Mávagrátur og Eyjaferð

einsi-kaldiVirkilega annasamur aðfangadagur tólfta í gær, og fyrir röð tilviljana fékk ég meira að segja fjórðu bólusetninguna þótt ég sé bæði ung og frísk. Og drengurinn líka, enn yngri og enn frískari. Mér fannst rétt að tryggja að ég yrði örugglega og mögulega slöpp þriðju sumarferðina í röð með Hildu systur, ef ég fæ aukaverkanir af sprautunni. Í hittiðfyrra á Akureyri voru það kristallar í eyrum og endalaus svimi, í fyrra demantar í þvagblöðru og vanlíðan þar til ég fann pensillín-díler á tjaldstæðinu í Stykkishólmi tveimur vikum seinna, munið. Í ár sennilega aumur handleggur en ég gæti borið mig sérlega illa. Maður á að halda í hefðir, ekki bara um jól! En systir mín sá við mér og tilkynnti mér í dag að eitt af ótal mörgum börnum hennar og maki þess muni koma með, svona til öryggis ef ég verð ömurleg enn einu sinni og hugsa ekki um annað en að finna almennilegt kaffi. Við eigum pantað borð hjá Einsa kalda (sjá mynd) um helgina sem er virkilega spennandi. Mig langar líka að skoða eldgosasafnið og margt fleira.

 

Mál málanna - mávar og fleiri óvinsæl óféti:

Mér fannst mávar frekar ömurlegir lengst af - því að ég var alin upp við að þeir væru fljúgandi rottur, dúfur kallaðar það reyndar líka sem ruglaði mig, og sjálfsagt að vera illa við þá. Það hefur reynst okkur ansi erfitt að lifa með náttúrunni. Eldgos fá vissulega að standa en varla þó, einhver afskipti hafa verið af hraunrennsli (Heimaey 1973, Fagradalsfjall 2021). En ég er kannski meira að tala um dýrin, við þurfum að banna allt. Hundar mega helst hvergi vera, kettir eru sagðir vera skaðræði og nýjasta nýtt; mávar hafa ekki tilverurétt af því að þeir pirra. Fólk gæti auðvitað verið með bráðaofnæmi fyrir þeim.

 

MávastelliðEftir að ég flutti til Akraness 2006 fékk ég sjávarnið í stað umferðarhávaða og máva í staðinn fyrir geitunga - fín skipti. Svo tekur krummi við yfir vetrartímann þegar Jónatan fer á hlýrri slóðir. Nú vilja Íslendingar (sumir) drepa máva, eins og mávana sem tóku því illa að byggt var íbúðahverfi á varpstaðnum þeirra í Garðabæ. Hvernig dirfast þeir? Mávar snæða vissulega unga (eins og t.d. kettir, mannfólk og svanir sem ráðast líka á fólk og kindur - en svanir eru bara svo sætir að þeir komast upp með allt, ljóð eru ort um þá og ævintýri samin. Reyndar er til fræg bók um Jónatan máv - og rándýrt matar- og bollastell sem hlýtur að hrapa í verði þessa dagana). Ekki viljum við myrða sætu þrestina sem vekja okkur af værum blundi á morgnana með háværum söng? Nei, maður brosir og finnst það voða rómantískt. Mávasöngur þykir ekki jafnfagur en er hann háværari? Þá drepum við það sem pirrar okkur!!!

 

Það sem pirrar mig er t.d.: leiðinleg tónlist (fönk), sól og hiti (allt yfir 13-14°C), geitungar, þegar kemur dagskrá á RÚV 2 þegar ég ætla að horfa á eldgosið í sjónvarpinu, kökur og sælgæti með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum, þegar fréttafólk segir ungabarn (talmál, eigi svo fagurt) og ýmislegt fleira.

 

Reyni ég að drepa þetta? Nei, ég reyni að lifa með því. Eyrnatappar duga á sumt, þakklæti á annað (fyrir t.d. að búa ekki í Ástralíu þar sem geitungar eru svipað stórir og mávar) og smekklegheit er einnig sterkt vopn gegn t.d. hnetum og rúsínum, og æðruleysi gagnvart ungAbarnasundi, nei, úps, það segir enginn það.

 

Jæja, ef ég ætla að vera sæt á ör-afmælinu mínu er best að sofna snemma - fæðingarstundin sjálf er ekki fyrr en kl. 19.54. Merkúr í meyju, mars í nauti, rísandi bogmaður og bókaormur í Síríus ... svona til að opna mig enn meira á þessum fallega degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til hamingju með daginn!

Sjálfstæðisflokkurinn er skíthræddur við fugla og tekur á sig stóran krók þegar hann sér til að mynda lóur, þresti, svani og endur. cool


"Katrín Atla­dótt­ir, fyrr­ver­andi borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins, lagði orð í belg um hegðun máva og kvaðst auk þess hræðast fugla mest af öllu." cool

Þorsteinn Briem, 12.8.2022 kl. 11:46

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Zdeini Brjánzlækjarbarn, gamli félagi minn.
Reyndar er 'Fálkinn' merkizberi 'zjallatittanna', dona til kórréttíngar...

Steingrímur Helgason, 12.8.2022 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 216
  • Sl. sólarhring: 406
  • Sl. viku: 2094
  • Frá upphafi: 1455486

Annað

  • Innlit í dag: 187
  • Innlit sl. viku: 1713
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 179

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Útlitið í Mjódd í dag
  • Elsku Geiri frændi
  • Jysk

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband