Sumar í lofti og langbestu megrunarráðin

Ungt og leikur sérÞessa morgnana vakna ég fyrir allar aldir við skræki, öskur og garg, og fer samstundis í sumarskapið, árlegu vorferðalög skólanna í fullum gangi, svo eru það hljóðin úr sláttuvélunum því hér vex allt frekar hratt ... orðið langt síðan lóan hefur verið vorboði hér.

Austan megin við Himnaríki var slökkviliðsæfing, sýndist mér, fullt af fáklæddu slökkviliðsfólki, alls staðar að af landinu ábyggilega, æfði sig í að renna sér á rassinum niður sleipa brekku. Mikið held ég að það sé gaman að vinna hjá slökkviliðinu. Þetta er sennilega starfskynning hjá slökkviliðinu, svona ef ég rýni betur í myndina. Esjan er þungbúin, enda ekkert skrítið, nú er sumar og þá fjölgar þeim sem ganga ofan á henni, traðka á henni, og leið 57 gengur ekki lengur að Esjurótum, vissulega erfitt að komast þangað á norðurleið og komast út á suðurleið, þetta er jú þjóðvegur með 90 km/klst-hraða. Svo er búið að hækka fargjaldið hjá ungu fólki, öryrkjum og eldri borgunum. Eina leiðin sem okkur stráksa býðst er kort eða peningar - klappið virkar í Reykjavík. Ég sakna miðanna virkilega mikið, gat keypt þá úti í íþróttahúsi og fljótlegt að rétta tvo fullorðins og tvo unglinga og ekkert vesen þegar við stigum um borð. Hófst ekki hnignunin þegar bílstjóranir voru klæddir í flíspeysur og tekinn af þeim einkennisbúningurinn? 

 

Fyrr í dagÞessi árstími þýðir líka að my biggest fan virkjast og verður ekki bara minn mesti aðdáandi, heldur vinnusamur og lætur mér líða svo miklu betur. Elsku viftan mín. Styttan á myndinni var keypt í Búdapest og býr yfir þeim galdri að fái ég ritstíflu nægir mér að snerta pennann sem skáldið heldur á. Þegar ég var í Búdapest, í árshátíðarferð (haustið 2000), hélt ég fyrst að stóra styttan í garðinum sem við Nanna fórum í, ætti að tákna dauðann, en nei, aldeilis ekki.  

 

Stráksi byrjar í nýrri sumarvinnu í dag, hluta úr degi til að byrja með, nokkuð feginn að vera ekki lengur í vinnuskólanum, grasgrænn, skítugur og blautur (það rignir oft á Íslandi á sumrin). Stigagangurinn gleðst líka tryllingslega, hugsa ég. Nei, þá er skárra að vinna inni, finnst honum. Hann er samt enginn innipúki eins og ég. Spennt að vita hvernig fyrsti vinnudagurinn hans verður.

 

Véfréttin mín í júníÉg leitaði svara hjá véfréttinni minni á Facebook og svei mér þá ef ég fer ekki að trúa á hana. Hún vill meina að ég verði grönn í ár sem er ákaflega merkilegt því ég er komin í sykurbindindi (aftur), ekki mjög ströngu, það var afmæli á sunnudaginn, en ég er búin að banna drengnum (aftur) að bjóða mér sælgæti og banna Einarsbúð að selja mér nokkuð nema sykurlaust, t.d. salat og smjörpappír ... Ég var síðast tággrönn árið 1986 og eiginlega þrennt sem orsakaði það að ég náði allra síðasta hluta hvolpaspiksins af mér og fór eflaust niður í stærð núll sem þá var ekki búið að finna upp, held ég.

 

Takið nú vel eftir: Ráð mitt (veitt aðeins í þetta eina skipti) til að skafa af sér spikið er að verða:

1) heiftarlega ástfangin af haltu mér, slepptu mér-manni*, 2) vera í ótrúlega stressandi aukavinnu, t.d. í beinni útsendingu fjóra daga vikunnar á Rás 2 og kasta stundum upp fyrir útsendingar, 3) fá mötuneyti í húsið þar sem aðalvinnan þín er og þurfa ekki lengur að lifa á sjoppufæði í hádeginu (það var fátt hallærislegra en að taka með sér nesti á þessum tíma - og ekki búið að finna upp örbylgjuofninn).

* Sjá bókaflokkinn Hann var kallaður Dýrðin.

Þetta eru mín allra bestu ráð til að grennast hratt og örugglega. Hollur, sykurlaus matur og hreyfing virkar eflaust líka en það bara eitthvað svo fallegt við þjáninguna ... og ég sem áhrifavaldur af Akranesi hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera búin að létta leyndinni af þessari frábæru aðferð sem hefur vissulega bæði kosti og galla. Lélegar strætóferðir milli Austurbæjarskóla og Hávallagötu geta líka hafa spilað inn í, best að ganga bara-aðferðin gæti þá orðið númer fjögur.

Ég birti kannski FYRIR og EFTIR-myndir í lok árs ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 136
  • Sl. sólarhring: 287
  • Sl. viku: 1680
  • Frá upphafi: 1453839

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 1395
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 103

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband