Falsspákonan og undarlega þenkjandi leikjahönnuðir

GervispákonanÍ fyrrakvöld borðaði ég með hópi skemmtilegs fólks, allra þjóða kvikindum. Einhverjir voru með símana á lofti, ofsaglaðir eins og við erum á haustin eftir að samkvæmislíf vetrarins er farið af stað. Ég var bláklædd og mjög fín og sæt, að ég hélt, en þegar ég sá myndina á sameiginlegri fb-síðu hópsins áttaði ég mig á því að ekki bara ljósmyndir bæta á mann kílóum, heldur líka litir, blár er greinilega mjög skæður. „Ég kála þér ef þú merkir mig á þessa mynd!“ sagði ég blíðlega en ákveðið við myndasmiðinn. Ef merkt, þá myndu myndirnar ógurlegu sjást á minni eigin síðu og ég missa allan séns. Héðan í frá verð ég svartklædd á mannamótum, eða fæ að taka myndirnar þar sem fegurð mín festist hreinlega ekki almennilega á filmu. 

Ég var enn hissa við heimkomu og ákvað að leita til net-völvunnar minnar, hirðspákonunnar, véfréttarinnar, eða hvað hægt er að kalla hana. Og spurði nánast harmþrungin: „Véfrétt, véfrétt, tjáðu mér, hver á landi grennst er hér.“ Véfréttin sem ég er eiginlega hætt að treysta, maður á líka ekki að trúa á svona, spýtti út úr sér svarinu á núll einni: Guðríður, þú þarft að léttast (sjá mynd). Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ekkert: Þú lítur mjög vel út og ert mjög grönn miðað við marga, og svakalega ertu sæt í ljósbláu en nei, engin góðvild (sem vonda fólkið kallar meðvirkni). Bíði spábjáninn bara þar til ég leita næst ráða hjá henni. Eins og hún hún hefur oft verið sannspá ... Ég jafnaði mig nú fljótlega, minn eigin spegill segir að ég sé æðisleg og ég trúi því betur en ljósmyndum og falsspákonum.

 

Leikur...Fyrir kemur, meira að segja nokkuð reglulega að ég dett í að gera kapal í gemsanum mínum. Ekki síst í strætó á leið í bæinn, en oft líka heima. Nánast alltaf, þarf að afplána misleiðinlegar auglýsingar á undan hverjum leik sem er svo sem skiljanlegt því ekkert fæst ókeypis. Ég verð að hrósa íslensku auglýsingunum sem eru hógværar og fæstar æstar eða fáránlegar. Einna leiðinlegust er auglýsingin (útlensk) um leik sem fjallar um kóng sem þarf að bjarga frá því að deyja á hroðalegan hátt eða í einu borðinu; pissa í buxurnar. Honum mæta iðulega heilmiklar áskoranir og hindranir á leið á klósettið eða á ferð yfir brýr og slíkt sem við eigum að bjarga honum frá. Þessi auglýsing hefur reynt á þolinmæði mína árum saman og mér hefur dottið í hug að hlaða honum niður bara til að fá frið ... en þá heldur liðið að auglýsingarnar virki og það vil ég ekki. Nýjasta auglýsingin er líka um leik þar sem við eigum að bjarga einstæðri móður með unga dóttur. Þær líta báðar hræðilega illa út og eru alltaf grátandi og skjálfandi úr kulda og fátækt, betlandi peninga eða þurfa hjálp við að fá eldivið svo þeim hlýni og hávaðinn í tannaglamri þeirra hætti. Ég hélt að allir vissu hvað einstæðar mæður hafa það gott á öllum þessum bótum!!! Það var mér oft tilkynnt í gamla daga þegar ég lifði í þeirri blekkingu að ég hefði það frekar skítt. Þarna efst á myndinni er einhver sem fleygir í mæðgurnar smáaurum en sá sem stjórnar leiknum á að sjá til þess að stýra peningunum rétta leið, eða til þeirra. Brauðmolakenningin með millilið?

 

Eldum réttEldum rétt-máltíðin í gær leit ansi stórkostlega út, en sósan var ofboðslega sterk. Stráksi fór í sund og ég borðaði á undan honum (12-20 glugginn) svo ég gat varað hann við. Hann kallaði annað slagið: „Er eðlilegt að svitna af mat?“ Vá, þetta er hræðilegt, ég get ekki klárað.“

 

Og hann gat ekki klárað. Ég elska sterkan mat en úðaði í mig hrísgrjónum, brauði og melónum með til að deyfa bragðið en þar fyrir utan var þetta gott eins og allt sem ég hef eldað frá ER.

 

 

Í lægðinni nú um helgina hlakka ég til að bretta upp ermar í eldhúsinu og vinna t.d. með pestóið frá Önnu Mörtu (fæst í Hagkaup (og Krónunni sums staðar)) og er það besta sem ég hef smakkað, eða í raun eina búðarpestóið sem ég get borðað.

Í raun þarf bara að sjóða pasta og gera salat, svo sér pestóið um rest. Ég segi drengnum að ég hafi verið allan daginn að elda - of stutt eldamennska tengist því í hans huga að maturinn sé ekki góður.

Svo verður farið með vinum á Galito í kvöld en allar myndatökur verða stranglega bannaðar.

 

Myndin var tekin á hinni daglegu sigurstund í gærkvöldi - áður en kom í ljós hversu sterk sósan var.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mæli með því að drengjum sé kennt að elda, því það er ekki sniðugt að vera fullorðinn karlmaður sem ekkert kann fyrir sér í eldhúsinu.

Einn af mínum uppáhaldsveitingastöðum í Reykjavík er Ban Thai við Laugaveg og eitt sinn pantaði ég það sterkasta á matseðlinum, þannig að eigandinn kom úr eldhúsinu og spurði:

"Ertu viss um að þú viljir þetta?!" cool

Ég hélt nú það en var eins og eldspúandi dreki þar til ég kláraði af diskinum.

En besti veitingastaðurinn í Reykjavík er að mínu mati Austur-Indíafjelagið við Hverfisgötu og alltaf gaman að spjalla þar við indversku þjónana, sem ég hef þekkt núna í mörg ár.

Þorsteinn Briem, 23.9.2022 kl. 15:38

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Allt of mörg ár síðan ég fór síðast á Austur-Indíafjelagið ... svakalega góður matur þar. Þarf að prófa Ban Thai - ekki það sterkasta samt. 

Guðríður Haraldsdóttir, 23.9.2022 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 84
  • Sl. sólarhring: 186
  • Sl. viku: 2326
  • Frá upphafi: 1456622

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1938
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband