Þjófstartað ... og gardínuofbeldi lífs míns

HrellirinnÍ-guðanna-bænum, ekki kveikja ljósið fyrr en þú ert búin að draga fyrir!“ sagði mamma svona fimm milljón sinnum. Ekki bara þegar ég var lítil, heldur talaði hún áfram um hætturnar af því að einhver sæi inn til mín, jafnvel bara þegar ég væri að læra heima við hansahilluskrifborðið, eða lægi uppi í rúmi síðdegis við að lesa gömlu bækurnar hennar (Snjallar stúlkur, og helming bókaflokkanna um Rósu Bennett og Beverly Gray. Tvíburasystir mömmu fékk hinn helming bókanna því þær systur fengu sjaldnast, jafnvel aldrei, gjöf nema saman).

 

 

Ég mótmælti þessu gardínuofbeldi móður minnar (og það löngu áður en mygla varð landlæg á Íslandi) og notaði frekar heklaðar myndir til að skyggja á „innsýnið“ þegar ég varð gjafvaxta og giftist fyrsta eiginmanni mínum (1980), því mér fannst ekki rétt að loka á birtuna og lífið, eins og ég reyndi að segja henni.

 

 

Áratugum seinna, eða í dag, uppgötvaði ég, mér til mikils hryllings, að hún hafði rétt fyrir sér allan tímann. Hrellirinn, sú Joona Linna-bók sem ég er að lesa núna, og jú, hann var auðvitað á lífi, fjallar um gluggagægi sem hangir úti í garði og myndar tilvonandi fórnarlömb ... við að fara í sokkabuxur, borða ís, horfa á sjónvarpið, tala í síma ... og sendir lögreglu myndbandið rétt áður en hann brýst inn og myrðir þær. Ég hef sennilega sloppið verulega naumlega í gegnum tíðina. Vissulega átti ég gardínur fyrir alla glugga á Laugaveginum (1982), jarðhæð, rétt fyrir ofan Hlemm, mögulega fylgdu gardínur í Æsufellinu (1983) en á þessum tíma, eftir skilnað við fyrsta eiginmanninn, bjó ég í svo skamman tíma á hverjum stað, að raðmorðingja hefði ekki gefist tími eða þolinmæði til að sitja um mig. Á Hringbraut (1988-2006) var ég á annarri hæð og fljótlega eftir komu mína þangað var háa tréð sunnanmegin fellt, það var orðið gamalt og fúið, svo viðkomandi hefði svo sem sést mjög greinilega og jafnvel brotið sig þegar tréð hryndi undan honum sem það hefði gert ... Hlaðið hjá mér við Himnaríki (2006-) ... bílastæði beggja vegna og oft snúa bílarnir að gluggum mínum ... svo ég hef greinilega verið í meiri lífshættu hér en ég get mögulega ímyndað mér.

Hvort sem þeir eru með sterka og langdræga sjónauka í skipum á Faxaflóa, hljóðlausa njósnaflugvél í felulitum eða nota dróna ættu þeir að vita að ég er alltaf með læst hjá mér og hef þrjá verulega grimma og nánast mannýga varðketti sem engu eira.

 

BollurÉg er ekki mikið fyrir að þjófstarta en í mínum huga er bolludagsaðventan hafin, hófst um þessa helgi. Næsta helgi verður nánast eins og jólin með hápunkti á mánudeginum. Ég ætla ekki að baka þá, frekar fara til Hildu í bollukaffi - og svo sjá til á sjálfan bolludaginn hvort ég fari jafnvel í Kallabakarí. Fyrsti skóladagur, fyrsti minn dagur í kennslu, verður á bolludaginn og eiginlega synd að geta ekki boðið nemendum upp á eins og eina vatnsdeigsbollu í kaffitímanum. Ég bakaði bollur í dag, eftir uppskrift frá mömmur.is og get ekki sagt að þær hafi orðið fullkomnar þótt uppskriftin hafi verið það. En allt í lagi samt. Fannst þær orðnar svo dökkar, strax eftir 20 mínútur (áttu að vera í c.a. hálftíma) svo ég tók efri plötuna út átta mínútum of snemma miðað við það. Leyfði þeirri neðri að vera lengur, þær voru ansi ljósar ... og féllu svo hver um aðra á meðan þær bökuðust lengur - af því að ég opnaði of snemma á þær, ekki efri plötuna. Bömmer. Ofninn blæs sem sagt ekki jafnt og ég hefði átt að baka eina plötu í einu.

Stráksi fær bollur í kvöldkaffinu, en sýrlensku snúllurnar í næsta húsi (eina fólkinu í heimi sem finnst ég of grönn, held ég) færðu mér kúffullan disk af sterkum mat og í þetta sinn gat ég hefnt mín strax og sendi Fatimu með bollur heim. Hún sendi mér skilaboð stuttu seinna (alltaf á íslensku) svo hrifin að hún vill læra að baka bollur, ég heimtaði að fá að hjálpa henni, er nú orðin reynslunni ríkari eftir daginn í dag, svo bollurnar hennar verða fullkomnar. En þrátt fyrir að bökunartíminn hafi verið 30 mín. við 190°C á blæstri klikkaði ég með því að finnast þær of dökkar ... sem þær voru ekki. Hvor plata í 25-30 mín. hefði verið fullkomið.  

 

BetraFréttir af Facebook

Sumir á Fb bulla og rugla varðandi mislingaveika manninn, segja að hann sé líklega hælisleitandi ... en á einum stað sá ég að hann væri nú bara breskur ferðamaður sem mér skilst að séu bestu ferðamenn sem hægt er að fá - nema auðvitað í þessu tilfelli.

Það eru vissulega einhverjir sem eru mjög mikið á móti bólusetningum, skaðleg lygi læknis sem missti leyfið fyrir að falsa niðurstöður rannsókna um að sprautan (með þremur mótefnum) ylli einhverfu. Hann var þá kominn með einkaleyfi á bólusetningum með einu mótefni (við mislingum, minnir mig) svo hann hefði orðið forríkur ef ekki hefði komist upp um hann (skv. heimildamynd á RÚV eða Stöð 2). Skaðinn var skeður þrátt fyrir að þetta væri leiðrétt út í eitt, og hjarðónæmi sem hafði náðst er ekki lengur til staðar. Myndin: Sá þessa mynd hjá manni sem ég veit að er á móti bólusetningum og sér sig sem manninn á myndinni.

 

Það er kostur að hugsa sjálfstætt, og hlýða ekki hvaða vitleysu sem er í blindni ... eins og ég gerði á barnsaldri. „Alltaf að hlýða fullorðnum,“- bullið sem rak mig næstum út í að fara með fullum karli út í leigubíl þegar ég beið á Reykjavíkurflugvelli eftir að vera sótt. Þegar einhver segir eitthvað smjaðurslegt á borð við: „Þú ert greinilega manneskja sem hugsar sjálfstætt!“ ættu allar viðvörunarbjöllur að hringja hátt, mínar gera það, ég get verið tortryggin á hrós þótt mér finnist ég oftast eiga allt gott hrós skilið.

Þegar árulestrarkona (löng saga) sagði við mig fyrir áratugum að ég væri með svo marga gula liti í árunni minni (og það væri gáfumerki), hugsaði ég í stað þess að gleðjast: Af hverju finnst henni hún endilega þurfa að peppa mig upp? (Það þarf ekki við okkur Þingeyinga). Svo komst ég að því skömmu seinna að hún sagði þetta sama við fleiri, kannski alla. Þá hafði ég reyndar lært að mótmæla ekki hrósinu, hugsa mitt en þegja. Mótmælti nefnilega eitt sinn og sagði við breska miðla sem vildu meina að ég væri svo rosalega gömul sál. „Það getur ekki verið, ég hata garðyrkju.

Ó, Görreijj, þú átt ekki að gera svona lítið úr þér!“ svöruðu þau alveg miður sín yfir þessu sjálfsniðurrifi, hver vill ekki vera gömul sál? Mér finnst þetta enn mjög fyndið - og hef ekki enn, áratugum seinna, öðlast þann mikla andlega þroska og innri ró til að hafa gaman að því að vinna í garðinum (eða svölunum). Ungbarnssálin kveður í bili.  


Bollugaldur og blússa Birgittu

Á leið í ReykjadalUm miðjan dag í gær kvaddi stráksi og hoppaði niður stigana með nesti og nýja skó ofan í Glasgow-ættuðum poka. Hans beið ævintýrahelgi í Reykjadal sem hann hafði hlakkað svo til. Letidagurinn sem ég hafði planað í dag gekk að óskum nema ég setti í eina þvottavél, bara af því að það var orðið lítið eftir af handklæðum. Að öðru leyti slökun.

 

 

Auðvitað gætti ég þess vandlega að taka ekki úr uppþvottavélinni sem fór í gang í gærkvöldi, heldur kláraði hroðalega spennandi Joona Linna-bókina Sandmanninn og er rétt svo nýbyrjuð á Hrellinum. Spennt að vita hvort Erlendur hinn finnsk-sænsk-finnski hafi lifað af (hvarf í lokin á Sandmanninum) eða er endanlega horfinn. Spurning hvort Metallica hafi gert lag um hann, Enter Sandman, en ég hlusta svo sem aldrei á texta svoi það gagnast mér ekki. Mig grunar að hann hafi reynt að leita að hryllingsglæpamanninum sem Saga lögga skaut mörgum sinnum áður en hann lenti undir ís á fljóti, en vont fólk á borð við hann er ódrepandi, eins og við vitum svo sem.

 

Klára Hrellinn á morgun, hlusta á meðan ég raða leirtaui úr uppþvottavél í skápa og baka svo kannski vatnsdeigsbollur eftir geggjaðri uppskrift sem ég fann á mommur.is. Mér skilst að galdurinn að velheppnuðum bollum sé að ná hitanum úr deiginu áður en eggin eru sett í (eitt í einu). Hitinn fer ef maður hrærir deigið um hríð á miðlungshraða í hrærivél. Ef maður passar ekki upp á hitann, eða að kæla, verða bollurnar bara sléttar og samanklesstar.

Ef bakarinn hlustar á hroðalega glæpasögu á meðan bakað er - getur það haft slæm áhrif á bragðið? (Er að spyrja fyrir mig) 

- - - - - 

Blússan hennar BirgittuÍ gær horfðum við Inga saman á Idolið. Annan föstudaginn í röð, hún er ekki með Stöð 2 og á þarna eitthvað fallegt í þáttunum sem hún vill sjá - og ég líka. Ég hafði ekki enn horft á þessa þætti, ætlaði alltaf en á bara frekar erfitt með að festa mig yfir sjónvarpi. Það var auðvelt að fyllast spennu, dást að þessum flottu krökkum sem syngja svo vel. Fyrir rúmri viku, eða í fyrra skiptið sem ég horfði, datt út ljóshærð stelpa sem ég hafði nánast veðjað við Ingu að myndi taka þetta ... en hún fékk ekki nógu mörg atkvæði. Þrjú eru eftir, þar af tvö frá Akranesi. Sem gleður gamla Skagahjartað. Mikið ætla ég að horfa á úrslitin á föstudaginn.

 

 

Dómararnir voru ekki síður spenntir, hrósuðu öllum í hástert og Bríet er orðin ástfangin af báðum stelpunum sem eru komnar í úrslit. Ég er enn hamingjusamlega gagnkynhneigð en fylltist þó skyndilegri ást við fyrstu sýn á glitrandi blússu, eða hvað sem þetta er, sem Birgitta klæddist. (Veit einhver hvar svona flíkur fást?) Ég gæti þurft að safna hári til að hún fari mér jafn vel og Birgittu en við Birgitta erum báðar í ljónsmerkinu, nema hún er ögn yngri. Oft hefur verið sagt um ljónin að þau séu glysgjörn. Ég get ekki verið meira ósammála því bulli, en þetta er samt ein allra flottasta blússa sem ég hef séð. Ég færi kannski að horfa meira á sjónvarp, t.d. veðurfréttirnar, eins og prjónafólkið, ef veðurfræðingarnir glitruðu meira. Það verður alltaf allt brjálað þegar veðurfræðingur birtist í prjónaflík. Ég veit ekki af hverju ég er meðlimur á prjónasíðu á Facebook, ég kann ekki að prjóna, ég er líka meðlimur á brauðsíðu, bandalag þeirra sem baka eigið brauð, ég baka ekki brauð, kaupi það ekki heldur, nema við einstök tilefni. Eina síðan sem passar mér virkilega er Stuðningshópur fólks sem labbar hallærislega í hálku


Ekki nógu klár ... samt A plús

Lars KeplerSíðustu mánuðina, jafnvel lengur, hef ég verið svo stolt af því hversu ótrúlega auðvelt ég á með að finna út hver er glæpóninn í spennubókunum. Það hlyti að vera akkur í svona klárri manneskju hjá löggunni og mig hefur alltaf langað til að vinna hjá löggunni. Ég myndi lesa málsskjölin og hviss bang, leysa allt. Svo í kvöld, þegar ég var að hlusta á Eldvitnið eftir Lars Kepler, um lögreglumanninn finnsk-sænska Joona Linna, og áttaði mig um miðbik bókarinnar að ein persónan, frekar mikið ólíkleg til illra verka, væri sennilega sú seka ... og endalok margra spennubóka eru oft mjög svo óvænt, sem gerði greindarlegar ályktanir mínar enn líklegri. Svo mundi ég allt í einu, mér til sárra vonbrigða, að ég hafði lesið bókina, fyrir lifandis löngu og búin að steingleyma efni hennar algjörlega ... en undirmeðvitundin man sennilega betur en ég. Svo ég er sem sagt klár en ekki jafnbrjálæðislega klár og ég var orðin fullviss um. Löggan þrífst án mín. Joona er svo alltaf annað slagið alveg við það að muna eftir einhverju mjög, mjög, mjög mikilvægu sem hann sá eða heyrði, og skiptir ótrúlega miklu máli, en það rennur honum úr greipum eins og gufa ... ég nánast garga á hann ... en svo loksins, alveg á síðustu stundu man hann það. Ég verð bara móð við að rifja það upp.

 

Mynd: Lars Kepler ... eða hjónin Alexandra og Alexander sem skrifa saman undir því nafni. Sem minnir mig á að hjónin í næsta húsi heita þetta líka: Oleksandra og Aleksander (frá Úkraínu). 

 

Veðurspáin 2. febEkki besta veðurspáin fyrir morgundaginn en hirðbílstjóri stráksa fékk lánaðan hálfgerðan skriðdreka til að koma honum örugglega í kvöldmat í Reykjadal þar sem hann mun svo dvelja í góðu yfirlæti til sunnudags. Ég var að hugsa um að nota helgina til að vera ofsalöt, lesa, lesa, lesa og kannski bjóða yndislegu sýrlensku fjölskyldunni minni (einni þeirra) í kaffi. Þau buðu mér í fyrradag, búin að koma sér ótrúlega vel fyrir í litlu íbúðinni. Elsta barnið, stelpa, svo ánægð í Brekkubæjarskóla, hefur eignast nokkrar vinkonur og strax farin að þora að tala smávegis íslensku, bara þrjár vikur frá komu. Hún fékk blik í augun þegar ég leyfði henni að heyra smávegis flottheit með Þjóðlagasveit Akraness, fiðlustelpunum knáu sem spila svo vel. Hún hefur lært á fiðlu og langar að halda því áfram. Kannski, þegar ég verð orðin gömul kerling, fer ég í Hörpu og hlusta á hana spila einhverja dýrðina með Sinfó. Það er hægt að elska klassík, krakkar, OG þungarokk.

 

Nautagúllas, kartöflugratín, bakaður rauðlaukurÉg er ansi ánægð með Eldabuskuna. Pantaði fyrir næstu viku líka - það er 20% afsláttur til 3. febrúar og svakalega girnilegir réttir

Kjúklingarétturinn í gær var algjört æði og einnig nautagúllasið í kvöld sem stráksa fannst svakalega gott, svo ég noti nú hans orð. Bara hita, ekki elda. Hugsa nú að ég haldi áfram með Eldum rétt líka, enda góður matur þar, en taki mér einnig leti- og gleðivikur.

 

Stráksi er ekta kjötkarl, nema hann er líka hrifinn af grænmeti ... öllu nánast nema sviðum og súru slátri, smekkmaður á mat! Ég hef hreinlega ekki lagt á viðkvæma sál hans að tala um hræring, til að eyðileggja ekki æsku hans. Hef fengið útrás á blogginu fyrir hroðalegar upprifjanir - en ég skil ekki af hverju systkini mín eru ekki jafnsködduð og ég eftir fortíðina. Mögulega af því að ég er viðkvæm perla, A plús sem er, held ég, besti blóðflokkurinn og tengist að auki öðrum sviðum lífsins, eins og gáfum, gjörvileika og yndisþokka. Systkini mín eru bara, held ég, A mínus og B sem er kannski ekkert slæmt, eflaust gaman að geta, blóðflokks síns vegna, farið á þorrablót, hitt hresst fólk og gúffað í sig súrmeti ... æ, ég veit það samt ekki. Þarf að spyrja þau laumulega hvernig þeim þyki t.d. Grettir Björnsson og nikkusnilld hans. Jafnvel hvort þjóðdansar höfði sérstaklega til þeirra ... úff, nú fer ég að verða pínku hrædd. Kannski er þetta allt saman eitt risastórt samsæri og ég í alvöru sú prinsessa sem ég var fullviss um að ég væri þegar ég var átta ára. Veit ekki af hverju Danmörk kemur sterkt upp í hugann (pínuoggulitla hálfsystir MÞ og falin á Íslandi).

Ég“ ef mig skyldi kalla, blogga eflaust áfram en ... ef ég fer að tala illa um Skálmöld, eða rokk almennt, þá er það ekki ég. Hrós um svið, soul-tónlist, sannsögulegar dramabíómyndir eða óbærileg sænsk vandamála-sjónvarpsleikrit, þá er það ekki ég.   

- - - - - - - - - - - - -  

Hér fyrir neðan er skemmtilegt myndband (ekki alveg nýtt) um framtíð Akraness, með hótel á besta stað í bænum, eins og bæjarstjórinn segir í viðtalinu, eða á hafnarsvæðinu og nálægt Langasandi, alveg rétt við miðbæinn. Hvað breyttist? Finnst þetta stórkostleg hugmynd, þessi í myndbandinu og þyrfti ekki að fjarlægja þyrlupallinn, færa fótboltavöllinn og þrengja svona mikið að, eins og útlit er fyrir og ... það myndi lífga mikið upp á miðbæinn (í einnar brekku fjarlægð, og ísbúðin á torginu er að breytast í kaffihús, ef heimildir mínar eru réttar, jesssss).

Þetta er langbesta svæðið fyrir hótel, ég er sannarlega ekki ein um þá skoðun. Sjáið bara Hótel Sigló! Held að þessi staðsetning sé jafnvel enn flottari!   

   


Bókasjokk, raðhlustun, nýtt ömmubarn og forsetanjósnir

PóstkortamorðinEftir að ég komst upp á lagið með að hlusta á bækur (í fyrra, minnir mig) hef ég hlustað á ógrynnin öll, heilu bókaflokkana. Í mörgum tilfellum eru þetta bækur sem ég hef áður lesið og á jafnvel uppi í hillu, og þar á meðal var bókin sem ég var að lesa í gær ... og hætti, virtist búin, í miðri setningu sem ég hef aldrei lent í. Póstkortamorðin eftir James Pattersen og Lizu Marklund. Fínasta afþreying sem gott er að hlusta á við að hekla, brjóta saman þvott, við að elda ... en svo margir hafa kvartað yfir þessu að ég á von á því að bókin verði kláruð fyrr en síðar. Ef ekki, næ ég bara í hana og klára upp á gamla mátann, nema hún hafi endað hjá hirðrafvirkjanum, eins og svo margar.

 

Mynd: Þarna má sjá átakanleg, óvænt og erfið ekki-endalok bókarinnar sem ég var að hlusta á. En ég tók nú samt gleði mína aftur í dag. Allt svona mótlæti bara þroskar mann.  

 

Rað-hlusta nú á bækurnar um Joona Linna, Finnann knáa sem leysir erfiðustu glæpamálin í Svíþjóð. Kláraði Dávaldinn um daginn, las svo krúttlega ástarvellu og Póstkortamorðin, en hóf lestur á þeirri næstu; Paganini-samningnum, í dag. Þess má geta að ég á allar bækur Lars Kepler um Joona en finnst mjög svo notalegt að hlusta á þær, upplifa þær aftur en öðruvísi, alveg búin að steingleyma þeim, alla vega þeim elstu. Fimm eru komnar á Storytel, sýnist mér, og gúglið segir mér að það séu átta til á íslensku.

 

Dávaldurinn bíómynd frá 2012Og ... af því að ég vanda mig svo við bloggskrif (gúgla og allt) komst ég að því að gerð var bíómynd um Dávaldinn árið 2012. Af hverju hef ég ekki séð hana? Getur verið að nokkuð mikil andstyggð á sjónvarpsglápi hafi verið byrjuð þá? Nei, hún byrjaði í Covid-samkomubanninu þegar ég lagðist í bækur á meðan hluti landsmanna lét Helga fk Bjöss bjarga sálarheillinni, aðrir leituðu í Netflix, þetta voru furðulegar vendingar hjá hálfpartinn sjónvarpssjúkri manneskju sem ég var. Ef RÚV sýndi þessa mynd fór hún algjörlega fram hjá mér. Bókin er mjög blóðug en mér sýnist Joona (ábyggilega í miðið á myndinni) vera ansi huggulegt hörkutól, hann er aðallega gáfaður í bókunum sem er auðvitað mest sexí af öllu, ásamt húmor, samkennd og hæfileikanum til að elda. Ég skal sjá um þvottinn.     

 

Eldabuskan.is sendi mér kassa af tilbúnum mat í gær. Fiskur í humarsósu, kartöflur í sósu (gratineraðar), ferskt salat og hvítlaukssósa. Þetta bragðaðist bara ágætlega, ég er spennt að prófa kjúklinginn í kvöld og svo nautagúllas á fimmtudaginn. Ef ég panta aftur, sem ég tel mjög líklegt, ætla ég að passa að hafa réttina ólíka. Með kjúklingnum eru sætar kartöflur en nautagúllasinu eru gratíneraðar, aftur sem sagt en ég passa bara næst að hafa þetta öðruvís. Líst mjög vel á lasagna með brauði, salati og fleira. En það var frekar skrítið að elda ekki í gær, bara hita. Svo var ég stressuð yfir því að ná ekki öllu plastinu af álbakkanum áður en ég setti hann inn í ofn svo ég klippti bara efri hlutann af. Sennilega algjör föðursýki, en bráðið plast er ekkert sniðugt.

 

Nú er febrúar alveg að koma, eða edrúar, eins og margir kalla hann. Mun halda mér edrú (eins og eiginlega alltaf), tími ekki að eyða fleiri heilafrumum, er alveg nógu gleymin ... Heyrði fínan útúrsnúning á janúar ... eða stjanúar og hef reynt að stjana við gesti mína eftir bestu getu, eða þá sem hafa treyst sér til að koma vegna veðurs. Á morgun er spáð snjókomu og hvassviðri, eða bara íslenskri hríð. Ég hreyfi mig ekki út fyrir hússins dyr en því miður þarf ég sennilega að panta úr Einarsbúð, sem gæti samt beðið til fimmtudags en það væri tillitssamara. Stráksi fór út í sjoppu / búð og keypti einn lítra af mjólk áðan svo morgunmaturinn hans í fyrramálið er tryggur og einnig fimmtudagsins. Svo fer hann í Reykjadal um helgina. Þvílíkt sem hann á eftir að skemmta sér. Systir mín Sinfjötli mætti með útprentaðan fata- og lyfjalista fyrir mig að fylla út, svo allt er til reiðu.

 

Nýja ömmugullið ... heheheInga vinkona, ferðalangurinn hugumstóri, kíkti í heimsókn, síðustu forvöð áður en hún fer til Jórdaníu, og tók yngsta barnabarnið með sér. Strákur sem ég hugsa að ég fari létt með að ræna sem fjórða „barnabarninu“ mínu.

 

 

Þvílíkur dásemdarstrákur og skýrleikspiltur sem var nú samt ögn hrifnari af kisunum en nýju ömmunni, alla vega í upphafi. En þegar nýja amman fékk áfall og æpti í hvert skipti sem hann missti niður rauða pakkabandsrúllu, fékk hann sífellt fleiri hlátursköst. Svo tók hann mig endanlega í sátt þegar við sungum saman Adam átti syni sjö. Hann kann að telja upp á tólf á ensku, kann heimilisfangið sitt og margt, margt fleira sem Inga amma sýndi Gurrí ömmu. Hann er bara tveggja og hálfs! Mikið var þetta skemmtileg heimsókn. (Það skal skýrt tekið fram að ég er búin að þurrka af stólnum, þessum draumastól úr Húsgagnahöllinni. Hafði ekki tekið eftir rykinu fyrr en ég sá myndina, afsakið innilega, gerist sko ekki framar!!!).

- - - - - - - - - - - -

Fréttir af Facebook:

Helgi Hrafn: „Æji, held að ég kjósi bara Ástþór Magnússon. Fokkitt.“ 

Axel Pétur Axelsson forsetaframbjóðandi: „Áts.“

Helgi Hrafn: „Já, ég íhugaði að að kjósa þig en mér finnst þú ekki taka nógu hart á mannétandi risapöddum.“


Hamingjuríkt bílleysi og ótrúlegar hleranir

Bíllinn minnEnn einn fundurinn í dag og sá var góður þótt umfjöllunarefni hans héldi sig inni í herbergi og nennti ekki taka þátt. Kettir himnaríkis létu gestina aldeilis finna fyrir ástúð sinni og hrifningu, nema Mosi sem svaf á sínu græna eyra lengst af.

 

Af hverju ertu ekki á bíl?“ spurði ein fundarkvenna. Það var freistandi að segja að ég hefði svo oft verið tekin full á bílnum og væri orðin þreytt á því ... svo ég sagði það bara. Hún trúði mér ekki og fékk þá réttu söguna: Blankheit vegna lágra launa og himinhárrar leigu (á níunda áratug síðustu aldar, áður en ég keypti á Hringbraut 1988) og svo þegar ég hefði getað keypt mér notaða bíldruslu var ég bara orðin skrambi sátt við bíllausan lífsstíl. Ekkert vesen við að fá stæði, lenda í umferðarsultu, skipta á milli sumar- og vetrardekkja, olíuskipti, borga tryggingar, greiða háa verkstæðisreikninga ... en auðvitað fylgir því frelsi að hafa bíl, geta sest upp í hann og heimsótt vini og ættingja sunnan Rörs (Hvalfjarðargöng). Eins og allir vita er leiðin Reykjavík-Akranes svo miklu lengri en Akranes-Reykjavík ...

 

Ef ég kaupi mér bíl yrði það víst að vera Toyota, sem er fjölskyldu- og ættarbíllinn, skilst mér. FÍB mælir með þeim asísku varðandi bilanatíðni, ásamt Kia, Hyundai, Honda og Lexus. Sá síðastnefndi hefur þá sérstöðu að ef hann bilar á annað borð, er mjög dýrt að gera við hann, einnig Porsche og Chrysler. Þegar búið er að keyra 78 þúsund kílómetra má fara að búast við bilunum en þá fara oft tímareimar eða tímakeðjur vélanna að gefa sig. Dísilbílar hafa lægri bilanatíðni en bensínbílar, Porche á metið í bilunum á gírkössum og drifi ... Þessar arfaleiðinlegu en gagnlegu upplýsingar hef ég frá FÍB en þær eru frá 2017 svo sitt af hverju hefur mögulega breyst. En mér finnst auðveldara að stíga upp í strætisvagn:

„Góðan daginn, herra bílstjóri, hér er debitkortið mitt, ekki dirfast að gefa mér elliafslátt, annars hefurðu verra af,“ eins og ég segi stundum við útlensku unglingana sem keyra leið 57 og þeir horfa ætíð á mig með óttablandinni virðingu (don´t mess with her-augnaráði) og láta mig réttilega borga fullt gjald.

- - - - - - - - - - - - - - -

 

Setjum hana í lækbannUpp úr nýlegri hlerunarskýrslu sem ég fékk senda nafnlaust. Þakklát fyrir auknar forvirkarhlerunarheimildir.

 

AA: Sælir. Hvað get ég gert fyrir þig?

BB: Ég er enn verulega ósáttur við þetta blogg, þú veist, á okkar helga svæði. Gerðu eitthvað.

AA: Í alvöru, hún sem er svo sæt og bara örfáar kvartanir hafa borist.

BB: Hún er haldin heimskublindu varðandi t.d. tjöld á heilagri grund.

AA: Mér skilst að hún hati að gista í tjaldi, þetta kemur mjög á óvart.

BB: Ha?

AA: Svo átti hún áður heima nálægt Dvalarheimilinu Grund, ertu að meina það?

BB: What ever ...

AA: Ég hef mín áhrif, en varla viltu að ég láti eyða blogginu?

BB: Nei, ekkert píslarvætti fyrir hana, mér datt fyrst í hug að senda Kollu á hana, en ég held að það að fækka lækum niður í pínkupons eftir umfjöllunarefninu væri jafnvel enn betra.

AA: Djöfuss snillingur. Og hafa þá mörkin við 5-10 læk til að kenna henni?

BB: What ever ... þetta verður bara að hætta.

AA: Þú veist samt að hún er í flokknum, er það ekki?

BB: Njósnarar mínir segja nú að hún sé í fleiri flokkum. 

AA: Nei, hver þremillinn!

BB: Eins satt og ég stend hérna.

AA: Aha, sennilega til að kjósa kerlingar í prófkjörum. Það er týpískt fyrir svona femínistabeljur. Ég fer í að láta eyða blogginu. 

BB: Hinkraðu, hún á reyndar sama afmælisdag og tengdapabbi. 

AA: Vó! Það breytir nú ansi miklu. 

BB: Látum nægja að fækka lækum, hún hættir þá kannski að bulla.

 

- - - - - - - - - - - - - - -

Fréttir af Facebook:

Litla kaffistofan hefur verið í vandræðum seinnipartinn, eldingu laust þar niður og allt rafmagnslaust. 

 

Grindvíkingar ósáttir við að þurfa að aka Krýsuvíkurveg, enda fastir í ófærð.

 

Bjarni vill ekki að fleiri varnargarðar verði byggðir: „Það hafa heyrst raddir um að einhver nasisti hafi eitt sin fengið grjót í höfuðið af svipaðri gerð og varnargarðanir eru gerðir úr. Það þarf að rannsaka þetta mál fyrst.“ Fréttirnar.

 

Fullt hús er bara hrikalega fyndin ræma. Allir í bíó sem vilja sjá.“ Sunna.   


Aðför að miðjubörnum ...

Snati í öskustónniRjómapönnukökur himnaríkis kláruðust ekki, eins og ég óttaðist, en svangir fuglar í grennd fá aldeilis fína veislu á morgun. Verð að muna að panta helmingi minna af pönnukökum með rjóma og ögn meira af hinum. Þegar komu svo góðir gestir í gær hafði ég búist við við sæmilegum afköstum í áti en nei, ég hafði of mikið með kaffinu. Fór í ávaxtadeildina í Kallabakaríi og kom út með appelsínuköku og bananabros og eitthvað sem er talið hollt líka, eða svona saltkaramellurjóma í vatnsbollum en vatn er það besta, það vitum við öll. Bauð upp á þetta og steingleymdi bæði að taka mynd af veisluborðinu, og bjóða upp á rjómapönnsurnar. En andvirði þeirra fóru í eitthvað sérlega gott málefni.

 

Mynd: Snati frændi hvílir sig í öskustó himnaríkis.

 

Má bjóða ykkur að taka rjómapönnukökur með í skjóðunni, hérna í hnakktöskuna?“ spurði ég systur mína og unga meðreiðarstúlku hennar þegar þær gerðu sig tilbúnar til að stíga á bak og ríða af stað til kaupstaðarins. Snati litli og Lappi hlupu geltandi um, glaðir eftir að hafa getað hvílt sig nokkra stund í hlýjunni í öskustónni en nú tæki við löng ferð í éljagangi, stórhríð og rokbeljanda yfir Kjalarnesheiðina. Ég hafði margboðið þeim gistingu í baðstofunni, meira að segja til fóta í rekkju vinnumannsins, hjá ómaganum, þær gætu þá saumað sauðskinnsskó í myrkrinu, sem laun fyrir næturgistinguna. En ég mátti svo sem segja mér að hrokinn í systur minni og allt vanþakklætið héldi bara áfram. Hún var rétt nýbúin að kyngja kaffinu þegar hún sagði frekjulega: „Það er hlóðabragð af kaffinu þínu, systir mín Guðríður, og vantaði alveg rúsínur í skál með.“ Mikið sem ég sá eftir sopanum ofan í hana, eða þá kandísmolanum. Og ég hugsaði þegar þær riðu úr hlaði: Megi hreppstjórinn hirða þig fyrir glannalega reið. Svo sá ég eftir þessum hugsunum mínum, það þyrfti engan hreppstjóra til að kenna henni eitt eða neitt. Systir mín var lofuð eldri syninum á Sódavatni og sá myndi nú fljótlega kenna henni kurteisi við eldri systur sína, enda þekktur fyrir að flengja heimilisfólkið góða nótt hvert einasta kvöld. Gremja mín var nú samt svo mikil að húslesturinn var ekki róandi eins og vanalega. Yngstu börnin grétu þegar ég öskurlas kaflann um mismunandi skýjafar úr  bókinni Veður í hálfa öld. Nú ætla þau ekki út framar. Þau geta þá gert inniverk framtíðar. Gestakomur eru sannarlega ofmetnar og fuglarnir verða glaðir á morgun.

 

Öll löndin MMDDYYFacebook:

Ósköp fátt sem Facebook sýnir mér - nánast bara efni frá hópum (Pink Floyd, King Crimson), tillögur um að fylgja hópum (fólk borgar fé og sést á veggnum hjá mér, ég ræð hvort ég læka eða skrolla fram hjá) og svo alls konar auglýsingar. 

 

Ég hef sjálf verið álíka beisk og núna fyrir níu árum, skiljanlega, og skrifaði: 

„Nú hefur verið „sannað“ að elsta systkinið sé gáfaðast og það yngsta skemmtilegast. Þessi aðför að miðjubörnum er orðin verulega þreytandi.“ Treysti því að önnur miðjubörn standi með mér í þessu.

Myndina/heimskortið fann ég á Facebook. Þau rauðmerktu eru sögð löndin sem skrifa mánuðinn á undan mánaðardeginum. Dæmi: November 1st ... ágúst tólfti ... Þetta vissi ég ekki fyrir, ef þetta er rétt. Ég trúi ekki hvaða landakorti sem er og gúglaði og fékk út að þetta á við um: Bandaríkin, Kanada og Filippseyjar, einnig breska Hondúras og eyjaklasa í Kyrrahafi sem heitir Míkrónesía. Svo eru til lönd sem byrja á ártalinu en þá missti ég þolinmæðina, enda alltaf frekar áhugalaus um landafræði sem sýnir sig með algjörri leti minni við ferðalög um heiminn. Vinkona mín er að fara til Jórdaníu og Óman eftir viku ... ég lít upp til hennar fyrir hugrekkið (að heimsækja öll þessi pöddulönd sem hún hefur farið til) en læt mér nægja myndir og ferðasögur.         


Öðruvísi bóndadagur og vanhugsaðar viðskiptahugmyndir

Salt eldhúsPönnukökur komu í hús stundvíslega um hádegisbil, löngu pantaðar hjá Soroptimistum sem láta endalaust gott af sér leiða og baka pönnukökur í milljónatali í fjáröflunarskyni. Þetta var í tilefni bóndadagsins og það var ekki fyrr en ég horfði á staflann sem ég hafði keypt að ég mundi eftir því að ég á engan bónda! Þvílík fljótfærni. Þegar stráksi kom heim úr skólanum sagði ég honum að til væri mikið magn af pönnsum. Hélt að hann yrði óður úr gleði og réðist á þær, hann er mjööög hrifinn af þeim og hefur tekið nærri sér að ég kann ekki að tilsteikja nýlega pönnukökupönnu himnaríkis sem allt festist við svo ég nenni ekki að reyna að baka þær. Hann sagði kæruleysislega: „Það voru pönnukökur í skólanum.“ Sem væntanlega þýðir að ég þarf sjálf að borða 20 pönnsur með sykri og 10 með rjóma og gæti þurft að víkka hurðaopin í kjölfarið og sérstyrkja húsgögnin. Á reyndar von á gestum á morgun, því miður ansi matgrönnum, en ég held alveg örugglega að hægt sé að frysta rjómapönnukökur - eða senda þær með nesti. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa ... kettirnir borða bara kattamat og mér finnst gott að smakka eina og eina, já, og veðrið býður ekki upp á heimsóknir bjargvætta að sunnan. Held að allir Skagamenn hafi pantað. Vona samt að sú sem snæddi með mér eina rjóma- í hádeginu, aðstoði einnig við át þegar hún kemur í kvöld til að horfa á Idolið. Gísli Marteinn verður bara að bíða.

 

Mynd: Salt eldhús á þessa mynd og ég vona að mér verði fyrirgefið að hafa fengið hana að láni. Til hamingju með daginn, allir karlar.

 

Það var frekar skrítið að fara á fætur í morgun ... það sást ekkert út um gluggana fyrir snjó sem var skrambi óþægilegt, það þarf að vera hægt að gá til veðurs og horfa á útsýnið fagra. Svo ég tók IKEA-tröppuna og steikarspaða úr plasti, prílaði upp, setti hægri höndina með spaðanum út um gluggann og skóf mesta snjóinn af. Líðanin varð svo miklu betri á eftir, hvernig getur sumt fólk verið með þéttdregið fyrir alla glugga dag sem nótt? Hugsa að ég myndi kafna - og fá myglu í gluggana að auki. Svo kom sól (alltaf sól á Skaganum) og sunnanrúðurnar urðu gegnsæar á ný en vel saltaðar. Suðvestanbrim. Þá er það bara vatnsbrúsi, höndin út um þann opnanlega og sprauta vatni almennilega á rúðuna. Sú bóndalausa bjargar sér.

 

SjálfsafgreiðslukassarÍ gær las ég eitthvað um að fækka ætti starfsfólki í Leifsstöð og hafa kannski eingöngu sjálfsafgreiðslukassa. Þá hugsa ég að ég hætti endanlega að versla þarna. Það sparast vissulega fé við að skerða þjónustu en það virðist samt aldrei lækka vöruverðið. Mjög vanhugsað. Ég sé enn eftir því að hafa keypt einhvern óþarfa í fyrra hjá WH Smith á flugvellinum í Manchester. Þar var ein manneskja að vinna í risastórri búð og þurfti að róa pirrað liðið, hún reyndi að hjálpa í búðinni - svo píptu kassarnir og hún þurfti að hlaupa til baka og hjálpa þar. Frekar stressandi og vanþakklátt starf. Skilst að Walmart (í USA) sé meira og minna að snúa aftur í að hafa kassafólk því viðskiptavinirnir stálu ótrúlega miklu í gegnum sjálfsafgreiðsluna svo óskagróðinn varð að tapi. Marks & Spencer-búðirnar í Bretlandi hafa líka lent í þjófnaði vegna þeirra, ólíklegasta fólk sem er kannski að taka sér laun fyrir að vinna vinnuna fyrir búðina? M&S telja þó þessa kassa skilvirkari en þá mönnuðu og ætla ekki að hætta með þá. Aftur á móti ætla Booths-búðirinar bresku að hætta með þá í 25 af 27 búðum sínum til að bæta upplifun viðskiptavinanna. (Heimild v/ Boots og Marks&Spencer: DV, nóv. 2023, man ekki hvar ég las þetta um Walmart)). Það er þægilegt að hafa sjálfsafgreiðslukassana með, og geta valið. Að fá nótu á kennitölu er vesen á þeim, sums staðar ekki hægt, svo það er varla hægt að sleppa alveg mönnuðum kössum.

 

Síðast þegar ég fór í gegn í Leifsstöð spurði ég afgreiðslukonu þar um gott meik (farða) og hún seldi mér það allra besta sem ég hef notað í mörg ár. Meik sem ýkir ekki mínar örfáu (hm) hrukkur, heldur þvert á móti. Er frá Sensai og heitir Flawless Satin Moisture Foundation (SPF 25) og gerir mig ómótstæðilega sæta, þótt ég segi sjálf frá. Hefði annars bara gengið fram hjá án þess að kaupa nokkuð því ég veit ekkert um snyrtivörur og kann því vel að meta aðstoð fagfólks. Mögulega væri hægt að þjálfa gervigreindina í slíka aðstoð en hún er bara svo skrambi hreinskilin, nánast grimm. (Svona: Þú ert of hrukkótt til að farði geri nokkuð fyrir þig-hreinskilin). Ég spurði hana til dæmis hvernig ég ætti að fara að því að grennast hratt. Helvítið svaraði: „Borðaðu minna, hreyfðu þig meira.“   


Furðulegt æði í hvítlauk og lostaskortur heillar starfsstéttar

HvítlaukssaltGrannkona úr Nýju blokkinni mætti stundvíslega kl. 13.05 við útidyrnar á Gömlu blokkinni (Himnaríki er þar). Við vorum að fara að kaupa hvítlaukssalt. Þótt við kæmum snemma var komin svolítil biðröð og óljós grunurinn sem kviknaði í gær fór vaxandi.

Hvaða ástæða er fyrir því að heilt bæjarfélag er brjálað í hvítlauk? Gæti aukinn fjöldi fólks frá Rúmeníu (Transilvaníu) haft eitthvað með það að gera, myrkrið á Íslandi yfir vetrartímann og öflugur blóðbanki?

Ekki verra að járnskortur heyrir nánast sögunni til eftir að læknar, apótek og heilsubúðir hófu að draga okkur landsmenn út úr vítamínsskorts-letinni og ómennskunni. Eldum rétt á líka einhvern heiður skilinn fyrir að bæta blóðið. Það er eitthvað furðulegt í gangi.

 

Ert það sem þú borðarGáfaðir, hugsandi og klárir Skagamann munu skilja mig, vita að þetta er eitthvað meira en grunsemdir. Sú sem var á undan mér í biðröðinni (það var komin röð strax upp úr kl. eitt) keypti átta krukkur. Þegar ég minntist greindarlega á að það yrði þeim mun fleiri sem hægt væri að kyssa ef allir borðuðu hvítlauk, breytti enginn um svip og ein dásemdin þarna skipti um umræðuefni í hvelli sem gerði allt enn dularfyllra. Það er verið að leyna mig einhverju.

Í bílnum á leiðinni heim gat ég lítið hugsað um þetta, enda ræddum við Ingunn bara um tónlist, eða hljómsveitina Offspring sem hljómaði í græjunum og sem hún hlustaði mikið á sem unglingur ... og ég sem móðir unglings, hmmm. Offspring kynntist ég í gegnum MTV (frá 1995). Pretty Fly (Give it to me baby, aha, aha) mun nú bætast við á lagalistann Ýmis lög (93 lög) með tveimur Offspring-lögum sem voru þar fyrir, Come out and play og Self Esteem. Ingunn sagði mér að afkomendur hennar hlustuðu á þessa tónlist af mikilli ánægju. Heimurinn varð einhvern veginn betri við að vita það. Líka þegar ég mærði Skálmöld þarna í lokin í bílnum og hún sagðist hafa orðið stjörnustjörf við að hitta þá ALLA ... í Krónunni á Akranesi! Má færa lögheimili sitt og aðsetur í matvörubúð?

 

Ég ætla alla vega að fylgjast vel með Akurnesingum á næstunni, ef þeir virðast ætla að breytast í uppvakninga eða finnst þeir þurfa lífsnauðsynlega á hvítlauk að halda, ætla ég ekki að smakka þetta „hvítlaukssalt“. Ég viðraði ótta minn í símtali við Hildu systur. Hún var laus við allan skilning, eins og svo oft.

„Er eitthvað að þér? Þetta er bara svona gott og það hefur spurst út. Hættu þessum samsæriskenningum, frú Gurrí OHara!“

Hún fær sko eina krukku hjá mér næst þegar við hittumst. Það kemur þá fljótlega í ljós hvort þetta var góð gjöf eða hefnd fyrir eilífan kjafthátt og grútspælingar ...

 

HatariFacebook er reyndar full af kenningum um Júróvisjón. Það var skilafrestur í september til að senda lög í keppnina, svo varla hefur lag Murads frá Palestínu verið sent inn sérstaklega til höfuðs Ísrael, eins og sumir halda og eru brjálaðir yfir (???). Ef hann er góður, fínt, ef hann er bestur vinnur hann keppnina hér heima og það gæti vakið athygli á málstað Palestínu ef hann færi svo út í aðalkeppnina. Fólk frá Ísrael hefur sent Íslandi tóninn eftir að það barst út að tónlistarfólk og fleiri vildu sniðganga keppnina, sagt að við getum hvort eð er ekkert í tónlist og þaðan af verra. Ekki hollt fyrir sálartetrið að lesa hatursfull skilaboð svo ég hætti eftir tvenn eða þrenn.

 

Allt þetta fjármagn sem fer í keppnina er ekki gripið úr neinum sjóðum RÚV, heldur kemur af auglýsingatekjum vegna keppninnar. RÚV stendur á sléttu á eftir, svona sirkabát. Svo það er ekki hægt að gefa Grindvíkingum milljónirnar ef hætt er við. Veðbankar spá okkur sigri ef Murad keppir fyrir okkar hönd, án þess að framlag hans hafi heyrst, svo þetta er hápólitískt allt saman þótt við reynum að telja okkur trú um annað. Sögðu ekki sumir að Úkraína hefði sigrað vegna ástandsins þar ... lagið er nú samt gott, og sérstaklega útgáfa Litháa sem þeir gerðu til stuðnings grönnum sínum.  

 

MEIRA AF FACEBOOK:

Ákveðinn misskilningur ríkti varðandi „Facebook-frétt“  gærdagsins. Það var því miður ekki ég sem var svona fyndin, heldur Dúa nokkur, Facebook-vinkona mín, lögmaður og húmoristi. Hún sagðist hafa andast (vegna óholls lífsstíls) í miðjum samræmdu prófunum 1982 ... elsku vinir, tók ég samræmd próf? Nei. Landspróf var það.

 

StrætóbílstjórarÉg varð svolítið svekkt þegar ég las færslu mína frá 25. janúar 2013 (Facebook rifjar allt upp) þar sem stóð:

 

 

„Einn af þremur strætóbílstjórum morgunsins sagði við mig þegar ég steig upp í vagn hans í morgun: „Ég sá þig í Mogganum um síðustu helgi.“ Hvort svipur hans lýsti samúð eða losta geri ég mér ekki alveg grein fyrir.“ 

 

Hvað varð eiginlega um lostafulla strætóbílstjóra? og augnaráðin sem gerðu nánast hverja einustu strætóferð í heil tíu ár (Akranes - Reykjavík - Akranes) þess virði að fara hana?

- Hver hjá Strætó bs yngdi upp flotann?

- Veit einhver hvaða áhrif skortur á daðri hefur á andlega og líkamlega líðan síðmiðaldra kvenna?

- Geng ég um með of dauf gleraugu? 

- Gæti hugsast að starfsánægja bílstjóra hafi minnkað stórlega í kringum 2017 (ég fór að vinna heiman frá mér þá) og þeir sagt upp í stríðum straumum?


Of ungleg fyrir sæti ...

SvonaTannlæknirinn minn er kominn í dýrlingatölu hjá mér. Það þurfti að gera við pínkupons- nánast bara passa að eitthvað yrði ekki að skemmd en samt var þetta sama vesen og þegar um stóraðgerð er að ræða. Tjalddúkur og klemmur og það allt. Þegar verið var að koma þessu fyrir í fögrum munni mínum fylltist ég allt í einu innilokunarkennd og nefndi það án þess að biðja um að nokkru yrði breytt. Tannsinn minn, sankti Jónas, hætti snarlega við bráðabirgða-dúklagningar í gini mér og gerði þetta upp á gamla mátann sem ég verð endalaust þakklát fyrir. EF ég flyt í bæinn, er alveg möguleiki á því að halda mig við þessa dýrð og dásemd sem hann er, einhverjir brottfluttir Skagamenn gera það. Það var einungis gífurleg sjálfstjórn sem varð til þess að ég faðmaði hann ekki í kveðju- og þakklætisskyni, þá hefði ég sennilega misst af strætó heim, klukkan var orðin svolítið margt. Já, talandi um strætó. Tannlæknirinn er í góðu göngufæri en brrrr, veðrið frekar fjandsamlegt hárinu á mér; rok, hálka, hláka, vindur, haglél, skýjað, rigning, allt þetta og meira til.

 

 

Svo ég tók strætó frá Garðabrautinni - fór upp í hverfi og til baka, upp hjá Bónushúsinu og svo niður í bæ og stökk út skammt frá þar sem tannlæknastofan er, rétt hjá spítalanum, Jóni rakara, Nínu, fiskbúðinni, kírópraktornum og gamla pósthúsinu. Ég stóð allan tímann. Vagninn fullur af fjórðubekkingum og fleirum sem höfðu sennilega aldrei heyrt minnst á að standa upp fyrir gamla fólkinu. Ég get sagt þetta þótt ég samsami mig á engan hátt með gömlu fólki, því ég man fullvel hvað mér fannst um 12 ára krakkana þegar ég var sjö ára. Þau voru fullorðin, foreldrar mínir gamlir. Afar og ömmur (50-60 ára) komin á grafarbakkann. Svo áttaði ég mig á því að svo margt hefur breyst í áranna rás. Í Reykjavík unglingsáranna tóku allir strætó, bíleign var langt í frá eins og núna, og við stóðum að sjálfsögðu alltaf upp fyrir eldra fólki. Svo flaug í huga minn þar sem ég stóð og ríghélt mér í handfang sem hékk niður úr lofti vagnsins. Handarbakið á mér var rennislétt (andúð á sólböðum að gefa), alveg jafnslétt og á börnunum (9-16 ára) svo bara það hve ungleg ég hlýt að hafa verið í þeirra augum, alla vega handarbakið, kom sem sagt í veg fyrir að þau drusluðust upp úr sætunum sem merkt eru gömlu fólki með staf. Og var ég með staf? Nei, aldeilis ekki. Var líka öllu vön síðan ég ferðaðist reglulega með SVR hér áður fyrr. Þá var nú ábyggilega gott fyrir fólk með mikla snertiþörf að taka strætó, get ég ímyndað mér, oft svo þétt staðið og setið. Þrengslin í innanbæjarstrætó í dag minntu mig einna helst á Jethro Tull-tónleikana á Akranesi árið 1992. Man vel eftir fulla gaurnum sem stóð nálægt sviðinu. Hann var stór og stæðilegur en þrengslin héldu honum uppi, hann reyndi nefnilega hvað eftir annað að deyja áfengisdauða og hrynja niður á gólf en það tókst ekki fyrr en eftir tónleikana. 

 

Stráksi minnUm næstu helgi fer stráksi í helgardvöl í Reykjadal. Það er einn allra besti staður í jarðríki, í hans huga, allir svo góðir og skemmtilegir og fyndnir og frábærir.

 

 

Við urðum hrikalega montin þegar við sáum mynd á Facebook-síðu sumarbúðanna þar sem stráksi sést vel og greinilega, situr fremst í báti í appelsínugulu björgunarvesti. Geri ráð fyrir því að þessi mynd sé opinber og ég megi birta, fyrst hún er á opinni síðu sumarbúðanna, ég veitti leyfi fyrir birtingu mynda af honum og eflaust forráðamenn hinna barnanna líka. Ef ekki, tek ég hana út í hvelli.

 

Disco-Stylistic-FeaturesStráksi er pínku kvefaður og fékk því ekki að fara í sund í dag. Fósturmamman (ég) sagði nei, svo hann er í slökun inni í herbergi og hlustar á hræðilega tónlist á milli þess sem hann gúglar eitthvað áhugavert um álfa, tröll og þjóðsögur í spjaldtölvunni. Ég hef mikið reynt að gera hann að góðum rokkara en hann flýr öskrandi (ýkt) eða biður mig um að lækka. Held að hippakynslóðin hafi svolítið lent í þessu með börn sín fædd upp úr 1970. Var ekki diskóið að hefja innreið sína um svipað leyti og börnin urðu unglingar? Ég er af 78-kynslóðinni svo ég hef ekki þessa reynslu, fékk rjómann af 70's og kynntist seinna frábærri tónlist tíunda áratugarins, 90´s, í gegnum soninn. Radiohead, Wu Tang Clan, Greenday, Nirvana og fleira í þeim dásemdardúr sem fékk mig til að trúa á mannkynið aftur. Ef ég reyndi að hlusta þarna inn á milli heyrði ég bara diskó, fönk og soul og lagðist þá til dásvefns aftur með Led Zeppelin í annarri og Pink Floyd í hinni. MTV-sjónvarpsstöðin sem kom á heimilið 1995, breytti sem sagt öllu. Enn dett ég svolítið í: Vá, hvað það er ömurleg tónlist í gangi núna (úti í heimi) ... en svo kemur eitthvað gott lag og þá hægt að taka gleði sína aftur.

 

EldabuskanGet ekki sagt að ég sé mikið fyrir stórar breytingar í lífinu nema sirka á átján ára fresti, (ef eitthvað virkar fínt, því þá að breyta?) en ég ákvað í gær að panta mat fyrir tvo í þrjá daga hjá Eldabuskunni. Sá að mömmur.is (Hjördís) mæla hástöfum með þessu, það var að auki afsláttur upp á 15% í gegnum mömmurnar og hægt að fá sent upp að dyrum á Akranesi, svo mér fannst sniðugt að prófa. Maturinn er fulleldaður og þarf bara að hita hann. (Dásamleg snilld) Ég var svo einbeitt við að panta og ganga frá þessu að ég gleymdi að slá inn afsláttarkóðann! Verðið kom mér samt gleðilega á óvart, það er ekki nema ögn hærra en hjá Eldum rétt og svo kostar sendingin eitthvað líka. Stráksa leist aldeilis vel á þetta og við bíðum spennt eftir grilluðum kjúklingi með sweet chili og rjómaosti, nautagúllasi með kartöflugratíni og gratíneruðum þorski með humarsósu. Ferskt salat með öllu, sýnist mér. (Rændi mynd af eldabuskan.is til að sýna hvað þetta virðist vera flott).

Svo er allt að verða vitlaust á Skaganum út af hvítlaukssalti frá Dalahvítlauk ... ég er búin að panta og fæ far með grannkonu til að sækja á morgun í Breið þróunarsetur. Strætó gengur ekki þangað. Hjónin hjá Dalahvítlauk koma sem sagt aftur á morgun eftir óvænta svakasölu í fyrradag. Skilst að þetta sé ekki bara gott, heldur rosalega gott. Efast ekki um það. 

 

Facebook fyndin í dag:

„Ég las einhvern tíma að hver sígaretta stytti líf manns um x mínútur. Svo er líka frádráttur vegna óhollrar fæðu, yfirþyngdar, hreyfingarleysis, áfengisneyslu og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var að reikna og með trega tilkynni ég hér með að ég lést í miðjum samræmdu prófunum árið 1982. Blóm og kransar afþakkaðir en ég bendi á súkkulaðibirgðir næstu verslunar og heimilisfang mitt.“ (Dúa dásamlega)  


Annir og afmælisbörn, ýkjur og mont

Húsfélagsfundur og kötturStjórnarfundurinn gekk eins og í sögu, þrátt fyrir að Mosi væri helst til of ofurelskulegur og hefði setið og síðan legið ofan á fundargögnunum megnið af tímanum. Aðalfundurinn verður í mars, eins og vanalega, kannski held ég áfram að vera riddari, kannski ekki. Mögulega vill einhver annar taka við, enda flott nafnbót. Svo í dag var Hekls Angels-hittingur sem hefur verið haldinn mánaðarlega síðan í október. Við slepptum desember og nú í janúar var komið að mér. Með hjálp BettyCrocker nokkurrar töfraði ég fram glæsta vanilluköku sem rann ljúflega niður. Enn er helmingurinn eftir, enda fengum við góða hjálp frá stráksa, sem mun svo sannarlega gleypa hana í sig og klára á morgun og hinn. Uppáhaldskakan hans. Fullorðinsárin hafa gert mér grikk, einu sinni var ég óð í tertur og kökur en svo er því miður ekki lengur. Ég átti eitt takmark í lífinu þegar ég var tíu ára, að skúffurnar tvær í Hansahillunum yrðu alltaf fullar af sælgæti þegar ég væri orðin fullorðin. Bæði hillurnar og draumurinn hurfu með tímanum. Kæru börn, það tekur því ekki að setja sér markmið, við þroskumst alltaf frá þeim. Ætlaði ég ekki að vera söngkona, leikkona, dansmær eða ljósmóðir? Hmmmmm.

Keli, elsti kötturinn og sá gigtveiki, hlammaði sér hreinlega ofan á hekldótið hjá einni í hópnum en áður en ég gat fest það á filmu, var hann stokkinn á braut. Missi ekki af því næst. Já, Keli, Krummi og Mosi eru algjörir kærleikskettir, elska fólk og hunda. Krumma er samt ekki treystandi þegar Herkúles og Golíat frændhundar mínir koma í heimsókn. Hann er pínku hræddur við þá og virðist vilja vernda okkur fyrir þessum hundskrímslum. (H og G eru forkunnarfagrir Maltíshundar) 

 

Hugsa út fyrir boxiðÁstamálin hafa ekki pirrað mig neitt sérstaklega undanfarið, eða skortur á slíku, en nú veit ég að ef ég nenni að lenda á séns eru möguleikar mínir fleiri og athyglisverðari en ég hélt. Allt spurning um að hugsa út fyrir rammann.

Þessi fjölskylda (sjá mynd) er saumuð, sýnist mér, en með hjálp meðlima Hekls Angels gæti ég heklað mína eigin fjölskyldu, grunar mig, gæi sem mótmælir mér aldrei, ódýr í rekstri og ... þægustu, alla vega hljóðlátustu börn í heimi, ef ég nenni að hekla börnin líka. Skilst að þau flæki fjölskyldulífið (?) svo þetta er alveg spurning. Hvaða garn væri best að nota? Eitthvað sem má fara í þvottavél væri best en ég nota svo sem aldrei varalit svo ég gæti kysst hann grimmt án þess að stórsæi á honum. Hef ég tíma til að hekla heilan karl? Hversu hávaxinn á ég að hafa hann? Hvað með tróð? Nenni ég þessu? Tuskukarlar eru svo ofmetnir ...

 

FacebookFacebook segir mér að bæði Þuríður Sigurðardóttir, söngkona og myndlistarkona, og Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður eigi afmæli í dag. Húrra fyrir þeim. Tvenn jól í röð hef ég fengið aðeins eitt jólakort og það er frá öðru þeirra (ég vann með viðkomandi um hríð, ja, eiginlega báðum, hinu samt óbeint, og gettu nú). Að droppa nöfnum er leyfilegt á þessari síðu. Plat, ýkjur og mont gerir allt betra!

Sjálf hætti ég að senda jólakort árið 1985 sökum fátæktar (þau voru komin upp í 70), og jólin komu samt. Já, svo á Sigþóra von Akranes afmæli líka, sá ég, og í dag er komin rúm hálf öld, eða 51 ár, síðan gaus í Vestmannaeyjum.

 

Af eigin Facebook-síðu: 

Þennan dag árið 2015: „Þeir ættu að skammast sín. Bæði Sigmundur og Davíð.“ Innhringjandi í Reykjavík síðdegis.

Þennan dag árið 2012: „Hef sjaldan verið jafnfljót á fætur og þegar mamma vakti mig sjöleytið fyrir 39 árum: „Gurrí, vaknaðu, Vestmannaeyjar eru ónýtar“.“

Mamma gat verið mjög dramatísk, ég man alveg hvernig okkur leið þegar hún sagði að ungur frændi okkar hefði lent undir valtara og meitt sig á fæti. Hann lá reyndar ekki á stofu 15, 16 og 17, heldur ók lyftari yfir fótinn á honum ... bakarí, apótek ... valtari, lyftari.

- - - - - - - - - - - - 

Varðandi rafrænu dagbókina sem hefur aukið annríki mitt til muna: 

Tannlæknir á morgun, fundur á fimmtudag ... og föstudagurinn er farinn, eins og ég vissi: Fæ góða heimsókn úr bænum, og líka á laugardaginn. Bíð spennt eftir sunnudeginum. Mögulega hefur alltaf verið svona mikið að gera hjá mér, mér hefur bara fundist ég lifa svo tryllingslega rólegu lífi hér við sjávarsíðuna. Lífið hefur vissulega verið mun rólegra eftir að ég flutti á Skagann. Ég var svo miklu duglegri að fara eitthvað, gera eitthvað þegar ég bjó í bænum. Auðveldara að hoppa upp í strætó eða leigubíl, eða vera samfó ... Hér gengur innanbæjarstrætó aðeins til kl. 18 og aldrei um helgar. Leið 2 gengur ekki þegar skólafrí eru, vorfrí, vetrarfrí og það allt. Best að tékka á því áður en kennslan hefst og gera ráðstafanir. Það væri nú agalegt ef sjálfur leiðbeinandinn lærbrotnaði í ógeðshálku og fengi kalsár af því að strætó 2 er bara fyrir skólabörnin.

P.s.

„Svo áttu barn og von á öðru í heiminn, skiptir þetta máli?“ „Já, að sjálfsögðu ...“ úr viðtali við karlkynsíþróttamann eða -þjálfara. Er heimurinn að verða vitlaus?     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 157
  • Frá upphafi: 1529814

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 141
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband