Bókasjokk, raðhlustun, nýtt ömmubarn og forsetanjósnir

PóstkortamorðinEftir að ég komst upp á lagið með að hlusta á bækur (í fyrra, minnir mig) hef ég hlustað á ógrynnin öll, heilu bókaflokkana. Í mörgum tilfellum eru þetta bækur sem ég hef áður lesið og á jafnvel uppi í hillu, og þar á meðal var bókin sem ég var að lesa í gær ... og hætti, virtist búin, í miðri setningu sem ég hef aldrei lent í. Póstkortamorðin eftir James Pattersen og Lizu Marklund. Fínasta afþreying sem gott er að hlusta á við að hekla, brjóta saman þvott, við að elda ... en svo margir hafa kvartað yfir þessu að ég á von á því að bókin verði kláruð fyrr en síðar. Ef ekki, næ ég bara í hana og klára upp á gamla mátann, nema hún hafi endað hjá hirðrafvirkjanum, eins og svo margar.

 

Mynd: Þarna má sjá átakanleg, óvænt og erfið ekki-endalok bókarinnar sem ég var að hlusta á. En ég tók nú samt gleði mína aftur í dag. Allt svona mótlæti bara þroskar mann.  

 

Rað-hlusta nú á bækurnar um Joona Linna, Finnann knáa sem leysir erfiðustu glæpamálin í Svíþjóð. Kláraði Dávaldinn um daginn, las svo krúttlega ástarvellu og Póstkortamorðin, en hóf lestur á þeirri næstu; Paganini-samningnum, í dag. Þess má geta að ég á allar bækur Lars Kepler um Joona en finnst mjög svo notalegt að hlusta á þær, upplifa þær aftur en öðruvísi, alveg búin að steingleyma þeim, alla vega þeim elstu. Fimm eru komnar á Storytel, sýnist mér, og gúglið segir mér að það séu átta til á íslensku.

 

Dávaldurinn bíómynd frá 2012Og ... af því að ég vanda mig svo við bloggskrif (gúgla og allt) komst ég að því að gerð var bíómynd um Dávaldinn árið 2012. Af hverju hef ég ekki séð hana? Getur verið að nokkuð mikil andstyggð á sjónvarpsglápi hafi verið byrjuð þá? Nei, hún byrjaði í Covid-samkomubanninu þegar ég lagðist í bækur á meðan hluti landsmanna lét Helga fk Bjöss bjarga sálarheillinni, aðrir leituðu í Netflix, þetta voru furðulegar vendingar hjá hálfpartinn sjónvarpssjúkri manneskju sem ég var. Ef RÚV sýndi þessa mynd fór hún algjörlega fram hjá mér. Bókin er mjög blóðug en mér sýnist Joona (ábyggilega í miðið á myndinni) vera ansi huggulegt hörkutól, hann er aðallega gáfaður í bókunum sem er auðvitað mest sexí af öllu, ásamt húmor, samkennd og hæfileikanum til að elda. Ég skal sjá um þvottinn.     

 

Eldabuskan.is sendi mér kassa af tilbúnum mat í gær. Fiskur í humarsósu, kartöflur í sósu (gratineraðar), ferskt salat og hvítlaukssósa. Þetta bragðaðist bara ágætlega, ég er spennt að prófa kjúklinginn í kvöld og svo nautagúllas á fimmtudaginn. Ef ég panta aftur, sem ég tel mjög líklegt, ætla ég að passa að hafa réttina ólíka. Með kjúklingnum eru sætar kartöflur en nautagúllasinu eru gratíneraðar, aftur sem sagt en ég passa bara næst að hafa þetta öðruvís. Líst mjög vel á lasagna með brauði, salati og fleira. En það var frekar skrítið að elda ekki í gær, bara hita. Svo var ég stressuð yfir því að ná ekki öllu plastinu af álbakkanum áður en ég setti hann inn í ofn svo ég klippti bara efri hlutann af. Sennilega algjör föðursýki, en bráðið plast er ekkert sniðugt.

 

Nú er febrúar alveg að koma, eða edrúar, eins og margir kalla hann. Mun halda mér edrú (eins og eiginlega alltaf), tími ekki að eyða fleiri heilafrumum, er alveg nógu gleymin ... Heyrði fínan útúrsnúning á janúar ... eða stjanúar og hef reynt að stjana við gesti mína eftir bestu getu, eða þá sem hafa treyst sér til að koma vegna veðurs. Á morgun er spáð snjókomu og hvassviðri, eða bara íslenskri hríð. Ég hreyfi mig ekki út fyrir hússins dyr en því miður þarf ég sennilega að panta úr Einarsbúð, sem gæti samt beðið til fimmtudags en það væri tillitssamara. Stráksi fór út í sjoppu / búð og keypti einn lítra af mjólk áðan svo morgunmaturinn hans í fyrramálið er tryggur og einnig fimmtudagsins. Svo fer hann í Reykjadal um helgina. Þvílíkt sem hann á eftir að skemmta sér. Systir mín Sinfjötli mætti með útprentaðan fata- og lyfjalista fyrir mig að fylla út, svo allt er til reiðu.

 

Nýja ömmugullið ... heheheInga vinkona, ferðalangurinn hugumstóri, kíkti í heimsókn, síðustu forvöð áður en hún fer til Jórdaníu, og tók yngsta barnabarnið með sér. Strákur sem ég hugsa að ég fari létt með að ræna sem fjórða „barnabarninu“ mínu.

 

 

Þvílíkur dásemdarstrákur og skýrleikspiltur sem var nú samt ögn hrifnari af kisunum en nýju ömmunni, alla vega í upphafi. En þegar nýja amman fékk áfall og æpti í hvert skipti sem hann missti niður rauða pakkabandsrúllu, fékk hann sífellt fleiri hlátursköst. Svo tók hann mig endanlega í sátt þegar við sungum saman Adam átti syni sjö. Hann kann að telja upp á tólf á ensku, kann heimilisfangið sitt og margt, margt fleira sem Inga amma sýndi Gurrí ömmu. Hann er bara tveggja og hálfs! Mikið var þetta skemmtileg heimsókn. (Það skal skýrt tekið fram að ég er búin að þurrka af stólnum, þessum draumastól úr Húsgagnahöllinni. Hafði ekki tekið eftir rykinu fyrr en ég sá myndina, afsakið innilega, gerist sko ekki framar!!!).

- - - - - - - - - - - -

Fréttir af Facebook:

Helgi Hrafn: „Æji, held að ég kjósi bara Ástþór Magnússon. Fokkitt.“ 

Axel Pétur Axelsson forsetaframbjóðandi: „Áts.“

Helgi Hrafn: „Já, ég íhugaði að að kjósa þig en mér finnst þú ekki taka nógu hart á mannétandi risapöddum.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 259
  • Sl. sólarhring: 295
  • Sl. viku: 1740
  • Frá upphafi: 1454209

Annað

  • Innlit í dag: 217
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 207
  • IP-tölur í dag: 204

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband