Þrá eftir gegnsæjum svölum og dularfulli flokkurinn

RokklingarÉg var að fá sendar myndir úr kosningapartíi sem ég man eiginlega ekkert eftir að hafa farið í. Rokkflokkurinn, X-R, sem bauð fram mjög leynilega, svo mjög að aðeins útvöldum var boðið að koma á kosningavökuna. Flokkurinn var skráður á kjörseðil með ósýnilegu bleki svo of margir vissu ekki af tilveru hans. Það hefði þurft sítrónudropa eða sérstakt vasaljós til að sjá hverjir sátu á lista, skilst mér. Aðeins kjósendur með dulræna hæfileika gátu því kosið Rokk-flokkinn en allir miðlar frá Akranesi eru víst í hnattreisu, siglingu um Karíbahafið eða að kaupa sér snekkju eða eitthvað fyrir alla happdrættisvinningana. Ekki bara Norðmenn vinna. Ég datt út í kringum miðnætti og hef þá greinilega staulast í þetta partí. Eða ekki. Nema gurrigaraldsdottir hafi átt að fá myndirnar og einhver skriplað á skötu á lyklaborðinu. Ég þekki engan á myndinni en það hefur greinilega ríkt svakalegt fjör þarna.

 

Fyrir helgi ákvað ég að kaupa mér nýja pönnu, hún er orðin frekar mikið sjúskuð sú gamla eftir látlausa stóreldamennsku allt árið núna þegar eldað hefur verið frekar rétt. Ég gerði þau mistök að velja stærri góðu pönnuna - reif eitthvað bréf af henni við heimkomu og skellti henni á eldavélina til að máta - allt, allt of stór, sú minni hefði verið passleg. Spurning um að lauma fimmtíu krónum að afgreiðslumanninum og fá að skipta yfir í minni gerðina? Eða skipta um helluborð? Getur verið að svona panna sé fyrir gaseldavél? Eða veitingahús? Getur maður kannski notað stóra pönnu á mun minni hellu (sem er samt stærsta hellan)?

 

GlersvalirÉg hef uppgötvað nýjan rithöfund sem hefur skrifað rosalega margar glæpasögur, sem er einhver sú dásamlegasta uppgötvun sem ég hef gert lengi. Sú nýjasta (á ensku) er komin á Storytel (er víst svakalega skemmtileg) en því miður bara sem hljóðbók. Af hverju vinn ég ekki í kókosbolluverksmiðju og get hlustað á hljóðbækur allan daginn? Nei, ég vinn við texta og þarf að einbeita mér og allt færi í rugl ef ég hlustaði á texta á meðan ég ynni við annan texta. Fann þó gamla bók eftir þennan höfund á Storytel sem rafbók og er byrjuð á henni. Þessi höfundur heitir Sara Paretsky - ég get ekki beðið eftir sumarfríinu, hugsa að ég kaupi einhverjar í gegnum Kyndilinn minn  heittelskaða (erfitt að skrifa Kindill). 

 

Svo er draumur minn að fá glærar hliðar á svalir Himnaríkis. Ég er með nokkuð stóran glugga við svalirnar og held að glerhliðar myndu gera allt betra. Ég tala um þetta á hverjum aðalfundi hjá húsfélaginu: að ég vinni í víkingalottóinu og borgi svona svalaendurbætur fyrir allt húsið en ég er því miður ekki með dulræna hæfileika. Sumir fussa og sveia, segja að betra sé að sóla sig í friði frá forvitnum augum. Málið er að það horfir enginn í áttina að Himnaríki, það horfa allir á sjóinn og stefna á Guðlaugu, svo þetta er ekki afsökun. Birti hér rammstolna mynd af netinu til að sýna hvað ég meina. Þetta myndi alla vega auka til muna lífshamingju mína þegar ég geng inn í stofu - að sjá vel út á sjó út um BÁÐA gluggana þar. Ýmsir tjá mér að mínar svalir myndu skera sig of mikið úr ef ég væri sú eina. Hvað þá með yfirbyggðar svalir sem eru hjá sumum en ekki öllum í sama húsinu kannski, það hef ég oft séð. Það er enn meiri breyting og hún virðist vera leyfileg. Ég myndi lofa að striplast aldrei á svölunum, komin á þann aldur, ef það breytti einhverju upp á leyfi að gera. Vera ætíð kappklædd ef það er talið betra. Ég er víst ekki lengur fertug skutla.

 

Kona á mínum aldri sem pólitíkus: „Jæja, ef þið liðkið ekki fyrir þessum pólitísku samningaviðræðum í hvelli og látið undan því sem ég bið um, sef ég hjá ykkur!“ Og það yrði samstundis frítt í strætó. friður á jörðu og sett í lög að einungis glersvalir yrðu leyfðar þar sem nýtur útsýnis. Neðri myndin gæti næstum verið tekin á svölunum mínum, ef væri gler í þeim. Það vantar bara Reykjanesskagann, nema myndin hafi verið tekin fram í tímann og skaginn klofið sig frá meginlandinu, maður veit aldrei. Tæknin sko. Nú eru það rafræn skilríki sem opna allar dyr, kannski tekst þeim rafrænu einhvern daginn að gera eitthvað enn stærra ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 319
  • Sl. viku: 1565
  • Frá upphafi: 1453724

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1305
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband