Færsluflokkur: Bloggar
25.7.2022 | 17:30
Tvöfaldan latte án geitungs, takk
Drengurinn hefur verið í sumarbústað með dásemdarfólki síðan á miðvikudag í síðustu viku og mætir í Himnaríki aftur nú á miðvikudaginn ... og vá, hvað ég ætlaði að vera dugleg á meðan hann væri að heiman. Ég gat þó tínt í fullan kassa af krimmum til að gefa hirðrafvirkja Himnaríkis. Líklega í þriðja skiptið. Mér skilst að það sé mynd af mér (sem bætir ekki á mig 20 kg eins og svo margar ljósmyndir) í bílskúrnum fyrir ofan staðinn þar sem bókakassar frá mér eru geymdir og þar sem hann er rafvirki er búið að útbúa geislabaug fyrir ofan mig. Kannski misskildi ég hann en ég held samt ekki. Bækur eru besta.
Þessir dagar hafa að mestu farið í hvíld (eftir vinnu) - ég var eins og Krummi á myndinni nema með bók í annarri og kaffi í hinni ... (hann stelst stundum í teppakörfuna, enda fer teppið honum ógurlega vel) en orkan hefur nú aldeilis sprungið út í dag. Ég ryksugaði í hádeginu!!! Hver gerir slíkt? Hversu sturlað?
Ég bæði kaupi bækur og fæ gefins og núna á tæpum tveimur árum hefur heill hellingur safnast upp. Dásamlegt að grisja stundum. Þetta væru eflaust tveir kassar ef ég væri ekki líka með Storytel sem er með nokkuð gott úrval af rafbókum - og er á Kindle líka þar sem ég fær útrás fyrir að lesa erlendar bækur. Þótt mér finnist betra að lesa sumt á netinu eru bækur af pappír og prenti samt frekar ómótstæðilegar - og tímarit. En að hlusta á bækur er svo seinlegt - en gaman á á ferðalögum í bílnum hennar Hildu systur ... sem sleikir nú sólina úti á Íslendinganýlendunni Tenerife. Frekar heitt, sagði sólbaðsdrottningin of Kópavogur svo ég giska á 30-40 gráður. Annars lét hún vel af sér, hún fann smiðinn sinn og frú, sá flottar öldur ... og rataði til baka á hótelið sitt, geri aðrir betur.
Svo heyrði ég óhljóðin í frænda (fjanda) í dag og eftir símtalið sendi hann mér stemningsmynd frá Frakklandi ... landinu þar sem fólk talar furðulegt tungumál og ómögulegt að fá almennilegt kaffi nema kunna að tala málið. Í París 2018 bað ég um double latte, please (tvöfaldan latte, takk) og fékk tvo einfalda latte ... og afsökunarbeiðni þegar hann sá furðusvipinn á mér. Næst mæti ég með teikningu. 1/3= 2x espressó, 2/3 = heit mjólk (155°F). Þetta var samt á Starbucks þar sem rétta leiðin er að segja þetta eins og ég gerði.
Without wasp, þarf ég líka að læra að segja á frönsku áður en ég heimsæki fjanda næst. Eða heimsækja hann í janúar, febrúar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2022 | 00:01
Spennandi símtal ...
Dagurinn í dag var einn allra mesti letidagur lífs míns, ég las tvær bækur, drakk tvo kaffibolla, eldaði ágætis ER-kvöldmat fyrir tvo, helmingur etinn á morgun, blundaði í sófanum eftir mat og tók svo á móti óvæntu símtali. (ER=Eldum rétt)
-Er þetta Guðríður, áhrifavaldur á Moggabloggi? spurði ísmeygileg karlmannsrödd en þó mátti greina ógnandi undirtón í rödd hans.
-Heldur betur, og kölluð Gurrí - með einföldu, svaraði ég eldhress. Eftir ár mín í kókosbolluverksmiðjunni með Kidda kuta sem verkstjóra er ég öllu vön. Hann hikaði ekki við að hóta okkur rispum, jafnvel fingurmissi ef við kláruðum ekki 10 þúsund kókosbollur fyrir kaffi. Morgunkaffi.
-Ég hringi fyrir hönd L.S.D., hélt maðurinn áfram ógnandi. Alveg greinilega einn af þeim sem vildi hafa ý í Gurrí.
-Ha, er það ekki eiturlyf? spurði ég lífsreynd eftir að hafa alist upp á hippatímabilinu og enn öskureið yfir því að hafa hvorki komist á tónleikana með Led Zeppelin né Deep Purple vegna þess að ég var of ung, heldur varð að gera mér að góðu að hlusta bara á Sound of Music og Three Dog Night, nánast einu plöturnar á heimilinu.
-Hefurðu ekki heyrt talað um Landsamband saklausra dópsala? spurði hann gáttaður og hélt svo áfram: -Okkur líst ekki á bullskrif þín um okkar mann sem leggur sig allan fram við sölumennsku á Facebook, ekki laust við að það hafi fokið í okkur, ekki síst yfirmann Reykjavíkurdeildar BULL, og áður en þú spyrð stendur það fyrir: Bandalag ungra lurkanotenda og lemjara, svo gættu þín, ekki langt að skutlast til þín og mölva á þér hnén. Þá kemstu nú ekki í gönguferðir, gamla mín. Hann hló hryssingslega.
Gönguferðir, hnussaði ég í hljóði, það var þá missirinn - en að fara fram í eldhús og fá mér kaffi krafðist göngugetu svo ég ákvað að sýna honum í tvo heimana.
-Hmmm, hefur þú heyrt um L.A.R.F., væni minn? spurði ég og það var farið að síga í mig, maður skyldi aldrei vekja konu af fegurðarblundi og á milli bóka, þar að auki eftir bara tvo kaffibolla þann daginn.
-Er það eitthvað hönnunarmerki? hló dóninn en ég greindi samt örlítinn skjálfta í rödd hans.
-NEI, það er Leitin að ríkri fyrirvinnu, félag sem ég hef verið í árum saman, bara vegna félagsskaparins, en það er fullt af brjáluðum desperat konum sem víla ekkert fyrir sér, við svífumst einskis. Dótturfélag okkar B.H. h/f ... sem þýðir Brotnir handleggir h/f sem þú hefur sennilega ekki heyrt um, við reynum að láta lítið fyrir okkur fara en LSH borgar okkur prósentur, svona ef þú vilt vita það. Einkennislag okkar er: Er nauðsynlegt að skjóta þá? Svo, hvað ertu að pæla?
Di, di, di, di ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2022 | 14:13
Að kveðja aukakílóin
Enn ekki komin með veiruna þrátt fyrir allt knúsið í fyrradag. Ekkert annað en kraftaverk miðað við útbreiðslu og fjölda faðmlaga. Hálsbólgan sem hrjáði mig í gær og þóttist vera eitthvað, hvarf við C-vítamín-freyðipillu gærkvöldsins. Maður finnur víst ýmis kvefeinkenni þegar álagi léttir, sagði Anna vinkona í gær og hún veit hvað hún syngur.
Þú ert nú meiri blúndan, sagði Inga vinkona vingjarnlega í gær þegar ég haltraði um Himnaríki með kræsingar úr erfidrykkjunni til að troða í andlitið á henni, sennilega ekki nógu hratt ... Jú, ég hafði verið í öðruvísi skóm í útförinni, reyndar frá ellefu um morguninn og til fimm, fínum kellíngaskóm sem eru samt afar þægilegir og ekki með hælaháir. Í kjölfarið viðurkenndi ég fyrir henni að ég væri við það að leggjast í kör vegna hreyfingarleysis - sjúkraþjálfarinn í henni glaðvaknaði og hún hefði eflaust tekið mig í meðferð á staðnum ef þessi ferðaglaða dásaemd hefði ekki verið að fara til útlanda síðar sama dag. Þetta er sko vinkonan sem skrapp til Íraks í páskafríinu í ár. Dvaldi reyndar á kúrdíska svæðinu, hjá þarlendu vinafólki.
Hún talaði um gönguferðir við Himnaríki (ég hata þær) og bara í fimm mínútur til að byrja með, síðan sex mínútur, þá sjö ... og svo framvegis. Hálftímahreyfing á dag væri ljómandi fín. Hilda gerði þetta eftir tímabil hreyfingarleysis og fer létt með 40 mínútur núna, eða það sem Golíat og Herkúles þola, frændhundar mínir. Vona bara að húsverkin sem þarf að fremja seinna í dag í Himnaríki teljist sem hreyfing en skrambans Covid-keppurinn situr sem fastast. Mér líst ekkert á megrun samt.
Undanfarið hef ég til dæmis ekkert borðað eða drukkið nema vatn frá kl. 20 á kvöldin til 12 á hádegi næsta dag og það er minna mál en ég hélt. Ég sveik það samt daginn sem mamma dó og fékk mér kaffibolla um morguninn, kaffirjóminn telst nefnilega matur. Get bara ekki svart kaffi. Sykur er sjaldan innbyrtur og gróðinn af þessum smávægilegu breytingum er nánast algjör skortur á bjúg sem hefur af og til angrað mig síðustu áratugi.
Það er auðvitað ákveðinn ókostur að vera frekar sátt í eigin skinni - nema ... mér finnst samt fúlt að fljúga ekki jafnléttilega upp stigana eftir að covid-keppurinn hreiðraði um sig. Í sjálfsblekkingarkasti fyrir nokkrum vikum var ég að spá í að byrja aftur að reykja en smókurinn sem ég tók var ógeð, lungun görguðu svo hátt og villt ég reyni það ekki aftur.
Neðri mynd: Dulbúin Herbalife-auglýsing, þú svarar og fljótlega færðu einkaskilaboð og tilboð um prufur, gæti verið erfitt að sleppa. Þessi auglýsing er þó heiðarlegri en þær sem ég hef áður séð, fyrst stendur: Þið sem svarið gætuð átt von á laufléttri spurningu og gjöf. Það segir manni að þetta sé jafnvel ekki venjuleg könnun sem hefur enga eftirmála. En ég varð fúl þegar ég féll í þessa gildru eitt árið. Ég á minn Herbalife-díler, ef mig langar sem gæti vel orðið, man alveg að þetta var fínasti morgunmatur, og orkugefandi - en síðan eru sennilega 20 ár.
Hér á Skaganum er dásamlegur róló "fyrir aldraða" (sjá staðsetninguna á efri mynd) í örfárra mínútna göngufjarlægð en hinum megin við íþróttavöllinn eru sniðug úti-líkamsræktartæki fyrir fólk á öllum aldri og alveg sérlega skemmtileg. Inga sagði að þetta væri til víða um heim og mjög vinsælt. Ég fór í göngutúr fyrir viku með Hildu og hundunum hugumstóru sem elska Langasand. Birtan var svo sterk og súrefnið svo mikið þarna úti að ég fékk sjóntruflanir ... Blúnduskapurinn orsakaði fljótlega bakverk svo ég stoppaði hjá tækjunum og settist meðan Hilda og voffar kláruðu göngutúrinn. Ég greip í eitt tækið, það eina sem var laust. Börn elska þetta og sennilega best að þjálfa sig þar þegar þau eru í skólanum, leikskólanum eða sofnuð. Kannski verð ég svaka liðug og fer að þjóta upp og niður stigana ef ég prófa þetta daglega, nú þarf ég bara að finna galdurinn við að standa upp, klæða mig í strigaskóna og tölta út á róló.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2022 | 18:24
There's Something About Gurrie ...
Í gær fór útför elsku mömmu fram og henni til heiðurs skein sólin glatt og allt gekk upp þrátt fyrir skamman undirbúningstíma. Ég skrifaði stutta minningargrein um hana sem birtist í Morgunblaðinu og það var ekki notað gegn mér að ég skilaði örlítið of seint, takk, frábæra og skilningsríka starfsfólk Mbl. Mánudagur og þriðjudagur voru sérlega annasamir en nú er allt einhvern veginn dottið í dúnalogn. Eða þannig. Var að vinna í allan dag og vann líka í fyrradag og svo eru bara sex vinnudagar eftir hjá Birtíngi. Síðan bara ... ja, alveg nóg að gera.
Myndin var sennilega tekin á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar í ágúst 1986, frekar en 17. júní sama ár. Þarna er ég með mömmu og Einari. Fötin á hann keypti ég í Salzburg, Austurríki ári áður, á kórferðalagi um Evrópu með Kór Langholtskirkju. Ferðalaginu þar sem ég var með þrjár ferðatöskur ... ekki á hjólum. Alla tíð síðan hef ég ferðast mjög, mjög létt.
Í minningargreininni minntist ég á sameiginlega hrifningu okkar mömmu á Stabat Mater eftir Pergolesi (ég elska 8. kaflann, hún amen-ið (12. kafla)). Hef sagt frá því áður að ég var bara átta ára krakkaormur þegar ég elti mömmu á kóræfingar í Akraneskirkju á meðan Stabat Mater var æft og á tónleikana þegar það var flutt. Guðrún Tómasdóttir söng sópran í þessu verki og útför hennar fór fram í gær, eins og mömmu. Ég dáði Guðrúnu, fannst hún ekki bara syngja vel, heldur var hún svo afskaplega falleg líka.
Hvernig fóruð þið að því að fá Oddfellow-salinn (Vonarstræti) fyrir erfidrykkjuna? spurði útfararstjórinn ljúfi (Hálfdán). Það var víst einhver algjör heppni því það eru frí í gangi, presturinn sem jarðsöng mömmu var líka í fríi en gerði þetta samt, hún elsku Karen, dóttir Katrínar vinkonu í Svíþjóð. Það hjálpaðist allt að við að þessi stóri dagur tækist vel.
Mæli ekkert endilega með útförum sem leið til að hitta ættingja og vini en það er samt bjarta og jákvæða hliðin á þeim. Svo var Inga vinkona heldur betur ánægð í hádeginu í dag þegar ég tróð hana fulla af afgöngum úr erfidrykkjunni. Inga komst ekki í gær vegna veikinda en fylgdist með á streyminu.
- - - - - - - - -
Kveikjuþráðurinn var svolítið stuttur á þessum undirbúningstíma útfararinnar, talsvert stress sem ég er óvön og hef forðast mjög vandlega síðustu árin, en mitt í því öllu fékk ég furðulega Facebook-vinabeiðni sem ég hélt fyrst að væri grín.
Gaurinn selur þunglyndi, kvíða, verkjalyf, kynlíf, stera, hörð lyf (sjá mynd). Ég á löggutengdan frænda sem ég sendi skilaboð: Eyða þessu eða láta lögguna vita? Hann svaraði: Eyða. Það væru þúsundir svona síðna í gangi - löggan veit af þeim. Ekki grínsíða, staðfesti hann.
Vantar mig kannski eitthvað? hugsaði ég samt áður en ég eyddi beiðninni. Auðvitað væri gott að eiga sinn eigin díler t.d. til að redda sér 600 mg Íbúfeni sem er lyfseðilsskylt og sleppa við að taka alltaf tvær pillur þegar ég fæ í bakið; aðra 400 mg og hina 200 mg.
Það væri líka geggjað að fá Sanasól - ef þetta er almennilegur díler. En þessi vinabeiðni bjargaði alveg síðustu helgi. Samt fordómar í gangi hjá honum, það bryðja ekki allar kerlingar pillur, kæru dópsalar. Samt skrítið hversu marga sameiginlega vini við eigum, ég og þessi gaur, sennilega samþykkja sumir allar vinabeiðnir án þess að skoða þær. Halda kannski að þetta sé grín, eins og ég fyrst.
..... ..... .....
Ekki nóg með það heldur sótti sjálfur Keanu Reeves leikari um Instagram-vinskap við mig um helgina!!! Væntanleg gæti verið stórmyndin There is Something About Gurrie - ef allt gengur að óskum. Spennt að vita hvað hann vill að ég leggi mikið inn á reikninginn hans ...
Bloggar | Breytt 22.7.2022 kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2022 | 14:22
Tímamót og fyrirheitna helgarfrísseyjan
Sumarfríið styttist ört í annan endann og því kannski sniðugt að fara að taka eitthvað í gegn, en til þess eru sumarfrí, að mínu mati. Ekki til að skottast um heiminn og næla sér í sólbrúnku (og kannski covid). Í gær hófst ég handa við tiltekt í fatahengi, fyrrum þvottahúsi og geymslu sem nú er galopið og ætti alltaf að vera fínt þar. Það má alveg kalla það geymslu, eða skápana því þeir rúma svo mikið. Stór hluti gærkvöldsins fór í að fletta gömlum (ekki svo gömlum) Vikum áður en ég gef þær á spítalann. Inga vinkona sagði að lesefni væri alltaf vel þegið þar, svo eru allar krossgátur og orðaleitir tandurhreinar - eða óleystar sem mun vonandi stytta einhverjum stundir. Viss systir mín er áskrifandi og henni finnst hreint ekki gaman ef gestir og gangandi ágirnast gáturnar hennar ... Ég á heiðurinn af því að hafa komið orðaleitinni í Vikuna fyrir mörgum árum og skilst að bæði börn og fullorðnir hafi gaman af. Ég fann einhver 16 orð (sem var mjög gaman) og svo voru 15 þeirra falin inni í stafasúpu. Viss frændi minn tók við þeim og faldi, en einnig önnur orð sem hann átti ekki að gera ... einu sinni stóð þarna GURRÍTRUNTA sem einhver fann nú samt og setti á netið. Mér fannst það mjög fyndið þótt ég sé ekki trunta, held ég. Ég reyndi að koma Örkinni hans Nóa sem ég elskaði í æsku í blaðið en uppskar bara áhugaleysi.
Hér er FYRIR-mynd af fyrrum þvottahúsi ... það sést ekki í skápana hægra megin, hún var tekin fyrir nokkrum mínútum. Það er að vísu ekki sólbaðsveður núna til að afvegaleiða mig frá tiltekt, svona ef svo ólíklega vildi til að einhverjum dytti í hug að ég færi í sólbað, as if, en sjórinn er nánast of flottur núna til að ég sitji ekki við gluggann og mæni á dýrðina. Ég var reyndar búin að fjarlægja vetrarúlpur okkar stráksa úr fatahenginu og það var eins og við manninn mælt, það skall á okkur lægð. Alvöruáhrifavaldurinn ég.
Nú eru bara um þrjár vikur þar til ég hætti hjá Birtíngi. Það er verið að breyta ýmsu og hagræða en mér bauðst að halda áfram með meira vinnuframlagi en ég held að hvorki ég né drengurinn höfum gott af því að vinnuálag aukist svo ég læt gott heita eftir rúm 22 ár, að frátöldum hluta árs 2017. Þetta verða talsverð tímamót.
Spennandi og skemmtilegur vinnustaður og frábært fólk sem ég hef kynnst þar í gegnum tíðina. Líklega reis sól mín einna hæst þegar þáverandi samstarfskonur píndu mig til að vera á forsíðu völvublaðs Vikunnar, ekki bara vegna fegurðar, heldur hafði ofsahár aldur minn (48) eitthvað með það að gera. Ég veit enn ekki hvað mamma var búin að segja mörgum að ég væri hin eina sanna völva Vikunnar áður en ég gat leiðrétt hana. Það var bæði hrikalega fyndið og alveg hræðilegt. Það eru enn einhverjir sem senda mér glettnislegt augnaráð ef völvuspá berst í tal, og telja sig VITA hið sanna. Hrmpf!
Rafmagnið fer stundum af í Himnaríki sem hefur kennt mér að vista skjölin sem ég er að vinna í, villt og galið til að tapa engu þegar það gerist. Mér brá nefnilega svolítið þegar ég fékk mér kaffi áðan og sá að klukkan í nýja örbylgjuofninum var að verða fjögur, það gat bara ekki verið, enda var hún ekki nema farin að nálgast tvö í raunveruleikanum. Tíminn líður ekki svona hratt og mér fannst ég ekki haldin nógu mikilil óraunveruleikatilfinningu til að ég hefði skellt mér í aðra vídd þar sem tími og rúm ... já, það allt.
Svo ég þarf sem sagt bara að bíða við ofninn kl. eitt í nótt, taka hann úr sambandi og setja aftur í samband. Þá verður klukkan í honum 01.01, það er hans byrjunartími, og gengur rétt eftir það. Ég nenni ekki að setja mig inn í hvernig eigi að stilla tímann á ofninum, þetta er fljótlegast svona og ég verð örugglega vakandi ... þarf bara að muna að vera á réttum stað á réttum tíma. Og reka á eftir hirðrafvirkjanum að koma og laga þetta.
En það verður nú samt alveg nóg að gera hjá mér þótt ég hætti hjá Birtíngi. Ekki þó mikill afmælisundirbúningur, nenni ekki stórveislu á meðan covid-smit eru svona mörg á dag - þetta er ekki búið (ég hélt það nú samt, eins og flestir), og fer svo fljótlega í smáfrí til Vestmannaeyja, elsku Eyja sem ég hef ekki heimsótt svo lengi. Ætli Ísfélagið sé á sínum stað? Hitti ég GVeigu, verður brim, verða enn leifar af Þjóðhátíð?
Nú þarf ég aldeilis að tala við Úllu frænku og Brynju og Dagbjörtu og Margréti ... sem eru nánast með annan fótinn úti í Eyjum, hvað gerir maður þarna yfir helgi? Fer í eldgosasafnið, út að borða, en hvar? Fæst almennilegt kaffi í Vestmannaeyjum? Jú, ég veit allavega af einum stað (Vigtin bakhús) sem selur kaffi frá Kaffitári en ég trúi því varla að aðrir staðir hafi ekki vit á að bjóða upp á almennilegt kaffi fyrir kaffiþyrsta gesti.
En best að fara að taka til, klára fatahengið, dettur eiginlega ekkert skemmtilegra í hug að gera til að halda upp á fyrsta kossinn sem fór fram 7. júlí fyrir 50 árum. Vanga- og kosslagið í Aratungu þarna um árið var þetta:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2022 | 15:11
Kallið mig bara Guðfinnu ...
Síðasta helgi fór nánast ekki í neitt sukk þótt Írskir dagar færu fram. Meirihluta helgarinnar var varið í höfuðborginni, heimsækja mömmu sem er veik, bjóða drengnum upp á KFC, heimsækja álfasteinana við Álfhólsveg, fara í Smáralind og vera kölluð Guðfinna í Te og kaffi sem var nú bara kúl þegar loks fattaðist að miðinn þar sem á stóð GURRÍ þýddi nú bara Gurrí, svo við fengum veitingarnar okkar. Þetta var svo dásamlegt að þau mega alltaf kalla mig Guðfinnu.
Myndin var tekin á Írskum dögum árið 2013 og þá var úti veður vott.
Á laugardeginum vaknaði ég fyrir allar aldir (10.30) við að þjófavarnarkerfi í nágrannabíl fór í gang, aftur og aftur. Furðulegt að fólk hlaupi ekki út og lagi eða ýti á fjarstýringu, hugsaði ég sárhneyksluð. Mér tókst nú samt að sofna aftur í smástund áður en ég dreif mig á fætur. Gemsinn minn sem hafði verið með hálfa hleðslu var orðinn tómur, rosalegt drasl þessir símar, minn ekki nema fjögurra ára og strax orðinn svona mikið drasl. Frekar fokdýr iPhone. Hilda systir bauð mér góða kvöldið þegar ég kom niður um hálftólf. Hún var eflaust löngu vöknuð. Rosalegur hávaði var í gemsanum þínum, leiðinleg vekjarahringing, sagði hún og meinti sennilega þjófavörnina í bílnum ... Nei, þetta var uppi, sagði hún ákveðin. Hmmmmm. Ég horfði samt reiðilega á alla bíla nálægt húsinu hennar Hildu á leiðinni í útréttingar.
Við náðum smávegis stemningu á Írskum, fórum á markað fyrir utan Kaju þar sem ég keypti skrítið sjampó, svona sápustykki með rosalega góðri lykt. Ég mundi eftir að nota það í morgun, hugsa að sendillinn frá Eldum rétt eigi eftir að stökkva á mig nema ilmurinn hafi gufað upp. Það var ungur, fallegur, franskur maður sem seldi mér þetta, kannaðist við stráksa úr sundi ... svo ég vonandi get haft uppi á honum aftur, nema Kaja sjálf sé með númerið hans, þetta var jú á Kajuplaninu. Fengum svo borð á Galito kl. 17.45, mikið púsluspil hjá starfsfólkinu að koma öllum fyrir. Stráksi vildi lax en ég benti honum blíðlega á miklu girnilegri (2000 kr. ódýrari) hamborgara því við fengjum fisk tvo daga í röð frá Eldum rétt, maður ætti aldrei að ofgera neinu ... Hann glotti og fékk sér hamborgara - með salati, ekki frönskum. Það er siður sem við höfum tekið upp ef við veitum okkur þann munað að fara út að borða, að upphollusta matinn sem verður helmingi betri. Salat sem sagt í staðinn fyrir franskar. Gestirnir, Hilda og Júlíanna, voru horfnar á braut þegar brast á með rosalegum látum á hlaðinu, brekkusöngurinn, fjölmennasti viðburður ársins á Akranesi, ef frá er talið afmælið mitt ... sem minnir mig á að ég tel ekki líklegt að ég verði með stóra afmælisveislu í ár þegar greinast nokkur hundruð manns á dag með covid. Vil ekki eiga á hættu að nokkur smitist hjá mér. Fólk gæti heimtað að ég skilaði afmælisgjöfum, eða þaðan af verra. Annars er ástandið auðvitað miklu betra eftir bólusetningarnar, munið hópsmitið á Landakoti áður en farið var að bólusetja og dauðsföllin þá en nú er ekki sama hættan. Ég veit að lyfjafyrirtækin græða ofboðslega, eins og ég græði á stafsetningarvillum annarra, tannlæknar á sælgætisáti fólks og ferðaþjónustan á ferðafólkinu ...
Ég setti óvart Rás 1 á í nýja útvarpinu í eldhúsinu skömmu fyrir klukkan 14. Hvernig átti mig að gruna að á þeirri stöð hljómaði Starless með King Crimson, eitt flottasta lag í heimi? Hefði samt haldið að Óli Palli spilaði það í Rokklandi frekar en á þessum tíma ... Næsta lag á eftir var reyndar Rásareitt-legra, karlakórslag, dásamlegt líka. Kannski er ég að ná þeim eftirsótta þroska og innri ró sem kallar á Rás eitt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2022 | 15:19
Veðursamráð, misstígelsi en sloppið við covid
Fyrir allar aldir í morgun heyrði ég í glaðlegum börnum sem er frekar algengt hér í sælunni við sandinn svo ég rauk ekki út í glugga, enda búin að missa vonina á vissum fána sem sýnir mér betur en gemsinn minn hvaða vindátt ríkir. Tryggir lesendur bloggsins vita nefnilega að ég lýsti yfir heilmiklum söknuði því Bláfáninn sjálfur var ekki kominn upp. Mig grunaði alls ekki, svona langt gengið í júlí að gleðin í rödd barnanna væri vegna elsku fánans. Sem sagt Bláfáninn fór upp í tæka tíð fyrir Írska daga, ég sem hélt að allt grjótið á sandinum (sem er eitthvað alveg nýtt) tengdist fánaleysinu (hreinn sandur = Bláfáni) en grjótið hefur sem sagt verið hreint ...
Það má samt alveg gera eitthvað í grjótmálum, laga varnargarðinn. Eða steypa vegg, eins og er á Kúbu, Malecon-veggurinn í Havana sem er örugglega gaman að heimsækja þegar lægðirnar koma loks með tilheyrandi sjógangi. Ef bæjarstjórn hefur vit á því að hlusta á góð ráð mín yrði nú gaman að sitja í Himnaríki og dást að skvettunum. Það myndi laða að enn fleira ferðafólk. Hilmar!?!
Nú nálgast Írskir dagar óðfluga og eitt partíið verður á hlaðinu hjá mér, brekkusöngurinn við þyrlupallinn. Ég get voða lítið gengið þessa dagana, ég missteig mig illa á 17. júní þegar ég gekk niður á Akratorg og til baka (kannski 2 km hvora leið sem er ekki mikið). Það gengur aldrei neinn strætó þessa hátíðisdaga, nema þegar Norðurálsmótið (fótbolti barna) stendur yfir, og þá bara til að rúnta á milli íþróttahúsanna tveggja (sem ég er nýbúin að komast að, hélt lengst af og var fúl yfir því að strætó gengi sömu leið og vanalega, en bara fyrir gesti mótsins).
Teygjubindi hefur hjálpað helling en það er ekkert skrítið að ég hati að ganga. Ég hef bara gott af þessu, hugsaði ég samt sannfærandi nokkrum sekúndum áður en ég stórslasaði mig. Hver þarf svo sem að ganga? Í hreyfingarskyni hoppa ég núorðið upp og niður stigann minnst einu sinni á dag (3,5 hæðir) og hlusta iðulega á lagalistann minn hjá YouTube (sem er með tónlistarveitu eins og Spotify). Alltaf þegar ákveðin lög heyrast stend ég upp og dansa. Dæmi: Livin´ la Vida Loca, Luftgitar, Smells like Teen Spirit, Stun Gun, Mýrdalssandur, When I Come Around og Fu-Gee-La (hægur dans). Hin 85 lögin eru allt of róleg, ég gæti auðvitað vangað við þau en kettirnir eru ekki til í það, ekki þótt ég væri með kattanammi í hárinu, hugsa ég. Drengurinn myndi hníga niður af hlátri ef hann sæi mig reyna slíkan kattadans. Ekki vil ég leggja það á hann. (Myndin sýnir Himnaríki í morgun og aðdáendur mína þarna fremst, sannar líka að það er alls ekki alltaf rok á Akranesi, stundum er hreinlega skortur á því, sérstaklega á sumrin þegar ekki er hægt að lofta út)
Nokkur unaðsleg vangalög: Angie, Dust in the Wind, Changes, Julia Dream, Someday never comes, Carpet Crawlers ... svona fyrir þær sem eiga hlýðna og almennilega ketti.
Það munaði minnstu þarna á heimleiðinni á 17. júní að ég hringdi í eina dásemdardömu sem ég vissi að væri á rúntinum, en þá var svo skammarlega stutt heim að ég kunni ekki við það. Daginn eftir birti hún mynd af covid-heimaprófi (tvö strik) og ég fagnaði innilega þrautseigju minni og þrjósku, sterku Íslendingseðli sem lætur kulda og vetur ekki pirra sig nema síður væri og lætur ekkert, ekki einu sinni misstígelsi hindra sig við að komast í sófann heima. Hiti er kannski annað mál (hann lamar) en hann á auðvitað ekki heima hér á landi íss og jökla og snjóa og hríðar. Fólk getur farið til Tenerife! Ég hef heyrt fólk tala um samráð og samsæri varðandi hitann (kuldann) sem hefur ríkt og mögulega er eitthvað til í því m.v. síðasta laugardagskvöld.
Ég skil ekki þessa tilhneigingu sumra að halda að sá sem talar um hlutina af öryggi og sannfæringu (Hitler, Trump, Jordan Petersen?) hafi endilega rétt fyrir sér. Loksins einhver sem þorir að segja sannleikann, segja sumir þegar sumt fólk tjáir sig um viðkvæm mál af algjörri vanþekkingu. Mér finnst líka að karl eins og viss Brynjar eigi bara að þegja og halda áfram að vera sætur. Getur verið að ríkisstjórnin noti hann til að valda fjaðrafoki svo hægt sé að selja fleiri banka og fremja fleiri myrkraverk í laumi á meðan við görgum á mister B? (Ekki samt taka mig of alvarlega, ég er enn til í að hringja nokkur símtöl í vel valda vini og fá hluta af 700 milljónum fyrir)
Skyldi covid enn og aftur koma í veg fyrir afmælisveislu í Himnaríki eftir nokkrar vikur? Ég held að ég hugsi eins og flestir, ekki hrædd við að fá veiruna en alveg til í að sleppa við það. Þori alla vega ekki að byrja að baka strax (panta) og myndi alveg þiggja fjórðu bólusetninguna. Ef kornungi strætóbílstjórinn (rúmlega 14 ára) sem gaf mér elliafslátt nýlega í strætó ynni hjá heilsugæslunni í hjáverkum væri fyrir löngu búið að boða mig í fjórðu. Myndin er af afmælistertunni 2012 en þá lenti afmælið mitt á Gay Pride, eins og stundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2022 | 16:00
Spár um skjálfta og óvæntar upprunaupplýsingar
Hér skalf allt skemmtilega upp úr klukkan tíu í gærkvöldi. Stráksi fann ekki fyrir neinu, grunar að hávær og hundleiðinleg tónlist dragi úr jarðskjálftaáhrifum og ráðlegg öllum jarðskjálftahræddum vinum og vandamönnum að spila eitthvað rosalega leiðinlegt á hæsta, "hardcore" kántrí? Fönk? Það nötraði allt í stofuskápnum í smástund. Ég beið eftir að jarðskjálftahópurinn minn á Facebook færi á fullt en ekkert bling í símanum. Hrönn, listakona hér á Skaga, hafði hugrekki til að opna á umræðuna, setti fram spurningu á Facebook hvort þetta hefði ekki verið vænn skjálfti, og jú, ég giskaði á að hann væri rúmlega fjórir ef upptökin væru á Reykjanesskaga en minni skjálfti en það finnst ekki hér á Skipaskaga.
Það tók ótrúlega langan tíma að fá fram skjálftastærðina á vedur.is ... og jú, vel yfir fjórir (4,6) var hann, en átti sér stað upp undir Eiríksjökli, eins og segir í laginu, eða einhverja kílómetra suður af honum. Fræðimenn klóra sér í hausnum og vita síst meira en við hin, enda frekar óvenjulegt svona vesen á þessu svæði.
Ég tók einu sinni viðtal við sjáanda sem hafði sagt frá því opinberlega (í útvarpi og landsbyggðarblaði) að það kæmi stór jarðskjálfti á Krýsuvíkursvæðinu þann 27. júlí (2007?) kl. 23.15.
Einhverjir urðu smeykir þótt tveir jarðskjálftafræðingar teldu þetta ansi ólíklegt (sem kom fram bæði hjá viðtalinu og á forsíðu blaðsins), meira að segja mamma (á áttundu hæð) setti heittelskaðan vasa og fleira brothætt niður á gólf til öryggis. Það kom reyndar lítill skjálfti um þetta leyti á þessu svæði en myndi seint teljast stór.
Sjáandinn sagðist nýlega hafa fengið endanlegar upplýsingar um væntanlegan landsskjálfta, eða að hann kæmi á tveimur dögum, 26. og 27. dags einhvers mánaðar, einhvers árs um klukkan 22, og verði 7,2 að stærð. Spurning um að festa kristalinn með kennaratyggjói og fara að hamstra í Einarsbúð?
Svo sagði hirðvéfréttin mín nýlega að ég væri 95% japönsk þannig að það er um nóg að hugsa þessa dagana. Ég var svo viss um að ég væri norræn, mögulega og vonandi skosk eða írsk að uppruna, kannski smávegis franskt blóð (tengist skútuferðum til forna og ættmóður) en nei. Nú þarf ég að eiga gott spjall við mömmu.
Samt ... ég er rosalega hrifin af sushi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2022 | 22:48
Að vera með hnífaparafóbíu ...
Fræga fólkið er alltaf vinsælt að lesa um en varðandi kóngafólkið í Bretlandi held ég að fjölmiðlar búi hreinlega til fréttir um það, þetta er svo leiðinlegt! En hér eru nokkrar miklu sannari fréttir, held ég. Getur komið sér vel að bæta þessu í minnisbankann - undir: gagnslaus vitneskja ...
Baðkar Opruh Winfrey er smíðað eftir útlínum hennar - sem getur verið áskorun þar sem hún hefur svolítið verið eins og jójó í gegnum tíðina, mjó, minna mjó, mjó, minna mjó ... Hún hlýtur að eiga baðkör í small, medium og large? Svoleiðis gerum við ríka fólkið. Ég á t.d. trefla í mörgum stærðum. Oprah hefur látið hafa eftir sér að hún sé baðsjúk, taki baðferðir sínar mjög alvarlega. Í langri grein í ónefndu tímariti fyrir hátt í tuttugu árum var hún kölluð Ophra (rétt skrifað: Oprah sem er Harpo afturábak) mjög oft án þess að prófarkalesari áttaði sig - en nafn hennar var þó stafsett rétt á forsíðu blaðsins. Held að þarna fyrst hafi ég áttað mig á áhrifamætti prófarkalesturs - og ógurlegu valdi prófarkalesara. Eitt sinn las ég síðupróförk Vikunnar sem oftar og þá var Danski kúrinn sérlega vinsæll. Þýðandinn hafði sagt: Pyntið með berjum (puntið) og mig langaði svoooo mikið að leyfa því að fara svona í gegn, enda væri það t.d. pynting ef einhver byði mér bláber, mér finnst þau ansi hreint vond nema í fljótandi formi. En samviskusemin sigraði.
Jeremy Renner leikari (sjá mynd) sem hefur leikið ýmis hasarhlutverk á sér fortíð sem förðunarfræðingur. Útlitið gefur það ekki til kynna en útlit skiptir svo sem ekki máli nema maður sé hestur. Eflaust gott fyrir leikara að kunna þetta. Jeremy kvaðst ekki hafa átt í erfiðleikum með að farða í gamla daga, enda bæði vanur leikhúsmaður og listmálari. Hann hefur leikið í Mission Impossible-myndum, CSI-þáttum og fleira. Við þekkjum hann öll! (Ég kannaðist ekkert við nafnið en þekkti hann af ljósmyndinni).
Liam Payne úr One Direction er með hnífaparafóbíu. Hann forðast að nota áhöld á veitingastöðum og heimilum þar sem hann óttast að þau séu óhrein. Hann meira að segja viðurkenndi í viðtali að hann þyldi ekki að þurfa að borða með hnífapörum sem hann ætti ekki sjálfur. Þessi fóbía hófst þegar hann var lítill og þurfti í refsingarskyni fyrir eitthvað að þvo upp hvern einasta gaffal og hníf og skeið í skólamötuneytinu.
Leikkonan Emma Stone bjó til PowerPoint-sýningu til að sannfæra foreldra sína um að leyfa sér að hefja leiklistarferilinn. Hún var ekki nema 14 ára og vildi flytja til Hollywood, fá heimakennslu og einbeita sér að leiklistinni. Hún var fjögurra ára þegar hún ákvað að leggja fyrir sig leiklistina. Hún er marg-, margverðlaunuð og hefur m.a. leikið í La la land (sem ég hef ekki séð, ég veit í raun rosalítið um bíómyndir og leikara)
Önnur leikkona, Nicole Kidman (áður gift Tom Cruise sem eftir skilnaðinn hélt börnunum sem þau ættleiddu, þá búinn að koma þeim í Vísindakirkjuna sem veit öll manns hræðilegu leyndarmál og veikleika svo maður getur eiginlega ekki yfirgefið hana, vilja einhverjir meina), er frá Ástralíu þar sem pöddur lifa sérlega góðu lífi en hún var sjúklega hrædd við fiðrildi sem eru ábyggilega eins og meðalstórir fólksbílar að stærð. Hún treysti sér ekki til að opna garðhliðið heima hjá sér ef hún sá fiðrildi í grennd, heldur fór torfærar Krýsuvíkurleiðir heim. Hún hefur reynt að vinna í þessum ótta sínum en án árangurs.
Enn ein leikkonan, Sandra Bullock, er með ofnæmi fyrir hestum! Það kom í ljós árið 1996 þegar var verið að taka upp myndina Two If By Sea en þá þurfti hún að fara á hestbak. Þannig að hún getur varla leikið í kúrekamyndum, blessunin, hún lét reyndar nýlega hafa eftir sér að hún væri útbrunnin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2022 | 13:14
Að drepa daður í fæðingu - leiðbeiningar
Síðustu misseri hef ég fengið nokkrar Snapchat-vinabeiðnir frá indverskum yngri mönnum. Hvar finna þeir mig? hugsa ég alltaf forviða og hvernig tekst mér að halda þeim? Horfa þeir á myndböndin mín? En minni mig svo á að auðvitað fréttist af dásamlegum kattavídjóum mínum og Eldum rétt-eldamennskunni þar sem ég set matardisk sem ég hef raðað á því sem ég eldaði og miða við myndina af Eldum rétt-spjaldinu. ER-myndvinnslan er frekar mikið út í appelsínugult, verð ég að segja.
Þetta (S-vináttan) hefur verið mér að meinalausu, ég kíki stundum á myndskeið frá þeim, yfirleitt eru þeir úti að keyra með tónlistina í botni en nýlega ákvað splunkunýr snappvinur að færa þetta upp á næsta stig og spurði:
What are you up to? Video call?
Til að stoppa manninn af í hvelli sendi ég:
Nei. Þetta er Snapchat, ekki Tinder! Ég vildi bara sýna þér kurteisi.
(Ég hafði sagt honum að það væri ágætt veður hjá mér, svolítið hvasst, hann spurði nefnilega um veðrið eins og hann vissi að það væri leiðin að hjarta mínu.)
Ég fékk til baka myndskilaboð þar sem hann var með þrjátíu vinum í eldhúsi á indverskum skyndibitastað, sýndist mér, allir hlæjandi. Þeim fannst ég greinilega mjög fyndin, kannski girnilegri af því að ég féll ekki fyrir honum í hvelli.
Hei, ég gæti verið mamma þín, skrifaði ég, bætti við aldri mínum, sendi mynd af mér á strætóstoppistöð ... og þrátt fyrir fegurðar-filterinn og trefilinn (sjá mynd) sást greinilega að ég var ekki ung, ljóshærð gella, ég er kannski gella og ung miðað við t.d. mömmu - en ljóshærð er ég ekki.
Þetta varð unga manninum áfall, held ég, og hann hefur ekkert reynt að hafa meira samband við mig. Mín aðferð er fín, að kýla allt svona niður, drepa daðrið í fæðingu, áður en bjartar vonir vakna.
Ég væri svo innilega marggift ef ég kynni ekki að bíta þá af mér. Þetta er sama taktík og ég nota orðið á símasölufólk nema ég er ögn mildari þegar ég afþakka að fá að borga fleiri styrki en ég þegar geri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.7.): 0
- Sl. sólarhring: 22
- Sl. viku: 152
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 136
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni