Færsluflokkur: Bloggar
1.6.2022 | 12:14
Sumar í lofti og langbestu megrunarráðin
Þessa morgnana vakna ég fyrir allar aldir við skræki, öskur og garg, og fer samstundis í sumarskapið, árlegu vorferðalög skólanna í fullum gangi, svo eru það hljóðin úr sláttuvélunum því hér vex allt frekar hratt ... orðið langt síðan lóan hefur verið vorboði hér.
Austan megin við Himnaríki var slökkviliðsæfing, sýndist mér, fullt af fáklæddu slökkviliðsfólki, alls staðar að af landinu ábyggilega, æfði sig í að renna sér á rassinum niður sleipa brekku. Mikið held ég að það sé gaman að vinna hjá slökkviliðinu. Þetta er sennilega starfskynning hjá slökkviliðinu, svona ef ég rýni betur í myndina. Esjan er þungbúin, enda ekkert skrítið, nú er sumar og þá fjölgar þeim sem ganga ofan á henni, traðka á henni, og leið 57 gengur ekki lengur að Esjurótum, vissulega erfitt að komast þangað á norðurleið og komast út á suðurleið, þetta er jú þjóðvegur með 90 km/klst-hraða. Svo er búið að hækka fargjaldið hjá ungu fólki, öryrkjum og eldri borgunum. Eina leiðin sem okkur stráksa býðst er kort eða peningar - klappið virkar í Reykjavík. Ég sakna miðanna virkilega mikið, gat keypt þá úti í íþróttahúsi og fljótlegt að rétta tvo fullorðins og tvo unglinga og ekkert vesen þegar við stigum um borð. Hófst ekki hnignunin þegar bílstjóranir voru klæddir í flíspeysur og tekinn af þeim einkennisbúningurinn?
Þessi árstími þýðir líka að my biggest fan virkjast og verður ekki bara minn mesti aðdáandi, heldur vinnusamur og lætur mér líða svo miklu betur. Elsku viftan mín. Styttan á myndinni var keypt í Búdapest og býr yfir þeim galdri að fái ég ritstíflu nægir mér að snerta pennann sem skáldið heldur á. Þegar ég var í Búdapest, í árshátíðarferð (haustið 2000), hélt ég fyrst að stóra styttan í garðinum sem við Nanna fórum í, ætti að tákna dauðann, en nei, aldeilis ekki.
Stráksi byrjar í nýrri sumarvinnu í dag, hluta úr degi til að byrja með, nokkuð feginn að vera ekki lengur í vinnuskólanum, grasgrænn, skítugur og blautur (það rignir oft á Íslandi á sumrin). Stigagangurinn gleðst líka tryllingslega, hugsa ég. Nei, þá er skárra að vinna inni, finnst honum. Hann er samt enginn innipúki eins og ég. Spennt að vita hvernig fyrsti vinnudagurinn hans verður.
Ég leitaði svara hjá véfréttinni minni á Facebook og svei mér þá ef ég fer ekki að trúa á hana. Hún vill meina að ég verði grönn í ár sem er ákaflega merkilegt því ég er komin í sykurbindindi (aftur), ekki mjög ströngu, það var afmæli á sunnudaginn, en ég er búin að banna drengnum (aftur) að bjóða mér sælgæti og banna Einarsbúð að selja mér nokkuð nema sykurlaust, t.d. salat og smjörpappír ... Ég var síðast tággrönn árið 1986 og eiginlega þrennt sem orsakaði það að ég náði allra síðasta hluta hvolpaspiksins af mér og fór eflaust niður í stærð núll sem þá var ekki búið að finna upp, held ég.
Takið nú vel eftir: Ráð mitt (veitt aðeins í þetta eina skipti) til að skafa af sér spikið er að verða:
1) heiftarlega ástfangin af haltu mér, slepptu mér-manni*, 2) vera í ótrúlega stressandi aukavinnu, t.d. í beinni útsendingu fjóra daga vikunnar á Rás 2 og kasta stundum upp fyrir útsendingar, 3) fá mötuneyti í húsið þar sem aðalvinnan þín er og þurfa ekki lengur að lifa á sjoppufæði í hádeginu (það var fátt hallærislegra en að taka með sér nesti á þessum tíma - og ekki búið að finna upp örbylgjuofninn).
* Sjá bókaflokkinn Hann var kallaður Dýrðin.
Þetta eru mín allra bestu ráð til að grennast hratt og örugglega. Hollur, sykurlaus matur og hreyfing virkar eflaust líka en það bara eitthvað svo fallegt við þjáninguna ... og ég sem áhrifavaldur af Akranesi hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera búin að létta leyndinni af þessari frábæru aðferð sem hefur vissulega bæði kosti og galla. Lélegar strætóferðir milli Austurbæjarskóla og Hávallagötu geta líka hafa spilað inn í, best að ganga bara-aðferðin gæti þá orðið númer fjögur.
Ég birti kannski FYRIR og EFTIR-myndir í lok árs ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2022 | 23:22
Bestu póstnúmerin og þau verstu ...
Á útvarpsstjörnuárunum á síðustu öld fékk ég oft skemmtilegt og áhugavert fólk í viðtal, t.d. einu sinni talnaspeking. Hann glotti út í annað þegar ég spurði hann út í póstnúmer, hvort þau segðu eitthvað merkilegt um fólkið þar, út frá talnaspekinni. Hann viðurkenndi samt að hann hefði ekki hugsað út í það (meira í fæðingardegi og ári). Ég sá samt að það lifnaði yfir honum þegar ég sagði honum að til dæmis fólkið í fína byggi í Vesturbænum, 107 Reykjavík, 1 + 7 væru 8 og átta væri tala peninga og ríkidæmis. Einn, núll, einn, væru tveir, tala vináttu, samvinnu og hvað gerir fólkið í 101 Reykjavík, jú, það bannar bíla svo það geti kjaftað saman yfir latte allan daginn á kaffihúsum, við borð úti á götu. Hann glennti upp augun en þóttist vera áhugalaus, svo ég bjóst allt eins við jólabók frá honum: Hvað segja tölurnar um hverfin í Reykjavík. Gert í samvinnu við hagstofuna sem veit allt um okkur. Meira en okkur grunar.
Hér eru hverfin ... spennandi að vita hvort þið búið í flottu hverfi eða enn flottara, það eru engin slæm póstnúmer. Ath. að 1 er neðst í röðinni ... fyrir hálfgerða excel-manneskju varð svo að vera:
Póstnúmer - tala - merking
101 = 2: Samvinna, félagsskapur, vinátta, ekki ólíklegt að margir sálfræðingar búi þarna.
102 = 3: Listir, menning, gróska, frjósemi.
103 = 4: Vinna, vinna, vinna, vinna, vinna, vinna. Mögulega forríkir vinnualkar sem sækja í þetta hverfi. (Hafnfirðingar, 220, eru sívinnandi, sjáið Bergrúnu Írisi, ég hef ekki tölu á bókum hennar).
104 = 5: Ferðalög, hreyfing, breytingar, gleði, þarna búa flugmenn og flugkonur, ferðalangar og ævintýrafólk.
105 = 6: Ást, rómantík, þarna er fólk eiliflega að giftast og skilja. Stundum drama. Fer mikið í sleik á almannafæri.
107 = 8: Ríkidæmi, auður, velsæld, fólk ætti að vera sérlega fitt og flott, hefur efni á ávöxtum, grænmeti og ræktinni. Gott að vera á sendiferðabíl á rúntinum þarna því oft er að finna þarna heillegar frystikistur og sófasett. Brauðmolar alla miðvikudaga.
108 = 9: Hér býr fólkið sem fórnar sér fyrir málstaðinn og annað fólk, stórmenni sem eiga yfirleitt betri seinni helming ævinnar, svo ekki flytja í fljótfærni úr 108, elskurnar.
109 = 1: Frumkvöðlar, þurfa oft að brasa einhvern helling áður en allt gengur upp ...
Reykvíkingar eru óheppnir að hafa ekki 106 Reykjavík, því sjöan er svo töff (ég er sjöa). Þetta er fólk sem getur verið eitt án þess að vera einmana, grúskarar, vísindamenn, andleg tala ... háskólasvæðið ætti t.d. að vera í 106 Reykjavík.
Við landsbyggðatútturnar þurfum sannarlega ekki að örvænta. Við leggjum bara saman tölurnar í póstnúmeri okkar til finna TÖLUNA, styttum niður í eina tölu ef þarf.
300 Akranes er nú bara 3 enda er allt morandi af listafólki hér (Tinna Royal, Bjarni, Hrönn og fullt í viðbót, myndin sýnir hversu litríkt Akranes er, ekki bara gráir bílar, ekki bara svartir innkaupapokar og hvít hús).
750 Fáskrúðsfjörður: 7+5 = 12 og þá er það: 1+2 = 3 sama og Skagamenn, jess.
430 Suðureyri er heppinn staður með allt andlega og vísindalega þenkjandi fólkið, einræna jafnvel en allt í lagi, eru Vestfirðingar hvort eð er ekki alltaf fastir í húsum sínum yfir vetrartímann vegna snjóa? Þeir eru þá í góðum félagsskap, með sjálfum sér og öðrum íbúum í sjöunni.
Ég á nú samt eftir að gera rannsóknir á hvernig örlagatölur fólks (fd og ár) eiga saman við póstnúmer þess. Þetta endar í mastersgráðu hjá mér, jafnvel doktors ef ég tek þetta alla leið.
Er þetta ekki upphaf einhvers? Númeralógíusöfnuður Gurríar OHara? Ég skal taka að mér að segja ykkur hvernig þið eruð og hvernig þið eigið að haga lífi ykkar ... Þetta þarf þó að bíða til ársins 2023 því það kemur SJÖ út úr því ári og ef ég ætla að vera samkvæm sjálfri mér verð ég víst að hugsa þet- Bíðið við, þetta er á næsta ári, spurning um 7. júlí og kl. 7, ef ég vakna. Kannski betra kl. 16 (1+6). Samt ... kannski er ég ekki nógu félagslynd (sjöa) til að geta drottnað yfir söfnuði og látið dá mig og dýrka (sem ljónið í mér myndi elska ef eitthvað er að marka stjörnuspeki). Ætla að hugsa þetta betur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2022 | 18:10
Megrandi sælgæti og svarta fjallið kvatt
Eitt af því sem ég sá (í fyrsta sinn) og keypti í Krónunni í fyrradag var Atkins-nammi, verulega bragðgott, alla vega karamellubitarnir og enginn sykur. Drengurinn spurði strákinn á kassanum: Hefur þú prófað svona orkubita? Áður en hann náði að svara viðurkenndi ég að þetta væri nammi fyrir FeiBo ... þá sem væru að reyna að hætta sykuráti. Um það bil tveimur tímum eftir heimkomu áttaði ég mig á ástæðu þess að þetta þykir svona "megrandi". Það er engin leið að opna þetta, hverjum bita er pakkað vandlega inn í eins konar plastbrynju og áreynslan svo mikil við að reyna að opna að maður bæði brennir óteljandi hitaeiningum, finnur upp ýmis ný blótsyrði og nennir bara að fá sér einn bita á dag. Þvílík snilld. Einn biti nægir líka alveg. En ég vissi að ég hefði not fyrir þetta skrúfjárn einhvern daginn. Þetta er ábyggilega karmískt þakklæti þess til mín fyrir að hafa leyft því að vera í friði og ónotað í pennastandinum á skrifborðinu.
Langri baráttu minni við svarta sokkafjallið lauk loksins í dag. Ég hafði þvegið hrúguna aftur af því að hún var orðin rykug og ekkert bólaði á barnasálfræðingnum í ættinni - sem er góð í sokkaflokkun, til að blekkja mig til að drífa í þessu, en það eru tvær vikur síðan. Nú þurfti ég að taka smápásu frá verkefni og við undirleik Eminem og fleiri tókst mér að ná um tólf svörtum pörum, nánast rétt. Restin virðist bara ekki passa saman. Datt í hug að setja restina í poka handa Rauða krossinum, þar er allt þegið, hægt að nýta allt. Í hvert skipti sem verður afgangur af sokkum, lendir hann í pokanum. Svo verða keyptir skrautlegir sokkar í framtíðinni.
Svolítið sjokk að sjá viðtal við úkraínska konu, varaborgarstjóra í Irpin, sem virðist hana fengið öðruvísi móttökur á Íslandi en landar hennar, var flutt nauðug ásamt manni og barni á Ásbrú í ömurlegar aðstæður, aðskilin frá móður sinni sem fór á Bifröst. Þau fengu engan fyrirvara, engan tíma til að pakka niður, báðu um að fá að fara daginn eftir en voru þá handtekin og flutt þangað.
En sjúkk, það var auðvitað skýring á þessu. Maðurinn hennar er frá Palestínu! Það hlaut að vera ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2022 | 19:07
Ofnæmi fyrir fíflum ...
Nýútskrifaði fangavörðurinn lofaði í gær að ef svo fáránlega vildi til að ég lenti í steininum, einhver lygi upp á mig glæp, launráðum, landráðum, meinsæri eða njósnum myndi hann sýna mér sérlega mikla náð og miskunn. Ég fengi að stofna klíku og stjórna kaffiundirheimum staðarins, fengi að hafa mína eigin kaffivél í klefanum og ýmis tæki til kaffineyslu, og það besta, yrði í blönduðu fangelsi því það er hálfgerð dauðarefsing fyrir mig að halda mér frá körlum. Samt kann ég vel við konur, virkilega. Bland er betra á allan hátt, það vitum við sem erum hrifin af malti og appelsíni saman.
Mynd: Stráksi fékk að máta höfuðfatið flotta í útskriftarveislunni.
Strætóferðin heim í gær var með þeim skemmtilegri. Við hliðina á mér, hinum megin við ganginn, sátu selebrittíin Keli og Gaur en sá síðarnefndi er hjálparhundur sem svaf alla leiðina upp á Skaga, eins og besti köttur. Þetta er í annað sinn sem við Keli erum samferða, mörg, mörg ár síðan síðast og enginn hundur kominn til sögunnar. Þar kynntumst við og höfum ekki hist síðan fyrr en í gær. Hálfa leiðina töluðum við fallega um Önnu Láru, systur hans og síðan um íslenskt mál, tækni og vísindi, hljóðblöndun, hunda og annað skemmtilegt. Ég sagði honum að Gaur væri hjartanlega velkominn í afmælið mitt, kettirnir mínir hafa góða reynslu af labrador-hundum og ég líka.
Við stráksi fengum okkur dýrlegan dásemdarmat á Flamingo, sýrlenska kebabstaðnum, við heimkomu. Hann fékk sér rétt númer tíu, ég prófaði kjúklingasalat og varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Það vantaði eitthvað algjört smotterí, sem ég gleymdi að panta síðast í Einarsbúð, svo við skruppum í Krónuna.
Þar er búið að breyta ansi mörgu þar, sá ég, og bara til góðs. Búðin er orðin alveg glimrandi fín og allt einhvern veginn svo miklu sýnilegra - einhver virkilega góð/ur hefur hannað breytingarnar.
Í dag vorum við drengurinn á svipuðum slóðum, nema fórum í bókabúðina himnesku - ÓVISSA var nýkomin í hús, glóðvolg úr prentsmiðju, svo ég greip hana, ansi hreint glöð. Helgin fer í vinnu en yfirleitt tekur maður ekki borðtölvuna með sér í bólið svo hægt verður að lesa, sjúkk, svo ég á von á góðu. Fer upp í um hálfáttaleytið, hugsa ég.
Mynd 2: Raggi Th ljósmyndari var skemmtilegur samstarfsmaður á síðustu öld ... eitt sinn kom hann inn á kaffistofu og sagði: Vitið þið hvað það heitir svona búmmerang sem kemur ekki til baka? Við höfðum ekki hugmynd. Spýta!
Raggi er með ofnæmi fyrir fíflum og á vottorð frá lækni þess efnis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2022 | 13:23
Að þekkja rétta fólkið ...
Í dag er H-dagurinn sem ég hef haldið upp á í rúmlega 50 ár með ýmsum hætti. Yfirleitt koma blöðrur og kaffi við sögu. Svo sem enginn sérstakur gleðidagur þar sem ég keyri ekki en mér finnst að maður eigi að halda upp á sem flest, held alltaf upp á dag unga fólksins sem ber að sjálfsögðu upp á afmælisdaginn minn svo tvöföld gleði en olli undarlegum misskilningi eitt árið þegar bakarinn gerði ótrúleg mistök, samt þekkjumst við! En til hamingu með H-daginn.
Facebook rifjaði upp fyrir mér í gær 12 ára gamla minningu frá því ég horfði nokkuð reglulega á sjónvarp. Ég hafði verið að horfa á breskan þátt sem heitir What not to wear. Tvær "hreinskilnar" konur reyndu að kenna fólki að klæða sig rétt. Ertu laumuhommi? Herbergið þitt er miklu kvenlegra en konunnar þinnar ... Hjónaband ykkar er skrítið. Þær hættu ekki fyrr en fólk fer að skæla í þáttunum og þessi vesalings maður brast í grát eftir árásir þeirra. Einhver svaraði þessum skömmum mínum og sagði að ekkert á borð við meðvirkni fyrirfyndist í breskum sjónvarpsþáttum. Kurteisi og virðing, er það meðvirkni? Ég hefði sætt mig við orð eins og þetta eru ekki falleg föt. Man eftir einni vinkonu sem breytti ýmsu í allt-of-nýtnum-fatasmekk mínum. Hún sagði í annað skiptið: Þetta pils gerir ekkert fyrir þig. Í hitt skiptið sagði hún: Það er orðið langt síðan steinþvegnar gallabuxur þóttu flottar. Ég breytti um stíl. Eftir seinni blíðlegu athugasemdina varð ég smám saman að trendsetter þeirra sem nýta fötin sín vel en ganga ekki í ljótum pilsum eða steinþvegnum gallabuxum. Á Akranesi fást ekki ljót föt, sem er hjálplegt, prófið bara að kíkja í Bjarg eða í Nínu og það hefur sjálfkrafa gert mig mjög smart týpu, svo ég segi sjálf frá. Kannski skemmi ég heildarlúkkið með því að kaupa mér stundum föt í Walmart en á meðan fást ekki hvítar skyrtur á Íslandi (sígilt, elskurnar) ...
Það rifjaðist líka upp fyrir mér samband við manninn sem ég hélt að yrði fjórði eiginmaður minn. Hann reyndist vera algjör bjáni og henti mér út, hann leigði þessa íbúð. Ég byrjaði á föstu með leigusalanum hans nokkrum dögum seinna og við hækkuðum leiguna hans um 83%. Ég er ekki hefnigjörn en stundum þarf að ganga hreint til verks til að kenna fólki lexíu. Hann hefur ekki átt kærustu síðan.
Partí fram undan í bænum í dag. Ég er svo klár og reyni að finna mér vini og ættingja á öllum vígstöðvum, svona til öryggis. Legg mikið á mig til að þekkja rétta fólkið. Þessi sem heldur partíið var að útskrifast úr Fangavarðaskólanum. Ég er ekki á leið í fangelsi (ég hef lært af reynslunni) en er ekki samt snjallt að gera alltaf ráð fyrir öllu? Vil taka fram að þegar ég tala um grasrækt á blogginu er ég að sjálfsögðu að tala um kattagras. Sem kettirnir mínir narta í ... ekki ég. Ætla að nota þennan vettvang til að bæta við mig og óska eftir að kynnast flugmanni, kokki, steypubílstjóra, löggu, trompetkennara og hundaþjálfara. Til að byrja með. Allt of margir sálfræðingar í ættinni, svo ég taki dæmi. Ég er frekar heiðarleg, frekar örlát, frekar grönn inn við beinið, hata að ganga, lítið fyrir sólböð og búðarferðir, kann ekki að keyra, elska hunda og ketti, hef áhuga á góðu kaffi, bókum, vefmyndavélum (hvað er að frétta, Seyðisfjörður?), eldgosum og jarðskjálftum. Tilboð sendist Himnaríki merkt: Ein með svoleiðis öllu og meira til. (Ég áskil mér (að vanda) rétt til að hafna öllum eða taka öllum).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2022 | 17:16
Óvænt uppgötvun, náttúrulífshryllingur ... og mótmæli
Sökum þreytu og leti í gær eftir að hafa eldað enn eina dýrindis máltíðina (frá ER) leyfði ég mér að horfa á tæplega þrjá eða fjóra þætti af Silent Witness. Sjónvarp er að koma aftur inn í tilveruna, hægt og rólega, svona ef ég nota letina, fjarstýring í nánd og engin bók í grennd. Í lok glápsins var fangauppreisn og hávær bjalla glumdi lengi, lengi, þetta var óþægilega kunnuglegt. Þar sem ég trúi ekki á fyrri líf og hvort eð er ekki séns á að í fyrri lífum hefði ég komist í kast við lögin (konan sem lét tryggingafélagið vita þegar stolna hjólið sem hún fékk bætt fannst óvænt nokkrum dögum seinna) varð ég að finna aðra skýringu. Og hún kom, og hún var ljót. Þetta er nánast sama hljóðið og í vekjaranum mínum í símanum. Ekki skrítið að ég sé nánast allan daginn með samviskubit yfir einhverju (glæp sem ég hef ekki framið?) og drekki sorgum mínum í kaffi. Ég er búin að breyta hringingunni í væminn prinsessusöng með regnbogamali og fuglasöng. Enda svaf ég til tíu í morgun.
Ég sá svo hræðilega ljósmynd á Facebook um daginn (ég sleit fb-vinskap við konuna sem birti hana, skildi ekki tilganginn, nema að láta fólki líða illa), af grimmdinni í náttúrunni, dauð móðir, ofsahrætt afkvæmi og rándýr, og mundi þá hvers vegna ég get ekki horft á dýralífsþætti þótt Gunni, gamli nágranni minn, sé oft bæði þýðandi og þulur þar og ég eigi bók áritaða af sjálfum Attenborough.
Hér sjáum við sætasta krúttbamba í heimi en lögmál náttúrunnar eiga líka við um hann, ljónið hefur legið í leyni og ákveður að myrða fagureygða yndið á viðurstyggilegan hátt, sjáum það kjamsa á ofsahræddu hjartanu úr litla Bamba, endilega látið börnin ykkar horfa. Sjáið tár foreldra Bamba litla sem flýja hraðar en vindurinn til að búa til fleiri bamba fyrir ljónin til að éta ... en svona er bara náttúran ... Eitthvað svona get ég ekki. Skil vel fólk sem fárast út í veiðar katta á fuglsungum - en set spurningamerki við það hreina hatur sem skín út úr orðum sumra sem jafnvel koma með aðferðir til að drepa kettina. Það hefur verið rannsakað að kettir eru langt í frá það hættulegasta sem steðjar að ungum, en sennilega eitt af því fáa sem við getum á einhvern hátt stjórnað til að draga úr; trúðakragar, loka þá inni á vorin.
Míró, gamli kötturinn minn, kom eitt sinn (1981?) gangandi með lifandi fugl í kjaftinum. Með því að setja stúknamet í stökki án atrennu flaug ég, 1,70 á hæð, yfir grindverkið sem var 1.60 á hæð, og tókst að bjarga fuglinum sem flaug á brott, við litlar vinsældir kisa. Mínir þrír kettir, Mosi, Krummi og Keli, eru innikettir. Til að þeir lendi ekki undir bíl eða í vondu fólki. Þótt dýra-/náttúrulífsþættir séu í sama flokki og hryllingsmyndir í mínum huga, verður því ekki neitað að mannskepnan er langsamlega grimmust. Við sína eigin tegund, dýrin og bara jörðina. Sjá stríðsmyndir, glæpamyndir og fleira.
Ég stefni að því að fara á mótmælin á Austurvelli á laugardaginn. Það ER pláss á Íslandi fyrir þessa 300 hælisleitendur í leit að betra lífi, og næg vinna, við þurfum að flytja inn þúsundir frá útlöndum á næstunni til að fylla störf í ferðaþjónustu og ekki er mikið talað um húsnæðisskort vegna þeirra. Flóttafólksins bíður bara hryllingur í yfirfullu Grikklandi. Alls ekki sömu réttindi og innfæddir hafa, eins og ráðherra sagði ranglega í útvarpsviðtali í morgun. Ég held að þetta geti fellt stjórnina ef það verður að veruleika.
Ég skal fyrirgefa bankasölusvínaríið. En ég mun aldrei fyrirgefa stjórnvöldum ef þessu fólki verður vísað úr landi. Hvaða rugl er að líta á alla sem sækja um hæli hér sem svindlara sem ætla að lifa á bótum? Hér er allt yfirgengilega dýrt, handónýtt heilbrigðiskerfi vegna fjársveltis í áratugi og veðurfar ekki lokkandi fyrir flesta. Ég óttast að öll samúðin sem hefur myndast með hinu velkomna Úkraínufólki geti snúist við þegar stjórnvöld mismuna flóttafólki svona eftir uppruna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2022 | 21:52
Skjálftaæfingar og spennandi kakóathafnir
Ég var í stöðugu taugaáfalli fyrst eftir að ég fékk nýju kattaklóruna sem kettirnir elska. Sjá mynd á næstunni ... Kattaklóran stendur fast upp við skrifborðið mitt og ef köttur lá þar og hreyfði sig, klóraði sér eða stökk niður á gólf með látum reið alltaf yfir stóri yfirvofandi Brennsteinsfjalla-jarðskjálftinn - skrifborðið mitt skelfur alltaf eins og í stórum alvöruskjálfta.
Vissulega gott að vera búin að taka út sjokkið því þegar sá stóri kemur nöldra ég bara yfir köttunum, hvergi smeyk. En til öryggis kíki ég þó alltaf á lampann í glugganum til að fullvissa mig um að þetta hafi (ekki) verið skjálfti. Þarf að venja mig af því.
Hef verið mjög spennt fyrir kakóathöfnum eftir fréttir síðustu vikna svo ég keypti vandað kakó í Einarsbúð. Grasræktun mín hefur ekki gengið sem skyldi, held að dýrabúðin selji ekki nógu gott efni ... say no more, en kettirnir eru samt sjúkir í það. Ég hitaði mjólk og setti kakó og sykur út í. Prófaði líka heitt vatn, kakó og sykur ásamt mjólk. Enginn munur á vímu, ja, lítil víma í raun nema ég hafi myndað ótrúlegt þol vegna kaffidrykkju minnar í hálfa öld.
Ég reyndi að slaka á, vera jákvæð, meðvituð, kærleiksrík, fyrirgefandi, full af núvitund en mundi ekki hvort maður notar þumal og vísifingur saman eða þumal og löngutöng sem getur hafa skemmt eitthvað. Aðalkikkið kom svo þegar mér hugkvæmdist að auka áhrifin með því að spranga um allsber á bílastæðinu fyrir framan Himnaríki.
Fyrst smánaði ég líkamsímynd mína með því að ætla ekki að þora að opinbera covid-keppinn sem situr enn sem fastast á staðnum sem áður kallaðist mitti. Eftir að hafa barið sjálfa mig fast í andlitið með blautu handklæði fór mér að finnast ég ótrúlega hot, ekki bara í framan. Svo ég fór út allsber en hélt á húslyklum í annarri og síma í hinni, var með kakó í brúsa í litlum poka á bakinu.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Garðabrautin varð eins og vinsæl umferðargata í Reykjavík undir fimm á föstudögum eða algjört öngþveiti ríkti. Ég gætti þess að láta strætó í bæinn fara fyrst fram hjá, ekki vildi ég að vagninn yrði seinn í bæinn. Mjög margir stukku út úr bílum sínum og störðu áhugasamir (sumir með leikhúskíki) á kakóathöfnina sem er í raun mín uppfinning því ég þekki engan í kakóinu og gat því ekki fengið leiðbeiningar. Ég fékk hugboð undir lokin um að lyfta upp höndum og útgeislun mín var slík að það leið yfir fólkið á svölunum á Nýju blokkinni - með látum. Ég verð að fara rólegar í sakirnar, kannski bikiní næst og bara vatnskakó. Einhver Sævar hringdi í mig, belgdi sig eitthvað og bannaði mér að fara út (öfund?) en ég hlusta ekki á hann, Hilmar í vitanum er búinn að panta svona athöfn hjá mér í vikunni niður á Breið og maður svíkur ekki Hilmar.
Ég hef endalausar hugmyndir um framhaldið, Swiss Miss með sykurpúðum, síðan án sykurpúða, þetta íslenska kakó sem ég var með er kannski í það daufasta miðað við erlenda, það er allt bannað á Íslandi (dæmi: flensulyf, Pepto Bismol, sumt tannhvíttunartannkrem) svo ég er spennt að prófa erlent kakó, jafnvel strax á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2022 | 12:43
Sætur Skeifuköttur og stórkostleg samsæriskenning
Við stráksi tókum 13.15-strætó frá Akranesi í gær og hittum á nýjan bílstjóra. Leið 57 er fræg fyrir að hafa eina bestu (sætir og geðgóðir) bílstjóra landsins og þessi nýi var engin undantekning. Hann heilsaði öllum svo fallega og þegar ung stúlka sem kom inn í Mosó sagði að vinur hennar væri rétt ókominn, hvort hann gæti beðið í örlitla stund kvað hann það sjálfsagt. Þetta voru heilar 20 sekúndur sem tók drenginn að þjóta upp brekkuna í Háholti.
Ég hrósaði bílstjóranum fyrir yndislegheit. Konan fyrir aftan mig tók undir það. Svo þurfti ég auðvitað að vita hvaðan hann væri. Hann reyndist vera hálfþýskur og hálfúkraínskur. Þjóðerni skiptir auðvitað engu máli, en ég var bara forvitin. En nú veit ég að allir frá Þýskalandi og allir frá Úkraínu eru góðir.
Mynd samansett: Sýnir Diego til vinstri (mynd af snappinu mínu) og hægra megin, afsökunarbeiðni eftir mjög umdeilda færslu Denbúðar við Síðumúla.
Ég hélt að ég væri að fara með Hildu systur í gleraugnabúð, hún er á því að vanda valið þegar kemur að næstu lestrargleraugum en systur minni fannst, þar sem ég var stödd í borginni á virkum degi, að tími væri til kominn að finna stóru systur nýjan skrifborðsstól. Sem ég sit í núna og skrifa þessi orð.
Út af Diegó fórum við í A4 í Skeifunni en ekkert bólaði á Diego. Og af því að ég kann ekki að segja bara: Góðan dag, ég er að leita að góðum skrifborðsstól, fór ég að tala um að fólk úti á landi yrði að taka sér sumarfrí til að geta keypt sér stóla ... það væru sár vonbrigði og gjörsamlega út í hött að geta ekki keypt góðar vörur um helgar því allt væri lokað þá ... Ég var reyndar miklu vingjarnlegri en þetta, bara svona lét hann vita að þetta hefðu verið vonbrigði, kostað mig mjög margar vikur til viðbótar í vonda, eldgamla bakverkjastólnum. Afgreiðslumaðurinn nærri táraðist af meðaumkun og heimtaði að fá að gefa mér smávegis afslátt sem ég reyndi að afþakka í geðshræringu því ég var ekki að kvarta í alvöru, bara reyna að koma inn í höfuðið á honum að við landsbyggðartúttur værum líka fólk. Hann lét sig ekki, þessi elskulegi maður, og svo fór stráksi að tala um að það væri köttur kominn inn í búðina, þá vissi ég að þessi dagur yrði fullkominn. Mér tókst að festa kaup á stólnum með örskotshraða, skjálfrödduð af spenningi vegna Diegós, kom svo fram í almennu búðina og þar var systir mín, hundakonan knáa, að leika við Diego (8 ára) sem þáði svo náðarsamlegast klapp frá mér. Loksins. Til að gera svo daginn endanlega fullkominn fyrir drenginn var farið í KFC í Mosó og kvöldmaturinn tekinn með heim, Davíð súperfrændi skutlaði okkur.
Samsæriskenning Himnaríkis:
Á ónefndum stað í ónefndu landi ...
Hún er ekki alveg nógu smitandi, nýja pestin, skrambinn hafi það, segir Sergei pirraður. Ekki eins og kórónan, þar tókst okkur vel upp. Hefðum við kannski átt að finna eitthvað annað til að ... gera líf fólks spennandi?
Boris rekur upp hlátur. Bíddu rólegur, Sergei, þú manst að covid var frekar lengi af stað og svo varð allt vitlaust og allir kenndu Kína um. Okkar langbesta verk til þessa og bara af því að ég aulaðist til að lesa eldgamla bók eftir Dean Koontz um Wuhan-veiru. Ekki grunaði mig samt að helvítin yrðu svona snögg að koma með bóluefni. Hélt að pappírsvinnan tæki mörg ár, eins og vanalega.
Þetta er nú samt talsvert skemmtilegra en að hanga í tölvu allan daginn og senda út réttar skoðanir, alls ekki nógu margir sem bíta á agnið. Sergei dæsir, Boris hlær og segir:
Þér tókst nú skrambi vel upp með Brexit og Trump og ekki gleyma YouTube með the samsæri - hefði þó verið gaman að ná til fleiri með það. Það er greinilegt að þú ert sonur hennar mömmu þinnar, fjöldi fólks sem heldur að jörðin sé flöt. Hún byrjaði á þessu sem brandara, var það ekki? Eða var það veðmál?
Veðmál. Þeir hlæja dátt, þessar upprifjanir ylja.
Jæja, eigum við ekki að halda áfram? Enn allt of mörg lönd sem hafa ekki fengið bólur. Sergei flissar, klappar á vegabréfið sitt, farmiðann þar sem stendur stórum stöfum Icelandair og mynd af fossi í norðurljósum. Hann horfir hrifinn á tilraunaglasið sem hann mun komast óáreittur með inn í landið í sendiráðstösku. Þeir hlakka til að sjá Gullfoss og Geysi í leiðinni og geta ekki stillt sig um að hlæja enn einu sinni, háværar hlátursrokur þeirra hafa heyrst mjög reglulega árum saman. Þeir yrðu svo komnir úr landi löngu áður en fyrsta bólufésið liti dagsins ljós.
Þetta er samsæriskenning Himnaríkis. Ef þér finnst þetta trúlegt og mjög líklegt til að vera satt og rétt, endilega hafðu samband. Hver veit nema ég stofni hirð í kringum þessa frábæru kenningu mína og fái svo hirðsóknargjöld með tíð og tíma. Bannað að stela hugmyndinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2022 | 23:44
Ósætti hjá veðurfræðingum og pínku nöldur
Við stráksi ætlum í stutta bæjarferð á morgun. Veit ekki alveg hvaða yfirhöfn á við. Spurning um þrjár; regnkápu úr Lindex, hlýja MichelinMan-úlpu keypta í USA fyrir nokkrum árum (sér eki á henni) eða ofsahlýja niðurfyrirhné-síða MichelinMan-úlpu sem ég fékk í jólagjöf núna síðast. Engin rigning á morgun (vedur.is) en ógeðslega heitt, 12-13°C sem er viðbjóður í hverri sem er af þessum yfirhö-
Ok, sá veðurfregnirnar eftir kvöldfréttir á RÚV, núna kl. 22.18 ... spáð rigningu á morgun! Ríkir óvinátta / hatur / spenna /fjandskapur / samkeppni á milli Hrafns, veðurfræðings hjá sjónvarpinu, og þeirra á vedur.is? Getur Sigurður enn og aftur hafa unnið titilinn Sætasti veðurfræðingurinn á síðustu árshátíð sem skapaði illsku þarna á milli með svona misvísandi-veðurspár-afleiðingum? Eða náðu Rússar að brjótast inn í tölvukerfi Veðurstofu Íslands, kannski að beiðni jarð- og eldgosafræðinga? Stöðumælaverðir eru þá eins og englar í samanburðinum.
Varúð, nöldur: Annars þarf ég að biðja RÚV um að vera samkvæmt sjálfu sér. Fyrst orðið UNGAbörn hefur öðlast rétt til að vera notað í fréttatímum (!?!) væri þá ekki rétt að fara hreinlega alla leið? UNGAbarnasund, UNGAbarnaskoðun? Hrmpf ... sjálfsagt að tungumál fái að þróast EN ÞARNA SET ÉG MÖRKIN! Mér er alveg sama um ungabörn í talmáli og nánast hvar sem er nema í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna ... og í ritmáli - skammið mig bara. Nei, annars, ekki gera það.
Stráksi fékk nýtt rúm í gær, mjög fínt en ég hélt að ég hefði pantað annað rúm, með tveimur skúffum sem hefði verið æði. Þetta er með geymslurými undir, þarf að lyfta dýnunni og alles. Ég hélt fyrst að Rúmfó hefði gert mistök en nei, það var nú bara ég. Sennilega er ég svolítið hvatvís - en samt get ég verið svo hroðalega nákvæm. Kannski er ég stundum andsetin.
Samt mjög flott rúm sem elskulegur ungur maður frá Póstinum fór létt með að bera upp 3,5 hæðir með smáhjálp frá nýja eiganda rúmsins, ofsaglöðum stráksa. Ég auglýsti gamla (2 ára) rúmið gefins á sölusíðu, það er svo létt að hann var eiginlega orðinn of þungur í það. Ég var komin með svo mikið ógeð á þungum húsgögnum eftir endurbæturnar að ég hef sótt í léttara dót, eins og dásamlega leðurstólinn úr Húsgagnahöllinni sem ég gæti þeytt á milli veggja ef ég væri í stuði. En óvænt kom í ljós í dag að barnabarn skólabróður míns úr barnaskóla muni sofa í því vonandi næstu árin, hann kom með dóttur sinni að sækja það, mér til mikillar ánægju. Ég minnti hann á að það yrði árgangsmót á þessu ári ... ég er víst í nefndinni. Árgangurinn okkar samanstendur af fáránlega fallegu og skemmtilegu fólki, eins og svo margir árgangar hér, það er eiginlega of langt að láta líða 5 ár á milli hittinga. Þessi hressi skólabróðir minn ætlar að hitta nokkra gaura úr árganginum okkar úti í útlöndum í sumar. Hann ætlar að kyssa þá alla frá mér.
Nýja nágrannakona mín er algjört yndi og krúttið hann sonur hennar líka. Köttum Himnaríkis fannst ekki leiðinlegt að fara í leiserbendilsleik við drenginn í dag eftir að hafa ekkert hitt hann í nokkra daga, og þeir hafa legið flatir í allt kvöld, búnir á því eftir alla skemmtunina. Ég leyfði henni að heyra alveg hreint sjúklega flott lag, ábreiðu af vinningslaginu í Eurovision í ár, frábært tónlistarfólk frá Litháen þar á ferð, endilega hlustið, þetta er eiginlega flottara en það upprunalega ... barnakór, geggjaðar karlaraddir ... ég elska þetta lag. Gjörið svo vel, hér er dýrðin:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2022 | 22:23
Þrá eftir gegnsæjum svölum og dularfulli flokkurinn
Ég var að fá sendar myndir úr kosningapartíi sem ég man eiginlega ekkert eftir að hafa farið í. Rokkflokkurinn, X-R, sem bauð fram mjög leynilega, svo mjög að aðeins útvöldum var boðið að koma á kosningavökuna. Flokkurinn var skráður á kjörseðil með ósýnilegu bleki svo of margir vissu ekki af tilveru hans. Það hefði þurft sítrónudropa eða sérstakt vasaljós til að sjá hverjir sátu á lista, skilst mér. Aðeins kjósendur með dulræna hæfileika gátu því kosið Rokk-flokkinn en allir miðlar frá Akranesi eru víst í hnattreisu, siglingu um Karíbahafið eða að kaupa sér snekkju eða eitthvað fyrir alla happdrættisvinningana. Ekki bara Norðmenn vinna. Ég datt út í kringum miðnætti og hef þá greinilega staulast í þetta partí. Eða ekki. Nema gurrigaraldsdottir hafi átt að fá myndirnar og einhver skriplað á skötu á lyklaborðinu. Ég þekki engan á myndinni en það hefur greinilega ríkt svakalegt fjör þarna.
Fyrir helgi ákvað ég að kaupa mér nýja pönnu, hún er orðin frekar mikið sjúskuð sú gamla eftir látlausa stóreldamennsku allt árið núna þegar eldað hefur verið frekar rétt. Ég gerði þau mistök að velja stærri góðu pönnuna - reif eitthvað bréf af henni við heimkomu og skellti henni á eldavélina til að máta - allt, allt of stór, sú minni hefði verið passleg. Spurning um að lauma fimmtíu krónum að afgreiðslumanninum og fá að skipta yfir í minni gerðina? Eða skipta um helluborð? Getur verið að svona panna sé fyrir gaseldavél? Eða veitingahús? Getur maður kannski notað stóra pönnu á mun minni hellu (sem er samt stærsta hellan)?
Ég hef uppgötvað nýjan rithöfund sem hefur skrifað rosalega margar glæpasögur, sem er einhver sú dásamlegasta uppgötvun sem ég hef gert lengi. Sú nýjasta (á ensku) er komin á Storytel (er víst svakalega skemmtileg) en því miður bara sem hljóðbók. Af hverju vinn ég ekki í kókosbolluverksmiðju og get hlustað á hljóðbækur allan daginn? Nei, ég vinn við texta og þarf að einbeita mér og allt færi í rugl ef ég hlustaði á texta á meðan ég ynni við annan texta. Fann þó gamla bók eftir þennan höfund á Storytel sem rafbók og er byrjuð á henni. Þessi höfundur heitir Sara Paretsky - ég get ekki beðið eftir sumarfríinu, hugsa að ég kaupi einhverjar í gegnum Kyndilinn minn heittelskaða (erfitt að skrifa Kindill).
Svo er draumur minn að fá glærar hliðar á svalir Himnaríkis. Ég er með nokkuð stóran glugga við svalirnar og held að glerhliðar myndu gera allt betra. Ég tala um þetta á hverjum aðalfundi hjá húsfélaginu: að ég vinni í víkingalottóinu og borgi svona svalaendurbætur fyrir allt húsið en ég er því miður ekki með dulræna hæfileika. Sumir fussa og sveia, segja að betra sé að sóla sig í friði frá forvitnum augum. Málið er að það horfir enginn í áttina að Himnaríki, það horfa allir á sjóinn og stefna á Guðlaugu, svo þetta er ekki afsökun. Birti hér rammstolna mynd af netinu til að sýna hvað ég meina. Þetta myndi alla vega auka til muna lífshamingju mína þegar ég geng inn í stofu - að sjá vel út á sjó út um BÁÐA gluggana þar. Ýmsir tjá mér að mínar svalir myndu skera sig of mikið úr ef ég væri sú eina. Hvað þá með yfirbyggðar svalir sem eru hjá sumum en ekki öllum í sama húsinu kannski, það hef ég oft séð. Það er enn meiri breyting og hún virðist vera leyfileg. Ég myndi lofa að striplast aldrei á svölunum, komin á þann aldur, ef það breytti einhverju upp á leyfi að gera. Vera ætíð kappklædd ef það er talið betra. Ég er víst ekki lengur fertug skutla.
Kona á mínum aldri sem pólitíkus: Jæja, ef þið liðkið ekki fyrir þessum pólitísku samningaviðræðum í hvelli og látið undan því sem ég bið um, sef ég hjá ykkur! Og það yrði samstundis frítt í strætó. friður á jörðu og sett í lög að einungis glersvalir yrðu leyfðar þar sem nýtur útsýnis. Neðri myndin gæti næstum verið tekin á svölunum mínum, ef væri gler í þeim. Það vantar bara Reykjanesskagann, nema myndin hafi verið tekin fram í tímann og skaginn klofið sig frá meginlandinu, maður veit aldrei. Tæknin sko. Nú eru það rafræn skilríki sem opna allar dyr, kannski tekst þeim rafrænu einhvern daginn að gera eitthvað enn stærra ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.7.): 4
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 168
- Frá upphafi: 1529754
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 146
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni