Færsluflokkur: Bloggar

Móðgandi afsláttur og svaðilfarir í Mosó

MyndinÞessir dagar án drengsins hafa liðið með örskotshraða, enda mikið að gera í vinnunni. Ósiðlegt líferni kom því aldrei til greina, það æsilegasta sem ég gerði var að drekka kaffi og lesa spennandi bók fyrir svefninn.

 

Það gekk ekki alveg þrautalaust að sækja drenginn. Ég tók strætó kl. 13.15 frá Akranesi og þar hófst ansi hreint undarlegur kafli í lífi mínu. Klappið virkar ekki utanbæjar svo það er bara reiðufé eða kort. Kortið varð fyrir valinu og kvittunin ekki af verri endanum, hálft fargjald. 

„Ahh, þetta er ekki rétt, ég er að fara til Reykjavíkur,“ sagði ég strangheiðarleg, of kors, eins og tapið vegna covid hafi ekki verið nóg fyrir Vegagerðina.

 

„Half price for 67 yrs and older,“ sagði kornungi (15 ára?) og glaðlegi bílstjórinn og mun eflaust aldrei komast að því að líf hans hékk á bláþræði um stund. Ungur aldur hans og mikilvægi þess að ég kæmist í bæinn til að sækja drenginn varð honum til lífs. Þegar maður er þetta ungur er allt eldra en þrítugt/fertugt/fimmtugt eldgamalt. Ég bar mig þó vel og vældi á Facebook, birti nokkuð nýlega mynd af mér með foreldrum mínum, fann enga nýrri í fljótu bragði, en hef ekkert elst ógeðslega mikið síðan hún var tekin, og sagði strætófarir mínar ekki sléttar, hélt ég liti nú ekki út fyrir að vera mikið eldri en 63 ára og 10 mánaða. Samúðin og réttlát reiðin sem blossaði upp á þessu öðru heimili mínu og vanrækta stað (ég vinn of mikið) gerði mér mjög gott. Smyrslin á sárin voru t.d.: „Hvurslags er þetta. Ungar konur að fá eldriborgaraafslátt! - Krakkaskratti hefur þetta verið, þú lítur út fyrir að vera yngri en 63 ára og tíu mánaða. - Uss, þú hefðir frekar átt að þiggja afsláttinn,“ og margt fleira krúttlegt og satt.

 

Í stað þess að fara út úr strætó í Mosó, eins og ég geri aldrei, sendi ég systur minni SMS: Er í Mosó, svo hún gæti fylgst með ferðum mínum, eins og hún vill að ég geri. Sumir eiga sér ekki líf. Á Vesturlandsveginum, rétt hjá Bauhaus, mundi ég allt í einu eftir því að við höfðum ætlað að hittast í Mosó, ekki Mjódd, stoppistöðin er í Háholti og hún beið á planinu hjá KFC. Henni fannst þetta ekki jafnfyndið og mér (kannski átti ég afsláttarfargjaldið skilið) og skipaði mér að ganga til baka. Ég hélt að hún þekkti systur sína sem hatar að ganga en í minni fjölskyldu hefur alltaf verið refsað fyrir gleymsku ... Ég stórefaðist um að við næðum í Reykjadal fyrir klukkan fjögur. (Klukkan var hálfþrjú). En ég hlýddi, fór samt ekki yfir götuna í hraðri og stöðugri umferð, það var eitthvað svo lúseralegt að fara undirgöngin en ég lét mig hafa það, enda langt síðan ég var staðgengill í James Bond-myndinni um öldina, og rétti svo út þumalfingurinn í stað þess að hefja þrautagöngu.

Auðvitað stoppuðu eintómir vélsagarmorðingjar en loks kom venjulegur heiðarlegur kvenhatari og sagðist skutla mér í Mosó með því skilyrði að ég þegði allan tímann, konur ættu að sjást en ekki heyrast. Síðan útskýrði hann fyrir mér allt sem hann hafði ekki fengið að segja nálægt eiginkonu sinni eða komist upp með að skrifa á Facebook. Win-win fyrir okkur bæði. Ég held að við höfum farið alla vega 45 hringi á hringtorginu við Bauhaus, honum lá svo margt og mikið á hjarta. Þetta var svo æðislega skemmtilegt að ég tók þetta upp í laumi á símann minn og get hlustað á þetta eins oft og ég vil. Held að Hilda hefði líka gott af því að heyra rödd sannleikans. Ég reyndi að spila þetta fyrir hana á leiðinni í Reykjadal en hún hótaði að láta mig ganga meira svo ég slökkti. „Ég hlusta ekki á hrúta,“ sagði hún sem var óskiljanlegt. Hún er bara sjúk í Gullbylgjuna, held ég. Mætti ég þá biðja um Pixies eða Rammstein!

 

SkrúðgangaDrengurinn var sérlega sáttur eftir átta daga dvölina í Reykjadal en þangað kom Jón Jónsson söngvari sem leynigestur eitt kvöldið og söng, einnig fótboltakonan Sesselja. Krakkarnir fóru upp á Skaga í óvissuferð á laugardeginum, enda margt æðislegt hægt að gera hér, fóru líka á eitt stykki landsleik í Laugardal!

 

Skaginn er troðfullur af hressum fótboltastrákum og fjölskyldum þeirra yfir helgina. Mótið hitti akkúrat á 17. júní svo það verður óvenjumikið fjör í ár. Við stráksi ætlum að tölta niður í bæ eftir hádegi, kíkja kannski á opið hús hjá Úkraínufólkinu okkar, svo er það árlega kirkjukaffið ... öllu heldur kökuhlaðborð kirkjunefndar - sem er með því flottara en ég forðast sykur þessi misserin og gæti ekki stillt mig um að stökkva á marensinn og pönnsurnar, þótt ég færi eingöngu í brauðtertu- og flatkökuskyni. Æ, bara smá ... NEI!

 

Ef smellt er á neðri myndina má sjá hluta af glæsilegri skrúðgöngu okkar Akurnesinga, þessari með fótboltaívafinu. Mér finnst ég fá allt sem ein manneskja þarf á hlaðið til mín. Hér er Atlantshafið í suður, kjörstaður, bólusetningamiðstöð, ræktin, íþróttavöllur og þyrlupallur í austur, Einarsbúð í símafjarlægð og svo sé ég alltaf þessa skrúðgöngu á hverju ári ef mér verður litið í norðurátt. Brekkusöngur á Írskum dögum fer svo fram í kringum þyrlupallinn og ég þarf að loka gluggum hér ef kemur leiðinlegt lag - sem hefur þó ekki komið enn. Himnaríki er í einstaklega vel staðsettu húsi.      


Mávar, guðsmaður, kattahvarf og afmælispælingar

gullride-728x409Ég sá að Siglfirðingar hafa gefið leyfi til að skjóta vargfugl við höfnina - sem ég giska á að sé mávur - ég ólst reyndar upp við að mávurinn væri ljótur og vondur fugl á meðan t.d. svanir væru fallegir og góðir (jafnvel prinsar í álögum). En lífið kenndi mér, ekki síst eftir flutningana í Himnaríki, að mávar eru bara ansi hreint fínir fuglar og sækja súpueldhús Guðríðar öll sumur en hrafninn tekur svo við yfir vetrartímann. Engin matarsóun hér. Þegar ég gef mávum brauð og almennar matarleifar er ekki bara einhver einn sem hakkar allt í sig, heldur kallar hann á vini sína og vandamenn í grennd svo þeir fái einnig notið. Súpersætu svanirnir hafa komist í fréttir fyrir grimmd, þeir éta líka ungana á Tjörninni, ráðast á kindur í sveitinni og eru jafnvel grimmir við mannfólkið - en bara svo fallegir. Samt held ég að seint sæi maður innslag í fréttum um hvernig ætti að fæla svani frá svo hægt sé að gefa öndunum brauð, en ég man eftir slíku varðandi máva. Myndin sýnir máv fljúga með annan máv á bakinu. Ég fann hana á netinu.

 

NóraÉg hef reyndar engar áhyggjur af mávunum á Sigufirði. Presturinn á staðnum er annálaður fuglavinur og mun án efa mótmæla þessu harðlega, trúi ég, sjá til þess að lausaganga skotveiðimanna verði bönnuð, enda eiga veiðimenn sannarlega ekki heima í vistkerfi okkar.

 

Talandi um kattaóvini. Mikið vona ég að Guðmundur Felixson og Þuríður Blær endurheimti heittelskaðan kött sinn sem nágrannar þeirra (frá helvíti?) fengu fjarlægðan í gær (!!!) en borgin glutraði út úr höndunum á sér (ég vil sjá hausa fjúka) og er týnd einhvers staðar í Laugardalnum. Eigendur ekki látnir vita, hvílík vinnubrögð. Einhver sá svipaðan kött nálægt Langholtskirkju. Hér er mynd af Nóru.

 

Ekkert hefur frést af drengnum síðan á miðvikudaginn þegar hann fór í sumarbúðir og ekkert hefur verið um sukk og svall hér á heimilinu á meðan, maður hlýðir sóttvarnalækni, en Mosi, yngsta kattardýrið, hefur sést sofa á rúmi stráksa, sennilega í saknaðarskyni.

 

TertaÉg held mínu striki og elda kvöldmat eins og vanalega, nema maturinn dugir í hádeginu næsta dag líka sem kemur sér ansi vel. Kemur í veg fyrir seríósreddingar, bananabjörgun og skyndibitaskyndihjálp. Fiskur, grænmeti og alls kyns gott og hollt.

 

Það er eins og mávarnir mínir viti að ég var að skrifa um þá. Hér fljúga þeir fram og til baka, kannski að minna á sig. Þeim hefur fækkað mjög mikið, voru svo miklu fleiri t.d. þegar sonur minn, mávahvíslarinn, gaf þeim hér við ströndina og þeir eltu hann alltaf eins og hlýðnir hundar þegar hann birtist að áliðnum slætti með leifarnar úr afmælisveislunni minni (ágúst). Held meira að segja að ég hafi birt mynd því til sönnunar hér einu sinni, þeir flugu mjög lágt fyrir aftan hann og nálægt, vissu alveg að veisla ársins biði þeirra.

 

Ég ætla að halda dýrðarinnar stórafmælisveislu (64 ára) nú í ágúst þótt COVID sé enn á fullu. Við bara látum eins og það sé búið, nennum þessu ekki. Kannski fátt annað hægt að gera. Man ekki hvað Fréttin.is sagði að ég ætti marga mánuði eftir ólifaða - eftir mínar þrjár bólusetningar - og vil bara drífa í veislunni til öryggis ef hún verður mín síðasta, og svo fá elsku mávarnir mínir restar, ef verða. Lítið að græða á veislum 2020 og 2021 sem nánast engar voru, bauð „jólakúlunum“ mínum, eða innan við 12 manns, held ég. Það þarf ekkert að taka í hendur eða knúsast þann 12. ágúst, meira en nóg að segja hæ, henda sér á terturnar og kaffið, og vera skemmtilegur. Þarf ekki einu sinni að færa gjafir, enda á ég allt.  


Stórgrýti úr gróðurhúsi og sjokkerandi játning

11.6 2022Bláfáninn er ekki enn kominn upp við Langasand. Enginn bæjarstjóri og engin leikskólabörn sem gleðja hjarta mitt við athöfn sem hefur farið árlega fram í júní um nokkra hríð, og ekkert sem sýnir mér blátt á bláu hvaða vindátt er ríkjandi. Getur verið að ströndin, þakin grjóti, teljist ekki nógu hrein til að fá þessa viðurkenningu? Og hvað veldur öllu þessu grjóti, of smátt grjót í varnargarðinum? Eftir brim eða var sett of smátt? Sandurinn var svo miklu fínni í fyrra og bara alltaf. Þetta er eitthvað alveg nýtt. Aukaverkanir af bólusetningum? Sönnun þess að jörðin sé flöt? Geimverur í grjótkasti yfir nóttina?

 

Efri myndina tók ég núna áðan, eða skömmu fyrir miðnætti. Grjótið sést mjög vel (smellið á myndina) og svívirðilegt fánaleysið ... Samt, bláfáni er veittur fyrir hreina strönd, ómengaða. Þetta er grjót, ekki mengun. Kannski fer athöfnin fram í næstu viku, pósturinn eitthvað lengi á leiðinni með fánann. Vonandi fær fáninn þá að standa ögn lengur en rétt yfir blásumarið. Bæði er gott að sjá vindáttina þegar elsku haustlægðirnar fara að gleðja og svo er bara flott að hafa þennan fána, þetta stolt okkar eigenda landhelginnar út af Himnaríki.

 

Fór í bæinn (Rvík) í gær (föstudag) í stórafmæli vinkonu, mikið og gott spjall við skemmtilegustu konur landsins og heldur betur hlegið. Djammið stóð það lengi (til 23 og síðasta ferð frá Mjódd er kl. 23 og við vorum langt frá Mjódd) að ég gisti hjá Hildu systur og náði að nýta tækifærið til að kíkja á mömmu í dag, laugardag. Að vanda færðum við henni cappuccino og sérbakað vínarbrauð - eftir að hafa sjálfar fengið okkur einhverja hollustu hjá Kaffitári uppi á Höfða áður en við lögðum í hann til mömmu. Vaktstjórinn þar bjó til fullkominn latte handa okkur og grænmetisbakan var æði. Við vorum hálfdasaðar eftir búðarferð. Ég nefnilega gafst upp og keypti lítinn, ódýran örbylgjuofn, hefur oft vantað hann, ekki til að poppa, frekar hita mat. Svo var keypt dýrindis vifta líka, aldrei of mikið af góðum viftum í þessum hitapolli sem Ísland er á sumrin. Allt yfir 12 gráður er óbærilegt, að mínu mati, já, ég hef lækkað úr 15 niður í 12 eftir síðustu sólskinsdaga.

 

Þegar við fórum í Elkó, þurfti Hilda að sækja eitthvað sem hún hafði pantað og fyrir framan okkur í röðinni var gamall karl (á okkar aldri) sem röflaði og nöldraði út í eitt, ungi afgreiðslumaðurinn sýndi mikla yfirvegun og var svo kurteis og ljúfur þrátt fyrir ósanngirni í karlinum. Þegar við vorum komnar út í bíl og á leið í Mjódd sagði Hilda: „Það er svolítið mikið til af svona nöldrandi körlum þarna úti.“ Ég kinkaði kolli og játaði fyrir henni að kvartanir mínar hér á blogginu yfir karlmannsleysi væru bara í nösunum á mér. „Það er ekkert annað en einhver gjörsamlega fullkominn sem fær mig til að hvika frá piparjúnku- og kattakerlingalífi mínu. Hann þarf að vera sambland af ... Mr. Darcy og ... Silla kokki,“ sagði ég dreymin. „Fróður, vel upplýstur, dýravinur (elskar t.d. ketti, hunda og fugla), femínisti, ekki rasisti, með húmor, vel lesi-“

„Já, já, einmitt, hlauptu út, fljót, strætó fer eftir þrjár mínútur,“ hrópaði litla systir og ég þaut svo hratt út að ég gleymdi örbylgjuofninum og viftunni í stressinu. Hún keyrði hratt í burtu og þá fyrst mundi ég eftir því að klukkan í bílnum hennar er næstum tíu mínútum of fljót. Eitthvað skrítið í gangi. Mr. Darcy er sögupersóna og Silli ekki til heldur, hann er bara nafn á matarvagni, held ég, svo þetta var ekki afbrýðisemi. Kannski hefur systur mína bara vantað nýjan örbylgjuofn og viftu og treystir á gleymsku mína.   

 

Við létum ekki kaffistaðar numið eftir góða heimsókn til mömmu, heldur fórum í Garðabæ, í Te og kaffi, eiginlega bara til að skipta með okkur tiramísú sem hafði frést alla leið upp á Akranes að væri algjör dásemd. Það passaði og kaffið var líka sérlega gott (muna að biðja um tvöfaldan latte, annars fær maður sjálfkrafa bara einfaldan) og þjónustan sjúklega góð, eins og á Höfðanum. Held að kaffibarþjónar séu ráðnir eftir dásamlegheitum.

Sumar 2019

Neðri myndin var tekin 2019 þegar wc-in voru fjarlægð, græni kofinn tekinn fyrst laugin Guðlaug og nágrenni tók við þeirri þjónustu sem færðist þar með langt til vinstri og úr augsýn Himnaríkis. Sandurinn fullkominn, eins og alltaf, alveg þangað til núna í ár. 

 

Ég spurði drenginn sl. þriðjudag: „Hvort viltu vera töff í sumarbúðunum eða taka með þér föt sem þyrfti að slíta meira áður en þau hætta alveg að passa á þig?“

„Töff,“ var harðákveðið svarið og bara töff föt voru tekin með í sumarbúðirnar á miðvikudaginn. Mér skilst að englakrúttin sem vinna þar leggi metnað í að börnin fari með allt hreint heim, þannig var það í fyrra, en ég var lengi að fyrirgefa þeim að gráa, einlita sokkaparið var tveir gráir en mjög ólíkir sokkar! Get ímyndað mér að foreldri eða forráðamanneskja einhvers annars barns hafi látið nákvæmlega eins par, einn sokk frá eigin barni (númer 46), einn sokk frá fóstursyni mínum (nr. 41), ergja sig ósegjanlega mikið ... annar talsvert hærri upp á kálfann og vissulega ljósgrár en ekki eins ljósgrár. Mig minnir að þetta sokkapar hafi endað í Rauðakrosspoka og vonandi hjá einhverjum sem tekur ekki eftir svona, það er til fjöldi manns sem kippir sér ekki upp við sokkarugling sem fokkar upp í hausnum á öllu almennilegu og eðlilegu fólki.


Óvæntar hitatölur og of mikil eftirspurn ...

Alveg passlegarTölvan mín segir að úti ríki 17°C, Veðurstofa Íslands segir 15°C, í gemsanum segir Vedrid að undir Akrafjalli séu 17°C og engar hviður ... en norska veðurstofan, yr.no, fullyrðir að hitinn sé ekki nema 10 gráður. Það má alltaf treysta á elsku Norðmenn en um leið og ég áttaði mig á hinum tölunum hefði ég fundið fyrir vanlíðan ef viftan væri ekki í gangi. Ekta stuttbuxnaveður fyrir þá sem treysta sér út.

 

Orðalag skiptir miklu máli. Ef maður hnikar stöfunum aðeins til, ekki þó röð þeirra:

„Hráka-ka er vinsæl hjá okkur. Viðbjóðum líka upp á ...“ „Líttu við í krúttlegu búðinni“ Horfa aftur fyrir mig? Gaman að pæla í þessu, mér finnst þetta með viðbjóðinn, við bjóðum upp á, samt spælandi því þetta er fallega orðað. Ekki samt breyta því í: „Við erum að bjóða upp á ...“ þá kem ég ekki.

Bók sem ég sagði frá hér fyrir skömmu og sagði að sennilega hefði örlítið breytt greinarmerkjasetning bjargað FBI-manni frá hroðalegum örlögum - er komin út á íslensku og heitir Að leikslokum, er eftir Mohlin og Nystöm. Er í búðum og á Storytel Storytel. Hún er þykk (541 bls.) og djúsí sem gleður alla bókaorma. Þetta greinarmerkjadæmi er samt meira svona til hliðar, ekki aðalsagan sem er gamalt morðmál, en samt ... Ég las líka nýjustu bókina eftir Lee Child, Liðin tíð, dásemd alveg, og Nætursöngvarann eftir Johönnu Mo, feykiánægð með hana líka, eins og Óvissu eftir Önnu Ólafsd. Björnsson.

 

 

SpennóHvernig var það, átti ekki að verða svo rólegt hjá mannni með aldrinum? Nákvæmlega engin eftirspurn eftir okkur, hvorki í ásta- né vinnumálum? Well, ég mótmæli alla vega harðlega of litlum tíma. Ég myndi vissulega aldrei brjóta lögin og fara að sniffa kókaín til að komast yfir meira og sofa minna, enda skíthrædd við öll efni og flest lyf, en væri alveg til í ef einhver sem selur Herbalife lumaði á green og beis-töflunum sem fengu mig til að strauja þvottapoka í gamla daga, og voru reyndar bannaðar en í þeim voru drög að einhverju örvandi. Líf mitt í hnotskurn: Of margar bækur, of lítill tími. Ef einhver hefur eitthvað á móti of miklum lestri skal honum bent á að ellifjarsýni hefur enn ekki látið sjá sig í himnaríki vegna stöðugrar þjálfunar. Gott fyrir vini og ættingja að hafa alltaf einhvern sem getur lesið aftan á sósupakka eða vídeóspólur. Enda er ég spurð nánast vikulega hvenær ég ætli að flytja aftur til Reykjavíkur. Held að þetta sé ástæðan. Held að afmælin mín, að keyra alla leið upp á Skaga EINU SINNI Á ÁRI, séu ekki málið eftir að mér tókst að gera Hvalfjarðargöngin gjaldfrjáls.

 

Akkúrat fyrsta daginn sem drengurinn er í sumarbúðunum berast fréttir af fyrstu smitum af apabólu á Íslandi og nánast bannað að sofa hjá ókunnugum. Það vinnur ansi margt gegn mér, finnst mér, of lítill tími, kannski aldur, stundum biluð dyrabjalla, ástreitnir varðkettir og nú apabóla.


Yfirfullt Himnaríki en hugsað í lausnum

Stráksi sumarbúðirDagurinn rann upp, bjartur og fagur, stráksi í sumarbúðir, mæting kl. 16-17. Honum finnst svo ofboðslega gaman í vinnunni að hann kom ekki þaðan fyrr en um þrjúleytið, svo sundgleraugun náðu aldrei á blaðið yfir skrásett föt og muni. Ég nöldraði pínkupons á skrifstofunni um að nota sportabler sem samskiptaform og var tjáð af nýjum stjóra að hún væri sammála, þetta væri flott fyrir íþróttakrakka en ekki sumarbúðir, héðan í frá yrði tölvupóstur notaður, ef þyrfti. Um fimmleytið var ég borin út úr sumarbúðunum og skellt í lás, það var ekki nokkur leið fyrir mig að yfirgefa drenginn og dúndurgóða andrúmsloftið sem ríkti í Reykjadal, samt var ég búin að lofa sjálfri mér því að hoppa um allt himnaríki nakin með rauðvín í annarri og kannski elskhuga í hinni en þetta var nú bara í nösunum á mér og vinkonur mínar trúðu engu svona upp á önnun köfnu siðprúðu konuna sem gleymir endalaust að drekka pínulitlu rauðvínsflöskuna (sem dugir í eitt glas) en Inga kemur í mat á morgun, fínt að detta í það með henni.

 

Eldum heldur betur réttÉg eldaði mat handa tveimur nú í kvöld, þannig eru skammtarnir frá Eldum rétt, svo ég á til alveg súpergóðan hádegismat á morgun. Á föstudagskvöldið verður svo afmælisveisla, ein allra dásamlegasta manneskja sem ég þekki (frá 1985?) átti nýlega stórafmæli og nú skal fagnað.

 

„Frelsið“ frá drengnum næstu daga verður sennilega notað til að taka skápana hans í gegn, hann á allt of mikið af fötum, eflaust vaxinn upp úr einhverju en það er betra að gera þetta á meðan hann er víðs fjarri. Ég skil hann vel að vilja halda í hlutina, ég þarf mögulega að bíða þar bíð þar til ég fer í sama stuðið og ég var í þegar Himnaríki var tekið í gegn. Ég gaf og gaf, hreinsaði grimmdarlega út það sem ekki var lífsnauðsynlegt. Nú er allt að fyllast af bókum aftur og ekkert pláss fyrir bókahillur, hluti neyðarástandsins sem gæti farið að myndast sést fyrir aftan drenginn á myndinni, bókabunki á stólnum. Ég keypti svo málverkin þarna um daginn, eitthvað smotterí í antíkskúrnum - eitthvað er maxi-mínimalistinn ég farin að sofna á verðinum.

 

Aldrei framar yfirfull íbúð, var loforð mitt til sjálfrar mín en spurning hvað hússtjórnin segir ef ég set bókahillur í stigaganginn, á hverja  hæð, það yrði ábyggilega farið að tala um húsið okkar sem menningarlega húsið á Skaganum og við gætum safnað fyrir nýrri klæðningu á húsið til dæmis með því að selja bækurnar. Ég myndi fela Ísfólkið og Rauðu ástarsögurnar undir búðarborðinu og selja þær dýrum dómum í svörtum plastpokum enda óheyrilega mikið kelerí í sumum þeirra. Jæja, best að tala við stjórnina, ég sit þar reyndar (riddari) og hef 1/3 atkvæða. Gæti mögulega mútað formanni eða gjaldkera með litlu rauðvínsflöskunni. Hér er hugsað í lausnum.     


Einn ís með sálfræðimeðferð, takk

InnkaupakarfaMögulega tók ég of sterkt til orða í síðasta bloggi varðandi elstu og yngstu systkini og meinta illmennsku þeirra. Í raun verð ég að undanskilja svo marga frá þessu að kenningin gengur ekki lengur upp. Það er samt freistandi að stofna költ í kringum þetta eða skrifa bók ... þú ert svona ef þú ert elsta barn móður þinnar en miðbarn í föðurætt ... o.s.frv.

 

Ég fór nefnilega alveg úr jafnvægi skömmu áður en ég bloggaði, við hrekk Hildu systur þar sem við vorum í Krónunni í gær og hún laumaði pakka af smokkum í innkaupakörfuna mína (rosalega þroskað en skárra en rúsínur og Bragakaffi). Skagamenn horfðu hissa ofan í körfu mína en með vott af aðdáun, sýndist mér. Ég skilaði pakkanum en auðvitað hefði verið sniðugt að fá aðdáunaraugnaráð frá kassastelpunni og kaupa fjandans pakkann. Fjör hjá öldruðum? hefði hún kannski hugsað, allt yfir þrítugt eldgamalt í hennar augum, ef hún er eins og ég var. 

 

10 barna móðirFékk frábæra heimsókn í dag frá gamalli vinkonu. Spjallið barst um víðan völl og í ljós kom að mæður okkar voru ekki bara fínar konur, heldur líka ansi hreint dramatískar þegar kom að bíómyndum. Ég var eitthvað að tala um bíómyndir sem mig langar ekki til að sjá aftur, nefndi Titanic (fyrirsjáanleg) sem dæmi. Hún sýndi mér mikinn skilning, horfði á hana eitt sinn með móður sinni sem talaði allan tímann: „Hugsa sér allt þetta fólk sem er að skemmta sér og veit ekki að það á eftir að sigla á ísjaka ... nánast allt þetta prúðbúna fallega fólk lendir í sjónum, margt á eftir að deyja, og hljómsveitin heldur bara áfram að spila ...“ og svo framvegis. Þetta var ekki auðveld reynsla fyrir krakka sem mun aldrei horfa á þessu ræmu aftur, enga endurgerð af henni. Nema ég myndi horfa EF endinum verður breytt, allir lifa af nema kannski útlitsgallað fólk, eins og í Jurassic Park (þybbinn maður, drengur með gleraugu) en gallinn við þetta sannsögulega sem ég nenni ekki að horfa á er að það er svo erfitt að víkja frá endinum. Ég held samt að ég hafi náð að toppa vinkonu mína - MAMMA, EKKI LESA LENGRA - með lýsingu á því þegar mamma var að segja mér frá sorglegustu mynd allra tíma, um tíu barna dauðvona móður og þurfti að finna góð heimili handa öllum tíu börnum sínum og ótta hennar við að enginn myndi vilja ættleiða fatlaða barnið hennar ... og líka lýsingu á ekkanum sem mamma ætlaði aldrei að losna við eftir að hafa séð hana í fyrsta sinn. Að horfa á mömmu berjast við tárin á meðan hún talaði um myndina minnti mig á sjálfa mig segja frá lokaatriðinu í Empire of the Sun. Ég klökknaði í mörg ár þegar ég sagði fólki frá flotta stráknum, loksins búinn að finna foreldra sína eftir að hafa orðið innlyksa í stríði (WW2) í Japan, og lokaði þjáðum augunum þegar hann var loks orðinn öruggur ...

 

Covid-ópiðVið vinkonurnar sátum ískaldar með hjarta úr steini og skemmtum okkur yfir eigin lýsingum. Kannski er nútímafólk orðið svo harðbrjósta af allri þessari upplifun sem er dúndrað yfir mann, á netinu, í lífinu og ég hef ekki tölu á sjónvarpsrásunum (HVAR ER SAMT FINE LIVING-STÖÐIN?) sem ég hef aðgang að, Disney, Netflix, Prime Video, Stöð 2, S.Símans Premium ... og ég horfi samt eiginlega bara á fréttir og veður. Jú, og ég kláraði Lincoln Lawyer í gærkvöldi (nótt), flottir þættir á Netflix.

 

Sótti málverkin mín í dag og eitthvað hefur minnið verið að stríða mér, þær eru miklu stærri en mig minnti, svo ég gæti þurft að flytja. Ég keypti samt eina mynd í viðbót, Covid-Ópið (sjá mynd af henni) og leyfði svo stráksa að velja sér eina. Þá er að finna einhvern til að skutla mér niður í Ramma og myndir og skella almenningum ramma utan um. Alveg spurning um millivegg í stofuna ... sennilega semja við drenginn um að leigja af honum veggpláss. Veggir hans eru svo sorglega vannýttir.

 

ÍssölusálfræðingarVið fengum okkur ís í Frystihúsinu, fer að verða daglegt brauð, og þar afgreiddu okkur tvær stúlkur sem báðar eru að læra sálfræði úti í Flórída. Hálfnaðar með námið og virtust svo frábærar að næst þegar ég fæ mér sykurlausan ís í vöffluformi fæ ég kannski góð ráð hjá þeim varðandi ástamál (ef sumarið verður fengsælt) og annað sniðugt. Ó, ég hélt að þið værum 15 ára,“ sagði stráksi en ég þarf aðeins að kenna honum betur hvaða aldurshóp kvenna er sniðugt að gera tíu árum yngri í kurteisisskyni.

Svitlanka og Rostik (veit ekki hvernig nafn hans er skrifað) af neðri hæðum Himnaríkis voru með í för og komu svo líka með í Galito þegar ísinn var farinn að sjatna ögn.

Á Galito var fullt út úr dyrum eins og vanalega og líka fullt af fólki sem ég þekki, einn uppáhaldsfréttamaðurinn minn og rithöfundur, Ævar Örn, var þarna, einnig dóttir hans sem ég hef þó aldrei hitt, töffarinn Þórhildur Sunna, ein af uppáhaldsþingkonum mínum, ásamt manni og sérlega sætu barni. Þarna var líka elsku Írena hennar Höllu vinkonu með hluta af fjölskyldunni, sýndist mér, og þegar við vorum að fara komu Einar, Erna og Einar úr Einarsbúð.

Stráksi fékk sér pítsu, vinkonan og Svitlana steikarsamloku (með salati, ekki frönskum, sem gerir þennan rétt svo miklu, miklu betri) og við Rostik (7 ára) fengum okkur sushi. Það varð hálfgert matarslys við borðið þegar ég tók óvart með fyrsta sushi-bitanum allt wasabi-ið sem átti að duga með allri sushi-rúllunni, þarf að æfa mig betur með prjónana ... Þingeyska kvenmennið í mér tók yfir í þjáningu minni svo enginn við borðið tók eftir neinu.


Aldrei of illa farið með góð miðbörn

MiðbörnSystirin sem ætlaði að koma í gær lét loks sjá sig í dag. Kötturinn Krummi var ekki jafngribbulegur og vanalega svo frændhundarnir þorðu að njóta þess að hitta Gurrí frænku. 

 

Í Krónunni kom að því sem hefur verið yfirvofandi í margar vikur, þá slógumst við systur, í þetta sinn um eldrauðan varalit sem hún sýndi áhuga og ég þurfti að neyta afls-, aldurs- og stærðarmunar til að ná honum af henni áður en öryggisvörðurinn kæmi. Þetta er mín Króna á Akranesi, hún getur bara keypt sína varaliti í Kópavogi og þótt ég noti sjálf aldrei varalit og Einarsbúð sé búðin mín, þarf að sýna þessum litlu systrum annað slagið hver er eldri, þótt hún minni mig reyndar ansi oft á það.

 

Við miðsysturnar höfum reyndar verið kúgaðar í gegnum tíðina, eins og öll miðbörn ... og afkróað fólk ræðst hvert gegn öðru, eins og dæmin sanna, því það þorir ekki að vaða í elstu gribburnar og yngstu dekurdrósirnar. Hvaða miðbarn hefur ekki lent í því að heyra: „Gjörið svo vel, heitt kakó og nýbakaðar pönnukökur - bara fyrir elsta og yngsta. Miðjur, sækið hræringinn og súra slátrið áður en það lendir í sorpatunnunni!“ Við fengum alveg jólagjafir en bara það sem elsta og yngsta vildu ekki. Á meðan þau fengu heitt súkkulaði með rjóma fengum við Neskvikk í undanrennu með sýrðum rjóma, og þegar við systkinin vorum orðin nógu gömul til að drekka kaffi, fengu þau Jamaica Blue Mountain, en við gamla uppáhellingu með hlóðabragði. Og þegar þau svo fengu hvítvín í fyllingu tímans, þurftum við Hilda að sætta okkur við mysu.

 

Þegar koma gervifréttir um gervirannsóknir á systkinum um að elsta sé gáfaðast og yngsta sé krúttlegast (sjúr!) má maður alveg vera viss um að höfundur greinarinnar eða greinanna og viðkomandi bullvísindamenn séu ekki miðbörn. Verst er að svo margir trúa þessu. Miðbörn þora ekki að verja sig, þá fá þau enn ljótari jólagjafir. Mig minnir meira að segja að ég hafi séð alvörurannsókn einu sinni um að elsta og yngsta systkini væri líklegri að verða raðmorðingi og mannæta en sú frétt fékk ekki að standa lengi á netinu og enginn prentmiðill vogaði sér að birta þetta.

 

Ef þið heyrið einhvern tíma eða sjáið í fréttum illa talað um einhvern, illa farið með einhvern er nánast víst að um miðbarn sé að ræða (kvótakóngar, Bjarni?), eða að gerandinn (elsta eða yngsta barn) haldi að viðkomandi sé miðbarn. Svo er aldrei talað um þetta. Ef ég blogga ekki meira hér hefur einhver þaggað niður í mér og mögulega verður bloggið látið hverfa, alla vega þessi færsla. Ef ég hverf ætti löggan að sjálfsögðu að tékka á frumburðum og örverpum þessa lands. 


Frestanir, spádómar og meint dánarorsök

Með sjóræningjaFullt af allskonar í gangi fyrrihluta dags en allt stefnir í rólegheit og stórgóða innivist í sólinni. Ég þræla drengnum út að vanda, það þarf að ryksuga og fara út með dósir, rusl og plast-pappír til að fá vasapeningana. Svona er nú grimmdin mikil í Himnaríki. Svo ætlaði Hilda systir að koma í dag, svo ætlaði hún ekki að koma, síðan seinnipartinn en heimsókn hefur nú verið frestað. Eins gott samt að hún komi fyrir miðvikudag, þegar drengurinn heldur á vit ævintýra í sumarbúðum. Skráning og greiðsla á dvalargjaldi krefst þess að maður hafi próf í kjarnorkuvísindum eða tölvunarfræðum (sportabler) en svo þarf að senda með drengnum lista upp á eldgamla mátann, fata- og lyfjalista, og þeir sem ekki eiga prentara verða að redda sér. HVAR ER TÆKNIN NÚNA? Það er hægt að fylla út skjöl á netinu sem myndi auðvelda prentaralausu fólki lífið ... en nei, sumt húkir enn í fornöld! (Ég er samt ekki að skammast út í bestu sumarbúðir heims, heldur þann sem ákvað þetta fáránlega skráningakerfi sem hentar íþróttafélögum ábyggilega betur en sumarbúðum og þýddi að ég fékk ekki að vita um visst covidsmit í vetur, fyrr en nú í vor. Þetta er ekki gott samskiptaform fyrir sumarbúðir, ein vika á ári og maður á ekkert erindi inn á þetta kerfi aftur fyrr en ári seinna svo eftiráskilaboð virka ekki.

Efsta myndin er af drengnum í „samningaviðræðum“ um húsverk. Fjörugt heimilislíf.

 

PersónuleikiKannski breytti Mía systir lífi mínu (kemur í ljós) þegar ég hringdi í hana og óskaði henni til hamingju með enn eitt stórafmælið núna 2. júní. Mér tókst að koma að ákveðnum áhyggjum mínum af kyrrsetu í fjörugu símtali og hún sagði mér frá mjög sniðugum YouTube-myndböndum Fabulous 50s exercise-sem hefðu farið sigurför um vinkvennahóp hennar. Ég fann þetta og eitt korterslangt fat-burning-walking-eitthvað sem mér líst ljómandi vel á og mun ábyggilega prófa einhvern daginn, það bíður bara í tölvunni minni. Ég bauðst til að passa hund í dag og fara með hann í gönguferð, en var mörgum klukkutímum of sein, held að Color Run-hlaupið hafi verið búið sem eigendur hundsins voru að fara á þegar ég sá þetta. Ekki lagaðist hreyfingar-ástandið þegar ég fór að horfa á The Lincoln Lawyer-þættina á Netflix í gærkvöldi í stað þess að hamast við að hreyfa mig. Ég skammta mér sirka einn þátt fyrir svefninn.

Mynd: Dánarorsök: Borðar of mikið, verður mér víti til varnaðar en ég gleðst þó innilega yfir að lifa næstum því nógu lengi til að fá að vita leyndarmálið í erfðaskrá Filippusar prins sem verður opinberað þegar ég verð 130 ára - en ég hlýt að tóra aðeins lengur en spáin gefur til kynna. 

  

Enn aukast líkur á stórum skjálfta hér suðvestanlands. Þegar fyrst var farið að tala um þetta í fyrra eða hitteðfyrra ákvað ég að pakka brothættu punti niður í stóra margnota poka en viku seinna ákvað ég að taka sénsinn bara, eins og í covid ... lifa lífinu, fara varlega og ef skjálfti/smit, þá bara taka því. Hef sem sagt ætlað mér í þennan tíma að kaupa kennaratyggjó til að festa hluti niður í skápnum, fína kristalinn minn og þann ófína, dauðir hlutir en samt óþarfi að vanvirða þá. Helst vildi ég að skjálftinn kæmi um nótt og fyndist bara úti í Viðey þar sem enginn býr.

 

GrannarNýja nágrannakona* mín frá Úkraínu er búin að átta sig á því að hún býr á langbesta stað á landinu. Hún varði hálfum deginum í Guðlaugu, heitu lauginni hér við Langasand og er orðin vel útitekin og júní varla byrjaður. Allar sögur sem hún hefur heyrt um kalt veðurfar og sólarleysi hér á landi hlýtur að vera sem versta skrök í  hennar huga. Hún horfir samúðaraugum á mig svona náhvíta og alltaf í langerma til að undanrennubláir handleggirnir hræði ekki fólk. Forfaðir minn frá Transylvaníu (sjá Íslendingabók) er sennilega sá eini sem myndi skilja mig, samt er ég alin upp við: „Hættu að lesa, ekki hanga svona inni í góða veðrinu ...“

*Ég fékk leyfi til að birta myndina. 

Sonur hennar, 6 ára, kom nýlega með kisunammi sem er geymt hér en drengurinn sér um að gefa þeim það þegar þau kíkja í heimsókn. Kettirnir dýrka drenginn og dá og finnst móðirin ekki sérlega slæm heldur. Mosi treysti sér ekki til að vera fjær þeim mæðginum en þetta, eins og sjá má á myndinni en þarna var nammið samt farið upp í skáp.

Keli, hinn skíthræddi og styggi köttur með fortíð, herðir upp hugann þegar gott kisunammi er í boði og í stað þess að halda sig undir rúmi þegar koma gestir leyfir hann klapp og knús fyrir bragðgott sælgæti.

Jæja, þá er að elda „Eldum rangt“ (sem sagt ekki Eldum rétt) og gefa drengnum að borða. Ég fer varlega í átið eftir dánarvottorð hirðvéfréttar minnar (sjá mynd) en held nú samt að hver sé sinnar eigin gæfusmiður. Ég frétti af konu sem fór til spákonu fyrir ábyggilega 40 árum og spákonan sagði konunni að hún fengi ekki manninnn sem hún var hrifin af. Þessi spádómur hafði þau áhrif að konan áttaði sig á því að hún gæti ekki hugsað sér lífið án hans og til að gera langa sögu stutta þá eru þau hamingjusamlega gift enn í dag - segið svo að spádómar geti ekki hjálpað fólki við að taka ákvarðanir! Þegar spákonan sagði við mig í gamla daga: Dökkhærður sjarmör og sjóferð, gat það alveg eins táknað ljóshærðan mann og strætóferð, og ég er nýbúin að átta mig á þessu. Ég gafst endanlega upp á strákastandi 10. júlí árið 1998 þegar Akraborgin hætti að ganga og hef verið lukkulega einhleyp síðan.  


Reiptog eða reipitog og tatnrafélag okkar Skagafólks

Mynd 1Eitthvað hefur útliti mínu hrakað fyrst bílstjórinn hleypti mér inn að aftan í innanbæjarstrætó í gær. Eftir klipp og lit síðast var það að framan, munið! Það sparaði mér hellingstíma að taka strætó niður í bæ, á málverkasýningu barna úr Grundaskóla sem haldin var í gamla Landsbankahúsinu. Ég hef alltaf verið hrifin af litagleði í myndum barna og hlakkaði til að kaupa mér eina slíka. Þær urðu reyndar tvær, mjög ólíkar en mjög, mjög flottar. Stykkið kostaði heilan tvöþúsundkall og ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki keypt eina enn. Það er veggpláss inni hjá stráksa og spurning um að lauma að honum mútufé til að fá að hengja upp flottar myndir þar, auðvitað læt ég ramma fínt inn. Stoppaði ekki lengi, ákvað að nota tækifærið þótt ekki væri föstudagur* og kíkja í elsku Einarsbúð. Ég tek sykurleysið mjög alvarlega og keypti mér minnstu gerð af sykurlausum ís hjá Frystihúsinu áður en ég lagði í gönguferðina í Einarsbúð en í vöffluformi til að fá kolvetni fyrir heilann.

*milli kl. 18 og 18.30.

Mynd 2Heppnin var með mér, ég hitti kaupmannshjónin, Ernu og Einar, sem ég hef elskað, dáð og dýrkað frá barnsaldri, en maður missir auðvitað alltaf af þeim með því að panta og fá heimsent sem er líka gott og minnkar sénsinn á því að fá kóvíd eða vera bitinn af lúsmýi, hugsa ég, en það er mikill tímasparnaður fyrir gangandi konu að láta þriggja mínútna símtal duga.

Ég rétt svo mundi eftir að segja Einari frá Oddfellow-konunum sem ég upplýsti um leynifélag einhleypra á Akranesi, fullu nafni:  Tilfinningagreindir Akurnesingar tækifærið nota og rabba á Akranesi. (Það er alveg rabbað líka). Við grétum af gleði þegar við sáum hvaða orð það næstum myndaði. Til dæmis: Samtök krúttlegra Einarsbúðarkúnna: SKE sem er erlendur málslæðingur og vart rithæft - hefði aldrei gengið upp, við viljum frekar að eitthvað gerist en ske-i. TATNRA-félagið er ljómandi fínt.

 

Ég sá að Einar varð hugsi, eins og hann áttaði sig á ástæðu grunsamlega mikillar umferðar fólks í kringum bananastandinn ýmist með banana eða melónur í körfunni, þarna hjá grænmetinu, það var eins og ljós rynni upp fyrir honum. Hann sagði lágt en ákveðið í lagertalstöðina: „Siggi minn, viltu panta ostrur! Fyrir svona 20!“ heyrðist mér. Sniðugur, þetta flýtir mjög fyrir pörun sem þýðir að ráfandi, leitandi einhleypingar teppa ekki alla umferð um grænmetið síðasta opnunarhálftíma vikunnar. Ég missi af ostrunum því komandi helgi verður ekki fríhelgi hjá mér. Eða sagði hann ostur?

 

Virðulegir fréttamenn RÚV segja ekki bara hoppUkastali og ungAbarn, heldur heitir reiptog allt í einu reipItog. Málið af götunni komið inn í helgustu vé íslenskrar tungu. HÉLT ÉG. Þetta var áfall. Spurning um að gefast bara upp ... ég vil líka að málið þróist og fer alltaf að hugsa um orðið ruslAfata sem var án efa rusl-fata til að byrja með. Eftir 40-50 ár verðum við (þið) farin að segja sorpAtunna kannski ... til að orðið fari betur í munni. Annars verð ég kannski enn á lífi, mig langar svo til að lifa alla vega í 70 ár í viðbót og vita hvað stendur í erfðaskrá Filippusar sem var innsigluð í 70 ár.

Að nota gott mál hef ég sett undir hatt vandvirkni og yndisþokka (löng saga) en nú heyrir maður sama málið talað hjá RÚV og á Keisaranum við Hlemm í gamla daga. Ætli fréttamannspróf sem ég tók og náði árið 1999 virki enn til að fá vinnu þar? Svo gæti ég reynt að hafa góð og málhreinsandi áhrif ...   

Einbeittar rúturÉg amast sannarlega ekki við mannaferðum hér við sjóinn minn, á hlaðinu mínu, síður en svo en langar að ítreka við yfirvöld á Akranesi (sem hljóta að lesa bloggið mitt) að það dugir ekki lengur og hefur í raun aldrei dugað almennilega að mála einhverjar rendur á malbikið á bílastæðinu, það vantar skilti, ég hef bent á það en þá var bara sendur málari sem málaði enn fyrirferðarmeiri rendur, eins og ökuleið, sjá upplitað hægra megin við rúturnar.

Rútubílstjórar eru svo einbeittir í því að leggja vel, svo stutt verði að ganga frá Guðlaugu (heit laug) og upp í hlýja og notalega rútuna. Sem þýðir að bæjarstarfsmenn komast ekki inn ak-veginn vinstra megin við rúturnar. Ég sá að löggan þurfti að biðja Guðlaugarfólk sem kom hlaupandi hálfnakið til að færa bíl svo hún kæmist til að passa upp á fótboltaleik sem þá fór fram austanmegin á hlaðinu (oft biluð slagsmál á vellinum). Mér líður svolítið eins og löggu eða gyðju þar sem ég sit við gluggann og dæmi lifendur og dauða fyrir að fara ekki eftir reglum, leggja ekki rétt, tala ekki rétt mál ... en reip-i-tog er nú samt ólíðandi!

 

FrændfólkViss frændi (fjandi) búsettur í Frakklandi getur verið einstaklega utan við sig. Hann fór í apótek nýlega til að kaupa sótthreinsispritt og magnesíum. Á meðan hann stóð í biðröðinni fór hann að máta lesgleraugu og greip bækling til að prófa þau og sá textann mjög vel. Þá var hann kallaður upp, brá við það, skellti lesgleraugunum í flýti í standinn, setti sprittið og bæklinginn sem hann var enn með á afgreiðsluborðið og sagði: „Já, og svo ætla ég líka að fá rohypnol, takk.“

Spritt, alræmt lyf og bæklingur sem auglýsir kvennærföt? Annað frændfólk mitt er ekki alveg svona, eða jú ... ein sem skrapp fyrir langa löngu á bensínstöð og bað um í afgreiðslunni að láta fylla á bláa bílinn. Ha, það er enginn blár bíll ... og þá mundi hún að hún hafi ákveðið að fara gangandi á bensínstöðina af því að það var svo gott veður ... til að taka bensín. Klár og hámenntuð en það bjargar ekki alltaf. Og jú, hún er skyld fjanda.

Fjandi hefur það fínt á Twitter og Instagram eftir að hafa verið hent út af Facebook fyrir nasisma, eins og ég hef áður kvartað yfir. Hann fékk viðvörun eftir að hafa gert grín að nýnasistum (Facebook skilur ekki íslensku) og svo þegar hann kallaði Nönnu, vinkonu okkar, „heillin“ (HEIL-lin) missti Facebook þolinmæðina og fleygði honum öfugum út. „Af hverju kemurðu ekki aftur, bara undir öðru nafni?“ spurði ég um daginn. „Ég brýt ekki reglur en Facebook gerir það,“ svaraði hann. Ég hef ekki tíma fyrir Twitter líka, læt mér Instagram og Facebook nægja og Snapchat og bloggið. Twitter er bara fyrir sniðuga fólkið sem nær að vera hnyttið, beitt, fyndið og skemmtilegt í um það bil þremur orðum. En kannski ber söknuðurinn mig ofurliði og ég fer á Twitter þótt ég hafi ekki tíma ... 


Móðgandi ættingi og óvæntar pöntunarraunir

Keli og MosiSímtal í gær kom mér í talsvert uppnám, ekki bara af því að það var frá einhverju karlkyns og mögulega spennandi sem það var ekki af því að þetta var skyldmenni. Ekki Davíð frændi, hann myndi ekki dirfast, og eftir að hafa spurt um sameiginlega ættingja okkar frá Stór-Flateyjar á Skjálfanda-svæðinu, sagði hann sakleysislega: „Ekki vissi ég að þú værir að fá annað fósturbarn.“ Ég þagði í nokkrar sekúndur en hugsaði mig um til öryggis, sagði svo: „Nei, alls ekki. Hvernig datt þér það í hug?“

„Nei, það kom fram í síðasta bloggi að árið 2022 fengir þú grannan líkama, ég gat ekki skilið það öðruví-“ Ég skellti á, hversu illa er hægt að misskilja hlutina ... eða ekki. Þetta er í fyrsta sinn sem einhver reynir að sjá eitthvað annað út úr spádómum véfréttar minnar á Facebook og vonandi það síðasta. Ætla rétt að vona að þetta dragi samt ekki úr því að spádómurinn rætist. 

 

Í gær eldaði ég einn allra besta kjúklingarétt lífs míns (Eldum rétt) og þar sem drengurinn var svo óheppinn að borða annars staðar varð ég að láta mér lynda að snæða afganginn í hádeginu í dag. Örlítil sósan var gerð úr rjómaslettu og einhverjum leyndardómsfullu gumsi sem fylgdi með þannig að ég myndi aldrei í lífínu getað eldað svona. Alveg spurning að fá vinnu hjá ER um skamma hríð til að ná í leyndarmálin, eða prófa að gúgla, jafnvel lesa matreiðslubækur. Stráksi fer í sumarbúðir í næstu viku og ég ætla hiklaust að elda fyrir mig eina á meðan hann er að heiman, þetta er fyrir tvo svo annaðhvort að borða rest í hádegismat eða bjóða kannski Ingu sinni í mat.

 

rihanna-bright-green-shirt-02Þótt mér finnist svartur flottur og klæðilegur litur væri ég stundum alveg til í eitthvað skærara og í gær sá ég á netinu þennan svakalega flotta eiturgræna bol sem ég ágirntist og hann skyldi verða minn, minn, minn ... í hvelli. Ekki málið að panta í gegnum símann, innlend búð og sent upp að dyrum sem er gott fyrir bíllausa sem búa þar sem pósthúsið er uppi í sveit. Hmm.

Allt gekk mjög vel, ég vissi að vinkonur mínar yrðu hreyknar af mér að geta þetta, ég gekk frá kaupum og fékk svo í blálokin SMS með töluhrúgu til að staðfesta kaupin, allra, allra síðasta skrefið. Ég ýtti á SMS-ið því það þurfti til að númerið kæmi í ljós, annars hefði ég lagt það hratt á minnið og skellt inn, nema hvað ÞÁ HVARF PÖNTUNARSÍÐAN ENDANLEGA úr símanum mínum, svo ólokinnar pöntunar minnar bíða þess örlög að sveima um í óravíddum internetsins um aldir alda af því að það var ekki hægt að staðfesta. Þannig að ég þarf að panta framvegis í tölvunni og nota gemsann til að taka við staðfestingunni, nema einhver kunni betri lausn. En eiturgrænn bolur er lagður af stað til mín. Myndin er tekin af mér árið 2023 (sjá spádóm véfréttarinnar í síðasta bloggi). 

 

Facebook rifjaði nýlega upp sjö ára gamla minningu frá árunum þegar ég tók strætó daglega:

Tommi bílstjóri: „Ertu ekki örugglega búinn að lækka í heyrnartækjunum?“ Ólafur af Kjalarnesi fékk þessa spurningu rétt áður en hann tyllti sér hjá mér í strætó. Svona er nú hægt að stórmóðga tvær flugur í einu höggi ... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 177
  • Frá upphafi: 1529763

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 154
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Alltaf númer eitt ...
  • Jana Napoli frá New Orleans
  • Írskir dagar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband