Enn ein björgunartilraunin ...

hengistoll1Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um svefn og fannst svolítið sniðug ein aðferðin sem ég fann um hvernig gott væri að sofna hratt og vel, aðferð sem kennd er hermönnum sem hafa eiginlega ekki efni á því að liggja andvaka, eins og sagði í þeirri grein. Hún er fólgin í því að liggja á bakinu tilbúin til að fara að sofa, sem sagt, og byrja á því að slaka á í höfðinu, finna slökuna færast yfir, síðan hálsinn, þá aðra höndina, síðan hina, líkamann og að síðustu fæturna. Síðan á maður að finna í hugskoti sínu dásamlegan stað, ímyndaðan eða alvöru (ég enda alltaf hálfsofandi í kósí hengistól í hálftómri stofunni í Himnaríki - ímyndaðri). Mjög oft næ ég að sofna fljótlega upp úr því. Majór Gurrí ...

 

Að ná að slaka á er auðvitað algjör snilld en ég hef oft ætlað mér að læra alvöruslökun sem var vissulega í boði þegar hér á Akranesi var hægt að fara í rope-jóga (sakn). Hnén á mér þola ekki venjulegt jóga eftir slysið um árið (2008?) En um daginn, fyrir kannski viku, sá ég á netinu auglýstar ókeypis íslenskar hugleiðsluæfingar og setti inn netfangið mitt til að fá þær sendar í pósti. Vissulega hef ég ekki gefið mér tíma til að prófa þær frekar en visst námskeið á netinu sem krefst bara korters á dag og ég er búin að borga fyrir, nei, ég safna bara póstunum og ætla að gera seinna.

Svo fóru hugleiðslu-ekki-kaupin að vinda upp á sig. Fínasta tilboð um að kaupa lengri hugleiðslur, allt mjög eðlilegt, en svo í gær fékk ég póst: Guðríður, ertu tilbúin til að fyrirgefa? Fyrirgefa hvað? hugsaði ég sjokkeruð, móðgaði hugleiðslukonan mig kannski í hugleiðslunum sem hún hélt ranglega að ég væri búin að hlusta á og var að biðja mig afsökunar á því? Eða les hún bloggið mitt og upplifði að ég væri enn brjáluð út í Íslenska hollustu fyrir að taka Fasta af markaði, safann sem hélt í mér lífinu? Ég fékk þó á tilfinninguna að þetta væri fjöldapóstur til allra sem hefðu látið freistast af ókeypis hugleiðslum, og nú ætti aldeilis að taka okkur í gegn. Allir lúrðu á einhverju sem þeir væru fúlir yfir og nýi gúrúinn okkar ætlaði svo sannarlega að hjálpa okkur við að fyrirgefa og eflaust að takast á við margt fleira. Hentar örugglega einhverjum en ég upplifði þetta bara sem ónæði. Svo ég las ekki lengra, heldur fjarlægði mig af póstlistanum, hef engan tíma í svona eða áhuga og mun heldur ekki prófa þessar ókeypis hugleiðslur fyrst þær voru bara tæki til að komast að mér og „bjarga sál minni“. Ég var búin að gleyma því að fæst er ókeypis í veröldinni og þessi kona bara að búa sér til atvinnu - og svo óheppin að lenda á grömpí kerlingu eins og mér.

Ég hef áður lent í líkamlegri björgunartilraun og svaraði könnun á Facebook um hvað ég fengi mér í morgunverð en það reyndist vera dulbúin Herbalife-auglýsing og nokkuð ónæði sem fylgdi í kjölfarið. 

Ég mun seint fyrirgefa þennan fyrirgefningarpóst, hann fer beint í minnisbankann með morgunverðarvenju-blekkingunni og Fasta-skortinum ...

 

GalitoferðVið skruppum saman nágrannakonurnar á Galito á föstudaginn. Stráksi kom auðvitað með og átta ára sonur hennar.

Við skiptumst alveg í tvennt; stráksi og hún fengu sér steikarsamloku (með salati) og við sonur hennar völdum okkur sushi, hann með frönskum! Ég var yfir mig hrifin af þessu vali drengsins, þekki ungt fólk yfir þrítugt sem er enn of ungt til að gefa sushi séns, en ungi smekkmaðurinn hafði þó, að sögn móður hans, engan áhuga á sushi á meðan hann bjó úti í Úkraínu þar sem það kostaði svo miklu minna, þrefalt minna.

Á leiðinni út í Galito mættum við strák með ís og ég lofaði að bjóða strákunum upp á slíkt eftir matinn, enda í leiðinni.

 

Má bjóða ykkur eftirréttaseðil? spurði yndislega stúlkan á Galito eftir matinn. „Nei, takk, við ætlum að kaupa ís í sjoppunni,“ sagði stráksi, alltaf hreinskilinn. Um leið sagði ég eitthvað á þá leið: „Nei, takk, við erum pakksödd eftir þennan góða mat.“ Svitlana er orðin svo góð í íslensku að hún skildi þetta og flissaði. Nú hafa sumir fengið kennslustund í því að særa ekki starfsfólk á veitingahúsum með óþörfum upplýsingum.

 

Myndin/sjálfan hér ofan sýnir okkur fjórmenningana og Snata á Galito. Með flottari sjálfum sem ég hef tekið. Ef myndin prentast vel má sjá Krónuna, Pennann, bókasafnið, Subway, Íslandsbanka, Lindex, Omnis og tónlistarskólann í baksýn. Og fullt af bílastæðum ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 80
  • Sl. sólarhring: 199
  • Sl. viku: 2322
  • Frá upphafi: 1456618

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 1934
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband