Færsluflokkur: Bloggar
5.8.2022 | 16:14
Að sjá fram í tímann - náðargáfa í ættinni
Ætt mín er samansett af fjölbreytilegum og skemmtilegum einstaklingum, eins og ég hef oft montað mig af. Dásamlegt fólk bæði í móður- og föðurætt og stöku sérkennilegir einstaklingar líka auðvitað sem krydda bara tilveruna. Systir pabba sá lengra en nef hennar náði og það kom meira að segja fram í útfararræðunni yfir mömmu núna 20. júlí sl. að hún hafi fengið bréf frá þessari fyrrum mágkonu sinni þegar við vorum eiginlega nýflutt til borgarinnar (1971) þar sem sagði að mamma myndi kynnast góðum manni. Nafn hans byrjaði á S-i og einnig nafnið á bílnum hans. Og viti menn, mamma og Siggi kynntust einhverjum mánuðum seinna, og hann ók um á Saab. Þriðja S-ið var þarna líka, því þau kynntust á Hótel Sögu. Kæmi mér ekkert á óvart þótt þetta hafi gerst í september, alla vega á seventís-tímabilinu.
Langafasystir mín í móðurætt var þekkt fyrir að lesa í garnir og spá fyrir um veður og slíkt með því að skoða þær. Ég hitti hana meira að segja einu sinni, var þá í landsprófsbekk á Sauðarkróki með einni frænkunni sem bauð mér í helgardvöl í Hegranesið og í félagsvist í sveitinni. Sigurlaug leit á þessa nýju frænku sína og sagði: Jú, þú ert með ættar-ennið.
En nú held ég að þessi gáfa sé farin að færast yfir á mig upp á að sjá framtíðina. Síðastliðna nótt dreymdi mig að ég hefði farið 90 ár fram í tímann. Sundabraut var komin og lá yfir stóru bryggjuna á Akranesi og hafði verið byggð af Kínverjum sem litu á Akranes sem góðan fjárfestingarkost, enda orðin höfuðborg eftir að svo margir færðu sig yfir flótann vegna pirrandi eldgosa í grennd. Það var ekki enn búið að finna upp flugbíla! Sem betur fer hafði ég vit á að spyrja nokkurra mikilvægra spurninga, um hluti sem alla langar að vita.
Hvað stóð í erfðaskrá Filippusar prins sem þurfti að frysta í 90 ár til að vernda bresku konungsfjölskylduna? Sko, sagði sagnfræðingurinn sem ég hitti fyrir tilviljun, kjaftasögurnar voru sannar varðandi fleiri börn sem hann vildi að nytu auðæfa hans, það voru þó barnsmæðurnar sem komu á óvart; Mary Hopkins, Lulu og Twiggy, konur sem voru þekktar á sjöunda áratug síðustu aldar. Afabarn hans, Vilhjálmur sigursæli, ríkti þó ekki lengi því hann setti kórónuna á hilluna til að geta helgað sig bogfimi og talaði í kjölfarið af sér um kórónuveiruna sem hann kvaðst vera loks laus við, enginn skildi almennilega hvað hann átti við fyrr en hálfri öld síðar. Öllum til furðu tók Harry bróðir hans við veldissprotanum en Lillibeth, dóttir hans, er nú ríkjandi drottning Litla-Bretlands. Archie, ögn eldri, kom ekki til greina - miðbörn höfðu náð völdum í heiminum og bönnuðu að farið yrði eftir aldri. Erfingjar t.d. krúnu þurfa að draga spil, sagði sagnfræðingurinn sáttur, enda ekki elsta barn.
Hver verður ritstjóri Morgunblaðsins 2112? Davíð Oddsson.
Hvað með Covid? Loksins eftir að Covid-99 gerði sig líklegt til að vaða yfir heimsbyggðina náðist í skottið á kvikindinu sem hefur stökkbreyst endalaust í áratugi og strítt ófáum Þórólfum. Það tafði líka þróun bóluefnis í takt við það hve margir sáu ofsjónum yfir gróða lyfjafyrirtækjanna (Ég drepst frekar en að láta þessa aumingja græða á mér-fólkið). Um svipað leyti misstu prófarkalesarar allan tilverurétt því það þótti ekki við hæfi að þeir stórgræddu á stafsetningarvillum annarra. Bill Gates IV. tók af skarið og fjármagnaði sigurinn yfir covid. En svo kom í ljós árið 2100 að þetta var allt saman eitt risastórt samsæri. Ekki til nafnið Bill í heiminum og kórónuveiran tengd bresku konungsfjölskyldunni og vissum markaði í Lundúnum. Portobello-markaðurinn þótti líklegur, enda hippalegur og beit ekki hinn enski hippalegi Ozzy Osborne hausinn af leðurblöku í denn? Ekkert hefur sannast enn, þrátt fyrir að Ireland Yard (Írland yfirtók Skotland 2058) hafi rannsakað málið í áratugi.
Hvað með hamfarahlýnun, einhver lönd sem hafa sokkið í sæ? NASA fann upp risaryksugu sem náði að sjúga upp fullt af sjó og fara með upp í geim. Dældu honum inn í fínasta svarthol sem fannst 2039 - af íslensku geimvísindafólki - á Akranesi. Ýmsir sjónaukar hafa síðan þá numið eitthvað sem gætu sýnt sístækkandi fiskalíf þar. Samherji fór á fjárlög sem þurfti því kvótaerfingjum fjölgaði þótt fiskunum fækkaði. Allir sáttir við það.
MYND: Ég er alltaf með gemsann á mér sem kom sér aldeilis vel í nótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.8.2022 | 22:41
Lofuð myndbirting og covid-gleymskupúkar
Sannarlega engar ýkjur að segja að það hafi ríkt óvissuástand, næstum hættustig fyrir framan Classic-hárstofu í dag, svo margir spenntir að sjá nýju klippinguna. Ég fór út bakdyramegin dulbúin eins og löggan lagði til og svo brjálæðislega heppilega vildi til að gamall og góður fyrrum strætóbílstjóri sá aumur á mér og bauð mér far á jeppanum sínum. Hann þekkti mig þrátt fyrir hauspokann enda séð mig í gegnum árin í alls konar ástandi í strætó. Huggulega, óhuggulega og allt þar á milli. What happens í myrkrinu in Hvalfjarðargöng stays there ...
Hann er sestur í helgan stein og sagði mér í óspurðum fréttum að hann hefði fjárfest í framtíðinni. Æði, hugsaði ég, í Apple eða Samherja? en svo var nú ekki. Hann fór í magaermi eða hjáveituaðgerð fyrir mánuði og hefur þegar lést um 16 kíló. Það er samt ekkert miðað við vin hans sem missti 100 kíló ... sem eru 200 smjörlíkisstykki eftir svipaða aðgerð - en ég gleymdi að spyrja á hvað löngum tíma. Þetta lengir án efa lífið.
Mynd I: Mynd, eða það gerðist ekki, lofaði ég nýlega. Hér má sjá lætin á Þjóðbraut upp úr kl. 16 í dag.
Hann var svo sætur að skutla mér til Gísla rakara þar sem drengurinn var í klippingu. Ég sagði honum að síðast þegar mér hefði verið boðið far þegar ég var á hraðferð, hefði það verið af elsku Tomma, líka fyrrum bílstjóra. Ég klökknaði hreinlega við að minnast á hann, Tommi fór allt of snemma, hans er sárt saknað, við vorum sammála um það.
Elsku hárgreiðslukonan mín notaði sumarfríið sitt í covid-veikindi. Hún sagðist meðal annars vera mjög gleymin eftir veikindin sem sannaðist heldur betur þegar hún ætlaði að rukka mig og ég sagðist vera búin að borga. Maður getur greinilega stórgrætt á þessum covid-gleymskupúkum. (En auðvitað borgaði ég.)
Kona sem var í klippingu um leið og ég talaði líka um covidið sem hún fékk, líka í sumar, og að hún sé ekki enn farin að fá sér kaffi sér til gleði og hressingar á morgnana, bragðskynið hafi raskast og hana langi ekkert í kaffi. Hljómar ekki vel.
Við stráksi fórum svo í bókabúðina á leiðinni heim. Hann er vitlaus í litlu bækurnar eftir Ævar vísindamann, greinilega alinn upp af brjáluðum bókaormi. Ég keypti mér bók eftir gamlan kunningja, Einar Örn Gunnarsson, Ég var nóttin, heitir hún og kápumyndin af manneskju spila á píanó.
Það var svo eins og við manninn mælt; um leið og við stráksi vorum búin að borða ER-hamborgarann og ofnsteiktu kartöflurnar, hringdi bjallan. Þetta var Pósturinn að koma með sendingu; bókina Ég var nóttin, áritaða af Einari sjálfum. Ekki átti ég nú von á því en varð voða glöð. Einhver heppin/n fær hitt eintakið af bók hans í afmælis- eða jólagjöf. Mikið hlakka ég til að lesa hana, hef alltaf verið hrifin af bókum Einars. Læt ykkur vita hvort hún er algjör snilld eða einfaldlega bara stórkostleg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2022 | 20:22
Hraunverulegt samsæri prjónafólks
Næsta þáttaröð hafin. Gosið á Reykjanesskaga, II. hluti, Merardalir, 2 mánuðir eða 200 ár? Hraunveruleikasjónvarp, eins og það gerist best, eins og sumir orða það, eða hin árlega peysusýning, eins og ég kalla það. Svo virðist sem flestir jarðeðlisfræðingar eigi maka sem bæði hannar og prjónar flottar peysur sem hannyrðafólk á Facebook heldur ekki vatni yfir og vill fá uppskriftina. Fylgikvilli eldgosa, hnussar öfundsjúki heklarinn í Himnaríki sem kann bara að hekla sjöl, trefla og gardínur og dauðlangar í flotta lopapeysu fyrir veturinn. Jú, jú, með jarðeðlisfræðingamynstri, alveg eins. Sennilega eru veðurfræðingar frekar illa giftir því þeir eru yfirleitt ekki í útprjónuðum peysum.
Ég er með eins konar móðurauga fyrir útsýninu mínu yfir hafið og milli klukkan eitt og tvö í dag varð mér litið út um gluggann og fannst eitthvað skrítið í gangi fyrir ofan staðinn þar sem gaus í fyrra, ögn til vinstri þó, nær Keili. Þá var bara að opna gluggann með mbl-vefmyndavélinni og sjá, komið þetta fína gos. Sem vonandi þýðir að jörð hætti alfarið að skjálfa. Missti af þeim síðasta (4,2) sem kom kl. 12 á hádegi í dag, akkúrat þegar ég stóð við kaffivélina og mátti fara að nærast, eða eitthvað að atast. Mæli með þessari aðferð fyrir jarðskjálftahrædda, eða að vera á hreyfingu þegar stórir skjálftar ríða yfir ...
Eitt er mjög, mjög skrítið, eiginlega ógnvekjandi þótt ég eigi að heita öllu vön. Þegar Hilda systir var í sumarbústað með tveimur vinkonum sínum, ónefndum systrum sem voru með okkur í Austurbæjarskóla, fór að gjósa á Reykjanesskaga eftir 800 ára hlé. Sá atburður átti sér stað á síðasta ári, eins og einhverjir muna.
Í dag hófst annað eldgos þegar þessar þrjár konur eru staddar úti á Tenerife, SAMAN á nýjan leik, rétt rúmu ÁRI SEINNA og ... nákvæmlega níu dögum fyrir afmælið mitt. Þessi tilviljun, ef tilviljun skyldi kalla, vekur mér óhug. Ég reyndi að segja sjálfri mér að gosið væri mögulega falsfrétt, runnin undan rifjum Þórólfs sem ætlar að bólusetja okkur með fjórða skammtinum í haust án þess að við verðum vör við það. Ekki viss samt um að ég hafi trúað mér. Mér finnst þó trúlegt að falsgosið tengist prjónakonum á einhvern hátt. Follow the money, á kannski vel við í þessu samhengi?!?
MYND: SAMSKOT Á TENERIFE: Heimildarkona mín ytra náði mynd af systur minni þar sem hún var að safna fé til að komast fyrr heim til Íslands og þannig koma í veg fyrir að fari að gjósa í Kötlu, Heklu og Bárðarbungu. Hún bar sig vel að öðru leyti og var komin í mikið jólaskap.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.8.2022 | 14:35
Blekkingar á Bastilludegi ...
Eins og margir vita flutti viss frændi minn (Halldór fjandi) til Frakklands fyrir nokkrum árum. Rúmlega níræð móðir hans kom sér upp því sem henni fannst vera hæfilegar áhyggjur af syni sínum. Þær jukust svo til muna eftir að Pútín réðst inn í Úkraínu. Á Bastilludaginn, 14. júlí síðastliðinn, var að vanda mikið um flugelda og læti í Frakklandi sem varð til þess að fjandi fékk eina af sínum ömurlegu hugmyndum um að hrekkja (flýta fyrir arfi kannski?). Hann slökkti ljósin, hringdi myndsímtal í móður sína mitt í öllum látunum, talaði lágt, nánast hvíslaði og lést vera lafhræddur því nú hefði Pútín ráðist á Frakkland. Sprengjuhávaðinn í bakgrunni gerði auðvitað ekkert nema staðfesta orð hans.
Mynd: Þegar ég sagði ykkur að eyða Högurði meinti ég ekki af Facebook!!!
Fjandi hefur hrekkt mig mikið, pínt og kvalið í gegnum tíðina. Oft í gegnum Facebook ... sem hataði húmorinn hans, munið, og notaði tækifærið þegar hann óskaði landsþekktum matargúrú gleðilegra jóla og kallaði hana heillina sem er dauðasök samkvæmt Zuckerberg. Hann hafði áður fengið viðvörun eftir að hann gerði grín að nýnasistum, illilega misskilið af fb-gervigreindinni, og þegar fjandi sýndi sitt rétta eðli og skrifaði HEIL-lin í jólakveðjuna, þurfti ekki frekar vitnanna við. Hann er á Twitter (hogurdur) og ég íhuga alvarlega nú eftir starfslokin að bæta tístinu við annað sem ég er með; Facebook, Bloggið, OnlyFans, Snapchat og Instagram. Kannski hef ég tíma fyrir Pinterest líka og kemst þá loksins í samband við Strætó bs. Tapað-fundið hjá Strætó á Pinterest og tilkynningar um vegaframkvæmdir einmitt á Twitter. Fjölmörgum flugum kálað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.8.2022 | 15:28
Vísvitandi blekkingar í sjónvarpi
Fyrr á þessu ári lagði maður nokkur spurningu fyrir lesendur Reddit-síðunnar og vildi vita hvort einhver þarna úti hefði tekið þátt í raunveruleikaþætti á borð við Supernanny eða Wife Swap og þá hversu mikið hefði verið í alvöru og hvað verið sett á svið, hafði þetta einhver áhrif á líf fólksins? Svörin létu ekki á sér standa:
Kunningi minn var í þættinum Property Brothers (tvíburarnir á Stöð 2 stundum - sjá mynd, og já, ég þekki þá í sundur).
Samkvæmt honum sáust bræðurnir aðeins þegar kvikmyndavélarnar voru í gangi. Öllum húsgögnunum var fleygt út og í staðinn komu önnur, vissulega falleg húsgögn en óhentug og ekki í góðum gæðum. Fjölskyldan þurfti að endurnýja margt eftir árið og fékk ekkert af gömlu húsgögnunum til baka.
Ég var barn að aldri þegar fjölskylda mín tók þátt í Wife Swap.* Við áttum að skipta við sveitafjölskyldu og láta sem við værum ekta borgarfjölskylda þótt við byggjum í úthverfi. Fjölmargt var tekið algjörlega úr samhengi og mikið drama búið til úr engu. Mér var gefið að sök að vera leikjasjúkur svo ég missti Xbox og Gameboy þessa viku. Nokkrum dögum eftir að myndatakan hófst kom starfsmaður þáttarins til mín og rétti mér Game Boy sem hann sagðist hafa fundið. Það hefði svo sem ekki átt að koma mér á óvart að konan sem kom í stað móður minnar stóð mig að verki við að spila.
* Wife Swap. Eiginkonur skipta um heimili í viku, þessir þættir voru sýndir hér, á Stöð 2, minnir mig.
Ættingjar mínir tóku þátt í Nanny 911. Þau Þau eiga tíu börn og sannarlega hægt að stjórna ýmsu og breyta. Þegar þátturinn var svo sýndur sáum við hversu miklu er hægt að breyta og þar með blekkja áhorfandann. Frændi minn var gerður að ömurlegum föður og honum bárust verulega andstyggilegar hótanir frá ókunnugu fólki sem trúði bullinu.
Ég þekki konu sem tók þátt í Wife Swap. Það kom ekki fram í þáttunum en maðurinn hennar hélt fram hjá henni með hinni konunni og úr varð erfiður skilnaður.
Ég get aldeilis bætt við þetta þar sem ég tók sjálf þátt í íslenska raunveruleikaþættinum Heilsubælið í Gervahverfi fyrir allmörgum árum. Ég get fullyrt að allt var sett á svið, allavega langflest.
Ég var dubbuð upp sem sjúklingur (blár sloppur) á kvöldvöku án þess að vera veik og þetta var drepleiðinleg og mjög endaslepp kvöldvaka, aðeins það besta úr henni sýnt í sjónvarpinu. Ég var gestur í brúðkaupi sem var sennilega ekki alvörubrúðkaup og við máttum ekki einu sinni hlæja sem var mjög erfitt þegar tengdapabbinn hélt ræðu og líkti brúðgumanum við ryksugu.
Þetta var ekki gott heilsuhæli, þori að segja það núna, og það er ekki lengur starfrækt, sem betur fer. Það hafði þau hroðalegu áhrif á mitt líf að ég er brjáluð í hvítlauk sem hefur haft ömurlegar afleiðingar á félagslíf mitt, ekki síst hraðstefnumótin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2022 | 22:25
Lestrar- og jarðskjálftahelgin mikla
Þér ætlið þó ekki, kæra fósturmóðir, að láta mig þurfa að neyðast til að njóta matseldar yðar í kvöld, sagði drengurinn kurteislega skömmu eftir hádegi í dag, rétt áður en hann fór í sund. Ég get verið móðgunargjörn en af því að hann sagði njóta, tók ég þessu vel. Svo bætti hann við: Eigum við máske að fá okkur þverskorna ýsu og volgan hræring í eftirmat, stórkostlega matmóðir mín? Mig hefur ætíð langað til að bragða slíkan afbragðsmat sem ég hef bara heyrt af, fóstra mín góð.
Mynd: Beðið eftir gosi.
Ég pantaði borð á Galito klukkan sex sem varð næstum því til þess að við misstum af stóra skjálftanum (5,5). Drengurinn var kyrr og fann hann, ég var á hreyfingu, að undirbúa brottför mína af heimilinu, heyrði brak og þyt og sá svo bara gimsteinana á lampanum í glugganum dingla ansi hreint kröftuglega og hugsaði hlýlega til Grindvíkinga.
Þetta átti ekki endilega að verða brjáluð lestrarhelgi, líka smávegis vinna, en mér tókst nú samt að komast yfir tvær skrambi fínar bækur á kostnað þess að baka súkkulaðiköku. Undir yfirborðinu var ansi grípandi og spennandi, vildi helst ekki að henni hefði verið líkt við vissa bók, það var hálfgerð Höskuldarviðvörun í því. Ekta sálfræðitryllir þar sem enginn var sá sem hann sýndist og ástæða fyrir öllu ...
Ég hef átt í hálfgerðu ástar- og haturssambandi við bækur Sophie Kinsella eftir að hafa lesið kaupalka-bækurnar því mér fannst hún gera lítið úr konum þar (átti að vera fyndið en mér var ekki skemmt) og ég átti ofboðslega erfitt með að samsama mig með söguhetjunni sem fór út í búð til að kaupa trefil en kom heim með þrjá af því að þriðji var ókeypis - þannig sparaði hún!?! Mér fannst eins og hún hefði fengið innblásturinn úr reykmettuðum bakherbergum karlaklúbbanna þar sem stóra samsærið var búið til, að innræta því í konur að þeim þætti svo gaman að fara í búðir, bara svo karlarnir slyppu. Ótrúlega margar konur féllu fyrir þessu en sífellt fleiri hafa þorað síðustu árin að opinbera að þeim leiddist að kaupa inn. Nýrri bækur Sophie eru betri, finnst mér, samt skín alltaf í það hjá henni að konur á framabraut verði ekki jafnhamingjusamar og hinar - það sé t.d. miklu betra að elda mat og þrífa klósett en vera sístressaður meðeigandi á lögfræðistofu. Mér fannst nýjasta bókin, Engin heimilisgyðja, samt skemmtileg. Þetta er bara nöldur í manneskju sem las alltaf margar bækur með boðskap og innrætingu þegar hún var krakki.
Dæmi: Pollýanna (læra að gleðjast yfir hækjum í jólagjöf), Leyndarmál Winters gamla (gamall geðillskupúki endurheimti fjölskyldu sína og lífshamingju í gegnum trúuð börn sem frelsuðu hann), Blómakarfan (kona skyldi alltaf merkja körfur sem hún fléttar svo hægt sé að finna hana löngu síðar og biðjast fyrirgefningar á að hafa þjófkennt hana blásaklausa og rekið út á gaddinn með litlu dótturina). Man mest eftir Pollýönnu, hinar hef ég ekki lesið síðan ég var lítil.
Ég hef aldrei skilið almennilega fyrr en kl. 18 og svo aftur kl. 19 í kvöld hvað það er að vera létt á fæti. Hélt alltaf að þetta væri orðatiltæki hjá lötu fólki sem segði við yngra eða grennra fólk: Æ, þú ert svo létt á fæti, ertu til í að sækja vatnsglas fyrir mig / rétta mér fjarstýringuna. En þegar við stráksi gengum heim eftir fínasta mat hjá Galito í kvöld fannst mér ég nánast svífa (báðar leiðir) og tengi það hiklaust við minnkandi covid-keppinn. Eina sem ég geri samt er að borða á milli kl. 12 og 20 ... og bara eins og venjulega, hvorki meira né minna, nema sykur í lágmarki. Samt seinlegur fjandi fyrst ég hreyfi mig ekki meira, ég hefði kosið að vera alveg laus við keppinn fyrir afmælið, 12. ágúst, en ég var svo sem ekki búin að ákveða árið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2022 | 14:37
Rússíbanareið eftir meint starfslok
Hann var aldeilis annasamur dagurinn í gær eftir að ég hafði stimplað mig út í síðasta sinn hjá Birtíngi. Síminn stoppaði ekki og óskýr skrif mín ollu því að margt fólk hélt að ég væri talsvert aldraðri en ég er og því komin á eftirlaun. Kommon, fólk. Jafnaldra Madonnu, nánast upp á dag og allir vita aldur hennar. Ég þarf víst að þræla og púla í nokkur ár til viðbótar. En það voru auðvitað gríðarleg vatnaskil í lífinu að vera ekki síamstvíburi elsku Vikunnar lengur og geta héðan í frá djammað að vild eftir hádegi í stað þess að vera föst til fjögur. Það eru næg verkefni fram undan, veit varla hvar ég á að byrja.
Mynd: Innan hrings = ég í gær þrátt fyrir allt.
Strax kl. 16.02 hófst rússíbanareiðin þegar hringt var frá S.U.K.K. (Sólarlagsheimili unglegra krassandi kósíöldunga) og ég skömmuð fyrir að hafa ekki enn sótt um, kona komin á þennan aldur, það væri 20 ára biðtími. Mér skildist að í hátölurum þar hljómaði til skiptis þungarokk og rapp og í eldhúsinu væri hræringur og þverskorin ýsa á bannlista. Hvar kaupir maður sér fölsuð skilríki?
Eternal Spirit-stofnunin í Sviss hringdi með spennandi tilboð, Hjálpartækjabankinn minnti á sig og ég átti gott spjall við Lush þótt erindið væri ögn móðgandi og bæri nokkurn keim af því að nú væri öllu lokið hjá mér í karlamálum. Sem er ekki rétt og ég skal sanna það á fimmtudaginn þegar ég verð búin í litun og klippingu. Ljósmyndir, eða það gerðist ekki!
Hugurinn reikaði óhjákvæmilega til ágústmánaðar 1996 þegar Séð og heyrt skrifaði um afmælið mitt, FERTUG OG FABJÚLUS (ég var útvarpsstjarna þá) árið sem ég varð 38 ára. Það var ótrúlegur skellur og fjórði (eða fimmti) eiginmaður minn skildi við mig út af þessu, samband okkar var byggt á lygi, sagði hann og hnuss, auðvelt að falsa nafnskírteini. Hann var kallaður drama.
Hugurinn reikaði líka til 16. júní 2022 þegar 14 ára strætóbílstjórinn á leið 57 gaf mér afslátt á fargjaldi, half price for 67 and older, og hló bara þegar ég skrækti brjáluð: I am just 63! Alla þá sorgarsögu má lesa í bloggi nálægt þeim örlagadegi þegar minnstu munaði að ég endaði á Hólmsheiði ...
Veðrið hér við Langasandinn er afar gott, svo gott að ég dró fínu rúllugardínuna niður og setti viftuna í gang, sit við tölvuna í stuttermabol og ætla að skella mér í yfirlestur á frábærri bók á meðan drengurinn fer í sund. Leti og ómennsku leyfi ég mér að bíða með þar til síðar. En miðað við skjálftann sem reið yfir rétt áðan verður sennilega stutt í að ég dragi aftur frá, og íbúðin mín hækki í verði vegna útsýnis yfir gosstöðvar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2022 | 16:00
Kveðjustund og ... ekkert gullúr
Einarsbúðarpöntun Himnaríkis var nokkuð myndarleg í dag og miðaðist við innihátíðina fram undan. Mig langar að baka súkkulaðiköku og vígja líka samlokugrillið en er nokkuð hugmyndasnauð þegar kemur að samlokum, brauð er afar sjaldan etið hér. Keypti nú samt tómata, lauk og ost sem getur varla klikkað. Man alla vega eftir ostabrauði úr æsku minni með þeim hráefnum.
Nýja bókin hennar Auðar Haralds hefur beðið nokkuð lengi á náttborðinu - mest vegna anna hér á bæ og svo leyndist kannski löngun til að treina sér hana en í gærkvöldi þegar ég var komin upp í rúm var hún opnuð eftir að búið var að kíkja á líf Snapchat- og Istagram-vinanna sem eru svo skemmtilegir. Hvað er drottinn að drolla? heitir bókin og segir frá tímaflakki skrifstofukonu sem hverfur til tíma svartadauða. Fannst þetta ekki endilega ofboðslega girnileg lýsing ... en Hvunndagshetjan, Læknamafían, Baneitrað samband á Njálsgötunni og svo auðvitað Ung, há, feig og ljóshærð þar sem setninguna ógleymanlegu var að finna: ... og pilsið (vondu hertogaynjunnar) var sneitt niður og gefið fátækum sem ábreiður. (Ábyggilega ekki orðrétt).
Bókin var SVO skemmtileg og spennandi að ég tímdi ekki að fara að sofa fyrr en hún var búin sem hefði án þess tryggt algjöran ferskleika við vakn í morgun. Ég hefði sennilega lagt á mig vöku í alla nótt ef bókin hefði verið lengri. Hún endaði líka svo dásamlega sem mér finnst alltaf mikill kostur. Ég horfi til dæmis ekki á sannsögulegar myndir af því að þær enda margar illa. Titanic? Jamm.
Það er vissulega ekki gott að sitja draugsyfjuð og fúl við vinnu sína daginn eftir hámlestur fram á nótt, og mega ekki fá kaffi (út af mjólkinni) fyrr en kl. 12 á hádegi. Sem gerir ótrúlega girnilegt að sofa ætíð til hádegis - sem ég gæti svo sem alveg hugsað mér en innræting umhverfisins, barnabóka með boðskap, málshátta og stöðugs áróðurs síðustu áratugi leyfir mér það samt ekki. En rúmir tveir kaffilausir klukkutímar á morgnana eru í fína lagi, kenna mér bara sjálfstjórn í gegnum þjáningar. Vara ykkur samt við því að hafa samband við mig símleiðis eða í eigin persónu ... bara til öryggis því ég er almennt ekki geðill á morgnana.
Myndirnar sem prýða þetta blogg sýna stemninguna sem ríkti í lok júlí 2021 þegar litið var í suðurátt frá Himnaríki. Ef ég hefði selt íbúðina á þessum tíma hefði ég rukkað aukalega um fimm milljónir fyrir að sjá eldgos út um gluggana. Eða milljón dollara - því þetta er ekkert annað en milljón dollara útsýni ... eins og Kaninn orðar það. Í smáa letrinu hefði ég svo gætt þess að hafa klausu um að ég beri þó ekki ábyrgð á því að gosið haldi áfram. Efri myndin er tekin í svefn- og vinnuherberginu mínu og sú neðri frá minni glugganum í stofunni ... sem gæti verið þriðja svefnherbergið ef ég hefði ekki látið rífa vegginn á milli þess og stofunnar.
Í dag er svo síðasti vinnudagur minn hjá Birtíngi sem hét Fróði þegar ég hóf störf þar árið 2000. Ég hef kynnst fjölda dásamlegs fólks sem hefur unnið með mér eða ég kynnst með því að taka viðtal við það. Árum saman sá ég um lífsreynslusögurnar og þær voru sannarlega ekki fengnar á vinnutíma, heldur mjög oft í strætó á leiðinni heim á Akranes. Ein frábær strætóvinkona mín átti margar góðar sögur sem hún leyfði að birta. Hún prófaði eitt sinn Einkamal.is og fór á nokkur stefnumót - það eftirminnilegasta var við mann sem bauð henni í bíltúr eitt kvöldið, sótti hana heim og ók af stað - og talaði næstu tvo eða þrjá tímana um Jesú. Stoppaði ekki einu sinni í ísbúð eða sjoppulúgu til að kaupa eitthvað að drekka, honum lá svo mikið á hjarta og hún komst aldrei að. Henni fannst heldur dramatískt að fleygja sér út úr bílnum á ferð en íhugaði það samt. Þegar hann loks skilaði henni heim sagði hann glaðlega: Þetta var gaman, eigum við ekki að hittast aftur? Hún horfði á hann og hristi höfuðið: Nei, bara alls ekki. Svo fann hún manninn sinn skömmu seinna - hann leyndist í blokkinni þar sem hún bjó, í íbúðinni við hliðina.
Það er auðvitað skrítið að fá hvorki kveðjuhóf né gullúr - en þetta voru svo sem bara 22 ár. Maður úti í Eyjum fékk nýlega sitt hóf eftir að hafa unnið á sama stað í 52 ár! Sem fær mig til að hugsa líf mitt svolítið upp á nýtt og fyllast eftirsjá. Af hverju var ég bara í sex mánuði þar árið 1973? Ég hefði náð hálfri öld hjá Ísfélaginu í febrúar á næsta ári og fengið mitt kveðjupartí! Sama má segja um Shady Owens, Guðmund Andra Thorsson og Króa, líka Bubba Morthens (Vinnslustöðinni samt).
Í næstu viku verð ég sem sagt ekki pikkföst við tölvuna frá kl. þetta til þetta. Ég mun sitja þar þegar mér þóknast og vinna önnur verkefni óbundin af föstum tíma. Ég frestaði einmitt því að fara í klipp og lit fram í næstu viku til að vera ekki stressuð að vera búin áður en ég átti að byrja að vinna, get þess vegna hangsað í Dótarí, Dominos, Bónus, apótekinu og ljósastofunni ef mér sýnist. Það eru í raun bara lætin og umferðarflækjurnar sem fylgja alltaf útlitsbreytingum mínum sem ég þarf að búa mig undir. Löggan hefur margsinnis stungið upp á því að ég verði með hauspoka til að minnka gláp og flaut en ég er enn að hugsa málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.7.2022 | 16:36
Ein með engu í Himnaríki
Drengurinn kom heim í gær eftir velheppnaða sumarbústaðarferð með góðu fólki. Nei, mér var ekki boðið með, enda að mestu búin með sumarfríið mitt. Stráksi reif upp ísskápshurðina og hrópaði örvæntingarfullur: Hva, ekkert Eldum rétt? Ég móðgaðist smávegis og hóf langa og leiðinlega sögu um skelfilegar afleiðingar þess að skipta um netfang svo ekki hafi verið hægt að komast inn á ER-síðuna í gegnum Facebook og vesen að-. Þannig að við borðum bara úti þangað til í næstu viku þegar Eldum rétt kemur næst? spurði hann yfirmáta bjartsýnn. Ég hnussaði hátt og sagði að hann fengi notið matreiðsluhæfileika minna, ég ætti ekki peningatré, ég reyndi líka að segja honum frá brauðmolakenningunni, impraði á því hvernig ætti að kljúfa atóm hratt en vel, ná stjórn á sjávarföllunum með herðatré og að kannski myndum við kíkja einu sinni í mat þarna úti. Bærinn tómur af fólki en við myndum sko skemmta okkur vel á hátíðinni Ein með engu, í Himnaríki.
Loftið var svo ferskt og gott í gærkvöldi að ég tímdi ekki að loka glugganum á herberginu mínu þrátt fyrir hamfaraspár, sofnaði við krúttlegt vindgnauð og vaknaði fyrir tilviljun 5 tímum seinna til að loka honum og þurrka smábleytu úr gluggakistunni. Þess virði. Ég finn fyrir samúð frá fólkinu mínu í útlöndum sem veit ekki að ég hef enn meiri samúð með því vegna hitans - 30 plús sem er skelfilegt. Ég er vissulega í flíspeysu heima við vinnuna og svaf í náttfötum með teppi yfir sænginni í nótt en þetta er kosturinn við Ísland, hægt að klæða af sér svalheitin. Fólkið ytra er fáklætt og myndi kveljast og svitna helling þótt það væri allsnakið. Við ættum að markaðssetja Ísland sem svalt land fyrir þau sem eru orðin þreytt á hita og svita í heimalandinu.
Glæpasögur rafvirkjans eru farnar að rykfalla í kassanum og ég kemst ekki í hádegisbaðið (drengurinn farinn í vinnuna þá og kettirnir steinsofandi, besti tíminn). Það skal aldrei verða hægt að kalla mig H.H., húsmóðurina sem bíður fáklædd eftir sendlum, löggum, iðnaðarmönnum, vottum Jehóva, fornleifafræðingum og öðrum sem eiga erindi. Siðprýðin getur samt verið dýrkeypt - það er ekki gott að sofna með blautt hár. Ég er vissulega mjög hvekkt eftir að pípararnir komu að mér í sturtu fyrir nokkrum vikum og drengurinn lét þá, þessa mínútu sem það tók mig að klæða mig, bíða frammi á stigagangi á meðan. Hann veit núna að hann hefði átt að bjóða þeim inn, gefa þeim kaffi royale.
Lögin við vinnuna í dag, næstsíðasta daginn minn, voru ekki af verri endanum, skemmtilegur og flottur þáttur á Stöð 2 um Bubba Morthens, einn okkar allra besta og fjölhæfasta tónlistarmann. Bubbi kom nokkrum sinnum í viðtal til mín á Aðalstöðina undir aldamót (um box og tónlist) og var alltaf kátur, líka þegar hann kom á bolludegi og fékk sér eina rjómabollu og eyðilagði þar með líkamsræktaræfingu dagsins, veinaði hann, sem er auðvitað bull því hann breyttist ekkert við bolluna. Hitti hann líka úti í Eyjum 1974 þegar ævintýrið var við það að hefjast. Það eina sem aðskildi okkur Bubba var að ég vann í Ísfélaginu og hann hjá Vinnslustöðinni. Frægasta fólkið okkar í Ísfélaginu var: Shady Owens, Guðmundur Andri Thorsson og Kristinn R. Ólafsson, lengi fréttaritari á Spáni, kallaður Krói.
Ég sendi hirðrafvirkjanum SMS áðan og spurði hvort ég fengi ekki örugglega viðvörun áður en hann kæmi. Svarið var JEBBS. Ég óttast samt mest að ég fari að tína upp úr kassanum bækur sem ég átta mig á að ég geti ekki verið án. Og grisjunargrimmdin sem ég hafði markvisst æst upp í mér fer algjörlega forgörðum. Nú verð ég bara í spennu þangað til hann kemur - en búin í sturtu.
Bloggar | Breytt 29.7.2022 kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2022 | 14:40
Tengsl mín við breska kóngafólkið
Brúðkaupsafmælið mitt, vissulega eitt af mörgum á almanaksárinu en það eina sem ég man yfirleitt eftir, er runnið upp og vegna hækkandi aldurs verður sífellt erfiðara að muna hverjum eiginmanna minna ég giftist þennan dag fyrir einhverjum árum. Sennilega einum af þeim allra fyrstu þar sem ég var talsvert kornung á þessum tíma.
Þegar pappírsbrúðkaup okkar hjóna rann upp ári síðar bjóst ég við að mér yrði færð eins og ein almennileg bók og demantseyrnalokkar með blómvendinum og hnetulausa konfektinu en rak þess í stað upp stór augu. Nei, þessi maður (ekki spyrja mig um nafn, ég rugla þeim öllum saman) mætti óvænt með þungt og stórt, alla vega 20 tomma litsjónvarpstæki í fanginu, handa okkur ... til að fylgjast með í beinni útsendingu brúðkaupi Karls og Díönu nokkrum dögum síðar. Þann 29. minnir mig.
Það konunglega hjónaband hélt ekki, frekar en mitt og þegar ég fékk ókunnugan karlmann á rúmstokkinn eina nóttina tíu árum síðar (eins og hún Elísabet Englandsdrottning nokkrum árum áður) varð ég endanlega fullviss um að líf mitt væri á einhvern hátt samofið lífi breska kóngafólksins. Ég bjó meira að segja í London allt árið 1976 sem var ekkert annað en undirbúningur fyrir þetta og keyrði ábyggilega nokkrum sinnum fram hjá Buckingham-höll. Í mínu tilfelli var þetta reyndar indæll eldri maður, ábyggilega um fertugt, eins og Fagan hennar Betu, sem hafði farið útidyravillt þarna í gömlu Verkó á Hringbraut, læsingin niðri biluð og ég hafði gleymt að setja í lás uppi. Hann var góðglaður, rabbaði ögn við mig og klappaði Fjólu kisu sem lá til fóta á meðan ég þakkaði í hljóði fyrir víggirta náttkjólinn minn sem ég hefði getað notað sem vopn hefði maðurinn gerst nærgöngull. Herptur með stáli upp í háls og renndur með rennilás fast við skírlífsbeltið sem bjargaði mér til dæmis alltaf á djamminu þegar ég fékk mér freyðivín ... eftir uppákomuna frægu (sjá Tígulgosann 49. tbl. 1987).
EFTIRMÁL:
Ísland: Gert við lásinn niðri, sett í lás uppi mun oftar en áður. Nágranni, eldri maður um fertugt, hvarf í mánuð og hefur ekki drukkið síðan. Sendi frá sér bókina Slapp með skrekkinn nokkrum árum síðar.
England: Gjörvallur lífvörður drottningar rekinn, líka sá sem heima svaf. Maðurinn (Fagan) fékk viðeigandi hjálp og var eftir það ráðinn sem leiðbeinandi hjá öryggisdeild MI5 og myndirnar Mission Impossible I-XVII eru byggðar lauslega á ævi hans og afrekum. En ... sex árum eftir að Michael Fagan braust inn í höllina, settist á rúmstokk drottningar og spjallaði við hana í tíu mínútur fæddist Beatrice, dóttir Andrésar prins og Söru Ferguson. Fagan þessi fékk hana í fertugsafmælisgjöf þann 8. ágúst 1988 sem getur ekki verið tilviljun. Hefur virkilega enginn áttað sig á þessu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.7.): 21
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 173
- Frá upphafi: 1529795
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 154
- Gestir í dag: 17
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni