Færsluflokkur: Bloggar

Drottningin öll

ElísabetSíðustu klukkutímana hefur Sky News mallað í Himnaríki, fyrst til að bíða fregna af heilsu drottningar og svo til að sjá hvernig hennar hefur verið minnst - alveg eins og ágústnótt eina árið 1997 þegar Díana prinsessa lést eftir bílslysið. Alveg sama hvað mér finnst almennt um konungdæmi hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir Elísabetu drottningu sem varð drottning 25 ára gömul og til dauðadags. Ég skrifaði einhvern tíma grein um hana fyrir Vikuna og gat ekki annað en fyllst aðdáun á henni þegar ég las mér til um hana á meðan greinin var í vinnslu.

Þegar ég bjó í London árið 1976 datt mér einhvern veginn aldrei í hug að fara að skoða höllina, kannski var það ekki í boði þá en ég man mest eftir fréttum af landhelgisdeilunni og kurteisi Breta við þessa íslensku au pair-stúlku þrátt fyrir vafasamt þjóðernið. Breska konungsfjölskyldan var ekki sérlega mikið í fréttum og ég fann ekki fyrir mikilli dýrkun á henni en þá var Díana prinsessa svo sem ekki komin til sögunnar - þau voru samt virt og vinsæl. Breskur kunningi tjáði mér að það þætti mjög fínt að vinna í Buckingham-höll og eldhússtúlkur þar töluðu ekki við hvern sem væri ... konungsfjölskyldan þætti þó nokkuð alþýðleg en vissulega háð ströngum reglum og aldagömlum siðum. Elísabet þótti nánast of alþýðleg að mati háaðalsins fyrir að borða morgunverð sinn upp úr Tupperware-dollum, í stað þess að nota almennileg hnífapör og gulldiska ...

 

buckingham-palaceHöllin er gjörsamlega rosaleg ... í henni eru 775 herbergi. Nítján salir, 52 herbergi fyrir hefðardúllurnar og gesti þeirra, 188 starfsmannaherbergi og 78 baðherbergi. Um þúsund starfsmenn sjá um að elda, þvo, þrífa, kemba hesta, þrífa eftir hundana, strauja rúmföt, fægja silfur, reyta arfa og allt þar á milli. Margir fara í langa og stranga þjálfun fyrir starf og allir skrifa undir þagnareið.

Það þykir fyrst og fremst fínt að vinna í Buckinghamhöll og launin eru lág eftir því hjá flestum. Ég skrifaði ábyggilega um hryllingsjólagjafir sem starfsmenn fá, en það er jólabúðingur, fullur af hnetum, döðlum, möndlum og rúsínum löðrandi í víni. Vinnudagur getur verið mjög langur, frá morgni til næstum miðnættis en aðrir rólegri á milli. Það eru skýrar reglur um hvenær dags hvert verk er unnið og hversu langan tíma það tekur. Það fór klukkustund í að strauja rúmföt drottningar og um tuttugu mínútur að búa um rúm hennar dag hvern. Það eru notaðar reglustikur til að leggja á borð.

Þriggja ára þjálfun þarf til að verða hallarþjónn. Einn slíkur lét hafa eftir sér að þjálfunin hafi verið líklega það næsta sem hann komst því að vera í herþjálfun án þess að bera byssu. Hann lærði að bursta skó, strauja einkennisbúninga og margt fleira.

 

Nú er Karl orðinn konungur og spurning hvort hann velji sér að heita t.d. Georg eða Vilhjálmur (algeng nöfn á kóngum) eða verði bara Karl áfram. Hvort hann leyfi hvítlauk í höllinni eða hann verið áfram á bannlista.

Merkileg kona Elísabet og hennar verður sárt saknað af mörgum. Ég vonaði að hún yrði alla vega jafnlanglíf og móðir hennar var, rúmlega 100 ára, en að ná 96 ára aldri er ansi vel af sér vikið.


Fjör í samkvæmislífinu og góðar veðurfréttir

kaffihús nammVerulega skemmtileg Reykjavíkurferð eftir hádegi í dag til að hitta gamla vinkonu sem ég hef ekki séð í mörg ár. Hún er orðin borgarbúi síðan þá og ég landsbyggðargella, var öfugt áður. Ég hef reyndar alltaf verið snjöll við að velja mér vinkonur ... ein var erfðaprinsessa í gosdrykkjafyrirtæki, önnur í sælgætisverksmiðju, enn önnur átti frystihús - og þetta þýddi auðvitað allar hirslur mínar fullar af frystum fiski, konfekti og gosdrykkjum ... en þessi vinkona slær öll met; hún á heilt KAFFIhús, Bókasamlagið í Skipholti! Það stendur þar sem skemmtistaðurinn Röðull var eitt sinn en fólk eins og ég, 78-kynslóðin, var notað til að passa börn þeirra sem djömmuðu þar eða í Þórskaffi á næsta horni fyrir neðan. Einhvern tíma nær í tíma var þarna Ruby Tuesday-matsölustaður en núna sem sagt komið ótrúlega flott og gott kaffihús. Verð samt að viðurkenna ákveðna fordóma hjá mér sem ríktu FYRIR heimsóknina. Ég var að hugsa um að taka með mér fernu af kaffirjóma til að geta drukkið kaffið því haframjólk var ábyggilega einhver hroðalegur hryllingur, var ég viss um.

 

 

Hún sótti mig sem sagt í Mjódd og saman fórum við á Bókakaffihúsið hennar sem er vegan. Ég sýndi algjöra hetjulund og fékkst til að smakka vöfflur með súkkulaði (flórsykur, kakó, kaffi) og veganrjóma, smakkaði líka kleinu og nýbakað crossant með suðusúkkulaði (ekki nutella) og fannst þetta allt mjög gott. Kaffið algjör dásemd og sóttur var hafra-RJÓMI út í kaffið fyrir hefðarfrúna af Skaganum sem var himinsæl með þetta allt saman. Kaffið sjálft ekki amalegt, heldur frá Kaffibrugghúsinu sem eru verulega góð meðmæli. (Sama og á Rjúkanda á Snæfellsnesi sem varð til þess að mig langaði að flytja þangað). Við sátum í sófa á efri hæðinni og horfðum niður í kaffihúsið (sjá mynd af vinkonunni að koma upp stigann, skjáskot af Snapchat) en fyrir aftan okkur voru básar og þar sat fólk sem vildi meiri rólegheit, þarna var m.a. þýskur þýðandi við vinnu sína.

 

Elsku voffiVið lögðum svo af stað til baka rétt rúmlega fjögur frá Skipholtinu að Mjódd, ákváðum að keyra Lönguhlíð og svo Miklubraut í austur alla leið að Ártúni. Enn í Lönguhlíð kl. 16.24, brottför strætó kl. 16.29, og við engar stresskerlur svo það ríkti bara æðruleysið eitt. Svo á Miklubrautinni rétt hjá gamla Tónabæ kl. 16.35 ákvað elsku hjartans vinkonan að skutla mér alla leið á Skagann á fína rafmagnsbílnum sem er svo fullkominn og flottur að ég náði ekki að opna hann í Mjódd, enginn hurðarhúnn ... bara ósýnilegur takki til að ýta á - ég veit það núna. Við ókum sem leið lá alla leið að Himnaríki þar sem allt var kæfandi heitt innandyra, óþolandi þegar haustlægðirnar komast ekki rétta leið vegna skrambans hæðanna sem ríghalda sér yfir landinu. Síminn minn sýndi 10 stiga hita um eittleytið úti á stoppistöð en ég held að það hafi verið fölsun, samsæri veðurfræðinga til að ég flytji ekki til Grænlands eða Alaska (látum Gurrí halda að það sé kaldara-samsærið), ég er eiginlega handviss um að það hafi verið 13-14 stig raunverulega. Kettirnir eru líka lamaðir af hita og sækjast í að vera fyrir framan viftuna, helst ofan á lyklaborðinu svo ég noti nú hendurnar frekar í að klappa þeim. Ef það væri nú bara einhver vindur en það verða víst 9 m/sek á morgun sem er skárra en ekkert og rigning, sagði sæti veðurfræðingurinn áðan. (jesss)

 

Ekkert lát er á dásemdum þegar kemur að samkvæmislífi Himnaríkis. Í ágúst var lágstemmt en hávært og fámennt afmæli haldið, í dag hittingurinn á Röðli og nú á laugardaginn verður hér bröns ... þrjú fullorðin (með mér og drengnum, þar af ein lystarlítil) og tvö börn. Hvar finn ég góðar hugmyndir að flottu en litlu brönsboði? Vöfflur eða kannski frekar litlar ammrískar pönnsur? Á ég hlynsíróp? Rennur hlynsíróp út? Ætli sé erfitt að gera Egg Benedict? Er sniðugt að fara bara í bakaríið og kaupa rúnnstykki og álegg? Eða í sturluð flottheitin sem mig langar mest; fá sent bland á bakka (enn heitt) með þyrlu frá einhverjum fínum stað í bænum (Galito er ekki lengur með bröns) ... en eru ekki allar þyrlur í viðgerð og þrifum eftir eldgosið? Kallabakarí er líklega málið ... Ég á freyðivín inni í ísskáp síðan Oddfellow-konurnar heimsóttu mig í vor ... stráksi er undir aldri, eins og börnin sem koma og systir mín á bíl ... alveg spurning samt.

 

Neðri myndin var tekin á Selfossi um árið (fékk hana senda í dag) og minnti mig enn og aftur á þá furðulegu staðreynd að manneskja (ég) sem elskar hunda svona heitt hefur ekki átt hund síðan 1981. Búseta á þriðju hæð er sennilega innikattavænni. 

 

Facebook var að rifja upp minningar síðan 7. sept. 2014: 

Samtal í bíl.

Hann: Hvernig finnst þér þetta lag?

Ég: Allt í lagi.

Hann (2 sek síðar): En núna?

Ég: Bara fínt.

Hann: Gallinn við þig er að þú getur ekki skipt um skoðun.


Hannyrðahefnd og hrekkur

Svona einmittStundum á maður ekkert endilega að reyna að bæta heiminn með því að uppræta hannyrðaglæpi. Ég hef nánast rökstuddan grun um að ég hafi gert vissum hópi skráveifu með afskiptum mínum undanfarið. Ég hef í dag X-að þessar heklsíður - sem gefur mér mánaðarhvíld frá þeim (þær birtast hjá mér þótt ég sé ekki „vinur“) en sá eina færslu, um 12 tíma gamla, með aðeins örfáum lækum og hjörtum þrátt fyrir átakanlegan textann. Kannski áttaði fólk sig eftir að hafa séð 50-100 svona færslur á einni viku ...

 

 

Eldsnemma í morgun, kl. 9.23 nákvæmlega, hringdi gemsinn og dularfullt óíslenskt númer kom á skjáinn á símanum mínum sem lét mig vita að þetta væri frá greinilega víðsjárverða útlandinu Marokkó. Þangað hef ég aldrei komið og þekki engan þaðan en þykist vita nú að gæti tengst hekli. Ég reiknaði í hvelli þversummuna af númerinu og útkoman var 3 sem er meinlaus tala en tengist einhverju skapandi, skilst mér, og hvað er meira skapandi en að hekla og prjóna? Að sjálfsögðu svaraði ég ekki. Ég er ekki fáviti.

 

Svo um þrjúleytið þar sem ég sat við tölvuna og vann heyrði ég þrusk og sá útundan mér hreyfingu, leit upp og sá að einhver í úlpu og með hvíta grímu fyrir andlitinu stóð í dyragættinni og starði illúðlega á mig. Dagar mínir taldir, hugsaði ég eitt sekúndubrot og fann fyrir þakklæti ... að hafa þó náð að upplifa hljómsveitina Trúbrot, Harry Potter og Pixies áður en ég kannaðist við grímuna. Með taugarnar þandar en engan skjálfta í rödd, sagði ég við drenginn sem hafði fengið þessa arfaslæmu hugmynd akkúrat í dag: „Ertu að reyna að drepa mig?“ Stráksi flissaði en óttaðist samt greinilega að mér hefði ekki orðið nægilega bilt við - miðað við að ég öskraði ekkert og datt ekki úr skrifborðsstólnum. Vissulega gaf ég honum þessa grímu í jólagjöf eitt árið sem gæti hafa bjargað mér frá öskrum og falli. Auðvitað er ég líka þónokkuð lífsreynd. Ég kippi mér ekki upp við neitt núorðið - nema ef vera skyldi vont kaffi, þverskorin ýsa, hræringur, sund, dauðadrukkið fólk og fleira. En nú er ég að fara að búa til plokkfisk - frá Eldum rétt. Nammi-namm. Fiskbúðinni var nær að taka ekki betur í frábæra hugmynd mína um heimsendingar. 


Hekl-svindlarar, veggmálverk og skortur á kaffihúsum

Really„Hvað hefur þú eiginlega verið að gera upp á síðkastið, risastóra og eldgamla stórasystir?“ spurði litlasystir áhyggjufull í hádeginu. Ekkert heyrst í mér, hvorki í síma né bloggi í marga daga. Þegar átök standa yfir líður tíminn ansi hratt og þá getur verið erfitt að svara í símann.

„Ja, ég hef verið mjög önnum kafin á Facebook,“ svaraði ég ögn pirruð yfir trufluninni. „Þessir heklsvindlarar opinbera sig ekki sjálfir.“

Bíddu nú við! Viðgengst svindl í heklbransanum? Ég hélt að það væri bara kvótakerfið, eftirlaun og slíkt sem tengdist svindli á fólki.“

„Heklbransanum? Ef þú bara vissir,“ tautaði ég. „Sko, fólk birtir myndir af misfallegu hekli og skrifar átakanlegan texta með (á ensku), nánast alltaf sama textann (hráþýtt): Mér var sagt að heklið mitt væri ljótt og ég varð svo sár. Ég sem geri allt af svo mikilli ást! Mig langar að vita hvað grúppunni finnst um þetta gullfallega mynstur. Ég hef safnað saman nokkrum ólíkum myndum með sama textanum og smelli þeim inn á milli kærleiksfullra huggunarorða þeirra sem hafa fallið í gildruna.“

Og hvað, er það ekki allt í lagi?“ spurði Hilda.

„Finnst þér allt í lagi þótt verið sé að hafa læk og hjörtu af saklausu fólki, jafnvel koma því í uppnám að óþörfu?“

Já, ef fólk áttar sig ekki sjálft ættir þú ekki að eyða dýrmætum tíma þínum í að vera Facebook-lögga - eða er kannski svona lítið að gera hjá þér núna?“

„Nei, eiginlega ansi mikið að gera svo ég reyni að laga til á alheimsnetinu þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin.“

Dæs,“ sagði systir mín ekki alveg nógu skilningsrík ... hún getur nú virkilega þakkað fyrir að kunna ekki að hekla og vita ekki hversu mikið hjartans mál það getur verið að horfa upp á hekl-glæpi. Þessu er nú samt sennilega sjálfhætt hjá mér því að heklsvíðingarnir hafa nýlega (sl. nótt) tekið af þann möguleika að heiðarlegt fólk upp á Íslandi sem þolir ekki svindl, geti sett inn myndir sem sýna svívirðuna sem þúsundir hafa fallið fyrir á undanförnum vikum og sýnt samúð með fólki sem á það ekki skilið, fólki sem hefur stolið heklmyndum og sett texta sem á að fá allra hörðustu jaxla til að hágráta.

Segðu mér eitt. Fylgir hlekkur með, t.d. að ókeypis uppskrift?“ spurði hin klára og lífsreynda systir mín. 

„Já, reyndar,“ svaraði ég eftir að hafa kíkt.

Ekki ýta á hann,“ sagði hún og þá áttaði ég mig á því að fólkið á bak við þetta var ekki í leit að óverðskuldaðri ást, samúð og kærleika.

Svona er lífið í Himnaríki stundum æsispennandi.

 

Bjarni Þór og BaskiÉg vaknaði kl. 7.48 við hávært bling í símanum. Istagram að láta mig vita að einhver hefði sett inn sögu. Takk, Instagram. Vaknaði næst kl. 9.30 við að Keli mjálmaði og gekk á andlitinu á mér. Of þreytt til að fara fram úr og gefa honum mat, bað um smáfrest sem Keli samþykkti. Þegar klukkan hringdi kl. 12 til marks um að ég mætti fá mér fyrsta kaffibolla dagsins fannst mér þess virði að fara fram úr. Drengurinn gistir annars staðar um helgina svo ég hef nægan tíma til að VINNA ... Ég veit samt alveg að nú gæti síðasti sumardagurinn verið að líða í dag en ég hlakka meira til hríðarbylja, útsynningshryðja, ofsabrims og austanrosa ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var getin um hávetur, foreldrar mínir mjög sennilega í ullarsokkum, eða ég fékk sérstakt gen frá forfeðrum sem neituðu að vera veður-aumingjar en það er orðið frekar þunnt því það er gluggaveðrið sem ég dái og dýrka, engin löngun til að berjast í hrakningum uppi á heiði með Snata gamla og Sóta til að hlýja mér þegar ég gref okkur þrjú í fönn.

 

Akranes verður sífellt fallegri bær og nú er verið að mála myndir á hina ýmsu veggi og þvílík prýði sem verður að þessu. Efri myndin er eftir Bjarna Þór og sú neðri eftir Baska. Verk í vinnslu, hlakka til að sjá þau fullbúin. Tinna Royal gerði geggjaða mynd á hús á Breiðinni, hjá vitanum - og það eru fleiri verk sem ég þarf að skoða næst þegar ég kemst í bíltúr með einhverjum.

Nú vantar bara kaffihús hér á Skaga. Kaja - hollustuverslunin frábæra hefur virkað ansi vel sem kaffihúsið með búðinni en nú er vetrartíminn skollinn á þar og lokað allar helgar. Ég benti gamalli vinkonu úr Reykjavík á að fara þangað á dögunum og hún var hæstánægð með allt þar. Svo er hægt að setjast niður í Kallabakaríi og fá sér kaffi og meðlæti. Það þýðir ekki að benda ó-bílandi á golfskálann, hann er ekki í göngufæri nema fyrir þaulvant fjallgöngufólk, ofurhetjur og fuglinn fljúgandi, strætó gengur ekki um helgar, svo er hann kannski lokaður yfir veturinn. Við erum með fína matsölustaði hér á Akranesi en kaffihúsin hafa ekki gengið sem skyldi. Ekki einu sinni þau sem buðu upp á almennilegt kaffi ... eins og Vitakaffi og það sem var á Akratorgi áður en Frystihúsið kom.

 

Ég mæli svo um og legg á að einhver (sem drekkur kaffi) opni kaffihús á Akranesi á góðum stað, með geggjað kaffi (ekki trúa sumum kaffisölumönnum sem hafa farið eins og engisprettuplága um landið) og fínt meðlæti. Veit að Gunna vinkona myndi vilja marensbombur og er ekki ein um það - mér finnst kaffið mikilvægast.  


Bjargvætturinn í rútunni

BjargvætturinnLöngum hef ég hrósað strætóbílstjórum, sagt  með réttu að þeir séu upp til hópa með allra besta fólki sem fyrirfinnst. Ég bæti hér með rútubílstjórum í þann hóp eftir ævintýri helgarinnar.

 

Vér systur, ásamt unglingunum okkar, ákváðum á laugardaginn að leggja land undir fót, fara í skemmtiferð með endastöð í Reynisfjöru. Þangað kom ég fyrir nokkrum árum í fyrsta eða annað sinn - að vetri til. Mér hreinlega brá þegar ég sá fjöldann af bílum á bílastæðinu en okkur tókst þó að fá stæði nokkuð langt frá ströndinni á milli tveggja vígalegra bíla og alls ekki úti á enda.

 

Þeir Herkúles og Golíat, uppáhaldsfrændur mínir og -voffar, voru með í för og slógu gjörsamlega í gegn hvar sem við stoppuðum. Þeir réðust með mestum kærleika á ensk hjón í fjörunni og ég heyrði ekki betur en Golíat gelti: Hvar hafið þið verið allt mitt líf, dásamlegu hjón? Sennilega eru Englendingar besta fólkið, ef frá eru taldir strætó- og rútubílstjórar og Litháar, hundarnir hrifust einnig mjög af hópi frá Litháen, fólki búsettu hér á landi og við hittum hjá Dyrhólaey. Þau þekkja Daivu, vinkonu mína frá Litháen.

BílsbjörgunEftir um það bil klukkutímalangt fjörustopp eða lengra, var ég komin með vott af súrefniseitrun ofan í bakverkinn og fékk bíllyklana hjá Hildu, var með Storytel-lesbrettið svo ég gat lesið morðgátu tengda bakaríi í friði í heilar átta mínútur, eða þar til hópurinn kom. Hilda setti í gang og ætlaði að bakka en bíllinn var á öðru máli, virtist þrá að vera lengur svo hann sökkti sér niður í sandinn og hélt sér fast með framdekkjunum. Hilda vildi ekki spóla og sökkva enn dýpra svo við horfðum ráðþrota hvor á aðra. Kínverskur maður á bíl við hliðina, nýgiftur miðað við klæðnað hans og konu hans, sagðist því miður ekki hafa skóflu eða nokkuð til að hjálpa okkur en vildi meina að rútubílstjórar væru frekar snjallir, með ráð undir rifi hverju og við ættum að prófa að finna einn slíkan. Fyrsta rútan sem við komum að hafði skilti með framandi samsettum bókstöfum ... eitthvað sem virtist enn flóknara en hollenska og þá er nú mikið sagt. Ég spurði góðlegan bílstjórann og ferðafrömuðinn hvað tvær kerlingar með pikkfastan bíl gætu gert. Mér datt helst í hug að fá einhvern í Vík á dráttarbíl til að draga okkur upp úr holunni en þarna var ansi þröngt og endalaus umferð á stæðinu sem flækti allt. Hilda mundi ekki einu sinni (í sjokkinu) af hvaða Toyota-tegund bíll hennar væri sem manninum fannst greinilega svo sætt (eða fyndið) að hann þeyttist upp úr sæti sínu, kvaddi dýrmætan hvíldartímann meðan túristarnir hans gengu heillaðir í fjörunni, og hætti ekki fyrr en hann var búinn að losa Hildubíl. Það þurfti tjakk, hendur til að moka sandinum aftur ofan í dýpri holuna, aðra kínverska fjölskyldu (fjögurra manna) og tvo huggulega menn sem ýttu með Hildu og unglingunum okkar ... Ég stóð í þeim stórræðum að hvetja, „plís, ýt the car faster, faster ...“ Þetta eru einu skiptin sem ég græði á því að vera bakveik. Við systur þökkuðum Sigurði, rútubílstjóra, hetju, golfara og ferðakarli, kærlega fyrir. Hilda er hófstilltari en ég, hún tók í höndina á honum, svo ég hermdi bara eftir henni, mest langaði mig að faðma bjargvættinn. En það hefði mögulega bara verið refsing.

 

FerðafélagarnirVið höfðum lofað drengjunum að þeir fengju næst að sjá og fara á bak við Seljalandsfoss en á leiðinni þaðan beygðum við aðeins of fljótt til hægri inn á veg sem ekki var þjóðvegurinn en grunsamlega líkur honum til að byrja með.

Okkur fannst samt bílaumferðin of lítil og snerum við eftir tíu mínútur sem þýddi nú samt það miklar tafir að við myndum aldrei ná tímanlega í Eldstó á Hvolsvelli (besta lasagne í heimi) en drengjunum til trylltrar gleði var ekkert annað í stöðunni en snæða kvöldverð á KFC á Selfossi og við náðum þangað fyrir tíu - lokun.

 

Að festa sig og villast hafði sem sagt svaðalegar matartengdar afleiðingar - en ég kvarta þó ekkert yfir sallafínum kjúklingaborgara sem ég fékk, held að KFC ætti bara að drífa sig á Skagann, og Rúmfatalagerinn líka. Við stækkum og stækkum og hér er byggt á fullu.

Mikið var þetta skemmtileg ferð.

 

Drengirnir hoppuðu svo og skoppuðu í tvo tíma í Rush á sunnudeginum og draumur stráksa rættist skömmu eftir hoppið þegar hann fékk að smakka Metro-borgara - einhver hafði sagt honum að sá kæmist nokkuð nálægt McDonalds sem er víst besti matur sem hann hefur smakkað. Hann langar mjög til Bandaríkjanna aftur, McDonalds er aðalástæðan fyrir því, grunar mig.    


Varla-covid, betra kaffi og vinsælar bakarísbækur

KaffivélinUndanfarnar vikur hef ég velt fyrir mér, svona annað slagið alla vega, hvernig í ósköpunum ég hafi nælt mér í covid sem hafði aðeins haft áhrif á bragðskyn mitt og skert það eingöngu þegar kom að kaffi. Þar sem bara örfáir komu í afmælið mitt í ár, dugði baunavélin vel en ég fékk vægt sjokk þegar ég sá einn gestanna snúa takka sem hafði ekkert með fá-sér-kaffi að gera - en var sennilega ekki upp á punt. Ég hafði ekki fengið leiðbeiningar á íslensku með vélinni 2017, bara á úrdú, hollensku og serbókróatísku, eins og komu með þvottavélinni, þurrkaranum, bakaraofninum, helluborðinu og ísskápnum fyrir tveimur árum. Við þetta atvik var eins og góð greind mín sneri til baka og sameinaðist þokkanum, því ég dreif mig á YouTube nokkru síðar og horfði á myndband af því hvernig vélin mín á að fúnkera. Þrátt fyrir sérdeilis flott heilabú nær enskukunnáttan aðeins að kurteislegu spjalli við enskumælandi (ekki um t.d. kjarneðliskafbáta), áhorfi á myndir og þætti, með enskum texta helst, og lestri á Stephen King-bókum. En ég fiktaði samt aðeins í kaffivélinni, sneri takka hjá baununum og öðrum framan á og uppskar svo miklu, miklu betra kaffi að héðan í frá leyfist engum að snerta vélina, hvað þá horfa á hana. Það má ekki vanmeta hugarorku þegar kemur að kaffivélum. Dásamlegt að hafa endurheimt „bragðskynið“. Skyldi vera hægt að fá meira kaffi og minna vatn? Sem sagt alvöruespressó. Vélin var ágætlega stillt þegar ég fékk hana, hef ekki hugmynd um hver gæti hafa fiktað í stillingunni og gert kaffið enn daufara, kannski sá hinn sami og setti tóma uppþvottavélina mína í gang (á langt prógramm) á afmælinu í fyrra - með rassinum á sér! Það var reyndar mjög fyndið en þegar kemur að kaffi má ekkert út af bregða ...

 

bookshelf-1Ágúst hefur verið mánuður sumarorlofs, eins og oft áður, en verkefnin fóru ekki að hrúgast inn fyrr en núna fyrir nokkrum dögum. Ég notaði fríið til að lesa og lesa og lesa og mikið var það geggjað. Mest sumaryndis-léttmetislestur sem er auðvitað algjör nauðsyn með Tolstoy, Kjarval, Tchaíkovskí og svona. Hér eru einhverjar, ekki í réttri lestrarröð, ekki kannski allar lesnar í ágúst og ég gleymi eflaust einhverjum. Útgefendur, endilega skellið fleiri rafbókum á Storytel.

 

Ríki óttans - Louise Penny og Hilary Rodham Clinton: Kom skemmtilega á óvart, fínasta afþreying. Nú veit maður nákvæmlega hvað gerist á bak við tjöldin í Hvíta húsinu þegar ógn steðjar að ... ;)

Nornadrengurinn - Lone Theils, flott spennusaga

Inngangur að efnafræði - Bonnie Garmus - í einu orði sagt, æðisleg!

Hin óhæfu - Hjorth og Rosenfeldt ... þessi fékk mig til að efast um öryggi mitt sem bloggara þar sem áhrifavaldar á borð við mig voru myrtir (í bókinni) ef þeir náðu ekki prófi (um lágmarkskunnáttu) sem morðinginn lagði fyrir þá - í þeirri von að uppræta fákunnáttu, yfirborðsmennsku og heimsku sem gert var of hátt undir höfði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, að hans mati ... sem róaði mig auðvitað helling. Ég hef reyndar verið sökuð um yfirborðsmennsku en það var að kvöldi til á Austurvelli, seint á níunda áratugnum, þegar ég var að fara á Borgina eftir velheppnað partí og hafði ekki tíma til að opna hjarta mitt og tala um áhyggjur og blankheit þegar ég var úti að skemmta mér - við gamlan vin sem leit á „Allt ágætt, en þú?“ sem alvarlega yfirborðsmennsku þegar hann spurði hvað ég segði gott. Auðvitað hefði ég átt að skæla í fanginu á honum og segja honum hversu lífsbaráttan var stundum erfið, eða það sem hann vildi heyra á djamminu ... 

500 mílur frá mér til þín - Jenny Colgan, ágæt afþreying.

Gjöf hjúskaparmiðlarans - Lynda Cohen Loigman, ferlega skemmtileg, eiginlega dásamleg, nánast of krúttleg í lokin.

Ég var auðvitað búin að lesa hina frábæru Óvissu eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson, og bók 2 um FBI-manninn John sem fer í felur, vitnavernd, en fyrri bókin Að leikslokum, endaði óbærilega spennandi. Hin systirin heitir framhaldið. Og svo tvær bækur í nýjum flokki um dularfullan brunasérfræðing. 

 

Á Storytel núna:

Beachfront Bakery: A Killer Cupcake, var byrjuð á henni þegar vinnan hóf innreið sína, hún er lesin uppi í rúmi af gleði á Storytel-lesbrettinu sem ég fékk í afmælisgjöf. En hvað er þetta annars með bakarí og metsölubækur? 

Brennandi ást í Bernhöfts

Ástir í Álfheimabakaríi

Kallabakarí tilfinninganna eða

Ástapungar í Kallabakaríi

... ef einhvern vantar hugmyndir (og peninga).

 

Afmælisgjafir í bókaformi 2022:

The Unhoneymooners - Christina Lauren (greinilega ástarsaga, virkar skemmtileg)

Naomi´s Room - Jonathan Aygliffe ... (spennusaga) The Spine Chilling classic, segir um hana ... 

Rembember me this way - Sabine Durrant (Spennusaga, án efa, The dead have no secrets. They only have lies ... úúú)

Þessar tvær síðustu voru innpakkaðar og merktar sem spennusögur en kaupandinn hafði ekki hugmynd um hvað hann (frænka mín) keypti í sniðugu bókabúðinni í London.

Ég var nóttin - Einar Örn Gunnarsson - er á náttborðinu, ég er aðeins byrjuð á henni og hlakka brjálæðislega til að klára, Einar er frábær penni.

 

Stundum alveg spurning um að hætta að vinna og leggjast í ómennsku og bækur. Ég á heilu bunkana af ólesinni snilld inni í skáp. Það var hræðilegt að lenda í því um daginn að byrja á bók á Storytel, reyndar mjög girnilegri, og finnast hún í upphafi örlítið kunnugleg, hrista það af sér og svo átta sig á í miðjum fyrsta kafla að ég hafði lesið hana - og Storytel alltaf: Ætlarðu ekki að klára hana?


Friðhelg tónlist og kramdir bílar: ævintýraferð til Eyja

AfmælistertanVestmannaeyjar tóku ansi hreint vel á móti okkur Hildu systur, dóttur hennar, tengdasyni og tveimur unglingsstrákum. Það var ljómandi snjallt að halda örafmæli fyrir jólakúlufólkið sitt, en samt áskorun að fara strax daginn eftir til Eyja.

Ég gat ekki stillt mig um að vera með tertu þrátt fyrir óeðlilegheitin (eða að bjóða ekki sjötíu allra nánustu). Ég bað konditorimeistarann að laga alls ekki villurnar á tertunni og sendi henni textann með undirskriftinni BITRINGUR (ekki Birtingur)en hún leiðrétti undirskriftina en leyfði öðru að halda sér. 

Og ég hætti ekki í neinum leiðindum, alls ekki, það voru skipulagsbreytingar fram undan sem hefði þýtt meiri vinnu og þar af leiðandi meira álag (sem ég hef forðast undanfarin ár). Þau munu svo sannarlega pluma sig vel án mín, frábært fólk þarna sem ég er strax farin að sakna. Og ég mun líka hafa nóg að gera.

 

SprangEins og flest (öll) ferðalög snerist þetta til Eyja um að finna sem fyrst besta kaffið og það tókst í hvelli. Ég hefði sennilega aldrei hætt í Ísfélaginu 1974 ef það hefði þá verið komið á næsta horn, sjávarmegin - en þá var svo sem enginn að pæla í góðu kaffi. Það heitir Vigtin - bakhús og er einnig bakarí. Við "stunduðum það" þessa tvo daga okkar. Við kíktum í búðir og ein þeirra, Flamingo, var ansi flott. Ég beið úti í bíl meðan mæðgurnar fóru inn, ég missi oft lífsviljann í búðum og fer bara ef nauðsyn kallar. Hilda kom út með tvær fínar flíkur og bað um álit mitt, ég benti á aðra þeirra, hugsa að þessi klæði þig betur, sagði ég, og svo urðu mæðgurnar að játa að þarna væri elsku Ellen frænka að reyna laumulega að kaupa afmælisgjöf handa mér ... Svo ég fór inn og hreifst af allri litadýrðinni þar. Valdi mér dásamlega peysu, í afar fallegum bláum lit, hef varla farið úr henni síðan. Mig vantaði bók (Gjöf hjúskaparmiðlarans) svo ég fór í bókabúðina þar sem áður var sjoppan sem ég verslaði við þegar ég starfaði í Ísfélaginu. Stelpunum þar fannst ekkert merkilegt að ég hefði keypt sælgæti þar eitt sinn (fyrir rúmum 48 árum) í sjoppuferð fyrir sjálfa Shady Owens. „Hvaða Shady?“ sagði önnur þeirra alveg áhugalaus. Ég er viss um að hún hefur aldrei heyrt um Hljóma eða Trúbrot, Uriah Heep eða Led Zeppelin, hvað þá Slade, Pink Floyd eða Jethro Tull. Greinilegt að menningin náði aldrei til Eyja þótt þær séu svona skammt frá Íslandi (eins og stráksi orðaði það.) Getur verið Eyjar séu friðhelgar á einhvern hátt? Ekki spilla hreinleika þeirra-dæmið, eins og á við um t.d. Surtsey, en samt mega ferðamenn koma þangað. Það gæti útskýrt af hverju ég heyrði bara tónlist Loga; í búðum, á veitingastöðum, á götum úti, lítil leikskólabörn rauluðu Minningu um mann á Vestmannabrautinni þannig að ég táraðist. Vá, hvað Logar hljóta að vera þreyttir eftir Þjóðhátíð ... 

Mynd: Stráksi að spranga.

 

Áður ÍsfélagiðHúsið sem við gistum í var á tveimur hæðum, við vorum sex og herbergin fimm sem passaði ljómandi vel. Hilda pantaði húsið í maí og það var ekki sérlega dýr en þegar hún kíkti á verðið nú nýlega kostuðu tvær nætur í september næstum helmingi meira en við borguðum um miðjan ágúst. Framboð og eftirspurn-lögmálið ... dæs. En þetta var notalegt hús og mjög vel staðsett. Stutt að fara út að borða ... hjá Gott fyrra kvöldið og Einsa kalda það seinna. Svakalega góður matur hjá báðum, veit ekki hvaða kaffi er hjá fyrrnefnda staðnum en heyrði að það væri ekkert sérstakt hjá Einsa kalda svo ég sleppti því. 

MYNDIN er af gamla Ísfélagshúsinu en ég fann út eftir þrotlausa rannsóknarvinnu að nú væri þar banki, einnig íbúðir. Lengst til vinstri sést í húsið sem hýsir Vigtina kaffihús. Nú er Ísfélagið flutt lengra til vinstri við þessa sömu götu, sýndist mér á bíltúrum okkar, og með aðsetur í kassalaga húsi sem hentar sennilega betur en það gamla.  

 

Kattahvíslari HimnaríkisVið heimsóttum hið flotta safn um eldgosið í Heimaey 1973, leyfðum strákunum að fara í sund og að spranga sem tókst bara vel hjá þeim. Á sunnudeginum skruppum við í búð og ég varð stjörnustjörf þegar sonur einnar af eftirlætis-Instagramstjörnum mínum afgreiddi mig. Ég tók Dustin Hoffman á hann (New York, 1991) eða lét sem ég þekkti hann ekki og nöldraði með dassi af kærleika yfir því að innkaupapokar væru ekki við kassann ... eins og hann réði því. Það er alltaf verið að reyna að stjórna okkur, takið poka ÁÐUR en þið farið á kassann, en sem gestur í Eyjum og búin að tæma töskuna mína af margnota pokum vegna ferðalagsins, var fúlt að þurfa að klofa yfir manneskjuna fyrir aftan  sig í biðröðinni við kassann (Hildu systur) til að ná sér í poka. En börn samfélagsstjarna eru friðhelg, finnst mér, og maður lætur þau í friði, eins og stjörnurnar sjálfar auðvitað líka.

Um kvöldið, það síðasta, jöpluðum við á sælgæti yfir Eurovision-myndinni um m.a. álfa Húsavíkur, alltaf jafnskemmtileg. Eina svindlið mitt frá 16:8-dæminu þar sem ég borða bara milli 12 á hádegi og 20. Og eftir að hafa náð okkur í almennilegt kaffi, enn einu sinni, frá Vigtinni, fórum við í biðröðina að Herjólfi. Við bryggjuna mætti okkur hroðaleg sjón, eða sundurkraminn bíll eftir bílalyftu Herjólfs svo við ókum skjálfandi inn í skipið. Ég hugsaði um hundana sem fá hvergi að vera nema á bílaþilfarinu þar. Það lifðu allir það af þegar ég og fyrrverandi eiginmaður minn (einn af þeim fyrstu) fórum reglulega með Akraborginni með hundana okkar. Við héldum okkur bara úti og hundarnir voru ekki lausir. Enginn amaðist við okkur. Mikið vona ég að dýrahatur sumra sem fara með völd fari minnkandi og við getum öll, menn og dýr (líka mávar), farið að lifa í sátt og samlyndi. Þó hvika ég ekki frá kröfum mínum um að vissir býflugnabændur hafi stinguflugur sínar alltaf í ól.

Myndin er af sérstökum kattahvíslara Himnaríkis sem ásamt móður sinni gætti kattanna á meðan þessi dásamlega kaffi-sprang og fleira-djammferð til Eyja var farin.


Mávagrátur og Eyjaferð

einsi-kaldiVirkilega annasamur aðfangadagur tólfta í gær, og fyrir röð tilviljana fékk ég meira að segja fjórðu bólusetninguna þótt ég sé bæði ung og frísk. Og drengurinn líka, enn yngri og enn frískari. Mér fannst rétt að tryggja að ég yrði örugglega og mögulega slöpp þriðju sumarferðina í röð með Hildu systur, ef ég fæ aukaverkanir af sprautunni. Í hittiðfyrra á Akureyri voru það kristallar í eyrum og endalaus svimi, í fyrra demantar í þvagblöðru og vanlíðan þar til ég fann pensillín-díler á tjaldstæðinu í Stykkishólmi tveimur vikum seinna, munið. Í ár sennilega aumur handleggur en ég gæti borið mig sérlega illa. Maður á að halda í hefðir, ekki bara um jól! En systir mín sá við mér og tilkynnti mér í dag að eitt af ótal mörgum börnum hennar og maki þess muni koma með, svona til öryggis ef ég verð ömurleg enn einu sinni og hugsa ekki um annað en að finna almennilegt kaffi. Við eigum pantað borð hjá Einsa kalda (sjá mynd) um helgina sem er virkilega spennandi. Mig langar líka að skoða eldgosasafnið og margt fleira.

 

Mál málanna - mávar og fleiri óvinsæl óféti:

Mér fannst mávar frekar ömurlegir lengst af - því að ég var alin upp við að þeir væru fljúgandi rottur, dúfur kallaðar það reyndar líka sem ruglaði mig, og sjálfsagt að vera illa við þá. Það hefur reynst okkur ansi erfitt að lifa með náttúrunni. Eldgos fá vissulega að standa en varla þó, einhver afskipti hafa verið af hraunrennsli (Heimaey 1973, Fagradalsfjall 2021). En ég er kannski meira að tala um dýrin, við þurfum að banna allt. Hundar mega helst hvergi vera, kettir eru sagðir vera skaðræði og nýjasta nýtt; mávar hafa ekki tilverurétt af því að þeir pirra. Fólk gæti auðvitað verið með bráðaofnæmi fyrir þeim.

 

MávastelliðEftir að ég flutti til Akraness 2006 fékk ég sjávarnið í stað umferðarhávaða og máva í staðinn fyrir geitunga - fín skipti. Svo tekur krummi við yfir vetrartímann þegar Jónatan fer á hlýrri slóðir. Nú vilja Íslendingar (sumir) drepa máva, eins og mávana sem tóku því illa að byggt var íbúðahverfi á varpstaðnum þeirra í Garðabæ. Hvernig dirfast þeir? Mávar snæða vissulega unga (eins og t.d. kettir, mannfólk og svanir sem ráðast líka á fólk og kindur - en svanir eru bara svo sætir að þeir komast upp með allt, ljóð eru ort um þá og ævintýri samin. Reyndar er til fræg bók um Jónatan máv - og rándýrt matar- og bollastell sem hlýtur að hrapa í verði þessa dagana). Ekki viljum við myrða sætu þrestina sem vekja okkur af værum blundi á morgnana með háværum söng? Nei, maður brosir og finnst það voða rómantískt. Mávasöngur þykir ekki jafnfagur en er hann háværari? Þá drepum við það sem pirrar okkur!!!

 

Það sem pirrar mig er t.d.: leiðinleg tónlist (fönk), sól og hiti (allt yfir 13-14°C), geitungar, þegar kemur dagskrá á RÚV 2 þegar ég ætla að horfa á eldgosið í sjónvarpinu, kökur og sælgæti með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum, þegar fréttafólk segir ungabarn (talmál, eigi svo fagurt) og ýmislegt fleira.

 

Reyni ég að drepa þetta? Nei, ég reyni að lifa með því. Eyrnatappar duga á sumt, þakklæti á annað (fyrir t.d. að búa ekki í Ástralíu þar sem geitungar eru svipað stórir og mávar) og smekklegheit er einnig sterkt vopn gegn t.d. hnetum og rúsínum, og æðruleysi gagnvart ungAbarnasundi, nei, úps, það segir enginn það.

 

Jæja, ef ég ætla að vera sæt á ör-afmælinu mínu er best að sofna snemma - fæðingarstundin sjálf er ekki fyrr en kl. 19.54. Merkúr í meyju, mars í nauti, rísandi bogmaður og bókaormur í Síríus ... svona til að opna mig enn meira á þessum fallega degi.


Smekklausir sjónvarpsþættir

Mosi og Keli og aukavinnan mínAlþjóðlegur dagur katta í dag og alþjóðlegur dagur unga fólksins á föstudaginn. Allir dagar eru kattadagar hjá mér og ... mér er líka endalaust vel við unga fólkið, flesta daga.

Þótt afmælið í ár verði pínkulítið jólakúluafmæli miðað við afmælin árin 1987-2019, pantaði ég nú samt afmælistertu með áletrun. Jessss.

Annars fer ég til Vestmannaeyja á laugardaginn sem getur tafið bestu áætlanir um myndir úr afmælum og svona. Ég fékk dásamlega pössun fyrir kettina á meðan. Viðkomandi nánast flytur inn á þá. Á morgun hefst svo undirbúningurinn og kennslan fyrir kattapössunina: ... og ef rafmagnið fer af þarftu að hlaupa niður og ... já, hafa alltaf fullan vatnsdall í eldhúsvaskinum, ekki á gólfinu því þá fer Krummi að skvetta á gólfið ... ekki hægt að treysta á nýjustu tækni í vatnsbrunnum sem ganga fyrir nýtísku-rafmagni. Leyfa þeim að hlusta á Mozart á nóttunni til að róa þá, Pink Floyd á daginn ... nudd um þrjúleytið ... rjómi ... rækjur ... vökva kattagras ... feluleikur ...  

 

mwtrumpÁttunda ágúst árið 2009 hef ég greinilega verið ansi hneyksluð á Donald Trump sem þá var eflaust ekki farinn að íhuga framboð til forseta, aðeins véfréttin í Simpsons-fjölskyldunni hafði hugleitt það og skrifað inn í þáttinn níu árum áður, í gríni samt. Trump var með sjónvarpsþátt sem hét Lærlingurinn og sýndi þátttakendum fádæma frekju, dónaskap og virðingarleysi. Kannski þjáðist ég af einhvers konar masókisma á þessum tíma fyrst ég horfði en dæmi úr þættinum vakti þó undrun mína:

 

„Donald Trump var með í verðlaun fyrir sigurlið þáttarins heimsókn á Playboy-setrið „þar sem margar af fallegustu konum heims ganga um hálfberar,“ sagði hann. Konurnar í sigurliðinu urðu örugglega rosaglaðar enda stórkostlegur heiður að hitta Hugh Hefner og kærusturnar hans; Bridget, Holly og Kendru. Jamm.“

 

Þarna voru tæp ellefu ár í að ég tæki inn lyfið sem lét mig hætta að reykja OG að mestu leyti hætta að horfa á sjónvarp þótt ekkert kæmi fram um slíkar aukaverkanir á fylgiseðli. Ef kenning mín er rétt, að lyfið drepi fíknir manns hefði það þá ekki átt að myrða meinta sykurfíkn? Svo er þetta kannski allt saman hreyfingarleysi - ja, eða hreinlega samsæri?


Ung-ish, hærri, feig og grennri

Há og grönn í aðhaldsStráksi ekki heima um helgina svo þá gátum við kettirnir aldeilis farið á kreik. Uppþvottavélin brilleraði í gær og þvottavélin í dag svo það er sérdeilis stuð á bæ. Helgin hefur eiginlega farið í að máta aðhaldsflík sem ég freistaðist til að kaupa um daginn. Hún tekur af manni 20 kílóin sem ljósmyndir bæta á mann, og sælgæti og kökur.

 

Það var þrautin þyngri að koma sér í kvikindið. Saumurinn sem átti að vera aftan á var allt of langt til vinstri eftir fyrsta troð svo ég þurfti að gera aftur. Konan í búðinni (Sassy) vildi meina að þetta ætti að verða eins og hluti af mér, þægilegt og ... eggjandi, ef ég heyrði rétt. Hmmm. En ég kvarta ekki, nema það væri frábært ef fylgdi manneskja með sem hjálpaði til við að tosa upp. En ég bæði grenntist og lengdist talsvert við þetta og það eru engar ýkjur að segja að ég sé bæði há og rennileg í þessum skrifuðum orðum. Meðfylgjandi mynd, sú efri, sýnir aðhaldið í aksjón.

 

Svona letihelgar ... þá liggur voða lítið á að fara á fætur, eða rífa sig upp fyrir allar aldir (hádegi). Svo margt betra hægt að gera, eins og að sofa eða bara nenna ekki fram úr. Í dag var það jarðskjálfti upp á 4,1 sem kom mér ljúflega á fætur, hann vaggaði rúminu þannig að hugurinn fór rakleitt aftur til haustsins 1958, en mér skilst að skjálftinn hafi verið talsvert hundleiðinlegur á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftar þurfa að fara upp í og yfir fjóra til að finnast hér á Akranesi. Svo hef ég eftir hrinuna 2022 fundið nokkra ímyndunarskjálfta sem er verðugt rannsóknarefni fyrir sálfræðingana í fjölskyldunni. Fín umræðuefni í komandi jólaboðum.

 

Mamma og Einar - jól 1982Þriðja covid-afmæliskaffið er í bígerð, aðeins „jólakúlunni“ boðið eins og síðast og þarsíðast. Það er að sjálfsögðu ekki sniðugt að setja lífið á HOLD þótt ríki smitandi drepsótt í heiminum, enda geri ég það alls ekki, þríbólusett skvísan, en heldur ekki sérlega snjallt að láta sem allt sé löngu búið þegar sú er ekki raunin. Bara fámennt og góðmennt. Tíu manns eða svo, sem ég hitti reglulega, bara til að ég fái tilfinningu fyrir því að enn eitt árið hafi bæst við ... og hafi afsökun til að borða kökur.

 

Eftir útför mömmu í júlí og öll faðmlögin í kringum hana, datt mér helst í hug að ég væri hreinlega ónæm fyrir covid, en svo frétti ég að nú væri akkúrat ónæma fólkið að smitast í hrönnum. Ég fæ þetta eflaust einhvern daginn en vil helst ekki að Himnaríki á afmælinu mínu verði smitbæli. Hetja eða heigull?Gáfuð eða galin? Klár eða klikkuð? 

Búin að lofa mér að halda venjulegt stórafmæli að ári, nema verði komin froskaflensa eða eitthvað, þá harðneita ég að eldast fyrr en Bill Gates hættir þessu bulli og Soros líka ... 

 

Neðri myndin var tekin á Akranesi jólin 1981 og sýnir mömmu og Einar. Ég gleymi ekki veseninu við að finna jólaföt á drenginn en þá fengust aðeins flottir jólakjólar í búðunum, strákafötin frekar ljót. Svo rambaði ég á fínustu föt í síðustu búðinni sem mér hugkvæmdist að fara í (í Rvík). Gömul vinkona saumaði og málaði gardínurnar í bakgrunni og gettóblasterinn til hægri var bara forsmekkurinn að þeirri miklu hrifningu á rappi sem sonur minn fylltist síðar og móðir hans reyndar líka - ögn seinna. Mér finnst trúlegt að jólamessan hafi hljómað úr tækinu, svona upp á stemninguna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 26
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 178
  • Frá upphafi: 1529800

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 158
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband