Sætur Skeifuköttur og stórkostleg samsæriskenning

Diego og DenverslunVið stráksi tókum 13.15-strætó frá Akranesi í gær og hittum á nýjan bílstjóra. Leið 57 er fræg fyrir að hafa eina bestu (sætir og geðgóðir) bílstjóra landsins og þessi nýi var engin undantekning. Hann heilsaði öllum svo fallega og þegar ung stúlka sem kom inn í Mosó sagði að vinur hennar væri rétt ókominn, hvort hann gæti beðið í örlitla stund kvað hann það sjálfsagt. Þetta voru heilar 20 sekúndur sem tók drenginn að þjóta upp brekkuna í Háholti.

Ég hrósaði bílstjóranum fyrir yndislegheit. Konan fyrir aftan mig tók undir það. Svo þurfti ég auðvitað að vita hvaðan hann væri. Hann reyndist vera hálfþýskur og hálfúkraínskur. Þjóðerni skiptir auðvitað engu máli, en ég var bara forvitin. En nú veit ég að allir frá Þýskalandi og allir frá Úkraínu eru góðir.

 

Mynd samansett: Sýnir Diego til vinstri (mynd af snappinu mínu) og hægra megin, afsökunarbeiðni eftir mjög umdeilda færslu Denbúðar við Síðumúla.

 

Ég hélt að ég væri að fara með Hildu systur í gleraugnabúð, hún er á því að vanda valið þegar kemur að næstu lestrargleraugum en systur minni fannst, þar sem ég var stödd í borginni á virkum degi, að tími væri til kominn að finna stóru systur nýjan skrifborðsstól. Sem ég sit í núna og skrifa þessi orð.

Út af Diegó fórum við í A4 í Skeifunni en ekkert bólaði á Diego. Og af því að ég kann ekki að segja bara: „Góðan dag, ég er að leita að góðum skrifborðsstól,“ fór ég að tala um að fólk úti á landi yrði að taka sér sumarfrí til að geta keypt sér stóla ... það væru sár vonbrigði og gjörsamlega út í hött að geta ekki keypt góðar vörur um helgar því allt væri lokað þá ... Ég var reyndar miklu vingjarnlegri en þetta, bara svona lét hann vita að þetta hefðu verið vonbrigði, kostað mig mjög margar vikur til viðbótar í vonda, eldgamla bakverkjastólnum. Afgreiðslumaðurinn nærri táraðist af meðaumkun og heimtaði að fá að gefa mér smávegis afslátt sem ég reyndi að afþakka í geðshræringu því ég var ekki að kvarta í alvöru, bara reyna að koma inn í höfuðið á honum að við landsbyggðartúttur værum líka fólk. Hann lét sig ekki, þessi elskulegi maður, og svo fór stráksi að tala um að það væri köttur kominn inn í búðina, þá vissi ég að þessi dagur yrði fullkominn. Mér tókst að festa kaup á stólnum með örskotshraða, skjálfrödduð af spenningi vegna Diegós, kom svo fram í almennu búðina og þar var systir mín, hundakonan knáa, að leika við Diego (8 ára) sem þáði svo náðarsamlegast klapp frá mér. Loksins. Til að gera svo daginn endanlega fullkominn fyrir drenginn var farið í KFC í Mosó og kvöldmaturinn tekinn með heim, Davíð súperfrændi skutlaði okkur. 

 

Samsæriskenning Himnaríkis:

Á ónefndum stað í ónefndu landi ...

Miðilsfundur„Hún er ekki alveg nógu smitandi, nýja pestin, skrambinn hafi það,“ segir Sergei pirraður. „Ekki eins og kórónan, þar tókst okkur vel upp. Hefðum við kannski átt að finna eitthvað annað til að ... gera líf fólks spennandi?“

Boris rekur upp hlátur. „Bíddu rólegur, Sergei, þú manst að covid var frekar lengi af stað og svo varð allt vitlaust og allir kenndu Kína um. Okkar langbesta verk til þessa og bara af því að ég aulaðist til að lesa eldgamla bók eftir Dean Koontz um Wuhan-veiru. Ekki grunaði mig samt að helvítin yrðu svona snögg að koma með bóluefni. Hélt að pappírsvinnan tæki mörg ár, eins og vanalega.“

„Þetta er nú samt talsvert skemmtilegra en að hanga í tölvu allan daginn og senda út „réttar“ skoðanir, alls ekki nógu margir sem bíta á agnið.“ Sergei dæsir, Boris hlær og segir:

„Þér tókst nú skrambi vel upp með Brexit og Trump og ekki gleyma YouTube með „the samsæri“ -  hefði þó verið gaman að ná til fleiri með það. Það er greinilegt að þú ert sonur hennar mömmu þinnar, fjöldi fólks sem heldur að jörðin sé flöt. Hún byrjaði á þessu sem brandara, var það ekki? Eða var það veðmál?“

„Veðmál.“ Þeir hlæja dátt, þessar upprifjanir ylja.

„Jæja, eigum við ekki að halda áfram? Enn allt of mörg lönd sem hafa ekki fengið bólur.“ Sergei flissar, klappar á vegabréfið sitt, farmiðann þar sem stendur stórum stöfum Icelandair og mynd af fossi í norðurljósum. Hann horfir hrifinn á tilraunaglasið sem hann mun komast óáreittur með inn í landið í sendiráðstösku. Þeir hlakka til að sjá Gullfoss og Geysi í leiðinni og geta ekki stillt sig um að hlæja enn einu sinni, háværar hlátursrokur þeirra hafa heyrst mjög reglulega árum saman. Þeir yrðu svo komnir úr landi löngu áður en fyrsta bólufésið liti dagsins ljós.

 

Þetta er samsæriskenning Himnaríkis. Ef þér finnst þetta trúlegt og mjög líklegt til að vera satt og rétt, endilega hafðu samband. Hver veit nema ég stofni hirð í kringum þessa frábæru kenningu mína og fái svo hirðsóknargjöld með tíð og tíma. Bannað að stela hugmyndinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 17
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1498
  • Frá upphafi: 1453967

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 1253
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Draugar og uppeldi
  • Himnaríki sjór
  • Flutningar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband