílstjórinn okkar (Skúli almáttugur) kallaði til farþeganna til að koma í veg fyrir fjöldatrylling: „Ég skal fara alla leið í Ártún.“ Hann sagði að það myndi seinka leið 15 allt of mikið að taka 60 of seina Skagamenn upp í þótt léttir væru á fæti. Í þessarri hálku og ekki vetrardekkjum hefði það verið martröð. Við urðum reyndar á undan leið 15 þangað, enda gátum við farið beinustu leið eftir Vesturlandsveginum! Bílarnir skrönsuðu sumir til fyrir framan okkur ... úúúú. Nýbúið var að moka og sandbera milljóntröppurnar í Ártúni og þar fyrir utan var ég á nýju skónum mínum sem Ásta segir að séu unglingaskór, Sketzter, eitthvað ..., sem stóðust öll próf í fyrstu hálku vetrarins. Allir mættu frekar seint í vinnuna ... strætófólkið kom allt á réttum tíma. Sigurður Mikael, skaðræðisbrekkuhetjan af DV, tók vegkantinn háa og hættulega við Vesturlandsveginn, með trukki, fór í fótspor annars sem skeiðaði þarna niður og sýndi snilldarkúnstir við að halda sér uppistandandi í þessu þverhnípi þarna ...

macaronicheeseJamm, þegar ammrísku dagarnir voru í Hagkaup um daginn keypti ég svona pakkadæmi, ammrískar makkarónur og ost, á 50 kall pakkann. Hef aldrei smakkað svona og ákvað að prófa, skellti 3 pökkum í innkaupakörfuna og fattaði í gær hvers vegna þetta var svona ódýrt ... það er að renna út á tíma. Veit samt að hlutir duga mun lengur en dagsetningarnar segja til um. Þetta var ekkert svo vont og við erfðaprins borðuðum helminginn úr pottinum og urðum pakksödd. Afgangur eftir til að borða sig aftur södd í kvöld. Mjólkurskvetta og smjörklípa fóru út í svo kannski hafa þessar fjórar máltíðir kostað 60-70 kall. Ekki sérlega hollur matur, held ég, en fyllir vel og uppfyllir líka það að kosta ekki mikið. Svo er bara að fara að stela slátri og lifrarbuffi úr frystikistum sparsömu og myndarlegu vina minna. Litlu í einu þar sem frystihólfið mitt er frekar lítið!

Óska ykkur gleðilegs dags og farsældar um ókomið kvöld!

JólagjafirP.s. Samtal tveggja vinkvenna í gærkvöldi (sönn og sannreynd frásögn frá fyrstu hendi).

Kona 1: „Er ég klikkuð ef ég byrja að pakka inn jólagjöfunum núna?“

Kona 2: „Nei, alls ekki, það er byrjað að snjóa!“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Þegar ég var yngri og fátækari og börnin mín yngri en þau eru nú - og við gömlu (fannst okkur þá í þroskaleysi og fáfræði okkar) í framhaldsnámi í Ameríku, var svona makkarónuostaréttur mjög oft á borðum, enda kostaði þetta ekkert. Með honum var gjarnan borið fram kalt kalkúnakjöt sem hafði verið fryst samviskusamlega í plastbox eftir þakkagjörðarhátíðina, ellegar þá bara soyakjöt, sem ekki heldur kostaði neitt.  O, þessir gömlu, ódýru dagar (í matarinnkaupum). Þess bera að geta að þetta makkarónudæmi er auðvitað ekki vel samsett máltíð, of mikið af fitu og kolvetnum og of lítið af próteina. Plús E-orgía. En ekki drepur þetta mann samt.

Jólin já, veistu að þau bresta á eftir tæpar 12 vikur? Ég fór næstum á taugum við þessa uppgötvun. En náði stillingu minni fljótlega. Nú er bara að finna uppá ódýrum, góðum og sálarfullum jólagjöfum.

Ætlarðu að leggja orð í belg um eldhúsdagsumræðurnar í gærkvöldi? 

Notalegar októberkveðjur til þín, ljósapera.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.10.2008 kl. 11:31

2 identicon

Mac & cheese er frábært. Borðaði þetta alltaf úti í kanalandi á sínum tíma.

Sigga (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 178
  • Sl. sólarhring: 345
  • Sl. viku: 870
  • Frá upphafi: 1505877

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 710
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 133

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband