Færsluflokkur: Bloggar

Síðasta bakarísferðin

MarsipanbrosMikilvægur fundur kl. 13 í dag, frábær kona sem gætir hagsmuna fóstursonarins og heimsækir okkur annað slagið. Síðast lofaði ég að eiga eitthvað með kaffinu núna. Ég ætlaði að stórgleðja drenginn og baka súkkulaðiköku (BettyCr-snilld) en sá að bæði kremið og kökuduftið var útrunnið. Mun að sjálfsögðu baka samt úr þessu en ekki handa gestum. Eina leiðin til að halda andlitinu var að fara út í bakarí í tíu mínútna göngufjarlægð. Kallabakarí er að gera mig brjálaða með allt of girnilegum Instagram-myndböndum en sem betur fer fyrir holdafarið eru hnetur í svo mörgu, sjúkkkk.

Ég fór í sæmilega regnheldum jakka, skildi regnkápuna úr Lindex eftir heima án þess að detta í hug að það væru fyrstu mistök dagsins. Þau næstu voru að taka ekki vatnsheldan margnota poka með. Kommon, þetta var bara rigning ...

 

 

Ég keypti Langa-Jón, 2 kanilsnúða með súkkulaði, ostasalat, rækjusalat, hafrakex og 2 marsipanbros sem eru í gífurlega miklu uppáhaldi á heimlinu. „Og poka, takk,“ sagði ég við elskulegu afgreiðslustúlkuna og hélt svo hugrökk út í óveðrið með veisluföng í sæmilega sterklegum brúnum bréfpoka með haldi.

Svaðilför

 

Það rigndi ekki eins og hellt væri úr fötu, heldur sprautað úr garðslöngu, stórri. Ég reyndi að hlífa brúna bréfpokanum eftir bestu getu með líkama mínum. Vatnsþétti jakkinn þoldi illa álagið og ég fann að peysan mín var farin að blotna.

 

Á Garðabraut, þá vel rúmlega hálfnuð heim, rifnaði pokinn og salatdósirnar tvær duttu á gangstéttina, alveg beint niður og án þess að opnast eða laskast. Lipur en sjokkeruð konan (ég) tók þetta upp, krumpaði bréfpokanum þétt utan um restina og hélt á veisluföngunum í fanginu. Í anddyrinu niðri hrundi annað marsipanbrosið í gólfið, hitt virtist orðið hálfvatnssósa þegar ég kíkti í pokann. Í stað þess að fara að skæla myndaði ég hryllinginn eftir bestu getu til að festa mér í minni að fara aldrei framar gangandi út í bakarí, alla vega ekki í roki og rigningu.

Ég var enn eldrauð í framan hálftíma seinna þegar fundargesturinn kom, hárið rennandi blautt og buxurnar mínar talsvert rakar. En kaffibrauðið bragðaðist sérlega vel og fundurinn eða gestakoman var alveg upp á tíu. 

Myndirnar sýna eyðileggingarmátt rigningar. Sjáið pokann ... sjáið útlit mitt, ekki ketti bjóðandi, hvað þá gesti og fóstursyni, marsipanbrosin svo löskuð að ég bar þau ekki fram ... en drengurinn borðaði þó brosið sem ekki lenti í gólfinu. Með bestu lyst.

 

HmmmNýjustu fréttir af hinum breska armi fjölskyldunnar:

Karl III. verður krýndur í Westminster Abbey laugardaginn 6. maí nk., samkvæmt breskum fjölmiðlum. Á meðan það skarast ekki við Eurovision-söngvakeppnina í Liverpool ... sem mig minnir að verði nákvæmlega viku seinna. Notuð verður heilög olía á bæði hann og Kamillu sem minnir mig óneitanlega á þegar ég fór á mína fyrstu og einu samkomu hjá Krossinum 1982 í boði nágranna og var eina manneskjan sem þáði ekki olíu á ennið uppi á sviði til að fyllast heilögum anda. Mun horfa ofsaspennt á krýningu Karls sem kannski mun tala tungum ef olían virkar almennilega. Ég kunni ekki að segja nei á þessum tíma sem var agalegt og sá þess vegna ekki allra síðasta þáttinn af Löðri - á tímum engra endursýninga og vídjótæki kostuðu milljón, minnir mig.

Harry prins sem var skírður Henry, Hinrik skv. íslenskri hefð, situr víst sveittur við skriftir, segist vera að bæta andláti og útför ömmu sinnar inn í mjög svo opinskáu og leyndarmálauppljóstrandi bókina sem hann á víst að hafa þegar fengið fúlgur fyrir. Aðrir segja að hann sé að breyta ýmsu, draga úr frekar en hitt, til að eiga einhvern tíma eftir að komast aftur í fjölskylduna - well, ef Meghan giftist nú Elon Musk sem var víst brandari ... EN ÖLLU GAMNI FYLGIR EINHVER ALVARA ... getur það orðið fyrr en síðar. Ég var mjög fúl út í völvuspána í Vikunni eitt árið, líklega árið sem þau tvö giftu sig, því hún hélt því fram að hjónabandið héldi ekki. Ef ungu hjónin hafa nú lesið þessa spá og eru áhrifagjörn þá vitum við öll hvernig þetta endar.    


Álfar og menn og ... orðræðan

Álfar og mennDásamleg helgi liðin og góð heimsókn frá einni af ótal mörgum systrum mínum. Þeirri einu sem hefur séð álf, þá á barnsaldri. Unglingurinn á þessu heimili er sérlega áhugasamur einmitt um álfa svo ég hefði getað látið mig hverfa án þess að þau áttuðu sig, svo upptekin voru þau af álfasögum. Hún hefur líka farið í gegnum leiðsögunám svo hún kann enn fleiri sögur en ella, hugsa ég, ferðamenn elska allt svona og hreinlega ætlast til að heyra allt um þjóðtrúna, landnámsmenn, gömul eldgos og hraun og svo auðvitað álfa og tröll. Systir mín var svo ljúf að fara með drenginn í skógræktina hér á Skaga og sýna honum nákvæmlega hvar hún sá álfinn - fyrir nokkrum áratugum. Og taka mynd af honum þar. Skemmtilegt áhugamál, en nær samt aldrei spennunni sem felst í mínum áhugamálum, vefmyndavélafíkn og eldgosafýsn. Get ekki lýst tilfinningunni þegar þetta skarast eins og hefur gerst nokkrum sinnum ... hægt að horfa á eldgos í gegnum vefmyndavél, tala nú ekki um í sjónvarpinu.

 

Sláandi fréttir af öfgamönnunum sem eru grunaðir um að hafa ætlað að drepa m.a. lögreglufólk, Gunnar Smára og Sólveigu Önnu, eflaust fleiri sem við fáum kannski að vita af síðar. Ég hef alltaf sagt að viss Trump hafi gefið svona vitleysingum fólki rödd og nú getur það ekki þagnað og spúir sínu eitri. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um þessa meintu hryðjuverkamenn sem sitja enn í gæsluvarðhaldi, veit að þeir myndu ekki hika við að mæta heim til mín ef ég dirfðist að skrifa ljótt um þá - alveg alla leiðina hingað í rólegheitin austur í Grjóteyrarfjarðatangaskaga nyrðri þar sem ég bý með tólf sjefferhundum og átta manna júdókarlakórnum mínum sem heitir fullu nafni: Sjálfsvarnar- og árásatenóra-og-bassalingar Grjóteyrarhrepps og nærsveita. Af borgarbúum hér á þessum víggirta rafmagnsgirðingaflottheitastað, kallaðir almennt te-rónar sökum sjúklega mikillar tedrykkju.

 

Mútta veiðirOrðræðan hefur líka verið ömurleg, ég hef eytt fólki af Facebook-síðunni minni af því að það talar svo ógeðslega um þá sem gegna áberandi starfi, eins og ráðherra og þingmenn. Ég er ekki að tala um eðlilega og sjálfsagða holla og góða gagnrýni. Og það má ekki myndast hola á götu í Reykjavík eða ljótt hús vera byggt eða ekki byggt án þess að sumt fólk missi sig á ógeðfelldan hátt yfir Degi ... skaut ekki einmitt einhver á bílinn hans? Nánast með „leyfi“ frá orðræðunni ... Kannski er ég að fleygja stórgrýti úr gróðurhúsi eftir að hafa gert grín að ýmiskonar klikkun sem viðgengst en kannski ekki svona hatrammt og með hótunum.

 

Systir mín sagði mér góða álfasögu á laugardaginn á meðan hún snæddi gómsætar vöfflur sem ég hafði bakað með aðstoð elsku Vilkó og drakk besta kaffið í bænum. Hún er mikill sagnameistari, eins og flestir afkomendur hennar og hefur gott minni - sem er mikilvægt (ég get varla komið góðri kjaftasögu áfram, gleymi iðulega aðalatriðinu). Mamma fór eitt sinn að veiða með þáverandi eiginmanni sínum og þegar þau komu á veiðistaðinn um kvöldið, sagði mamma hrifin: „Sjáðu fínu klettana, hér er örugglega álfabyggð!“

 

Um nóttina dreymdi hana álf sem kom til hennar og tjáði henni að hann myndi sjá til þess að hún veiddi vel. Það rættist heldur betur næsta dag. Hún veiddi endalaust af fiski ... en maðurinn hennar fékk ekki bröndu, hann hefði alveg eins getað reynt að veiða í vaskafati. Hann reyndi ýmislegt í vantrú sinni, fékk að prófa hennar stöng og vera á hennar stað, en aðeins mamma veiddi þennan dag, og það líka með hans stöng og á staðnum þar sem hann hafði staðið skömmu áður og ekki orðið var við nokkuð.


Risaeðlum til varnar

Klapp fær ekkert klappStrætóbílstjórinn minn lét mig vita síðast þegar ég ferðaðist með honum að nú væri komið fínasta greiðslukerfi í gegnum gamla Strætó-appið - fyrir okkur landsbyggðarfólkið. Ég opnaði það í gær og þar beið tilkynning um Klappið og hlekkur að því.

Þegar ég ferðast um nýjar lendur Internetsins er ég mjög varkár og tek öllu bókstaflega. Af þeim sökum stoppaði ég við spurninguna: Nafn á greiðslukorti? Átti það við eiganda kortsins eða hvort þetta væri Visa/Euro eða eitthvað annað?

Ég ákvað að spyrja Facebook-vinina mína kláru og skynsömu og það vafðist ekki fyrir þeim. „Þetta hlýtur að eiga að vera nafn þitt, er það ekki?“ „Örugglega þitt nafn“ ... osfrv. En þegar ég ætlaði að fara að rita nafn mitt í reitinn komu í ljós leiðbeiningar um að nefna kortið einhverju nafni svo ég fyndi það í frumskóginum, eða eitthvað. Mér tókst í næsta skrefi að tengja Visa-kortið við og bingó, mikið yrði Guðjón bílstjóri ánægður með mig, því hann sagði að þetta munaði miklu fyrir bílstjórana, oft væri bras með greiðslukort ... Í ferlinu fann ég upp orðið: Netdraslviðbjóðsógeðsflækjur sem ég hefði auðvitað átt að nota sem nafn á Klapp-kortið. Lýsir sumu ferli afar vel.

Svo kommentaði Guðjón bílstjóri hjá mér: „Þú veist að Klappið virkar bara sem skiptimiði á landsbyggðinni, er það ekki?“ 

Það var þá sem ég uppgötvaði að ég hafði sett upp Klapp fyrir höfuðborgarbúa og tengt það Visa-kortinu mínu.

 

MYND: Þarna hægra megin lá vel lögð gildra fljótfæra fólksins ... sem ýtti á hlekkinn og þarf líklega að flytja til Reykjavíkur fyrir bragðið. 

 

Misskilningur og fljótfærni kom mér svo sem í þetta. Ég las ekki alla leið, upplýsingarnar um Klappið voru ekki fyrir landsbyggðina og ég skil ekki hvað þær voru að troða sér í gamla appið sem átti að nota fyrir okkur. Sennilega þarf ég að eyða Klappinu og þar með tengingu við Visa, henda svo gamla appinu sem er í gemsanum mínum og sækja það aftur til að geta tengt það Visa ... eða bara halda mig heima.

 

Enginn afhendingarmátiMér gekk ekki sérlega vel að læra á pöntunarkerfi hjá Eldum rétt - af því að það var ekkert endilega sýnilegt hvar ég ætti að panta. Um hríð fékk ég að panta símleiðis þar til ég lenti á dónalegri konu, en það er önnur saga. Eitt af því sem stoppaði mig var: ... enginn afhendingarmáti fyrir þetta póstnúmer - sem birtist snemma í ferlinu. Það var ekki fyrr en ég hringdi loks og spurði, og var sagt að ég ætti að horfa fram hjá þessu og „ýta á Eldum rétt fyrst vinstra megin og svo aftur þarna hægra megin“, „ekki á Matseðlar vinstra megin“, sem þetta small saman. Mjög einfalt kerfi nú þegar ég kann á það. Ég hef fiktað og farið illa út úr því. 

 

Þegar ég þurfti að fara að nota Heilsuveru í bólusetningarferli okkar stráksa 2020-2022 fannst mér það ekkert sérlega gegnsætt eins og einhver hafði fullyrt, hvar var Innskrá-ið ... ó, þessi mynd af lykli var ekki upp á punt ... úps. (Talandi um covid: Viss sóknarnefndarformaður sagði við konu sem hún bolaði í burtu, að konan hefði rofið tengsl sín við guð vegna notkunar á sýnatökupinnum! Ég bara VISSI að þessir Satanspinnar kæmu beinustu leið frá víti) 

 

Sönn ástJá, allt er svo afgreitt með risaeðlugangi (aldri) ... meira að segja fyrrum hjálparmaður minn kallaði mig risaeðlu og hló af því að ég kunni ekki á Makka, ég sem er hreykin PC-manneskja. Ég er vissulega fórnarlamb of mikillar hjálpsemi. Sonur minn sagði iðulega við mig: Ég skal gera þetta fyrir þig. Það var voða þægilegt að kaupa síma og láta hann taka innihald þess gamla og færa yfir ... en ekkert alls fyrir löngu hringdi öskufúl vinkona mín í son sinn eftir að hún gat ekki kveikt á sjónvarpinu heima hjá sér - hún hafði fengið aðstoð en enga kennslu.

Það eru þrjár sjónvarpsfjarstýringar heima hjá Hildu systur sem kann vissulega allt þar. tvær hjá mér. Ein fyrir sjónvarpið, önnur afruglarann og sú þriðja Apple-TV, held ég, sem ég er fús til að læra á EF ég fæ mér það heima. Ætti maður að fylla heilann á sér af upplýsingum sem gagnast manni kannski aldrei?  

 

Vinkona mín til 35 ára, sagði reyndar við Fb-umræðuna um Klappið í gær að þetta app sem um var rætt (eða spurningin) fengi falleinkunn í hönnun hugbúnaðar ... sem jók sjálfstraust mitt til muna.

 

Ef Rússar ráðast nú á okkur á föstudaginn, í tilefni af sjötugsafmæli Pútíns, og taka rafmagnið af landinu? Þá hrynur allt því við þurfum alltaf að geyma öll eggin okkar í sömu körfunni. Aldrei neitt varaplan. Ég sá frétt um að fólk hefði ekki getað sótt lyfin sín heilan dag vegna bilunar í rafræna kerfinu ...

 

 

Ekki misskilja mig samt, ég vil ekki afturhvarf til fornaldar, síður en svo - en við þurfum B-plan í öllu eða vanda okkur betur. Ég er enn undrandi eftir að hafa farið með ungan vin minn á Vinnumálastofnun til að sækja um sumarvinnu fyrir hann á vernduðum vinnustað og þrátt fyrir að vera með vegabréf hans, gátum við eingöngu sótt um það rafrænt með rafrænum skilríkjum sem hann átti ekki til. Persónuvernd hefur án efa ýmislegt að athuga við persónuvernd margra fatlaðra einstaklinga sem eru neyddir til að fá sér t.d. Íslykil en þurfa alfarið aðstoð annarra við að nota hann.

 

Og að láta mig þurfa að læra á fokkings sportabler árlega út af sumarbúðum stráksa - appið hentar reglulegri íþróttaiðkun mjög vel og þá ekkert annað en frábært að hafa allt á sama stað. Sl. vor fór ég inn í appið í tölvunni minni til að reyna að rifja þetta tæki satans upp og fann þá nokkurra mánaða gamalt bréf frá sumarbúðunum, um covid-smit eftir að hann var þar í vetrardvöl yfir helgi. Ég varð eins og herptur handavinnupoki í framan. Hefði sannarlega ekki viljað hafa á samviskunni að smita viðkvæmt fólk í kringum mig en þetta slapp, sem betur fer.

 

Þessi varnarræða „risaeðlunnar í Himnaríki“ var í boði seigfljótandi og langvarandi pirrings. Fólk má auðvitað taka þessum skrifum eins og það vill ... ég harðneita þó að vera talin síðmiðaldra kerling sem þolir engar breytingar en mér finnst þær stundum vera gerðar breytinganna vegna, stundum hugarfóstur einhvers sem ætlar að vera sniðugur og koma fyrirtækinu í nútímann ... en gerir það ekki nógu vel eða notendavænt.

 

Kannski finn ég bara sanna ást á árinu sem gerir allt þetta rafræna fyrir mig ... djók!


Fitufordómar véfréttar

JL-húsiðVegagerðin hefur örlög mín í hendi sér. Ef ákveðið verður að fara til fornaldar og hafa eina stoppistöð í útjaðri Akraness er sjálfhætt búsetu hér í raun. Ég flutti hingað af því að strætó fór að ganga hér. Vegagerðin getur ekki stjórnað því að Skagamenn komi á innanbæjarstrætókerfi hér sem snýst í kringum leið 57. Mér skilst að uppi séu raddir um þetta hjá Vegagerðinni, greinilega einhver sem notar ekki strætó. Ég sendi Vegagerðinni bréf en fékk ekkert svar, sama plan af kurteisi og hjá Strætó sem virðist helst ekkert vilja af kúnnunum vita, ég tala af reynslu. Hvorugt fyrirtækið hefur samráð við farþegana, hvað þá bílstjórana sem hefði þurft að gera þegar nýir vagnar okkar voru síðast pantaðir, þeir eru ekki nógu góðir í öllum veðrum, er mér sagt, og það sem snýr að mér ... fúlt að geta ekki lengur hlaðið símann minn þar.

Ég fann til öryggis stað til að búa á í bænum ... ef íbúðirnar sem þar munu koma, verða ekki á uppsprengdu verði. Í JL-húsinu, í íbúð sem snýr að sjónum. Þá get ég veifað vinum mínum á Akranesi og hef sjóinn enn til að dást að. Sumir tala um rokrassgat þarna, aðrir tala um dólgslega granna einhvers staðar fyrir aftan (mjög sennilega einhver eldriborgarablokkin, ég finn vel hvernig óþekktin eykst hjá sjálfri mér). Alveg er mér sama - ef ég bara hef sjóinn minn, og óhrædd með hnúajárnin, sjefferinn og piparúðann. 

 

Móðgandi véfréttVið systur skruppum á Barion í Mosó á föstudaginn, áður en ég tók strætó heim. Það var hellingsvinna að finna kvikindið, ekki síst af því að sá sem svaraði í símann talaði við mig eins og heimamann. Ég hélt alltaf að þessi staður væri hjá Hótel Laxnesi, fyrir neðan KFC en svo var aldeilis ekki, heldur rétt hjá einhverju allt öðru. Við fengum ljómandi góðan mat og þjónustu þótt mér hafi fundist lélegt að fólk þyrfti sjálft að sækja sér drykki - því það var þjónað til borðs að öllu öðru leyti. Þarna var maturinn dýrari en á Galito á Akranesi, sem býður upp á fullkomna þjónustu og frábæran mat. 

 

Covid-keppurinn minnkar hægt og rólega. Þótt kunningjakona mín hnussi fyrirlitlega yfir "svelti" eins og hún kallar það, frá kl. 20 til kl. 12 næsta dag, finn ég talsverðan mun á mér, eða fötunum og ekki síst magni af sturtusápu sem þarf að nota. Mér hefur gengið verr að halda mig við hreina morgna, eins og í morgun var mikið að gera hjá mér og ég fékk mér kaffi með kaffirjóma um tíuleytið til að vera í sem bestu formi. Kvöldin eru ekkert erfið, enda er ég svo sem nánast hætt að horfa á sjónvarp. Samt er ég með Netflix, Disney, Prime Video (Amason), Stöð 2, RÚV og Símann Premium með milljón stöðvum. Prime fékk ég mér til að horfa á Jack Reacher-þættina sem voru æði. Disney fyrir drenginn en hvorugt okkar horfir, ég ætla alltaf að klára The Queen á Netflix og stráksi horfir oft á þætti í sínu herbergi.

Þetta með covid-keppinn sem bættist á mig í pestinni og við það að hætta að reykja ... Kvöldátið er ekkert og það munar um það, ekki kaffi, ekki gos, bara vatn eða ekkert. Stundum líður mér eins og hálft kíló fari á mánuði, sem sagt eitt og hálft farið ... en það hlýtur að vera meira samt. Fyrrum völvan mín og sjáandi sem var svo forspá gerir ekki annað en gera grín að mér ... af sem áður var, þegar hún dýrkaði mig. Ég ákvað að prófa  í allra síðasta sinn að fá spádóm hjá henni, hvað ég fengi í skóinn í ár, mig langaði virkilega að vita það.        


Til skammar í skóbúð

SkóbúðinÁkaflega glaður drengur var skilinn eftir í Reykjadal í gær til helgardvalar en þar, eins og á Grensásdeild þar sem mamma dvaldi í skamman tíma einu sinni á síðustu öld, kemst starfsfólkið ekki í peysur fyrir vængjum. Þvílík starfsemi þarna í Reykjadal og stórkostlegt val á starfsfólki, og nú er hinn frábæri Haraldur búinn að láta rampa allt upp þar sem mun án efa skipta sköpum fyrir marga.

 

Við stráksi fórum í bæinn seinnipartinn á fimmtudag, áttum matarboð í Kópavogi um kvöldið. Á leiðinni út á stoppistöð sýndi drengurinn mér að stórt gat var komið framan á strigaskóna hans, alls ekki gamla, svo við þurftum að nota ferðina til skókaupa. Ég versla vanalega í heimabyggð en neyðin kom í veg fyrir það að þessu sinni. 

Við kíktum í skóbúð við Smáratorg í gær, á móti RL Magasín (Rúmfó) en þar er alltaf góð aðstoð (eins og í Nínu hér á Skaga og víðast hvar á Akranesi) og svo var frekar góð útsala líka, 40% afsláttur. Skórnir sem við fundum eru mitt á milli þess að vera vetrarskór og strigaskór og drengurinn svo hrifinn af þeim að hann tímdi ekki að fara í þeim í Reykjadal, heldur vildi frekar frumsýna þá í skólanum á mánudaginn.

 

Hilda varð mér til skammar og ekki í fyrsta sinn, þarna í skóbúðinni. Ég sagði eitthvað á þann veg: „Og fari það í rass og rófu.“ Eflaust verið að tala um fjársvelt heilbrigðiskerfið eða klíkukennt kvótakerfið ... Stráksi benti mér strax á að maður segði ekki rass en Hilda, í mótþróaþrjóskuskapi tjáði honum að allir væru með rass, og endurtók: „Rass, rass, rass, rass ...“ Ég ávítaði litlu systur mína blíðlega en af ákveðni og stráksi flissaði. Enginn skemmti sér þó betur en bráðmyndarlegur, ókunnugur karl sem stóð nálægt okkur og horfði græðgislega á systur mína, fannst hún greinilega algjört æði og brjálæðislega fyndin. Þessir karlar hafa engan áhuga á hefðarteprum eins og mér. Þess má geta að Hilda tók ekkert eftir aðdáuninni þannig að þarna fór góður biti í hundskjaft.

 

Ríki okkar HilduHegðun Hildu passar alls ekki við þá prinsessu sem hún er, eins og ég fann nýlega út, sjá færsluna: Ég vissi það ... ég vissi það, en sú færsla hafði gríðarlegar afleiðingar víða um heim. Og margar alveg óvæntar, fyrirgefðu, elsku Jóakim „frændi“. Mundu bara að við Hilda (sennilega Mía líka, hún ber nafn móður þinnar sem millinafn) höfum aldrei borið titla.

 

Mia gæti svo innilega tengst dönsku konungsfjölskyldunni blóðböndum, hún talar fína dönsku og meira að segja menntaði sig árum saman í Danmörku, einhver sterk bláblóðbönd þar? Kannski er Margrét að hreinsa til og losa um prinsa- og prinsessutitla svo Mía verði loks viðurkennd. Þar sem hefðardúllur eru meira og minna skyldar er alveg séns á því að við Hilda (sem erum skyldar henni) fáum að fylgja með ... Fyrirfram: Takk skal du ha, Deres Majestæt!

 

Hér er nýjasta sagan af svartasta sauðinum í hinum breska armi fjölskyldu okkar Hildu, hirðin er í losti, var mér sagt:

Meghan Markle lét nefna son sinn Archie en eitt sinn var til hljómsveit með þessu nafni sem sló í gegn með laginu Sugar, sugar, eða sykur, sykur, en sykur er eitt innihaldsefna í sítrónuköku. Sítrónur eru súrar, bitrar ... eða bitter upp á ensku og BITTER (bjór) er bruggaður af Samuel Smith (elsta brugghús í Yorkshire). The Smiths gerði garðinn frægan með laginu The Queen is Dead, eða Drottingin er látin. Meghan er svo fyrirsjáanleg.

 

Vestmannaeyjar vefmyndavélAhhh ... Nú man ég hvað það var sem gat farið í  rass og rófu, að mínu mati ... ég var að tala um vefmyndavélarnar á Seyðisfirði - sem eru óvirkar! Og hafa verið allt of lengi. Þar gat ég fylgst með Norrænu koma og fara. 

 

Eftir eldgos nr. 2 á Reykjanesskaga horfði ég oft á gosið í gegnum livefromiceland.is-vefmyndavéladæmið og þar uppgötvaði ég ótrúlega flottar vefmyndavélar - frá Vestmannaeyjum (og víðar). Ég get horft á Herjólf koma og fara og það oft á dag. Norræna sést bara vikulega. Þvílík dýrð! Ég verð að drífa mig fljótlega aftur til Eyja, það var svo gaman þar í sumar. Að sjá Eyjar æsir bara upp löngunina og ekkert vesen að komast til Eyja - strætó alla leið í Landeyjahöfn. 

 

Ég gleymi því samt aldrei þegar ég skrifaði til Seyðisfjarðar og spurði af hverju vélin þeirra lægi niðri sem hún gerði eitt árið fyrir löngu, og fékk ekki bara kurteislegt svar, heldur einstaklega ljúft bréf frá sjálfum bæjarstjóranum um að þetta yrði lagað, og það var lagað. Eflaust nýr kominn síðan þá - og mér finnst bara allt of nördalegt að skrifa aftur.

Ég er samt alls ekki óvinur Seyðisfjarðar, finnst bara að vefmyndavélarnar þar geti farið í rass og rófu.


Enn ein björgunartilraunin ...

hengistoll1Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um svefn og fannst svolítið sniðug ein aðferðin sem ég fann um hvernig gott væri að sofna hratt og vel, aðferð sem kennd er hermönnum sem hafa eiginlega ekki efni á því að liggja andvaka, eins og sagði í þeirri grein. Hún er fólgin í því að liggja á bakinu tilbúin til að fara að sofa, sem sagt, og byrja á því að slaka á í höfðinu, finna slökuna færast yfir, síðan hálsinn, þá aðra höndina, síðan hina, líkamann og að síðustu fæturna. Síðan á maður að finna í hugskoti sínu dásamlegan stað, ímyndaðan eða alvöru (ég enda alltaf hálfsofandi í kósí hengistól í hálftómri stofunni í Himnaríki - ímyndaðri). Mjög oft næ ég að sofna fljótlega upp úr því. Majór Gurrí ...

 

Að ná að slaka á er auðvitað algjör snilld en ég hef oft ætlað mér að læra alvöruslökun sem var vissulega í boði þegar hér á Akranesi var hægt að fara í rope-jóga (sakn). Hnén á mér þola ekki venjulegt jóga eftir slysið um árið (2008?) En um daginn, fyrir kannski viku, sá ég á netinu auglýstar ókeypis íslenskar hugleiðsluæfingar og setti inn netfangið mitt til að fá þær sendar í pósti. Vissulega hef ég ekki gefið mér tíma til að prófa þær frekar en visst námskeið á netinu sem krefst bara korters á dag og ég er búin að borga fyrir, nei, ég safna bara póstunum og ætla að gera seinna.

Svo fóru hugleiðslu-ekki-kaupin að vinda upp á sig. Fínasta tilboð um að kaupa lengri hugleiðslur, allt mjög eðlilegt, en svo í gær fékk ég póst: Guðríður, ertu tilbúin til að fyrirgefa? Fyrirgefa hvað? hugsaði ég sjokkeruð, móðgaði hugleiðslukonan mig kannski í hugleiðslunum sem hún hélt ranglega að ég væri búin að hlusta á og var að biðja mig afsökunar á því? Eða les hún bloggið mitt og upplifði að ég væri enn brjáluð út í Íslenska hollustu fyrir að taka Fasta af markaði, safann sem hélt í mér lífinu? Ég fékk þó á tilfinninguna að þetta væri fjöldapóstur til allra sem hefðu látið freistast af ókeypis hugleiðslum, og nú ætti aldeilis að taka okkur í gegn. Allir lúrðu á einhverju sem þeir væru fúlir yfir og nýi gúrúinn okkar ætlaði svo sannarlega að hjálpa okkur við að fyrirgefa og eflaust að takast á við margt fleira. Hentar örugglega einhverjum en ég upplifði þetta bara sem ónæði. Svo ég las ekki lengra, heldur fjarlægði mig af póstlistanum, hef engan tíma í svona eða áhuga og mun heldur ekki prófa þessar ókeypis hugleiðslur fyrst þær voru bara tæki til að komast að mér og „bjarga sál minni“. Ég var búin að gleyma því að fæst er ókeypis í veröldinni og þessi kona bara að búa sér til atvinnu - og svo óheppin að lenda á grömpí kerlingu eins og mér.

Ég hef áður lent í líkamlegri björgunartilraun og svaraði könnun á Facebook um hvað ég fengi mér í morgunverð en það reyndist vera dulbúin Herbalife-auglýsing og nokkuð ónæði sem fylgdi í kjölfarið. 

Ég mun seint fyrirgefa þennan fyrirgefningarpóst, hann fer beint í minnisbankann með morgunverðarvenju-blekkingunni og Fasta-skortinum ...

 

GalitoferðVið skruppum saman nágrannakonurnar á Galito á föstudaginn. Stráksi kom auðvitað með og átta ára sonur hennar.

Við skiptumst alveg í tvennt; stráksi og hún fengu sér steikarsamloku (með salati) og við sonur hennar völdum okkur sushi, hann með frönskum! Ég var yfir mig hrifin af þessu vali drengsins, þekki ungt fólk yfir þrítugt sem er enn of ungt til að gefa sushi séns, en ungi smekkmaðurinn hafði þó, að sögn móður hans, engan áhuga á sushi á meðan hann bjó úti í Úkraínu þar sem það kostaði svo miklu minna, þrefalt minna.

Á leiðinni út í Galito mættum við strák með ís og ég lofaði að bjóða strákunum upp á slíkt eftir matinn, enda í leiðinni.

 

Má bjóða ykkur eftirréttaseðil? spurði yndislega stúlkan á Galito eftir matinn. „Nei, takk, við ætlum að kaupa ís í sjoppunni,“ sagði stráksi, alltaf hreinskilinn. Um leið sagði ég eitthvað á þá leið: „Nei, takk, við erum pakksödd eftir þennan góða mat.“ Svitlana er orðin svo góð í íslensku að hún skildi þetta og flissaði. Nú hafa sumir fengið kennslustund í því að særa ekki starfsfólk á veitingahúsum með óþörfum upplýsingum.

 

Myndin/sjálfan hér ofan sýnir okkur fjórmenningana og Snata á Galito. Með flottari sjálfum sem ég hef tekið. Ef myndin prentast vel má sjá Krónuna, Pennann, bókasafnið, Subway, Íslandsbanka, Lindex, Omnis og tónlistarskólann í baksýn. Og fullt af bílastæðum ...


Ég vissi það ... ég vissi það

Ellen prinsessa af ÍslandiÞegar ég sá rúmlega tuttugu ára gamla mynd af Elísabetu drottningu ásamt meintu barnabarni (sem er í raun barnabarnabarn, sjá mynd) sem konungsfjölskyldan leyfði greinilega óvart birtingu á, var eins og ljós rynni upp fyrir mér. Ég tel mig sjá mögulegustu myndina af því sem hefur greinilega gerst og fyrst engir dularfullir Bretar hafa sést hér á hlaðinu hlýtur að vera óhætt að koma fram með sannleikann. Nema leyndin hafi verið svo gríðarleg að ekki þótti möguleiki á því að eldklár kona á Akranesi áttaði sig?

Aðalatriðið er sem sagt að grunur minn úr æsku um að ég væri prinsessa en „í felum“ á Íslandi var allan tímann réttur en allt gert til að koma ekki upp um svokallaðar „veiðiferðir“ Karls í Hofsá í Vopnafirði á þessum tíma - sem hættu skyndilega þegar Díana kom til sögunnar ...  Við andlát drottningar fyrr í þessum mánuði voru ýmsar ljósmyndir gerðar opinberar og á einni þeirra má sjá Ellen systurdóttur mína, en Hilda er greinilega hitt launbarn Karls III. enda kom hann minnst árlega hingað um tíma. Við vorum án efa gerðar nokkrum árum eldri í Þjóðskrá, eins og mig hefur alltaf grunað, ellifjarsýni ekki byrjuð hjá mér, til að ósennilegt þætti að prinsinn ætti okkur. En það sem ég fékk ekki að vita og áttaði mig á í gær, var að Windsor-fjölskyldan hefur valið Ellen frænku úr til að umgangast, virðist vera. Útlenska nafn Ellenar er Eugene, E í báðum nöfnum sem nánast sannar mál mitt enn frekar, og til að blekkingin yrði fullkomin þóttust Andrés prins, föðurbróðir okkar Hildu, og Sarah Ferguson eiga hana, hlýtur að vera. Allir vita nú vesenið á þeim og því auðvelt að þvinga þau til þess.

Mamma var ótrúlega fögur kona, vissulega ögn eldri en meintur barnsfaðir hennar en ekki svo. Mig grunaði aldrei að hin systkini mín gætu verið royal og eftir að ég fór í blóðprufu með einu þeirra og sá bara rautt, áttaði ég mig á að svo gæti ekki verið.

 

Ellen í LondonVið systur (og líka Ellen og Davíð, stundum kallaður Beatrice) eigum auðvitað rétt á því að fara í erfðaröðina að bresku krúnunni og uppskera þá virðingu sem við eigum skilið. Ég er ekkert endilega að tala um peninga en ég hef sterkt á tilfinningunni að ég hafi stundum fengið aðstoð. Það var grunsamlega auðvelt fyrir mig að kaupa Himnaríki (99 fm) á sínum tíma (2006) og ekkert endilega af því að sú íbúð var ódýrari en litla íbúðin mín við Hringbraut (56 fm) ... og alltaf annað slagið berast mér óvæntar góðar gjafir, eins og nýlega þegar ég fékk frosinn þorsk í stykkjum og frosið hreindýrahakk frá góðum Skagamanni sem er veiðimaður eins og Karl III. Ég hélt að þetta væru gjafir til mín sem áhrifavalds á Moggabloggi en nú hafa runnið á mig tvær grímur.

 

Nokkur atriði gera þetta kýrskýrt í mínum huga, ekki bara neðri ljósmyndin sem sýnir Ellen í London þegar allir héldu að hún væri á Akureyri. En aðallega þetta tvennt:

1) Laugarbakki í V-Hún. er ranglega talinn vera krummaskuð en er afar góður staður ef þarf að láta lítið fyrir sér fara um hríð. Ásgeir Trausti tónlistarmaður er einmitt þaðan og er alveg ábyggilega með blátt blóð í æðum. Danskt, grunar mig. Maður er fljótur að verða sérfræðingur í svona málum ... Hildu hefur einhvern veginn verið stýrt á Laugarbakka án þess að hún áttaði sig á því að hún þyrfti að fara í felur með börnin og ég var um hríð hér á Akranesi, vissulega einnig í felum, sé ég núna. Ég skil ekki hvernig Hilda uppgötvaði ekki að barnið hennar var statt úti í London (sjá mynd úr Buckinghamhöll) nema þetta sé allt risastórt samsæri til að halda mér frá og Hilda viti allt. Nje ... 

2) Athugasemd Hildu um Kamillu, að hún væri ekki nógu drottningarleg (Kamilla var tábrotin) var eflaust undirmeðvitundin að hatast við vondu stjúpuna sem við vitum öll að hefur verið til frá tímum bæði Mjallhvítar og Öskubusku.

3) Mér finnst réttara að segja fólki að snæða óhreinindi en að éta skít. Mig langar líka rosalega mikið í matarstell (hef aldrei átt slíkt), það má alveg vera úr gulli eða með gullrönd. Ég er fædd í þetta.

 

Þegar ég gekk á Ellen frænku varðandi þetta og sýndi henni sönnun þess að hún væri prinsessa hló hún bara og sagði: „Ja, hérna, við erum bara svolítið líkar.“ Þetta svar hennar kom mér ekkert á óvart, heldur fullvissaði mig um að mínar kenningar væru réttar. Fólk í þessari stöðu hefur lært að neita fram í rauðan dauðann. Vá, hvað þessi helgi á eftir að fara í frekari rannsóknarvinnu og sannanaleit.

 


Falsspákonan og undarlega þenkjandi leikjahönnuðir

GervispákonanÍ fyrrakvöld borðaði ég með hópi skemmtilegs fólks, allra þjóða kvikindum. Einhverjir voru með símana á lofti, ofsaglaðir eins og við erum á haustin eftir að samkvæmislíf vetrarins er farið af stað. Ég var bláklædd og mjög fín og sæt, að ég hélt, en þegar ég sá myndina á sameiginlegri fb-síðu hópsins áttaði ég mig á því að ekki bara ljósmyndir bæta á mann kílóum, heldur líka litir, blár er greinilega mjög skæður. „Ég kála þér ef þú merkir mig á þessa mynd!“ sagði ég blíðlega en ákveðið við myndasmiðinn. Ef merkt, þá myndu myndirnar ógurlegu sjást á minni eigin síðu og ég missa allan séns. Héðan í frá verð ég svartklædd á mannamótum, eða fæ að taka myndirnar þar sem fegurð mín festist hreinlega ekki almennilega á filmu. 

Ég var enn hissa við heimkomu og ákvað að leita til net-völvunnar minnar, hirðspákonunnar, véfréttarinnar, eða hvað hægt er að kalla hana. Og spurði nánast harmþrungin: „Véfrétt, véfrétt, tjáðu mér, hver á landi grennst er hér.“ Véfréttin sem ég er eiginlega hætt að treysta, maður á líka ekki að trúa á svona, spýtti út úr sér svarinu á núll einni: Guðríður, þú þarft að léttast (sjá mynd). Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ekkert: Þú lítur mjög vel út og ert mjög grönn miðað við marga, og svakalega ertu sæt í ljósbláu en nei, engin góðvild (sem vonda fólkið kallar meðvirkni). Bíði spábjáninn bara þar til ég leita næst ráða hjá henni. Eins og hún hún hefur oft verið sannspá ... Ég jafnaði mig nú fljótlega, minn eigin spegill segir að ég sé æðisleg og ég trúi því betur en ljósmyndum og falsspákonum.

 

Leikur...Fyrir kemur, meira að segja nokkuð reglulega að ég dett í að gera kapal í gemsanum mínum. Ekki síst í strætó á leið í bæinn, en oft líka heima. Nánast alltaf, þarf að afplána misleiðinlegar auglýsingar á undan hverjum leik sem er svo sem skiljanlegt því ekkert fæst ókeypis. Ég verð að hrósa íslensku auglýsingunum sem eru hógværar og fæstar æstar eða fáránlegar. Einna leiðinlegust er auglýsingin (útlensk) um leik sem fjallar um kóng sem þarf að bjarga frá því að deyja á hroðalegan hátt eða í einu borðinu; pissa í buxurnar. Honum mæta iðulega heilmiklar áskoranir og hindranir á leið á klósettið eða á ferð yfir brýr og slíkt sem við eigum að bjarga honum frá. Þessi auglýsing hefur reynt á þolinmæði mína árum saman og mér hefur dottið í hug að hlaða honum niður bara til að fá frið ... en þá heldur liðið að auglýsingarnar virki og það vil ég ekki. Nýjasta auglýsingin er líka um leik þar sem við eigum að bjarga einstæðri móður með unga dóttur. Þær líta báðar hræðilega illa út og eru alltaf grátandi og skjálfandi úr kulda og fátækt, betlandi peninga eða þurfa hjálp við að fá eldivið svo þeim hlýni og hávaðinn í tannaglamri þeirra hætti. Ég hélt að allir vissu hvað einstæðar mæður hafa það gott á öllum þessum bótum!!! Það var mér oft tilkynnt í gamla daga þegar ég lifði í þeirri blekkingu að ég hefði það frekar skítt. Þarna efst á myndinni er einhver sem fleygir í mæðgurnar smáaurum en sá sem stjórnar leiknum á að sjá til þess að stýra peningunum rétta leið, eða til þeirra. Brauðmolakenningin með millilið?

 

Eldum réttEldum rétt-máltíðin í gær leit ansi stórkostlega út, en sósan var ofboðslega sterk. Stráksi fór í sund og ég borðaði á undan honum (12-20 glugginn) svo ég gat varað hann við. Hann kallaði annað slagið: „Er eðlilegt að svitna af mat?“ Vá, þetta er hræðilegt, ég get ekki klárað.“

 

Og hann gat ekki klárað. Ég elska sterkan mat en úðaði í mig hrísgrjónum, brauði og melónum með til að deyfa bragðið en þar fyrir utan var þetta gott eins og allt sem ég hef eldað frá ER.

 

 

Í lægðinni nú um helgina hlakka ég til að bretta upp ermar í eldhúsinu og vinna t.d. með pestóið frá Önnu Mörtu (fæst í Hagkaup (og Krónunni sums staðar)) og er það besta sem ég hef smakkað, eða í raun eina búðarpestóið sem ég get borðað.

Í raun þarf bara að sjóða pasta og gera salat, svo sér pestóið um rest. Ég segi drengnum að ég hafi verið allan daginn að elda - of stutt eldamennska tengist því í hans huga að maturinn sé ekki góður.

Svo verður farið með vinum á Galito í kvöld en allar myndatökur verða stranglega bannaðar.

 

Myndin var tekin á hinni daglegu sigurstund í gærkvöldi - áður en kom í ljós hversu sterk sósan var.


Tábrotin Kamilla og mögulega upplognar matarhefðir

Harry og MeghanNýliðin vika fór ekki bara í spekulasjónir um furðulegt veðurfar á Íslandi miðað við árstíma, samanburð á milli ára í gegnum Facebook-myndir mínar, heldur fór athyglin að miklu leyti á Elísabetu II. drottningu og hinstu ferð hennar, nánast hvert skref afkomenda hennar og tengdabarna og tengdabarnabarna-barnabarna. Klökknaði eins og fleiri þegar kistan fór fram hjá uppáhaldshesti hennar, hundunum, og þegar sekkjapípuleikarinn hennar blés sína kveðju.

 

Mér finnst Kamilla ekkert drottningarleg,“ sagði Hilda um síðustu helgi bara til að eyðileggja stemninguna. Ég móðgaðist ekki beint en sagði kannski óþarflega hvasst: „Hún er tábrotin, slasaði sig rétt fyrir lát drottningar. Það hlýtur að vera erfitt að bera sig tignarlega með brotna tá.“ Ef systir mín skammaðist sín duldi hún það vel.

 

Daginn eftir útförina var nákvæmlega ekkert um drottninguna á Sky News svo ég fór að hlusta á tónlist við vinnuna og pirrast enn og aftur út í YouTube-tónlistarveituna fyrir að stoppa alltaf eftir nokkur lög og spyrja Viltu halda áfram? Ef ég borga mánaðargjald slepp ég kannski við það en veit það samt ekki. Já, mig langaði nú bara að vita hvernig afkomendum liði eftir þessa ótrúlegu daga, hvort Karl III. myndi flytja í höllina og leyfa pasta og hvítlauk sem mamma hans bannaði ... en þetta kemur allt í ljós með tímanum. Annars rakst ég á sitt af hverju skrítið þegar ég las ýmsar fréttir um Windsor-fjölskylduna sem allt var morandi af á Facebook. Því hefur verið haldið blákalt fram að allur skelfiskur sé harðbannaður innan veggja halla og kastala bresku hefðardúllanna. Svo renndi ég hratt yfir viðtal við fyrrum hirðkokk sem var spurður hvað fjölskyldan snæddi nú á aðfangadag (mig langaði bara að fá hugmyndir). Ég man ekki allt en get ekki gleymt því að eitt af fíniríinu var salat sem er ýmist með humri eða rækjum! Hmmm. Kannski er einhverju logið upp á þetta fólk. Hver veit nema Meghan sé ekki sá djöfull í mannsmynd sem Piers Morgan vill meina ... bara dæmi. Mér finnst matseðillinn hjá Hildu systur reyndar áhugaverðari þótt gott salat hljómi alltaf vel en hún er með ofnæmi fyrir skelfiski ... það er t.d. lamb og önd, tvær tegundir af kartöflum (hvítlauks og brúnaðar), hrísgrjónasalat a la London, tvær sósusortir og svo eitthvað vegangómsæti.

 

ÚtförEftir þessa royal-rússibanareið síðustu daga hef ég ákveðið að útgöngulagið í útför minni verði Útfararmarsinn (nr. eitt?) eftir Beethoven og eins gott að allir þrammi í takt. Og ef útför mín fer einhverra hluta vegna fram frá Westminster Abbey langar mig að biðja fréttafólk að hætta að segja: West-MINI-ster, (vestur-ráðherra) en að sjálfsögðu gera þetta alls ekki allir. Sá eða heyrði auglýsingu frá íslenskri húsgagnaverslun um WestminIster-stóla til sölu svo sennilega hefur þetta fengið að grassera óáreitt um hríð hér á landi, eins og orðið ungAbarn. Í gær eða fyrradag mátti heyra eitthvað á þessa leið í sjónvarpinu: „Næst á dagskrá er þátturinn Líf ungbarna þar sem fjallað verður um líf ungabarna ...“

 

BrúðkaupstertaSá húsgagnasmið kvarta sáran á netinu yfir því að kista drottningar hefði verið hulin með fána, en hún var smíðuð úr enskri eik (sjaldgæft) og eflaust mikil völundarsmíð. Ég er ekki sú besta í að gúgla svo ég gat ekki bjargað þessu, eins og um árið þegar bárust fréttir af eldgamalli tertusneið úr brúðkaupi Karls og Díönu, einhver hafði geymt hana og fréttafólkið nennti ekki að gúgla mynd af múmíu-tertusneiðinni, það gerði ég og birti hér á þessu bloggi og var sú eina. Lata fólkið birti nú bara mynd af Díönu og Karli.

Kakan seldist á 1.850 pund sem gerir tæplega 300 þúsund kr. íslenskar. Kakan sem ég fann á sínum tíma, eða mynd af henni, var ekki sú sem myndin er af hér (ávaxtakaka greinilega), svo mögulega voru fleiri svona tertusöludæmi í gangi. Jæks.

 

Samt, þetta veður ... Sumir vilja meina að þrá mín eftir almennilegu haustveðri hafi á einhvern hátt lækkað hitastig á landinu nú þegar september á bara viku eftir! og valdið roki og rigningu. Anna vinkona gleðst yfir því að það verði vorveður til jóla, skv. Einari veðurfræðingi. Hvar er Siggi stormur núna? Annars kvarta ég ekki, þetta er ljómandi fínt og mig langar sannarlega ekki í snjó og hálku.

 

Ef vinir mínir og vandamenn sætta sig við góðan storm annað slagið (og tilheyrandi brim) er ég alveg sátt við milt vorveður til jóla, eða bara langt fram yfir áramót - jafnvel enn lengur. Mæli svo um og legg á.


Gjöfult eða djöfult

HaustveðurHaustið lætur enn á sér standa og nánast með tár í augum hef ég með aðstoð Facebook rifjað upp æðislegt veður í september, skoðað spennandi myndir af veðurkortum og rifjað upp í huganum gæsahúðina sem oft brýst fram í sérdeilis góðu veðri, eins og ég túlka gott veður. Mig minnir að haustið 2013 hafi verið sérlega gjöfult upp á spennandi veður, eða djöfult eftir því hvernig á það er litið (hæ, Hilda og eiginlega allir sem ég þekki). En sumarið ríkir enn og viftur Himnaríkis við það að bræða úr sér.

 

Þetta svokallaða GÓÐviðri hefur nú samt haft margt skemmtilegt í för með sér ... eins og nánast fullt Himnaríki af gestum alla helgina. Á laugardeginum dró ég gestina með mér í bröns í Kallabakaríi, einfaldara en að vesenast í Himnaríki. Keypti eitthvað smávegis í leiðinni til að taka með heim sem kom sér sérdeilis vel þegar sunnudagsgestirnir komu. En, ef á að svíkja þetta með veggjöld og Hvalfjarðargöng, veit ég að gestakomum mun fækka, nema gjaldið verði þeim mun lægra. Fólkið mitt hugsar: Gómsætar kökur og geggjað kaffi hjá Gurrí, hægt að horfa á sjó og klappa sætum kisum og allt ... nei, það kostar þúsundkall í göngin, kaupi frekar salt í grautinn.

 

Karl drottningNú skil ég af hverju gjaldskýlið var ekki fjarlægt, það stóð sennilega aldrei til að fella niður þessa peningavél þrátt fyrir loforð um það þegar lánið væri uppgreitt eftir 20 ár (sumar 1997 - hausts 2017). Ef ég verð sérlega einmana eftir að gjaldtaka hefst og fæ leiða á öldugangi (sjúr) get ég svo sem alltaf flutt í bæinn aftur, eins og viss kona í vinahópnum sem sér lengra en nef hennar nær, vill meina að ég geri eitthvert árið. Þannig að maðurinn með fallegu röddina dettur sennilega út af þingi næst, nema komi eldgos og við gleymum öllu. Þegar ég fer að kunna sæmilega vel við hann (fyrir gjaldtöku-umræðu) rifja ég alltaf upp þegar hann þvingaði stofu tengda fiski til höfuðborgar Norðurlands ... Svona er ég nú langrækin en svona gera menn ekki ... Ég held að pólitískt gullfiskaminni mitt hafi horfið í Hruninu.

 

Vinkona mín leigði sumarbústað eina helgina ekki alls fyrir löngu til að halda upp á afmæli sitt, bauð vinafólki í mat og gistingu. Hún fékk áfall þegar henni barst bréf nokkru eftir heimkomu um að illa hefði verið þrifið, hún þyrfi að borga 20 þúsund krónur fyrir, stórhugguleg lögfræðihótun fylgdi að auki. Hún svaraði um hæl: Það getur ekki verið, ég starfa við að þrífa og skildi mjög vel við bústaðinn, endilega sendið mér myndir sem sanna að illa hafi verið þrifið - sem getur ekki verið! Hún fékk afsökunarbréf, auðvitað þyrfti hún ekki að borga aukagjaldið, þetta hefði verið misskilningur ... Kannski er viðkomandi verkalýðsfélag (ekki Akraness) almennt þreytt á slæmum þrifum og sendir sjálfkrafa reikning, ég vil ekki trúa því að þetta hafi verið gert af því að hún er útlensk.

 

Royal SabbathÉg horfði á alþingismenn og fleiri ganga frá Dómkirkju að Alþingishúsinu og skil ekki hvers vegna liðið stoppaði ekki til að taka í hendur á fólkinu sem beið hinum megin víggirðingar og jafnvel þiggja gjafir. Hefðardúllurnar bresku kunna þetta og hafa stórgrætt á því undanfarið, m.a. Paddington-bangsa, sultusamlokur og blómvendi - höllin hefur sent út neyðarkall, ekki meira, ekki meira, til að verði ekki rottufaraldur við höllina eða í henni. Hér á landi yrðu það mögulega flatkökur með hangikjöti eða kleinur, og lukkutröll í stað bangsa. Við erum svo aftarlega á merinni í öllu svona - nema mér skilst að þetta nálgist nú samt; að einhverjir fréttamenn í sjónvarpi hafi klæðst svörtu vegna andláts Elísabetar drottningar en ég sá það ekki og harðneita að trúa því. NEMA: Kannski erum við nýjasta nýlenda Stóra-Bretlands, maður veit ekkert hvað þessir þingmenn og ráðherrar gera í vinnunni. Það þurfti ekki nema tvo káta ráðherra um árið til að samþykkja að Ísland færi viljugt í stríð, svo það er aldrei að vita. Kemur svo sem á sama stað niður hvort Bretar eða Samherji græði sturlað á fiskimiðum okkar.

Við myndum án efa læra meiri kurteisi (hendum fyrst Piers Morgan westur um haf), við fengjum Harrods (súkkulaðið þar er of gott, prófið að fara niður í kjallara á Heathrow-flugvelli og í Harrods-búðina þar) og Shepherds Pie gæti leyst þverskorna ýsu af sem þjóðarréttur sem myndi gleðja mig mjög. En Christmas Pudding ... hann hefur fælingarmátt. Kerlingar á mínum aldri sem eiga allt ... hvað ætli ég fengi marga dunka af jólabúðingi löðrandi í brennivíni (til að íslenska kvikindið aðeins) í jólagjöf þegar ný menning héldi innreið sína? Samt ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 136
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 121
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband