Til skammar í skóbúð

SkóbúðinÁkaflega glaður drengur var skilinn eftir í Reykjadal í gær til helgardvalar en þar, eins og á Grensásdeild þar sem mamma dvaldi í skamman tíma einu sinni á síðustu öld, kemst starfsfólkið ekki í peysur fyrir vængjum. Þvílík starfsemi þarna í Reykjadal og stórkostlegt val á starfsfólki, og nú er hinn frábæri Haraldur búinn að láta rampa allt upp þar sem mun án efa skipta sköpum fyrir marga.

 

Við stráksi fórum í bæinn seinnipartinn á fimmtudag, áttum matarboð í Kópavogi um kvöldið. Á leiðinni út á stoppistöð sýndi drengurinn mér að stórt gat var komið framan á strigaskóna hans, alls ekki gamla, svo við þurftum að nota ferðina til skókaupa. Ég versla vanalega í heimabyggð en neyðin kom í veg fyrir það að þessu sinni. 

Við kíktum í skóbúð við Smáratorg í gær, á móti RL Magasín (Rúmfó) en þar er alltaf góð aðstoð (eins og í Nínu hér á Skaga og víðast hvar á Akranesi) og svo var frekar góð útsala líka, 40% afsláttur. Skórnir sem við fundum eru mitt á milli þess að vera vetrarskór og strigaskór og drengurinn svo hrifinn af þeim að hann tímdi ekki að fara í þeim í Reykjadal, heldur vildi frekar frumsýna þá í skólanum á mánudaginn.

 

Hilda varð mér til skammar og ekki í fyrsta sinn, þarna í skóbúðinni. Ég sagði eitthvað á þann veg: „Og fari það í rass og rófu.“ Eflaust verið að tala um fjársvelt heilbrigðiskerfið eða klíkukennt kvótakerfið ... Stráksi benti mér strax á að maður segði ekki rass en Hilda, í mótþróaþrjóskuskapi tjáði honum að allir væru með rass, og endurtók: „Rass, rass, rass, rass ...“ Ég ávítaði litlu systur mína blíðlega en af ákveðni og stráksi flissaði. Enginn skemmti sér þó betur en bráðmyndarlegur, ókunnugur karl sem stóð nálægt okkur og horfði græðgislega á systur mína, fannst hún greinilega algjört æði og brjálæðislega fyndin. Þessir karlar hafa engan áhuga á hefðarteprum eins og mér. Þess má geta að Hilda tók ekkert eftir aðdáuninni þannig að þarna fór góður biti í hundskjaft.

 

Ríki okkar HilduHegðun Hildu passar alls ekki við þá prinsessu sem hún er, eins og ég fann nýlega út, sjá færsluna: Ég vissi það ... ég vissi það, en sú færsla hafði gríðarlegar afleiðingar víða um heim. Og margar alveg óvæntar, fyrirgefðu, elsku Jóakim „frændi“. Mundu bara að við Hilda (sennilega Mía líka, hún ber nafn móður þinnar sem millinafn) höfum aldrei borið titla.

 

Mia gæti svo innilega tengst dönsku konungsfjölskyldunni blóðböndum, hún talar fína dönsku og meira að segja menntaði sig árum saman í Danmörku, einhver sterk bláblóðbönd þar? Kannski er Margrét að hreinsa til og losa um prinsa- og prinsessutitla svo Mía verði loks viðurkennd. Þar sem hefðardúllur eru meira og minna skyldar er alveg séns á því að við Hilda (sem erum skyldar henni) fáum að fylgja með ... Fyrirfram: Takk skal du ha, Deres Majestæt!

 

Hér er nýjasta sagan af svartasta sauðinum í hinum breska armi fjölskyldu okkar Hildu, hirðin er í losti, var mér sagt:

Meghan Markle lét nefna son sinn Archie en eitt sinn var til hljómsveit með þessu nafni sem sló í gegn með laginu Sugar, sugar, eða sykur, sykur, en sykur er eitt innihaldsefna í sítrónuköku. Sítrónur eru súrar, bitrar ... eða bitter upp á ensku og BITTER (bjór) er bruggaður af Samuel Smith (elsta brugghús í Yorkshire). The Smiths gerði garðinn frægan með laginu The Queen is Dead, eða Drottingin er látin. Meghan er svo fyrirsjáanleg.

 

Vestmannaeyjar vefmyndavélAhhh ... Nú man ég hvað það var sem gat farið í  rass og rófu, að mínu mati ... ég var að tala um vefmyndavélarnar á Seyðisfirði - sem eru óvirkar! Og hafa verið allt of lengi. Þar gat ég fylgst með Norrænu koma og fara. 

 

Eftir eldgos nr. 2 á Reykjanesskaga horfði ég oft á gosið í gegnum livefromiceland.is-vefmyndavéladæmið og þar uppgötvaði ég ótrúlega flottar vefmyndavélar - frá Vestmannaeyjum (og víðar). Ég get horft á Herjólf koma og fara og það oft á dag. Norræna sést bara vikulega. Þvílík dýrð! Ég verð að drífa mig fljótlega aftur til Eyja, það var svo gaman þar í sumar. Að sjá Eyjar æsir bara upp löngunina og ekkert vesen að komast til Eyja - strætó alla leið í Landeyjahöfn. 

 

Ég gleymi því samt aldrei þegar ég skrifaði til Seyðisfjarðar og spurði af hverju vélin þeirra lægi niðri sem hún gerði eitt árið fyrir löngu, og fékk ekki bara kurteislegt svar, heldur einstaklega ljúft bréf frá sjálfum bæjarstjóranum um að þetta yrði lagað, og það var lagað. Eflaust nýr kominn síðan þá - og mér finnst bara allt of nördalegt að skrifa aftur.

Ég er samt alls ekki óvinur Seyðisfjarðar, finnst bara að vefmyndavélarnar þar geti farið í rass og rófu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þetta fannst mér skemmtiegt.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.10.2022 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 254
  • Sl. sólarhring: 500
  • Sl. viku: 2660
  • Frá upphafi: 1458325

Annað

  • Innlit í dag: 208
  • Innlit sl. viku: 2215
  • Gestir í dag: 206
  • IP-tölur í dag: 201

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Siegfriedungjoy
  • Ótrúleg kvittun
  • Sjöundi maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband